Föstudagur 9.1.2015 - 14:40 - FB ummæli ()

Bless, bless, Eyjan.

Áður en ég byrjaði að blogga hér á Eyjunni hafði ég bloggað á vefsvæði mínu og bræðra minna í nokkurn tíma. Þar var ég töluvert mikið lesinn. Ætli það hafi ekki verið svona helmingurinn af umferðinni sem nú fer um bloggið mitt. Ég ákvað að færa mig hingað vegna þess að framundan voru viðsjárverðir tímar í skólamálum. Ég taldi mikilvægt að fjölga í flokki þeirra áberandi kennara í bloggheimum sem hvorki væru hægri öfgamenn né hommahatarar – og að dregin væru fram fyrir sjónir almennings umræða um  menntamál, sem af einhverjum ástæðum hafa aldrei kveikt áhuga í samræmi við mikilvægi.

Ég hafði samband við fólk sem ég treysti og spurði um ritstjórn Eyjunnar áður en ég byrjaði að blogga. Svörin voru þannig að síðan hef ég skrifað hér 200 pistla. Þessi, númer 201, verður sá síðasti.

Ég hef aldrei notið annars en fyllsta frelsis til að skrifa nákvæmlega það sem ég vil eins og ég vil skrifa það. Ég hef heldur aldrei fengið neina athugasemd um það að ég hef leyft hverjum þeim sem vill endurbirta pistlana mína að gera svo. Ég hef auk þess fengið að skipa þannig sess á forsíðu Eyjunnar að fleiri hafa lesið mig en færri. Ég hef ekkert upp á ritstjórn Eyjunnar að klaga. Frelsi mitt hefur verið algert. Þetta er frjálst bloggsvæði.

En þetta verður samt síðasti pistillinn. Ástæðan er sú að ég get ekki haldið áfram að skrifa hér prinsippsins vegna. Samruni Eyjunnar og DV er ástæðan. Mér bauðst á sínum tíma að blogga fyrir DV. Ég vildi það ekki. Ég vildi ekki lesendurna sem miðillinn gerði út á. Ég var alla tíð mjög gagnrýninn á æsifréttamennskuna. En mér misbauð þegar fjárfestar sóttu í sjóði yfirlýstra andstæðinga fjölmiðilsins til að kaupa hann út af markaðnum. Og margt í framgöngu nýja ritstjórans finnst mér afar vafasamt. Verst finnst mér að verið sé að sameina í eina blokk meðvirka stjórnvöldum þorrann af þeim fáu fjölmiðlum sem ekki eru rækilega á bandi eins eða annars nú þegar. Fjölmiðlar verða að vera gagnrýnir. Íslenski fjölmiðlamarkaðurinn er svo rýr að Vefpressan + DV er bara hellingur.

Jafnvel þótt ég sé bara einn, harla ómerkilegur bloggari, þá á ég mér lítið lóð. Ég get ekki lagt það á þessa vogarskál lengur.

Ég þakka þeim sem standa að Eyjunni samt kærlega fyrir samstarfið. Það hefur verið gjöfult og gott.

Og hvað gera bændur þá?

Í sjálfu sér veit ég það ekki. Kannski hefur einhver samband og býður mér nýtt heimili sem mér líst á. Kannski ekki. Kannski dusta ég rykið af gamla plássinu. Ég svosem veit það ekki. Ísland kemst alveg af án mín.

Það sem ég veit að ég mun gera er að skrifa meira fyrir hreinræktað skólafólk. Ég ætla að prófa að halda úti faglegri símenntunarumfjöllun fyrir kennara á öllum skólastigum. Mig langar að flétta saman tækni og skólaþróun. Mig langar að benda á það sem vel er gert. Og mig langar að skólar kaupi áskrift að fyrir kennarana sína svo hægt sé að kaupa efni frá kennurum og leyfa þeim að njóta þess að deila með öðrum. Mig langar að gera þetta til heiðurs Pétri Þorsteinssyni og Jóni Þórarinssyni. Meira um það seinna og annarsstaðar. En ég ætla sumsé að búa til lítið skólablað. Og það skiptir mig í raun litlu hvort tíu lesa það eða tíu þúsund. Aðalatriðið er að það rati til sinna.

Screen Shot 2015-01-09 at 14.32.44
En ég hefði hvort eð er gert það. Hvort og hvar ég held áfram að blogga kemur svo bara í ljós. Mig langar ekkert sérstaklega í lækin. En í ljósi þess að það að skrifa um hlutina er löngu orðið hluti af meðgöngutíma hugsanna minna finnst mér afar líklegt að ég birtist fljótlega annarsstaðar. En það verður þá öðru megin við valdið en Eyjan liggur eins og staðan er í dag.

Takk og bless!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.1.2015 - 19:07 - FB ummæli ()

Girðingar og garðblómarækt

Réttaryfirheyrslur yfir Hermanni Göring í Nürnberg frá marsmánuði 1946 eru mögnuð lesning. Bretar lögðust gegn réttarhöldunum, vildu draga Göring og kumpána út undir vegg og skjóta þá án frekari málalenginga. Bandaríkjamenn vildu réttarhöld. Þeir höfðu fest á filmu þá hræðilegu sjón sem beið þeirra sem frelsuðu fólk í fangabúðum og töldu, með réttu, að afhjúpun voðaverka 3ja ríkisins væri líklegri til að hindra að þjóðernishyggjan næði að skjóta rótum aftur í kjölfar stríðs. Þeir vissu sem var að „sigurinn“ yfir Þjóðverjum í fyrra stríði hafði beinlínis verið örlagavaldur í uppgangi fasismans.

Bandaríkjamenn fengu vilja sínum framgengt. Enda voru þeir þegar hér kom við sögu augljóslega það stórveldanna sem kæmi öflugast út úr öllu klabbinu (til eru heimildir um það að Bandaríkin hafi meðvitað miðað þátttöku sína í stríðinu við að breska heimsveldið myndi hrynja og þar með skapa nýja heimsmynd sem BNA gætu styrkt stöðu sína í).

Göring reyndist snarpur andstæðingur þeim sem ætluðu að sýna fram á sekt hans og voðaverk nasistanna. Hann var greindur og vel að sér – og töluvert ólíkur þeirri fígúru sem áróðursmeistarar Bandamanna höfðu málað af honum. Hann hélt því fram fullum fetum að auðvitað væri það svo að sigurvegararnir skrifuðu söguna – en að það yrði aldrei hræsnislaust. Hann grínaðist með að hver hinna stóru Bandamanna fengi það hlutverk við réttarhöldin að sækja gegn nasistunum á því sviði sem viðkomandi þjóð væri sérfróðust allra glæpahunda um. Bretar, Frakkar, Bandaríkjamenn og Rússar gætu aldrei annað en litið ögn kjánalega út heimtandi aftökur leiðtoga annarra ríkja fyrir að leggja undir sig annarra manna lönd, stórtækan listaverkaþjófnað og glæpi gegn mannkyni.

Í Bandaríkjunum er rimma Görings og Jacksons (þeirra fulltrúa við réttarhöldin) stundum tekin sem dæmi um algjörlega misheppnaða yfirheyrslu. Göring lék sér að Jackson. Lágpunktur yfirheyrslunnar var sá þegar Jackson var að reyna að sanna að nasistar hefðu alltaf ætlað í stríð og þess vegna haft hernaðarflutninga Þýskalands leynilega og Göring svaraði: „Mig rekur ekki minni til þess að hafa lesið fyrirfram um tilvonandi hernaðarflutninga Bandaríkjanna.“

Það er dálítið uggvænlegt að umfjöllunarefnið lengst af í rimmu Görings og Jacksons var sú staðreynd að nasistar sölsuðu undir sig þýska ríkið og afnámu margvísleg borgaraleg réttindi. Inn í það blandaðist uppræting mótspyrnu og fangabúðaskipulag. Það er harla erfitt að sjá hvernig hægt er að láta Göring hafa betur í umræðu um hluti sem virðast jafn augljóslega til marks um sekt.

En Göring hélt því fram að nasistar hefðu verið í fullkomnum rétti. Og raunar hefði Bandaríkjaforseti sjálfur lýst þessu best þegar hann sagði (í endursögn Görings):

„Nokkrar evrópskar þjóðir hafa yfirgefið lýðræðið. Ekki vegna þess að þær vilji ekki lýðræðið sem slíkt heldur vegna þess að lýðræðið hefur leitt fram á sviðið menn sem eru of veikburða til að útvega þjóðum sínum vinnu og brauð, og ráða ekki við að fullnægja þörfum þeirra. Af þessum sökum hafa þjóðirnar yfirgefið þetta kerfi og þá menn sem tilheyrðu því.“

Og Göring bætti við:

Það er mikill sannleikur í þessari fullyrðingu. Kerfið hafði leitt af sér eyðileggingu vegna þess hve illa því var stýrt og að mínu mati gat aðeins stofnun sem byggði á sterku og skýrt skilgreindu valdakerfi komið aftur á röð og reglu. En, og höfum það alveg á hreinu, ekki andstætt vilja þjóðarinnar heldur einmitt eftir að þjóðin hafði á allnokkrum tíma og í allnokkrum kosningum gert þessa stofnun sífellt öflugri og lýst yfir þeim vilja sínum að treysta forystu þjóðernissósíalista fyrir örlögum sínum.

Hann ræddi um að Hitler hefði verið alveg gallharður á því að engin harðstjórn gæti enst sem ekki hefði stuðning þjóðar sinnar. Og að gyðingavandamálið hefði alls ekki verið neitt sáluhjálparatriði. Gyðingar hefðu einfaldlega nýtt sér efnahags- og menningarhrun Þýskalands til að maka sjálfir krókinn – og þeir hefðu gert það á óforskammaðan hátt sem olli því að auðvelt var að nýta andúð á þeim í pólitískum tilgangi. Þeir hefðu hagnast á óförum almennings og nýtt sér upplausnina til að koma árum sínum, menningarlegum og efnahagslegum fyrir borð. Nasistar hefðu aðeins það að markmiði að endurheimta rústirnar úr höndum gyðinga, gera þá efnahagslega og menningarlega hornreka, losna við þá úr landi ef mögulegt væri en þó kæmi alltaf að þeim tímapunkti að halda þyrfti áfram. Göring sagðist hafa sannfært Hitler um að það þjónaði engum tilgangi að vera að eltast við fólk með allskyns óskýran, gyðinglegan uppruna. Þegar holskeflunni hefði verið hrundið af Þýskalandi ætti að samþykkja alla borgarana, þótt í þeim leyndist gyðingablóð. Gyðingagen yrðu alltaf þáttur af hinni endurreistu þýsku þjóð. Hatur á því hefði engan tilgang.

Nú verður auðvitað að taka öllu sem Göring segir með vara. Sérstaklega það sem hann segir um þankagang Hitlers og forystusveitar nasista. En grundvallarstefið í sjálfsréttlætingu hans er eitthvað sem við þurfum að hugsa alvarlega um. Göring leit ekki á nasista sem andlýðræðislega sveit glæpamanna. Hann leit á þá sem réttmæta stjórnendur Þýskalands. Markmiðið var að endurheimta styrk og dýrð Þýskalands – og losa ríkið undan því kólguskýi vanhæfni, veikleika og óánægju sem lýðræðið hafði komið til leiðar.

Lýðræði leiðir af sér harðstjórn. Það sagði Platón. Hann taldi það liggja í augum uppi. Lýðræðið myndi alltaf missa sjónar á því sem mest væri um vert. Það myndi alltaf tapa sér í hedónískri og yfirborðskenndri dýrkun á fjölbreytileikanum. Hinn lýðræðislegi maður væri rekald. Einn daginn lægi hann í makindum og skúffaði í sig veislumat. Þann næsta væri hann farinn út að skokka og kominn á lágkolvetnakúrinn. Lýðræðissamfélag er í huga Platóns eins og flugeldasýning. Skærir, fagrir litir lýsa upp himininn eitt augnablik – en svo er maður umvafinn sóti og púðurlykt.

Við verðum að hugsa um lýðræðið.

Við verðum að passa upp á lýðræðið.

Auðvitað þurfum við að horfast í augu við sjálfhverfu okkar og hræsni. Nýlega var stór hópur skólabarna myrtur af hryðjuverkamönnum. Í gær drápu menn af svipuðu sauðahúsi 12 Frakka. Síðarnefndi atburðurinn fær meiri umfjöllun. Allar íslenskar fréttaveitur hafa haft hann sem fyrstu frétt í meira en sólarhring. Fréttin um börnin var horfin eftir nokkra klukkutíma vegna frétta af færð og veðri.

Morðin á börnunum voru í sjálfu sér næstum óendanlega miklu hræðilegri atburður en drápin í gær.

Drápin í gær skipta þó miklu máli. Því þau reyna á grundvöll lýðræðisins.

Lýðræðið er eins og garður. Annarsvegar höfum við girðingu sem verndar innihald garðsins. Hinsvegar höfum við allskonar garðrækt innan girðinganna. Málfrelsi er girðing. Sé það afnumið er garðurinn allur í hættu. Stundum rugla menn saman garðræktinni og girðingarvinnunni. Telja að jafnvel sé hægt að rífa upp nokkra girðingarstaura til að koma fyrir ögn meira af fallegum blómum. Þrasa jafnvel um það að garðurinn væri fallegri ef blóm væru þar sem girðingin er.

En girðingin er þarna af ástæðu. Ástæðan er ekki bara sú að við höfum slæma reynslu af garðvinnu nasistanna. Manna eins og Göring sem sá styrk þar sem í raun var dramb og sáu fegurð  í stað þoku. Ástæðan er sú að þrátt fyrir allt þá hafði Göring rétt fyrir sér um að réttarhöldin væru hálft í hvoru kjánaleg. Fjögur ríki teygðu sig ekki þrjá fjórðu leiðarinnar umhverfis hnöttin af tilviljun. Þegar Göring fór sínum feitu ránshöndum um listasöfnin í París var ekki tilviljun að þar sátu frönsku verkin umkringd þýfi frá öðrum þjóðum. Fordæmingarsöðull Rússa var ekki spönn ofar mannréttindabrotum Þjóðverja. Og níu af hverjum tíu ríkjum jarðarkringlunnar hafa þurft að þola innrás Breta, meira að segja litla Ísland.

Ástæða málfrelsis er sú að án sterkra, persónulegra varna fyrir hverja einustu manneskju – er ævinlega stutt í harðræði og hörmungar. Það að stundum er rytjulegur eða ljótur vöxtur í skugga girðingarinnar er alls ekki nein ástæða til þess að rífa hana niður. Með niðurrifi fæst ekki bara meira sólarljós til ræktunar. Meindýr og eðja munu eiga greiða leið að garðinum og jafnvel leggja hann allan undir sig.

Eftir misheppnaða byltingu ákvað Hitler að besta leiðin til valda væri sú löglega. Þannig mætti byggja upp styrk. Þegar styrkurinn væri nægur – væri hægt að mölva niður girðingarnar. Lýðræðið veitti enga vörn gegn alræðinu. Þvert á móti ól það fasistana á brjósti sér langa lengi – og gerði þá sterka og volduga. Styrk sinn sóttu fasistarnir fyrst og fremst í fyrirsjáanlega og einfalda tilfinningu: óánægju.

Með því að ala á þeirri tilfinningu að stjórnmálin væru full af veikburða, spilltum, leiðinlegum og vitlausum jakkafatalökkum var hægt að stilla upp aðlaðandi glansmynd af Foringjanum. Með því að hamra á því að samfélagið væri veiklað og í upplausn og á valdi aðskotahluta var hægt að stilla grámuggu nútíðar gegn glæstri fortíð sem máluð var sem sömu, fölsku litunum og myndin af Foringjanum.

Leið nasista til valda var greið þegar þeir áttuðu sig á því að vöxtur þeirra yrði alltaf meiri innan kerfis en utan.

Líklega var það einhver versta skyssa nútímans að búa til rökvillu úr því ef einhver líkir einhverju sem nú er að gerast við það sem átti sér stað hjá Hitler og nasistum. Með því að afgreiða nasismann sem einhverskonar stökkbreytingu í erfðamengi menningarinnar missa menn sjónar á því að þannig er það alls ekki. Grundvallarréttindin og mannvirðingin er undantekningin. Hatrið, illskan, ófullnægjan, tortyggnin, óttinn og alræðið er hið undirliggjandi stef mannkynssögunnar. Og þótt reynt hafi verið að mála yfir það eftir hörmungar síðustu aldar þá þarf blindan mann til að sjá ekki skellurnar sem skína í gegn.

Þegar fasisminn braust út úr skel sinni var það málfrelsið sem þeir réðust á fyrst. Göring lýsti því stoltur. Þeir voru þreyttir á andspyrnu. Þeir voru hræddir við andspyrnu. Þeir sáu meiri ógn í notkun örfárra andófsmanna á tungumálinu en allri samanlagðri visku fjöldans. Fjöldanum mátti stjórna – svo lengi sem aðrir skiptu sér ekki af því.

Ógnin sem Göring upplifði er sama ógnin og reynt var að uppræta í gær með ofbeldi. Í þetta sinn má það ekki takast.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.1.2015 - 23:55 - FB ummæli ()

Subbulegi sögukennarinn

B6xKx54IYAANSNf

Páll Vilhjálmsson sögukennari getur ekki staðist þá freistingu að nýta sér ódæðið í París til að hampa eigin ógeðslegu fordómum. Í færslu sem hann kallar Múslimar afhjúpa mótsögn okkar heldur hann því fram fullum fetum að mikill meirihluti múslima skilji ekki lýðræði og sé ónæmur á háð og ádeilu. Og þess vegna sé það rökleg mótsögn að hægt sé að leyfa múslimum að búa í lýðræðislegum samfélögum. Þeirra staður í tilverunni sé í klerkaveldum sem virði ekki grundvallarmannréttindi hvort eð er.

Hann reynir að gefa í skyn að múslimar séu einhverskonar tölvuvírus eða æxli innan hins umburðarlynda, veraldlega samfélags. Heilbrigði slíkra samfélaga verði best tryggt með því að skapa einsleit þjóðríki þar sem meirihluti getur þvingað einsleitni fram með því að hafna og velja hvort og þá hvernig fólk getur breytt hinu samfélagslega normi.

Þessi maður kennir unglingum sögu.

Horfum fram hjá röklegu þverstæðunum í því að vilja tryggja lýðræðisleg grundvallarréttindi með því að knýja fram einsleitni.

Horfum líka fram hjá þverstæðunni sem felst í því að þetta einsleita þjóðríki okkar, sem Páll telur einhvernveginn samsett úr þannig erfðaefni að það veiti vörn gegn skilningsleysi á háði og ádeilu, skuli vera eitt af fáum vestrænum ríkjum sem gerir það beinlínis ólöglegt að hæðast að ríkiskirkjunni og öðrum trúarbrögðum.

Horfum fram hjá öllu sem heita á rök eða þráður.

Og veltum því fyrir okkur hverskonar manngerð það er sem notar sér atburð sem þennan til að klína sök á milljónir manna og dæma heil trúarbrögð sem ógn sem réttlætanlegt er að verja sig fyrir.

Við Íslendingar eigum því miður okkar skerf af subbum eins og Páli. Það fer hrollur um mann að þessi maður skuli hafa verið valinn til að túlka atburðarás sögunnar fyrir næstu kynslóð Íslendinga.

Maður sem rýnir atburði líðandi stunda með þessum hætti á meira skylt við þá sem rýna skopteikningar með vélbyssum en hann heldur.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.1.2015 - 21:56 - FB ummæli ()

Koma svo, internet og ASÍ!

Fyrir meira en ári óskaði ég mér upphátt á internetinu bókaflokks sem síðan varð að veruleika. Internetið virkar sem sé. En einhver bið er á því að það uppfylli aðra ósk. Sem ætti samt að vera löngu komin fram. Í apríl 2013 skrifaði ég:

Í fréttum í dag sagði af því þegar verðlagseftirlitsmenn ASÍ gerðu tilraun til inngöngu í verslunina Kost en þurftu frá að hverfa þegar verslunareigandinn rændi af þeim möppum eða pennum. Þá gátu þeir, eðli málsins samkvæmt ekki haldið áfram.

Við heyrum líklega reglulega af því að hin eða þessi verslunin sé með afarkosti gagnvart verðlagskönnunum.

Á þessu öllu er ákaflega einföld lausn. Lausnin væri líka sanngjörn og öllum til gagns.

Hún er þessi:

ASÍ getur greitt framleiðslukostnaðinn við smáforrit fyrir helstu tegundir síma. Með þessu smáforriti má skanna strikamerki vöru og kalla fram upplýsingar um verð á nákvæmlega sömu vöru annarsstaðar. Eins væri eðlilegt að hægt væri að sjá þróun á verði vörunnar aftur í tímann, jafnvel í samanburði við helstu vísitölur og gengi krónunnar.

Mjög auðvelt væri að auka notagildi slíks forrits með því að hugsa um þarfir notandans. Forritið mætti nota sem reiknivél yfir það sem komið er í matarkörfuna. Maður gæti síðan séð hvað sama karfa hefði kostað í öðrum búðum. Þegar fram í sækti mætti sjá mun á vöruúrvali eftir verslunum. Gefa mætti þeim einkunn fyrir þjónustu og ýmsa þætti sem skipta máli. Það mætti jafnvel vera innbyggð skeiðklukka sem mælir hve lengi maður stendur í röðinni við kassann.

Ef forritið væri gert aðgengilegt og grunnkóðinn ókeypis gætu ýmis hliðarforrit skotið upp kollinum. Eitt gæti verið forrit sem heldur skrá yfir það sem til er í ísskápnum og gefur áminningu þegar eitthvað fer að klárast. Hægt væri að tengja alla síma fjölskyldunnar á einn reikning og skanna hluti áður en þeim er hent. Það að skrá hluti áður en þeim er hent gæti aukið umhverfisvitund og nýtni. Upp gætu poppað myndbönd um endurvinnslu eða endurnýtingu. Forrit gæti gefið hugmyndir um kvöldmatinn út frá því sem er til. Svona mætti lengi telja. Fylgjast mætti með bensínverði með áþekkum hætti.

Aðalatriðið er að það er hægur leikur að koma aðhaldinu og eftirlitinu með verðlagi úr höndum einstakra aðila og gert það að almennu hlutverki ábyrgra neytenda. Fjöldinn myndi tryggja að misnotkun eða svindl væri næstum útilokað. Neytendavitund almennings myndi aukast og eftirlit með breytingum á vöruverði yrði stöðugt. Loks væri þetta gríðarlega mikið aðhald gagnvart verslun í landinu (þetta þarf ekki að einskorðast við mat).

Hver og einn myndi nota slíkt forrit algjörlega á eigin forsendum. Einn myndi aðeins skanna dýra hluti. Annar tíunda hvern hlut. Einhverjir myndu nota alla möguleika forritsins (forritanna).

Sannast sagna er verðlagseftirlit á landinu ákaflega langt á eftir tímanum og meðvitund neytenda eftir því. Yfirsýnin er lítil sem engin og vöruverð virðist hoppa upp og niður án nokkurra eðlilegra skýringa.

Það er löngu tímabært að neytendur fái yfirhöndina.

Ég segi því: Kæra Alþýðusamband, hvernig væri það?

 

Það hefur aldrei verið meiri ástæða til að smíða svona app. Áfram svo.

Auk þess legg ég til að Bílastæðasjóður hanni app sem almenningur getur sótt og notað til að bösta þá sem leggja uppi á gangbrautum og á öðrum frekjulegum stöðum. Appið leiddi þig áfram og þú ljósmyndaðir brotið frá nokkrum sjónarhornum. Síðan fengir þú hluta af sektinni inn á þinn reikning sem þú fengir annað hvort í peningum eða til að nota sem gjaldeyri í stafrænum stöðumælum, aðgangseyri að sundlaugum eða fyrir aðra þjónustu borgarinnar.

Allir græða.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.1.2015 - 12:10 - FB ummæli ()

Sterkar konur og nýbyltingin

Þann 1. janúar 2015 birtist á netinu yfirlýsing sem fengið hefur heitið Manifesto 15. Ég snaraði henni á íslensku og er frumþýðingin komin á netið. Fólk er beðið um að skrifa undir ef það styður þá framtíðarsýn og þann lærdóm af sögunni sem þar kemur fram.

Yfirlýsingin snýst um ansi flókin fyrirbæri. En kjarni hennar er sá að samfélagsgerðin hafi breyst og muni halda áfram að breytast. Menntakerfið hafi ekki breyst til samræmis við það. Heimurinn nú sé stútfullur af óvissu og tilfinningu fyrir því að menntakerfið sé að úreldast.

Ég held það hafi verið ein mesta gæfa mín að velja mér heimspeki sem grunnnám eftir menntaskóla. Ég geri mér sífellt betur grein fyrir því eftir því sem tíminn líður. Í heimspekinni tileinkaði ég mér hugarfar sem hefur skipt öllu í störfum mínum að menntun og námi. Ég hef mjög lengi verið meðvitaður um að missa aldrei sjónar á hinum eiginlega tilgangi náms. Spyrja sjálfan mig reglulega hvort það sem ég er að gera hafi í raun einhvern markverðan tilgang og hvort ég gæti verið að gera eitthvað annað mikilvægara. Á mjög brokkgengan og brotakenndan hátt hefur reynslan síðan fyllt þessar kvíar þar til afstaða eða sannfæring hefur orðið til. Eins og segir í Manifesto 15 í 11. lið: Brjóttu reglurnar en vertu með það á hreinu hvers vegna. Grikkirnir sögðu: Órannsakað líf er einskis virði. Ég held það sé full djúpt í árina tekið. En ég held maður geti staðið á: Óígrundað andóf er lítils virði.

En jafn glaður og ég er með heimspekigrunninn er ég ekki síður ánægður með þá lífs- og starfsreynslu sem ég hef viðað að mér síðan ég fór að vinna. Og ég er sérstaklega þakklátur þeim fjölmörgu sterku konum sem hafa verið aflgjafi stórvægilegra þjóðfélagsumbrota á Íslandi síðustu ár og áratugi.

Hans Rosling sagði í Hörpu að Ísland væri nokkuð einkennilegt land að því leyti að það breyttist úr þróunarríki í nútímaríki á mjög ódæmigerðan hátt. Miklu hraðar en gengur og gerist. Og þótt hann gæti ekki skýrt það til hlítar sýndist honum við fyrstu sýn sem líklega hefðu sterkar konur einfaldlega sagt: hingað og ekki lengra. Þær hefðu hafnað hlutverki sínu sem útungunar- og uppeldisvélar og farið fram á virkara hlutverk í samfélaginu. Við það hefði samfélagið gjörbreyst.

Ég hef verið svo heppinn að vinna með mörgum sterkum konum. Bæði samstarfskonum og yfirmönnum. Og þótt karlar séu af einhverjum ástæðum oft meira áberandi í umræðum og láti meira á sér bera – er veruleikinn í menntamálum að mestu borinn uppi af sterkum konum. Og sú nýbylting sem Manifesto 15 kallar eftir verður kvennabylting.

Það er dálítið notalegt að hafa íslenska veruleikann til viðmiðunar þegar maður leyfir sér að trúa á stórfelldar breytingar. Af einhverjum ástæðum er Ísland í nútíð og fortíð land auðveldari breytinga en víðast annarsstaðar. Við höfum verið betri í að tileinka okkur nýja hugsun og siði en í að tileinka okkur átökin sem fylgja breytingum. Kannski að hluta vegna þess að við bíðum meðan aðrir berast á banaspjótum og tökum svo stöðu með sigurvegaranum. Kannski af öðrum sökum.

Mig langar að varpa kastljósinu á þrjár af fjölmörgum konum sem ég tel það gæfu mína að hafa fengið að starfa með eða fyrir. Fyrsta má nefna Sigríði Steinbjörnsdóttur sem kenndi mér íslensku í menntaskóla. Ég veit um samnemendur sem eru mér sama sinnis. Það sem henni tókst var að leysa úr læðingu námsáhuga og -hvöt nemendanna sjálfra, þar á meðal mín. Hugmyndaflug mitt fékk vængi og andlega meltingarkerfið fékk fóður undir hennar leiðsögn. Hún kunni að láta þekkingu verða til í kolli krakkanna í stað þess að meta virði þeirra eftir hljómburði bergmáls eigin raddar.

Þá er það Sif Vígþórsdóttir skólastjóri í Norðlingaskóla. Að vinna fyrir Sif er og var ótemjureið. Hún er logandi hugsjónamanneskja en um leið mjög pragmatískur stjórnandi. Stundum einkenndist andrúmsloftið af eldglæringum. Og stundum þurfti maður að berjast fyrir sínu. En þannig verða byltingar. Þú verður að vera með það algjörlega á hreinu hverju þú vilt bylta. Það þýðir ekki að stjórna skólaþróun þannig að allir renni ljúflega í rétta átt á hugarfarslegum vindsængjum í logni. Ef ég hefði ekki unnið fyrir Sif væri ég í dag svartsýnismaður um möguleika á nýbyltingu. Í dag er ég ekki bara bjartsýnismaður – ég er þess fullviss að þetta er hægt. Svo er Sif og samkennurum mínum í Nolló að þakka. Og kvensamkennarar mínir þar sýndu og sönnuðu enn og aftur að það eru í raun þær sem breytingarnar grundvallast á.

Loks er það Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema. Rakel er kjarnorkuver. Hefur mörg sömu lyndiseinkenni og Sif og deilir með henni frumherjakrafti sem lætur hlutina gerast. Við eigum það Rakel að þakka að menntakerfið allt er orðið meðvitað um ýmsa gunnfærni sem má ekki bíða, þ.á.m. forritun. Og foreldrar líka. Og hið opinbera. Rakel er krossfari. Það er gjarnan vanþakklátt starf. Ég man enn að ég ákvað að ég skyldi gera mitt besta til að heyja hennar baráttu þegar hún fékk skammir á ráðstefnu fyrir að sletta enskum orðum inn í erindi sem hún hélt. Ég hugsaði um fíflin sem stara á fingurinn þegar bent er á tunglið. Nú þegar ég hef fengið að starfa með henni að mjög mikilvægum framfaramálum er ég þakklátari en áður fyrir þá einurð og baráttu sem hún hefur staðið í. Í starfi mínu hjá Skema síðasta árið hefur ennfremur skarað fram úr reynslan af því að vinna þar með frábærum samstarfskonum. Tómum snillingum, sem vilja ekki endilega láta mikið á sér bera en gera þeim mun meira.

Það verða ekki kjaftaskar sem breyta samfélaginu. Það verða konurnar. Það er fljótlegast og einfaldast þannig. Það virkar. Sterkar konur eru gæfa íslensku þjóðarinnar. Við megum muna eftir því oftar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.1.2015 - 19:41 - FB ummæli ()

Skauprýni 2015

Screen Shot 2015-01-01 at 17.55.15

 

Ég held uppteknum sið og gef Áramótaskaupinu rýni, atriði fyrir atriði.

Screen Shot 2015-01-01 at 17.57.01

Glimmer, glamúr og bús

Hugmynd: 6

Framkvæmd: 8

Skaupið hefst á bergmáli eldri skaupa. Þarna eru skrúðkrimmarnir endurfæddir og kynleiðréttir – en um leið eitthvert ekkó af þjóðarsálinni almennt. En allar hugmyndirnar endurnýttar úr nýlegum skaupum. Framkvæmdin mun frumlegri.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.02.05

Dauðinn á biðlistanum

Hugmynd: 7

Framkvæmd: 5,5

Alltílæi hugmynd, nokkuð fyrirsjáanlegt. En óskiljanlegt að endurtaka sama djókinn tvisvar. Og það svona snemma í skaupinu.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.03.34

Dúllulöggan

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 7,5

Aftur frekar fyrirsjáanlegt grín. Verðskuldað að sjálfsögðu. Nokkuð mjúkt samt í ljósi þess að löggan drap mann, skar annan og grýtt ölvaðri konu á andlitið í jörðina. Meira hugrekki í að tækla þennan tvískinnung hefði skilað hærri einkunn.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.05.44

Ákveðinn ómöguleiki

Hugmynd: 6

Framkvæmd: 6

Of langt atriði, en þó upphafið að nokkuð smellnu gríni um Bjarna Ben. Djókurinn um hve Vigga Hauks er vitlaus er endurunninn. Og orðbragðið: „Ákveðinn ómöguleiki“ er ekki það fyndið að það beri atriðið uppi. Þorsteinn Bachmann ekkert sérstaklega líkur BB.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.08.04

Dýrtíðin

Hugmynd: 6

Framkvæmd: 5

Ætli þetta sé ekki nokkurnveginn ófyndnasta leiðin til að gera grín að dýrtíðinni og okrinu í Bláa lónið. Þema að verða til. Grínið full yrt. Áramótaskaup er fyrir börn og gamalmenni. Það virkar betur að hafa það sjónrænt.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.10.54

Xenófónninn

Hugmynd: 6,5

Framkvæmd: 6,5

Of langt atriði. Einföld hugmynd. Fangar þó málefni sem alveg á erindi í skaup.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.12.44

Gettu betur

Hugmynd: 6,5

Framkvæmd: 6,5

Aftur. Of mikið blaður. Of lítil aksjón. Og alls ekki neitt sérstaklega fyndið. Og aðeins of langt.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.14.48

„Hvað er í gangi á þessum gangi? Þetta reddast.“

Hugmynd: 6,5

Framkvæmd: 6,5

Svosem sniðugt að taka snúning á Hulla. Samt eiginlega doltið trist að það fyndnasta við atriðið skuli hafa verið að talað var með skrækri fígúrurödd. „Hvað er í gangi á þessum gangi…“ auðvitað glæpsamlega vondur húmor.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.17.04

Var leikurinn ekki í fyrradag?

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 7,5

Er að hýrna yfir þessu? Sjónrænt sterkt. Góð gervi og ágætt að gera grín að ráfi þeirra félaganna á HM. En hvar var Súarez?

Screen Shot 2015-01-01 at 18.20.01

Gleðileg jól

Hugmynd: 7

Framkvæmd: 6

Of langt. En einföld, snotur hugmynd – þótt hún hafi ekki verið sérlega frumleg.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.21.34

Spilaborgin

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 7,5

Líklega umdeildasta atriðið í ár. Forfallnir aðdáendur  þáttarins sem gert var grín að njóta þess í botn. Þeir sem ekki ná þeirri tengingu telja líklega að þetta sé hundleiðinlegt. Langt.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.24.02

Bæjarhátíðir

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 6

Aftur gripið til þess ráðs að tala um það sem hefði verið einfalt að útfæra á miklu fyndnari, sjónrænan hátt. Virkar langdregið. Líklega skemmtilegast fyrir íbúa þærra bæja sem nefndir voru. Minna skemmtilegt fyrir aðra.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.26.02

Maður segir ekki nei við björgunarsveitina

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 7,5

Nokkuð gott. Gaman að sjá Eddu og Ladda saman og þau bæði mjög flott. Og þótt hér eimdi af því að grínið kæmist til skila með einræðum (sem eru ekki einu sinni veruleg afbökun á veruleikanum) voru pínu tilþrif í leik og látbragði.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.29.52

Framsóknarmenn

Hugmynd: 7

Framkvæmd: 6,5

Alltílæi snúningur á hugmyndinni um klíkukarlana – en fellur síðan algjörlega í skuggann af sama gríni í ostaauglýsingargríninu aðeins seinna. Þessu atriði hefði mátt sleppa.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.33.14

Hef ekki efni á því

Hugmynd: 7

Framkvæmd: 6,5

Enn og aftur, ef grínast á með að fólk hafi ekki efni á heilbrigðisþjónustu eru ótal leiðir betri til að miðla því en að sitja og tala um það. Atriðið fer svo úr einu í annað og hefur slappan enda.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.35.57

Frozen Gnarr

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 8

Nokkuð vel gert. Vel sungið og almennt nokkuð góð líkindi við þá sem verið var að stæla. Jón og Jókó-þemað alveg sniðugt og auðvitað þjónar það yngri áhorfendum að tala þetta lag. En af hverju eru menn alveg hættir að texta sönglögin?

Screen Shot 2015-01-01 at 18.40.10

Útlenskur kjúklingur

Hugmynd: 8

Framkvæmd: 9,5

Afar vel gert. Mjög fyndið og óvænt. Auk þess vel leikið atriði fram að rúsínunni í pylsuendanum. Og á bak við það raunverulegur broddur. Meira svona!

Screen Shot 2015-01-01 at 18.41.55

Fiskistofa

Hugmynd: 8

Framkvæmd: 8,5

Nú eru komin þrjú góð atriði í röð. Einfaldur, hnyttinn og vel hannaður djókur með léttu pönsjlæni og vel framreiddur af Dóra. Hér er maður farinn að hugsa: Þetta er nú bara ágætt skaup.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.44.11

Missti af morgunbæninni

Hugmynd: 6,5

Framkvæmd: 6,5

Adam var ekki lengi í Paradís. Þessi djókur er bara ekki sérstaklega fyndinn. Meira svona, eins og að verið sé að haka í box á einhverjum gátlista.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.47.08

Náttúrupassinn

Hugmynd: 6

Framkvæmd: 8

Hér er framkvæmdin miklu betri en hugmyndin. Bundið fyrir augun á ömmu er frekar slappt grín. En meistaralega leikið.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.49.07

Íslenska mafíusamsalan

Hugmynd: 9

Framkvæmd: 9

Algjörlega frábær djókur og meistaralega útfærður.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.50.22

Ekkert sumar

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 7,5

Þetta grín þykist ég vita að hafi glatt margan landsbyggðarmanninn. Enda verðskuldaður djókur. Touche!

Screen Shot 2015-01-01 at 18.51.29

Salat og samviskubit

Hugmynd: 8

Framkvæmd: 8

Nokkuð snotur stunga á BB. Snyrtilega innrammað.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.53.53

Sykurlaus septembet allt árið

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 7,5

Krúttlegt og afhjúpandi. En ekkert rosalega fyndið.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.55.44

Framsóknarkonur

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 7,5

Maklegt djók á dólgshátt Framsóknarkvenna. En Framsóknargrínið orðið hlutfallslega dálítið mikið – og í þessu tilfelli, doldið bókstaflegt.

Screen Shot 2015-01-01 at 18.58.39

Æsifréttir

Hugmynd: 6,5

Framkvæmd: 6,5

Er þetta virkilega vinkillinn á DV eftir það sem á undan er gengið? Undarlegt.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.00.27

Sjálfa á bráðamóttökunni

Hugmynd: 8

Framkvæmd: 9,5

Mjög vel heppnað atrið. Sérstaklega vegna frammistöðu ÞB sem er frábær. Algjörlega frábær.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.01.35

Hjarta-Tómas og Talningar-Tómas

Hugmynd: 7

Framkvæmd: 6,5

Tja, það er einhver djókur þarna. En það hefði mátt gera hann miklu betur.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.03.21

Sigmundur og Gísli

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 9,5

Allir vissu að þetta kæmi í skaupinu enda skrifaði það sig sjálft. Sigmundur stældur á stórkostlegan hátt. Algjörlega frábært. En handritið fer töluvert úr skorðum.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.06.11

Áburðarverksmiðjan

Hugmynd: 9,5

Framkvæmd: 9,5

Atriði í skaupi verða ekki betri en þetta. Hvorki í framkvæmd né hugsun. Bravó!

Screen Shot 2015-01-01 at 19.07.55

Biðjum fyrir fólki með mjólkuróþol

Hugmynd: 6,5

Framkvæmd: 7

Pínu skemmtilega absúrd atriði. En voðalega rýrt þar fyrir utan.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.09.50

Hulið listaverk

Hugmynd: 7

Framkvæmd: 7

Alveg ágæt, lítil hugmynd. Engin þungavigt.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.11.24

Viltu ekki sjá brjóstin á mér líka?

Hugmynd: 7

Framkvæmd: 7

Nostalgísk hugmynd og snotur sem slík. Það fyndna við hana er endurtekningin.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.14.02

Björgólfur Thor Kristur

Hugmynd: 7,5

Framkvæmd: 7,5

Doldið langt miðað við efniviðinn. Glóra í hugmyndinni en ekkert sérstaklega fyndið.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.16.22

Marta smarta

Hugmynd: 8

Framkvæmd: 7,5

Þessi er lúmskt fyndinn en eins og svo oft í skaupum, svona sirka helmingi of langur.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.18.49

Sharía

Hugmynd: 9

Framkvæmd: 9

Hér smellpössuðu saman form og inntak. Virkilega, virkilega vel gert.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.21.13

Þetta reddast II

Hugmynd: 7

Framkvæmd: 7

Ögn betri útgáfa af því sama á áðan.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.23.04

Auglýsinga-Ísland

Hugmynd: 8

Framkvæmd: 8

Auglýsingaþemað vel heppnað hér enda þjónar það inntakinu. Pínu broddur. Beint úr Heimska-Íslandi við Pylsuvagninn í Falska-Ísland.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.25.00

Kemst ekki á Justin Timberlake

Hugmynd: 6,5

Framkvæmd: 8

Frábær performans hjá báðum, eins og víðar í skaupinu. En þunnur djókur og að mörgu leyti klón af gríni frá í fyrra sem gekk alveg upp.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.27.12

Ginningarfífl stjórnvalda

Hugmynd: 6

Framkvæmd: 7

Frekar slappur djókur en með örlitlu tvisti í lokin.

Screen Shot 2015-01-01 at 19.32.12

Lokalag

Hugmynd: 7

Framkvæmd: 7,5

Aftur, endurómur af eldra skaupi en – eins og í upphafslaginu einhver skortur á samfellu í nálguninni. Fleiri en ein nálgun í gangi í einu. Og ögn pínlegt á köflum – hvergi meira en þegar Ómar söng um lunda og Bárðarbungu.

Niðurstaða

Meðaltalið er 7,3 samanborið við 7,6 í fyrra. Sem þýðir að skaupið er í meðallagi, kannski ögn yfir. Besti djókurinn: Áburðarverksmiðjan.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 31.12.2014 - 09:55 - FB ummæli ()

Philip Larkin og körturnar

Enska ljóðskáldið Philip Larkin er bráðum búinn að vera dautt í 30 ár. Það er svosem álitamál hve lifandi hann var síðustu áratugi ævinnar. Mig minnir að hann hafi einu sinni sagt að eymd og volæði tilverunnar væru sér sami innblástur og liljur vallarins hefðu verið Wordsworth. Og víst var tilvera hans allt annað en dásamleg. Hann orti fá en kynngimögnuð ljóð og drakk sig í hel langt fyrir aldur fram. Og eins og hann sagði í frægu ljóði:

They fuck you up, your mum and dad.
They may not mean to, but they do.
They fill you with the faults they had
And add some extra, just for you.
Mamma þín og pabbi klúðra þér, fokka þér upp. Og hér talar maður af reynslu. Pabbi hans var ekki aðeins ónærgætinn og tilfinningalega herptur kvennakúgari – hann tók Philip ungan með sér í vísindaferðir til þýskalands til að dást að Hitler og Þriðja ríkinu.
Ævi Larkins var máluð gráum, drungalegum tónum. Þegar hann skemmti sér virðist það yfirleitt hafa verið á kostnað einhvers; annars fólks eða lifrarinnar í honum . Hann skrifaði löng bréf til vinar síns sem gegnsósa voru í kvenfyrirlitningu (en var svo meyr og mjúkur í garð kvenna þegar bráði af honum). Hann eyddi síðari hluta ævinnar á nær samfelldu kojufylleríi milli vinnudaga og ef hann var ekki einn var hann með kærustunni og þau sungu saman niðrandi vísur um negrana og aðra þá sem fólk í þessu ástandi reynir af öllum mætti að sannfæra sig um að sitji skör neðar en það sjálft.
En hann var gott skáld. Eitt það besta. Að hluta til vegna þess að hann var heiðarlegt skáld. Maður les hann ekki til að finna angan af blómum eða vorregni. Maður andar að sér fúkka og rakri, klístraðri þoku.
Larkin orti tvö ljóð um vinnu sem körtu. Í hans huga var launavinna einhverskonar íþyngjandi, slímugt fyrirbæri sem liggur eins og mara á lífi fólks í svo kolvitlausum hlutföllum við mikilvægi að tilhugsunin ein vekur angist. Vinnan eyðileggur sex daga í viku, bara til að maður geti borgað nokkra reikninga. Fyrra ljóð hans um efnið er einhverkonar kæft heróp. Ósk um að hafa hugrekki til að hrinda af sér þessum slímuga, óboðna gesti. Hann horfir á fólkið sem brotist hefur úr klóm launavinnunnar og þótt það sé margt sérviturt, grindhorað eða berfætt virðist enginn beinlínis svelta.
En alla tíð hélt hann áfram að vinna. Sem vinnumaur á bókasafninu í Hull.
Tæpum áratug eftir að hann birti ljóðið um körtuna kom frá honum framhaldsljóð. Svo dásamlega dapurlegt og niðurdrepandi; fullt af eymd og mannvonsku. En samt svo heiðarlegt. Í því virðist hann hafa tekið vinnuna í sátt. Ekki vegna þess að hún göfgi manninn, heldur vegna þess að hann getur ekki hugsað sér að vera „einn af þeim“ sem ráfa um í almenningsgarðinum á virkum degi. Nú er það ekki hugrakkt fólk sem slitið hefur sig frá böndum vinnunnar sem hann sér. Hann sér ekkert nema lúsera. Uppgefið, veikt og heimskt fólk sem ráfar eins og uppvakningar um vegna þess að það á sér ekkert líf.
Ég veit svosem ekki hversu mikið Larkin hefur verið þýddur á íslensku. Vonandi eitthvað. Vonandi alveg. En í tilefni áramótanna sem gjarnan eru táknræn tímamörk í lífi fólks snaraði ég þessu á íslensku og læt hér fylgja með frumtextann.
Gleðilegt ár og megi árið 2015 marka ný tímamót í slag sem flestra við körturnar í þeirra lífi!

Körturnar (aftur)

 

Almenningsgaðurinn ætti að vera

notalegri en vinnan

Tjörnin, sólskinið,

grasflötin sem liggja má á.

 

Dempuð hljóð leikvallarins

handan við hjúkkur í svörtum sokkum –

ekki slæmur íverustaður.

En samt ekki fyrir mig.

 

Að vera einn af þessum mönnum

sem þú mætir þar síðdegis:

Skjálfandi gamalmenni á lötri,

lafhræddar blækur með hjartað í buxunum,

 

klepraðir sjúklingar í útivist

enn í móðu eftir slys,

og náungar í síðum frökkum

á kafi í ruslafötum –

 

Allir að komast hjá körtuvinnunni

með heimsku eða veiklun.

Hugsa sér að vera þeir!

Og heyra stundarslátt klukkunnar.

 

Horfa á þegar sendill kemur með brauð

og sólin hverfur í skýin,

börnin fara heim;

Hugsa sér að vera þeir,

 

Grannskoða bresti sína

við beð af brúðaraugum,

Geta ekkert farið nema inn,

þeirra einu vinir: tómir stólar –

 

Nei, færið mér heldur innhólfið mitt,

og hrúgaldshærða ritarann minn,

og það-er-síminn-til-þín-viltu-svara-því-herra:

Hverju get ég svarað öðru,

 

þegar ljósin kvikna klukkan fögur

að afloknu enn einu ári?

Réttu mér arminn, gamla karta;

hjálpaðu mér niður Kirkjugarðsgötu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.12.2014 - 14:44 - FB ummæli ()

Fallega líkið á bílþakinu og papparassinn

Þann fyrsta maí árið 1947 lagði ung kona frá sér kápu og svarta skrifkompu á útsýnispalli Empire State byggingarinnar áður en hún stökk fram af byggingunni. Lögreglumaður var að stýra umferð í nágrenninu þegar hann heyrði hvellinn. Konan lenti á þaki bifreiðar. Þakið krumpaðist undan högginu og mikla undrun vakti hve fögur og friðsæl hún var þar sem hún lá örend með fætur krosslagða við ökkla og aðra höndina lokaða utan um perluhálsmen. Augun voru lokuð, munnurinn opinn til hálfs. Það var sem hún svæfi. Aðeins rifnar sokkabuxur og staðsetning hennar á dælduðu bílþakinu voru til merkis um að ekki væri allt með feldu.

Í svörtu skrifkompunni var aðeins ein ósk. Ósk um að fá að fara í friði. Að lík hennar yrði brennt án athafnar eða tilstands svo enginn þyrfti að sjá hana framar. Og líkið var brennt. En kyrrþeyin var þó ekki meiri en svo að ellefu dögum eftir andlátið birtist heildsíðuljósmynd af líki stúlkunnar í Life-tímaritinu. Fimmtán árum seinna notaði Andy Warhol ljósmyndina sem grunn í listaverk. Myndin er af flestum talin ein af áhrifamestu fréttaljósmyndum 20. aldarinnar.

Ég rifjaði þetta upp þegar ég sá umræðu á netinu um breytingu sem varð á fjölmiðlum á seinni hluta síðustu aldar. Fram að því þótti með öllu eðlilegt að nafngreina fórnarlömb slysa og sjálfsvíga og oft var gengið mjög nærri einkamálefnum fólks í fréttaflutningi. Í dag virðist vera nokkurnveginn almennt viðurkennt að fjölmiðlun sé flókið starf og að gera verði greinarmun á því sem almenningur þarf að vita, hefur rétt á að vita og langar að vita. Nokkur umræða er síðan um það hvort fjölmiðlar eigi að leggja mikla rækt við þriðja flokkinn.

Hér á Íslandi hefur Jakob Bjarnar Grétarsson verið ötulasti talsmaður viðhorfs sem lýsa má nokkurnveginn þannig að það sé ekki hlutverk fjölmiðlamanna að gera greinarmun á því sem fólk hefur rétt á að vita, þarf að vita og vill vita. Almannavilji ráði því hvað sé frétt. Allar tilraunir til að skammta fréttir eftir réttindum eða þörfum sé í raun dulbúin leið til að láta fréttir ráðast af vilja færri frekar en fleiri, sem sé ekki bara varasamt heldur stórhættulegt. Þá sé einfaldast að fara bara eftir því sem fólki finnst í raun og veru fréttnæmt.

En jafnvel afstaða sem þessi er óþægilega flókin. Umræddur almannavilji hefur allskyns erfiðar og illskiljanlegar hliðar sem gera það að verkum að illt er að stóla á hann og fjölmiðlamaður verður fyrr eða síðar að styðjast við einhver prinsipp önnur. Jakob vill skrifa þennan vandræðagang á allskyns bresti í þjóðarsálinni. Fólk sé margvíslega ósamkvæmt sjálfu sér, meðvirkt og leggi lag sitt við hræsni. Hann hefur raunar skrifað heila bók um samband almennings og fjölmiðla eins og það birtist í storminum í kringum DV á sínum tíma.

Auðvitað er ákveðin togstreita, svo ekki sé harðar að orði kveðið, í afstöðu eins og þeirri sem Jakob Bjarnar hefur haldið á lofti. Fyrr eða seinna virðast fjölmiðlamenn ævinlega sækja styrk sinn í einhverskonar þrískiptingu milli almannavilja, -þarfar og -réttar. Þar sem hið fyrsta verður aðeins túlkað með einhverri hliðsjón af því sem á eftir kemur.

Það, að fólki finnist eitthvað forvitnilegt, er harla léleg röksemd fyrir því að birta það í fréttum. Í dæminu sem ég nefndi hér í upphafi var „fréttin“ sú að líkið var fallegt og umgjörðin dramatísk. Það er mér mjög til efs að hægt sé að halda því fram að fólk hafi haft einhvern sérstakan rétt á að berja það augum. Og þörfin var örugglega engin.

Hér gæti verið freistandi að búa til einhverja heimspekilega barbabrellu og segja að réttnefnd „frétt“ þurfi að uppfylla tvö af skilyrðunum þremur. Það er samt eiginlega augljóslega rangt. Í fyrsta lagi getur vel verið að fólk eigi rétt á að vita eitthvað en hafi hvorki fyrir það neina tilfinnanlega þörf né vilja. Ekkert virðist samt rangt við að birta slíka frétt. Eins má hugsa sér mýgrút frétta sem hafa enga „baktryggingu“ í öðru en því að fólk þyki efnið hnýsilegt. Lambasparð í mynd forsetans gæti vel ratað í fjölmiðla. Engin ástæða er til að halda að allar fréttir þurfi að vera göfugar.

Fleira kemur þó til álita. Ef einhver héldi því fram að bíll kæmist allra sinna leiða í ófærð sé borinn saltpækil á dekkinn væri það ábyrgðarhlutur að flytja af því fréttir um hávetur nema einhverskonar rannsókn fylgdi á því hvort viðkomandi væri að segja satt. Fjölmiðlar eiga ekki að auðvelda útbreiðslu lyga og blekkinga. Eins ber þeim að virða einkalíf fólks.

Það má kannski koma með vinnutilgátu um að fréttir eigi að miðla því sem fólk þarf, hefur rétt á að eða vill vita – en þó þannig að viljinn þurfi að víkja gangi fréttin gegn mikilvægum grundvallarréttindum og þörfum.

En jafnvel þá virðist vafasamt að hafa þarfirnar með. Eins og Pétur Gunnarsson bendir á í Veraldarsögu sinni er það vandræðahugtak. Oft notað eins og það sé einfaldara en það er. Hann talar um marxísku möntruna um að fólk skuli leggja það að mörkum sem það getur og fá það sem það þarf. Og veltir fyrir sér hvort átt sé við að hann fái þarfir sínar uppfylltar í brauði eða ljóðum.

Ég hygg að Jakob Bjarnar myndi hafna því að fréttir eigi að taka mið af þörfum á svipuðum forsendum og Pétur efast um að marxisminn gangi upp að svo komnu. Það er erfiðara að meta þarfir en grundvallarréttindi. Slíkt mat hlýtur að draga dám af þeim sem metur. Þarfatengdur fréttaflutningur verður því á endanum miðaður við skoðanir sem ómögulegt er að sannreyna hvort séu réttar. Slíkum fréttum sé búinn of þröngur búningur.

Mér verður í svona umræðum oft hugsað til Matthíasar Johannessens sem tók viðtöl við Níels Dungal, yfirmann rannsóknarstofu Háskólans í eina fjóra áratugi. Níels var læknir og fór ekki í neinar grafgötur með það að þjóðin væri meira og minna vanhæf um að taka ákvarðanir um heilbrigðismál sökum fákunnáttu. Ef Níels taldi sig hafa læknisfræðilegar ástæður til að gera eitthvað, gerði hann það. Í nafni vísindanna og án sérstaks tillits til vilja viðfanganna. Það vita allir sem hafa kynnt sér að saga læknina á Íslandi er verulega flekkótt að þessu leyti, sérstaklega geðlækninga. Nema hvað, í viðtölum Matthíasar við Níels kemur fram að þótt sá síðarnefndi teldi sig hafa rétt til að fara sínu fram þá blundaði undir undarleg vanvirðing fyrir viðfangsefnunum. Níels var sífellt að reyna að hrekkja Matthías sem var myrkfælinn og líkhræddur og notaði jafnvel líkamshluta hinna dánu til að hræða hann.

Einhvernveginn virðist augljóst að maður sem hið opinbera setur í þá stöðu að geta ákvarðað hvað gert er við líkama hinna dánu hefur brugðist ef í ljós kemur að hann notar líkamshluta til að skemmta sjálfum sér. En hér virðist málið hvorki hverfast um rétt fólks til að njóta líkhúss- og grafarfriðar né neinar sérstakar þarfir. Lík hafa ekki þarfir – og varla mikil réttindi heldur.

Það er sama hvernig maður snýr sér. Fyrr eða síðar bankar þessi umræða á dyr siðferðisins. Það að birta heilsíðuljósmynd af konu sem í örvæntingu tekur eigið líf eftir að hafa sárbeðið um að fá að fara í friði er siðferðislega ámælisvert.

Og það er hættulegt að mínu mati að ganga að siðferðinu sem gefnu. Eins og það sé sjálfgefið og skipti ekki máli í fjölmiðlun, menntun eða öðrum grundvallarþáttum almenns lífs.

Samfélag sem ekki talar saman eða hugsar saman um siðferði er meingallað. Réttindi og þarfir sem ekki taka mið af siðferði eru í mikilli hættu á að steingervast.

Gamli ritstjórinn, Jónas Kristjánsson, kvartar yfir því nú um jólin að það vanti „límið“ í þjóðina. Hún hafi molnað í sundur. Það muni taka óratíma að líma hana saman aftur. Aðrir tala á svipuðum nótum en í öðru samhengi. Biskupinn telur að það að vera Íslendingur snúist um ákveðna hegðun og helgisiði.

Límið í samfélögum er ekki þjóðræknieinkenni. Límið í samfélögum er siðferðið. Og siðferði þarf að ástunda. Þar sem siðferði er ástundað er það rætt, ígrundað, gagnrýnt og burðarþolsprófað. Það tekur á sig fjölbreytilegar myndir og breytist. En það liggur ekki eins og pollur á botni brunns sem sést ekki fyrir myrkri og heyrist aðeins sem bergmál steinvölu sem varpað er í holuna.

Réttarríkið er lýsing á siðferðisríkinu. Réttarríkið er eins og kuðungur. Það sem er innan hans skiptir öllu máli. Það er lífrænt og viðkvæmt – en þó á endanum skapari hinnar sterku skeljar. Í siðferðisríki er siðferðið ástundað. Ástundun siðferðis fylgja persónuleg gildi. Því fylgir líka heil vídd í umræðunni.

Margt af því sem Íslendingar eiga í stökustu vandræðum með að ræða er svona illfanganlegt vegna þess að þessa vídd vantar. Og reynt er að láta sem hana þurfi ekki – þegar ljóst er að án hennar kemst umræðan aldrei nálægt lyktum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.12.2014 - 15:33 - FB ummæli ()

Heimur versnandi fer – jólahugvekja 2014

star-of-bethlehem-2

„Rétt“ klæddir vitringar í þann mund að hrinda af stað atburðarás sem stendur enn

Það segir sitt um versnandi stöðu vitringa að þeir, sem fyrir 2000 árum rannsökuðu halastjörnur og komust að þeirri niðurstöðu að þær vísuðu á guðdómlega hvítvoðunga, skuli enn í dag hafa á sínu bandi fjölda fólks í hinum „upplýsta heimi“, á meðan vitringar nútímans, sem geta búið til halastjörnulíki úr þurrís og sandi og kunna að lenda fjarstýrðum myndavélum á yfirborði halastjarna langt úti í geimi, fá skammir fyrir að vera í of sexí skyrtum.

1984-George-Orwell-Movie-Trailer-0241

Blóðþyrstur múgur í 1984

Það segir sitt um versnandi stöðu samfélagsrýna að rúmri hálfri öld eftir að berklaveikur Orwell fórnaði lífi sínu með því að skrifa 1984 í rafmagnslausum, saggafullum, illa ræstum og reykfylltum kofa um skuli ísraelskir landnemar klappa þegar þyrlur tæta í sig palestínskar fjölskyldur  og bandarískir sunnudagaskólakennarar yppta öxlum yfir þeirri afhjúpun að öryggiskennd þeirra hefur verið hert í blóði pyntaðra.

Chaplin hæðist að Hitler

Chaplin hæðist að Hitler og öðrum heimsóraköllum

Það segir sitt um versnandi stöðu listamanna að sjötíu og fimm árum eftir að Chaplin afhjúpaði harðstjórann í kvikmynd og kvaddi alla hugsandi menn til andófs gegn grimmd og til varðstöðu um mannúð skuli heimurinn standa á nöf styrjaldar og hryðjuverka vegna gamanmyndar sem er skv. þeim sem hana hafa séð „álíka fyndin og langdregin og hungursneyð“.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.12.2014 - 13:54 - FB ummæli ()

Frjálslyndi og hlutleysi

Hlutleysi er undarlegt orð. Það er líka til sem sögn. Hún er lítið notuð í íslensku nema helst í efnafræði. Ég rakst áðan á frétt um að ísraelski herinn hefði hlutleyst Hamas-liða. Það merkti að skjóta þá í tætlur. Það er skrítið að orð eins og hlutleysi skuli geta haft tengingar í þá átt.

Ég sagði í gær að ég vildi að skólabörn kynntust helgisiðum kristinna á aðventunni. Ég vísaði í einhverskonar samfélagssáttmála. Sáttmála um að börn séu látin kynnast ólíku fólki og hugmyndum jafnvel þótt foreldrar þeirra kysu að halda sig almennt frá slíku fólki og hugmyndum.

Auðvitað eru ekki allir sammála mér. Og ég hef fengið að heyra að skóli eigi að vera hlutlaus. Fólk sem vilji að börn kynnist kristnum siðum geti bara farið sjálft með börnin í kirkjur. Skólinn eigi ekki að skipta sér af því.

Þá kemur aftur að þessu orði: hlutleysi. Ég veit ekki alveg hvert andheiti þess er. Hlutdrægni? Afstaða?

Ég lít ekki svo á að það að kynna börn fyrir trúarbrögðum eða helgisiðum feli í sér að tekin sé afstaða til þeirra sanninda sem trúarbrögðin boða. Ekki frekar en að það að kynna börnum draugasögur feli í sér áhlaup á náttúruvísindin eða að það að kenna börnum indíánaregndans á síðasta degi skólans sé tilræði við sumarfrí þeirra.

Umræðan um hlutleysið, eins og ég skil hlutina, á ekki við þarna. Hún getur auðvitað átt við, t.d. ef börnum er hótað með vítisvist eða ef reynt er að „frelsa“ þau í svona skólaheimsókn. Það má alveg misnota aðgengi að börnum í svona heimsóknum. Og kannski er það reynt. Ég ætla ekki að verja það. En það þyrfti dálítið til að fara yfir strikið. Það væri ekki endilega óverjandi að börnin fengu einlæga kynningu eða jafnvel gjafir. Það fer eftir samhenginu. Skólabörn sem færu á galdrasafn og fengju þar kynningu hjá ástríðufullri norn og væru leyst út með steinum með einhverjum heillarúnum rúmast alveg innan þess sem ég teldi eðlilegt – og fæli ekki í sér að þar með væri skólinn að taka afstöðu með göldrum.

Aldur barnanna skiptir líka máli. Ég sá um daginn pistil eftir konu sem lagði til eftirfarandi menntaheimspeki: Að fram að 7 ára aldri væri lögð áhersla á að börn notuðu hendurnar og væru kynnt fyrir gæskunni. Að frá 7 – 14 ára væri hjartalagið styrkt og þau kynntust fegurðinni. Loks væri hugað að vitsmununum og sannleikanum.

Ég viðurkenni að ég hugsa þessi mál aðeins eftir þessum sömu línum. Kynning barna á samfélagi sínu snúist framanaf um það að samfélagið geti verið gott. Síðan að það sé fallegt. Loks að það sé flókið. Börn séu beinlínis þjálfuð í því að bera hlýjan hug til annars fólks, að sjá fegurðina í fjölbreytileika mannlífsins og að ráða við að hugsa um og í flóknum heimi.

Þetta skarast auðvitað. Það á ekkert að leggja gæskuna á hilluna þegar börn eldast og börn eru furðu ung þegar þau geta hugsað gagnrýnið um tilveruna.

Á vitsmunalega sviðinu ætti skóli að mínu mati alls ekki að vera hlutlaus í trúmálum. Þegar börn hafa aldur og þroska til eiga þau að fá það hráefni í hugsun um trúmál sem best er – þótt það feli um leið í sér gríðarlegar efasemdir um forsendur trúarbragða. Jafnvel trúuð börn ættu að fá aðgang að slíkum upplýsingum. Þau eiga t.d. að fá að velta fyrir sér líf- og mannfræðilegum pælingum um trúmál. Kynnast því hvernig sjá má hliðstæður í tilfinningalífi apa og manna sem varpað geta ljósi á trúarupplifanir. Velti fyrir sér pælingum eins og þeirri hvort sú staðreynd að við erum hjarðdýr tengist tilfinningu okkar um eitthvað æðra og þörf okkar fyrir að tilheyra.

En fyrst og fremst held ég að við þurfum að vera frjálslyndari en við erum. Við erum ótrúlega ófrjálslynd. Okkur virðist vera í nöp við fjölbreytileikann. Annað hvort eiga allir að éta voða mikið af kolvetnum eða alls engin. Allir eiga að læka lögguna á feisbúkk eða líta á hana sem fasískar stormsveitir. Annað hvort eða.

Í sinni einföldustu mynd sé ég þetta fyrir mér svona: Ef mannkyni er gefið rými til að einstaklingar fái að lifa sínu lífi á eigin forsendum er meira en líklegt að greind okkar og skynsemi muni ramba á sífellt betri leiðir til að lifa. Að lifa eftir forskrift og fylgja allrahanda manneldismarkmiðum annarra hefur ævinlega verið vafasöm leið til farsældar. Þetta rými fjölbreytileikans þarf að leyfa mismunandi skoðanir og sannfæringu. Í stað þess að loka okkur af hvert gagnvart öðru, tortryggja og standa ógn af mismun okkar á milli – eigum við að samþykkja og viðurkenna fjölbreytnina. Og nota orkuna til að takast á við þá sem í raun og veru ganga of langt.

Barn á ekki bara að vita heldur skilja, sjá og finna fyrir fjölbreytileikanum. Það á að vita að Sigga litla borðar ekki svínakjöt. Og Sigga á að vita og sjá að aðrir borða það. Barn á að vita hvernig múslimar biðjast fyrir og hvernig kristnir. Og trúuð börn eiga að vita að það er fullkomlega ásættanlegt að trúa barasta ekki á neitt – og að það sé hvorki tortryggilegt né vafasamt að trúlausa barnið fái jólagjafir. Þvert á móti sé heill hellingur af fegurð í trúlausri lífsafstöðu.

Þetta er mín skoðun. Mér finnst ekki til mikils ætlast af mér að börnin mín kynnist kristni í raun, dáist að fegurðinni í trúnni og beri virðingu fyrir henni. Og ég vil að þau hafi næga reynslu og þekkingu til að taka þátt í gagnrýnni umræðu um trúarbrögð, þar á meðal kristni, þegar það er tímabært. Og ég vil að hinir kristnu þoli að börnin þeirra fái fræðslu um þróunarkenninguna, mannfræðilegar tilgátur um uppruna trúarbragða, önnur trúarbrögð,  samkynhneigð, réttmæti fóstureyðinga, getnaðarvarna og sjálfsfróunar.

Af þessari afstöðu minni flýtur að sjálfsögðu það að frjálslyndi er ekki raunverulegt ef það virkar aðeins í eina átt. Það er ekkert frjálslynt við það að hrúga börnum í kirkjur, segja þeim að Jesú sé vinur þeirra og eina leið þeirra til að deyja ekki – og sjá svo til þess að öllum öðrum litbrigðum mannlífsins sé haldið frá þeim. Ég er ekki að verja það. Ég er ekki að segja að börn skuli fara í messur á aðventu sama hvað.

Ég er ofur einfaldlega að segja að ég er mjög efins um að samfélagsleg grundvallaratriði séu best komin í höndum foreldra. Bæði þarf að frelsa sum börn undan þröngu sjónarhorni heimilisins – en svo sjáum við það bara í kringum okkur að við þessi fullorðnu erum satt að segja frekar vonlaus í því að lifa með þeim sem eru ekki eins og við. Ég held að samfélagið þurfi á því að halda að næstu kynslóðir geri það betur. Og að þar hafi skólinn hlutverk.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is