Fimmtudagur 06.01.2011 - 10:54 - 8 ummæli

Hjarðhegðun í janúar

Hún er skrýtin hjarðhegðunin sem á sér stað fyrstu viku janúar mánaðar um gervallan heim… tja í þeim vestræna hluta allavega.

70% kosningabærra manna flykkist inn á líkamsræktarstöðvar með skóna gutlandi af samviskubiti.  Nú á aldeilis að bæta fyrir syndir feðranna… eða þínar eigin… með heljarinnar heilsuátaki.  2011 SKAL verða árið sem heilsusamlegur lífsstíll festist í sessi í sálinni.

Þau eru hinsvegar þung þessi spor inn á ræktaróðalið þar sem í hverju horni má sjá íturvaxna skrokka munda lóðin af fagmennsku og spæna upp hlaupabrettin af áfergju. Þú hefur styrkt þessar stöðvar af heilum hug undanfarinn áratug án þess að fá mikið fyrir snúðinn. Hann hefur aðallega runnið ofan í kokið glassúrhúðaður.

Hvers vegna hefurðu sturtað heilsunni ofan í toilettið í kringum hinn há-ameríska Valentínusardag á hverju einasta bévítans ári??  Þú getur snýtt þér við þá huggun að hið sama gildir um stærstan hluta “janúar –hópsins”.

Það er ekki nema brotabrot sem heldur áfram á braut heilsunnar og gerir heilbrigðan lífsstíl hluta af sjálfinu.

Hvers vegna?? Í langflestum tilfellum eru það kolruglaðar og algjörlega óraunhæfar væntingar manna til árangurs sem hleypur með það í gönur.  Það á að skafa lýsið en, to, tre…. það er ársó í febrúar og þá skal sporta hefluðum kvið og sköfnum byssum.
“Ég ætla að missa 1 kg á viku… og ekki minna en 10 kg fyrir þorrablótið.”

Fyrstu 1-2 vikurnar ertu 120% í mætingu og mataræði, og kílóin rúlla af…  en þau eru ekki eingöngu mör heldur einnig vökvi eftir saltneyslu og ófögnuð. En raunveruleikinn mætir með sína köldu vatnsgusu í kringum þorrablótstíðina, árangurinn er í hænuskrefum, en ekki lengur langstökk í hverri mælingu.

“Iss piss og pelamál, til hvers að vera þá að þessu ef það plokkast bara 1-2 cm á viku af vömbinni?”

Hvatinn minnkar sem leiðir til að æfingum fækkar og hliðarsporum í mataræði fjölgar.  Við það verður árangurinn enginn…. og jafnvel afturábak…. sem er verra en hænuskrefin!!!  Einkennileg lógík sem fólk beitir… ekki satt?

Til að hrista upp í rugluðum sköllum mannkyns þá er náttúrulögmálið að fitutap, vöðvavöxtur, styrkaukning und so weiter eru EKKI línuleg ferli.

Ef þú reiðir fram greiðslukortið í afgreiðslu sportstöðvar í þeirri trú að missa X kilo eða bæta í bekkinn í hverri  einustu viku, þá ertu í alvarlega slæmum málum. Það er bara ekki að fara að gerast… só sorry mæ frend.

Ef við tökum fitutap sem dæmi: Þó þú missir ekki ½  kg á viku þýðir ekki að þú sért ekki að ná árangri, að þú þurfir fleiri brennsluæfingar eða minnka matinn, eða hvaða aðrar réttlætingar þú notar í núðlunni til að þú sjáir óskatöluna á vigtinni.

Fitutap er ekki línulegt ferli… Aldrei!! Það er eins og íslensk veðrátta með hæðir og lægðir þegar kemur að árangri, og það kallast að vera heilbrigt og eðlilegt ferli… ekki að þetta sé allt vonlaust og líkaminn svari ekki… eða hvaða annað bull þú kemur upp með til að réttlæta að kasta inn handklæðinu.

Það munu koma vikur þar sem ekkert virðist vera að haggast, þú stendur í stað í þyngdum, í sprettum, á vömbinni og sorg og sútur allsráðandi.  Það er hinsvegar fullkomlega í lagi.  Það munu koma vikur á móti þar sem allt rúllar í fimmta gír og bullandi hamingja í sálartetrinu.

Hvoru tveggja eru hluti af heildarmyndinni í ÁRANGRI.  Langvarandi árangur er tímafrekur og safnast saman yfir tímann.  Leyfðu því að gerast, og sparaðu þér tárin, hártoganir og ekki síst árlegu styrkina til líkamsræktarstöðva landsins.

Flokkar: Bölsót · Fitutap · Hvatning · Lífstíll · Lyftingar · Mataræði

«
»

Ummæli (8)

 • Sæl Ragga,
  Datt í hug að henda þessari spurningu inn aftur þar sem ég fékk ekkert svar við henni síðast 🙂
  Þegar fituprósenta er mæld þá reiknar maður aldur inní, sem þýðir að fólk sem komið er nálægt fertugu kemst ekki neðar en 15 – 20 % fitu. Er þetta föst fita eða er hægt að ná henni af líka?

 • Guðmundur

  Frábært hjá fólki að fara í líkamsrækt, en jafn sorgleg einmitt þessi hjaðhegðun. Fólk að kasta hverjum 60.000 kallinum á fætur öðrum í árskort sem það gugnar á að nota á u.þ.b. mánuði þegar það sér engan árangur eftir að hafa verið voða duglegt að „mæta“ í ræktina. Af hverju byrjar fólk ekki eins í mars, …. vegna þess að allir fara í ræktina í janúar, hvers vegna hætta allir í febrúar … vegna þess að allir vinirnir eru farnir að forfallast hver á fætur öðrum.
  PS. Hvers vegna eru allir í lopapeysum … vegna þess að það var gefið út í einhverju blaði að það væri töff að vera í lopapeysu í vetur 😉 … hjarðhegðun 😀

 • Lopapeysur eru töff 🙂 hehe.

  Brilliant pistill mín kæra og ég var einmitt með fyrsta tímann minn í gær í námskeiðinu mínu, fullur salur af fólki en minn boðskapur sá sami og þú skrifar um 🙂

  Þetta verður snilld 🙂

 • Frábær síða hjá þér, les hana iðulega með tilhlökkun. En erum við ekki aðeins að gera of mikið úr því að fólk nái ekki að breyta um lífsstíl þó svo að það byrji í janúar og gera jafnvel lítið úr þeim sem byrja á þessum tíma með því að tala um hjarðhegðun. Þó svo að margir hellist úr lestinni þá eru margir sem ná að gera mikilvægar breytingar á sínu lífi. Ég er sem betur fer ekki á byrjunarreit um þessi áramót en ég hvet alla sem langar til að gera breytingar að drífa sig af stað og hafa svo þolið til að halda það út. Enginn betri tími en í dag!

 • ER!
  Já aldur er reiknaður inn í fitumælingar. Hef ekki heyrt um að fólk um fertugt geti ekki farið neðar en 15-20%, ertu með tilvísanir fyrir þeirri staðhæfingu?
  Veit um marga vaxtarræktarmenn yfir fimmtugu sem fara niður í 4-5 % fyrir keppni.

 • Ragga,
  Þetta var nú eiginlega meint sem spurning en ekki staðhæfing 🙂
  Ef fólk um fimmtugt getur farið niður í 4-5% þá er þessi aldurstengda fita ekki fasti og þessar reiknivélar á netinu sem taka aldur inní þá ekki alveg réttar (eða hvað??)
  Veistu hvernig þetta virkar og hvernig á að reikna út líffæra fitu % ???
  ég er nú kanski að tínast í smáatriðunum en finst þetta áhugavert 🙂

 • Hver ætti að vera ákjósanleg fituprósenta fyrir 49 ára gamla konu sem er ekki að fara að keppa en vill líta súpervel út. Lyftir og hleypur x 5-6 í viku og þarf að missa heilan helling af fitu til viðbótar.

 • Hólmfríður Gestsdóttir

  Sæl

  Ég er að nálgast fertugt og hef aldrei verið feit feit en hins vegnar verið lengst af svona grönn/feit ef þú skilur mig – skvap og vöðvamassinn afskaplega lítill og rýr. Breytti mataræðinu aðeins til betri vegar og fór að æfa. Var í byrjun í 29,3% fitu þrátt fyrir að upplifa mig ekki með nema kannski svona 5 aukakg. En skrokkurinn hefur breyst heilmikið. Í dag er ég heilmörgum sm mjórri og fituprósentan ca 25,5. Markmiðið mitt er að fara niður í svona 22% – ég myndi alls ekki reyna að fara neðar en svona 20% – það er talað um að 20-25% sé æskileg fitu% fyrir konur. Mér finnst fitu% samt ekki endilega aðalmálið. Þetta snýst meira um í mínum huga hvort ég er sátt við skrokkinn, þ.e. úthald, styrk og svo það sem ég sé í speglinum. Fitu% er meira svona mælitæki á árangurinn eða staðfesting á honum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is