Mánudagur 17.1.2011 - 11:40 - 13 ummæli

Sveittmeti á boðstólum

Naglinn skellti sér á skíði um liðna helgi í snarbröttum fjallshlíðum Noregs.  Sem er ekki í frásögur færandi nema að eftir ólympísk tilþrif í brekkunum þurfti auðvitað að næra skrokkinn og hlaða upp fyrir næstu lotu af áður óséðum svigtöktum.  Naglinn að sjálfsögðu nestuð upp í topp með kælitöskuna stútfulla af hollu góðgæti í nestisboxum sem var kokkað daginn áður.

Öðru máli gilti um húsbandið sem hugsaði sér gott til glóðarinnar með aðkeyptum matvælum fjallaskálanum. En væntingar um gúrmeti og góðgæti voru jarðaðar með hátíðlegri viðhöfn, því í skálanum var ekkert nema sjoppuræfill og söluvarningurinn eingöngu sveittmeti og sóðalegheit og bandið horfði öfundaraugum á fallega rækju „stir-fry“ spúsunnar.

Skraufþurr „Ömmupizza“ danglaði í sveittu hitaboxi

Hófakjötsstrimill (pylsa) fékk slappa útreið í fitusmurðu vatnsbaði

beikonbugður, smjörsleikt poppkorn, candy floss í plastboxi, sjokkolaðestykki, sykrað ropvatn og så videre.

Semsagt ekki nokkur skapaður hlutur sem nálgaðist að vera hollmeti eða á nokkurn hátt girnilegt.

Naglinn hefur tekið eftir þessu sama trendi á póstadressu Naglans: flugvöllum og flugvélum og reyndar mörgum öðrum samkomustöðum.

Þar úir og grúir af borgurum, pizzum, gosi, snúðum og sælgæti en að finna æti sem nálgast að hafa eitthvað hollustugildi og er á sama tíma girnilegt og aðlaðandi er eins og að leita að títuprjón í nálapúða. Fyrir þá sem hafa ekki endilega lyst á nokkurra vikna gömlu epli eða skjannahvítum pastabakka þarf virkilega að leita með smásjá og jafnvel punga út veðsetningu í frumburðinum.

Hvernig væri að staðir eins og Saffran, Serrano, Ginger, HAPP, Salatbarinn eða aðrir hollustustaðir myndu setja upp útibú í Leifsstöð?  Pæling…

Flokkar: Bölsót · Mataræði

Þriðjudagur 11.1.2011 - 20:04 - 5 ummæli

úúps….

Naglinn vonar að þessi hafi sett sér áramótaheit að losna við nokkur kíló… þó ekki væri nema til að halda húsgögnunum heilum.

[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=pKgYsNkkIpo[/youtube]

Flokkar: Fitutap · Myndbönd

Föstudagur 7.1.2011 - 21:26 - 24 ummæli

Fröllur Naglans

Dyggir lesendur vita að Naglinn borðar ekki venjulegar fröllur… aldrei…ekki einu sinni þegar villidýrinu er sleppt lausu. Þessi djúpsteikti viðbjóður hefur ekki snert munnholið síðan á menntaskólaárunum. Þá endaði hefðbundinn sígó bíltúr iðulega í lúgunni á BSÍ og lítill snæðingur, franskar, kokteil og kók sporðrennt, og til að toppa ófögnuðinn pöntuð auka kokteil til að klára upp frönskurnar.

Það er eitthvað velgjuvaldandi í munnvatnskirtlum  Naglans við tilhugsunina um sizzlandi, kraumandi djúpsteikingu og transfitubaðið sem innyflin hljóta við innbyrðingu þessa ómetis.

En Naglinn býr sér hinsvegar oft til Naglafröllur, snarhollar en sami „effektinn“ og í þessum óhollu.

1 bökunarkartafla  (HRÁ)

skera í tvennt og svo langsum í 1 cm strimla

Pipra eins og vindurinn

Sjávarsalt…. væna klípu

Inn í ofn á 200 °C blástur í 45-50 mín til að fá þær stökkar undir tönn

Hræra sykurskerta tómatsósu út í 5% sýrðan… nú eða tommuna bara allsbera með…. snarvirkar 🙂

Fröllur Naglans

Fröllur Naglans

Flokkar: Uppskriftir

Fimmtudagur 6.1.2011 - 10:54 - 8 ummæli

Hjarðhegðun í janúar

Hún er skrýtin hjarðhegðunin sem á sér stað fyrstu viku janúar mánaðar um gervallan heim… tja í þeim vestræna hluta allavega.

70% kosningabærra manna flykkist inn á líkamsræktarstöðvar með skóna gutlandi af samviskubiti.  Nú á aldeilis að bæta fyrir syndir feðranna… eða þínar eigin… með heljarinnar heilsuátaki.  2011 SKAL verða árið sem heilsusamlegur lífsstíll festist í sessi í sálinni.

Þau eru hinsvegar þung þessi spor inn á ræktaróðalið þar sem í hverju horni má sjá íturvaxna skrokka munda lóðin af fagmennsku og spæna upp hlaupabrettin af áfergju. Þú hefur styrkt þessar stöðvar af heilum hug undanfarinn áratug án þess að fá mikið fyrir snúðinn. Hann hefur aðallega runnið ofan í kokið glassúrhúðaður.

Hvers vegna hefurðu sturtað heilsunni ofan í toilettið í kringum hinn há-ameríska Valentínusardag á hverju einasta bévítans ári??  Þú getur snýtt þér við þá huggun að hið sama gildir um stærstan hluta “janúar –hópsins”.

Það er ekki nema brotabrot sem heldur áfram á braut heilsunnar og gerir heilbrigðan lífsstíl hluta af sjálfinu.

Hvers vegna?? Í langflestum tilfellum eru það kolruglaðar og algjörlega óraunhæfar væntingar manna til árangurs sem hleypur með það í gönur.  Það á að skafa lýsið en, to, tre…. það er ársó í febrúar og þá skal sporta hefluðum kvið og sköfnum byssum.
“Ég ætla að missa 1 kg á viku… og ekki minna en 10 kg fyrir þorrablótið.”

Fyrstu 1-2 vikurnar ertu 120% í mætingu og mataræði, og kílóin rúlla af…  en þau eru ekki eingöngu mör heldur einnig vökvi eftir saltneyslu og ófögnuð. En raunveruleikinn mætir með sína köldu vatnsgusu í kringum þorrablótstíðina, árangurinn er í hænuskrefum, en ekki lengur langstökk í hverri mælingu.

“Iss piss og pelamál, til hvers að vera þá að þessu ef það plokkast bara 1-2 cm á viku af vömbinni?”

Hvatinn minnkar sem leiðir til að æfingum fækkar og hliðarsporum í mataræði fjölgar.  Við það verður árangurinn enginn…. og jafnvel afturábak…. sem er verra en hænuskrefin!!!  Einkennileg lógík sem fólk beitir… ekki satt?

Til að hrista upp í rugluðum sköllum mannkyns þá er náttúrulögmálið að fitutap, vöðvavöxtur, styrkaukning und so weiter eru EKKI línuleg ferli.

Ef þú reiðir fram greiðslukortið í afgreiðslu sportstöðvar í þeirri trú að missa X kilo eða bæta í bekkinn í hverri  einustu viku, þá ertu í alvarlega slæmum málum. Það er bara ekki að fara að gerast… só sorry mæ frend.

Ef við tökum fitutap sem dæmi: Þó þú missir ekki ½  kg á viku þýðir ekki að þú sért ekki að ná árangri, að þú þurfir fleiri brennsluæfingar eða minnka matinn, eða hvaða aðrar réttlætingar þú notar í núðlunni til að þú sjáir óskatöluna á vigtinni.

Fitutap er ekki línulegt ferli… Aldrei!! Það er eins og íslensk veðrátta með hæðir og lægðir þegar kemur að árangri, og það kallast að vera heilbrigt og eðlilegt ferli… ekki að þetta sé allt vonlaust og líkaminn svari ekki… eða hvaða annað bull þú kemur upp með til að réttlæta að kasta inn handklæðinu.

Það munu koma vikur þar sem ekkert virðist vera að haggast, þú stendur í stað í þyngdum, í sprettum, á vömbinni og sorg og sútur allsráðandi.  Það er hinsvegar fullkomlega í lagi.  Það munu koma vikur á móti þar sem allt rúllar í fimmta gír og bullandi hamingja í sálartetrinu.

Hvoru tveggja eru hluti af heildarmyndinni í ÁRANGRI.  Langvarandi árangur er tímafrekur og safnast saman yfir tímann.  Leyfðu því að gerast, og sparaðu þér tárin, hártoganir og ekki síst árlegu styrkina til líkamsræktarstöðva landsins.

Flokkar: Bölsót · Fitutap · Hvatning · Lífstíll · Lyftingar · Mataræði

Mánudagur 3.1.2011 - 08:17 - 7 ummæli

Mánudagsblús

Það er mánudagur eftir nýárið og ólympískt samviskubit nagar ansi mörg beinin þessa dagana.

Að skipuleggja G-8 fund var auðveldara verkefni en að halda sig á beinu brautinni þessa helgi eftir nýársfögnuði og innhólf Naglans er stútfullt af játningum og beiðnum um syndaaflausn.

Dagarnir byrjuðu vel með graut og gleði en sukk og svínarí tók yfirhöndina eftir hádegið. Þvert á allar fyrirætlanir um hollustu og heilbrigði hrasaðir þú ofan í kökustampinn og álpaðist inn á Makka Dó eða Kenna Fræ.

Það eina sem Naglinn getur sagt við slíkri hegðun er: OG ??? eða á vondri íslensku „S**T HAPPENS
Ef þú hefur gert heilsusamlegt líferni og hollt mataræði að lífsstíl… sem auðvitað allir lesendur síðunnar hafa gert… þá hendirðu þér aftur á beinu brautina í mataræðinu þegar mánudagsrútínan mætir á svæðið í öllu sínu veldi.

Örfá hliðarspor hingað og þangað í jólavikunni skipta sáralitlu máli í hinu stóra samhengi hjá fólki sem stundar heilbrigðan lífsstíl milli nýárs og jóla.

Jú, þú færist kannski ögn afturábak í árangri, en kílóin eru ekki límd á þig með tonnataki, þau fara af í janúar og febrúar ef þú heldur á spöðunum og tíglunum.

Það er líka aðeins svo og svo mikill skammtíma skaði sem þú getur gert með einstaka borgara á kantinum og súkkulaði í munnviki.

Hins vegar er svart-hvíta hetjan hennar Röggu Gísla alltof oft allsráðandi í hausum fólks, því það er slíkur hugsunarháttur sem veldur skemmdum á árangrinum.  “Ég hef hvort sem er skemmt daginn með að éta þessa kökusneið, get alveg eins dýft mér til sunds í nammikassann og sturtað mataræðinu ofan í Gustavsbergið.”

Svo hefst niðurrifsstarfssemi í heilasellunum á eigin aumingjagangi og agaskorti, og þessar ljótu hugsanir leiða af sér enn frekara sukkpartý til að fylla upp í holrúm sjálfsins.

Það sem byrjaði sem saklausar 500 aukalegar kaloríur hafa breyst í 5000 kaloríu rugl og bull vegna eigin sjálfsréttlætingar og blekkingarleiks.

Þeir sem stefna að fullkomnun í mataræði og hreyfingu, það er þeim sem mun mistakast að gera heilbrigði að lífsstíl.

Lærum á eigin veikleika til að bregðast við svona aðstæðum í framtíðinni, stundum mun takast að koma í veg fyrir svínaríið, en stundum ekki og það verður bara að hafa það… það er partur af prógrammet að hrasa… en það er enn stærri partur að standa upp aftur og snýta horið burt og halda áfram.

Því fyrr sem við viðurkennum eigin breyskleika og sættum okkur við þá staðreynd að við erum mannleg en ekki viljalaus vélmenni þá verður siglingin á hafsjó hollustunnar mun auðveldari.

Flokkar: Hugarfar · Hvatning · Lífstíll · Mataræði

Fimmtudagur 30.12.2010 - 20:43 - 13 ummæli

Við viljum fransbrauð!!

Jæja eru allir risnir upp úr sykurmóki jóladaganna?

Hverjir vöknuðu upp eftir tveggja til þriggja daga epískt át með tilheyrandi hausverk, magaverk, slen og aumingjahor eins og þeir hefðu verið á rúllandi verslunarmannahelgar kennderíi frá 24. Des?

Nóa konfektassinn liggur samanvöðlaður undir sófa og allir molarnir syndandi í sýsteminu.  Smákökuskálin gónir á þig galtóm, minnug tímans sem hún eyddi stútfull af Sörum og spesíum sem nú verma magaholið.

Að dratta skrokknum fram úr rúminu að morgni tuttugasta og sjöunda var álíka auðvelt verkefni og að þrýsta fíl í gegnum skráargat.

Joggarinn verður fyrir valinu í vinnuna því ekkert má þrengja að útbólginni vömbinni.  Mest af öllu langar þig að skríða aftur upp í rúm og sofa þar til Þyrnirós skammast sín og púkinn öskrar á meira nammi, meira nammi, meira nammi…. Karíus og Baktus eiga ekki séns í þetta brjálæði…. Fransbrauð hvað?!!  Sykur og aftur sykur er það sem púkinn vill.

Þú lest undan skepnunni tuttugasta og fimmta og sjötta þrátt fyrir að fögur fyrirheit um að halda þig á mottunni þessi jólin.

Þú hugsar með kvíðablandinni tilhlökkun til gamlárs þegar þú getur þaggað niður í kvikindinu aftur með hjemmelavet ís, súkkulaðisósu, og fleiri konfektkílóum.  Takk för!!

Hver kannast ekki við þetta atriði? Naglinn þekkir aðeins of vel baráttuna við sykurskrímslið “the day after the night before”.

Það er ástæða fyrir þessari maníu, sykurinn gott fólk, er næsti bær við eiturlyf og líkaminn gjörsamlega öskrar á meira.

Allavega ef marka má niðurstöður rannsóknar sem gerð var í háskólanum í Bordeaux (Lenoir,  Serre,  Cantin, Ahmed, Université Bordeaux).  Hún sýndi að 94 % af rottum, sem máttu velja milli sykurvatns og kókaíns völdu sykurinn.  Meira að segja rottur sem voru háðar kókaíni völdu sykur þegar þær fengu að velja hvort hvíta duftið þær vildu.  Þar að auki voru rotturnar viljugri til að vinna fyrir sykri frekar en kókaíni.

Rannsakendurnir vilja meina að sykurviðtakarnir á tungunni eru örvaðir óeðlilega mikið í gegnum sykurríkt mataræði nútímamannsins og sendi þar með alltof mörg skilaboð um vellíðan og verðlaun til heilans.  Þetta leiðir til að sjálfsstjórnin fýkur út í veður og vind og fíkn gerir vart við sig.

Einnig kom í ljós að það er klárt samband milli fíknar og þols fyrir sykri og ávanabindandi efna.  Til dæmis rottur sem hafa verið vandar á sykur mynda þol gegn sársaukastillandi skömmtum af morfíni.

Þetta er skelfileg staðreynd í ljósi þess að einfaldur unninn strásykur var ekki til í mataræði jarðarbúa fyrr en fyrir örfáum sekúndum sé miðað við jarðsöguna.  Fyrir 100 árum var það aðeins eitt kilo sekur sem fór inn í kerfið hjá meðalJóni.  Í dag snæðir þessi sami Jón, sonur Meðals, ÁTTATÍU kilo af sykri á ári.  Það er eitt stykki fullvaxta meðalstærð af karlmanni, eingöngu úr sykri!!!

HA??? Ég???… ekki satt… hver þá??

Jú því miður góðir hálsar, trúið því eður ei.  Naglinn vonar að lesendur séu ekki í átttatíu árlegum kvikindum, en þó gætu margir verið ískyggilega nálægt því.  Þetta hvíta duft er nefnilega alls staðar… víðar en snjór í Kaupmannahöfn um þessar mundir.  Morgunkorn, kex, gos, nammi, kökur, súkkulaði, bakaríisgúmmulað, sultur, marmelaði, margar mjólkurvörur, nær allur pakkamatur, sósur, marineringar, jafnvel brauð eru úttroðin af viðbættum sykri.

Ef sykurlöngunin ætlar að éta þig lifandi þarftu að vígbúast í baráttunni við púkann ná stjórn á blóðsykrinum og skrúfa svo hausinn í rétta átt,

1) Byrjaðu daginn á hafragraut með prótíngjafa á kantinum, hafrar skila sér löturhægt út í blóðrásina og þegar prótín er komið í partýið hægist enn meira á kvekendinu.

2)   Haltu áfram að borða hreint yfir daginn, hafðu kolvetnin flókin og forðastu einfeldni nema eftir járnrífingar. Góða fitan og öndvegis prótíngjafar mega ekki gleymast.

3)   Hentu öllum restum af konfekti, lakkrís, Nóa kroppi ef þú treystir ekki eigin hegðun í kringum nammileifar.

4)   Farðu í ræktina.  Að skipta um umhverfi getur skipt sköpum í baráttunni.  Þar að auki tímirðu síður að eyðileggja blóð, svita og tár með gúffelsi enn einn daginn og endorfínið kemur sterkt inn við að drepa niður snaróðan púkann.

5)   Njóttu þess að leyfa þér sykrað gommolaði 1-2 skipti í viku með góðri samvisku, en ekki troða í andlitið eins og Ragnarök séu handan við nóttina og súkkulaðiframleiðsla muni leggjast af með öllu.

Gleðilegt gamlárs kindurnar mínar!!

Flokkar: Fróðleikur · Lífstíll · Mataræði

Þriðjudagur 28.12.2010 - 13:18 - 13 ummæli

Gúrkutíð?

Það eru nokkrar fréttir sem alltaf má reikna með á mismunandi tíma árs og virðist þar gilda einu hvort um gúrkutíð sé að ræða eður ei.

Má þar til dæmis nefna ferð fréttamannsins í bakarí landsins á bolludag vopnaður sama spurningalista og síðustu 20 árin: „Hvaða bollur eru vinsælastar? Hvað kaupir fólk margar bollur í einu? Hvað bakið þið margar bollur í ár?“  Svo er myndavélinni rennt yfir glerhjúpað afgreiðsluborðið og fyrir innan góna bústnar glassúrbaðaðar rjóma bollurnar í öllum regnbogans litum.

Svo er það hin árlega frétt um ræktarferð landans á annan dag jóla. Þá eru sýnd myndskeið af yfirmönnuðum hlaupabrettum og pakkfullum tækjasal með sveittum fýrum og skonsum á hlírabol.  Svo eru það hinar fyrirsjáanlegu spurningar: „Af hverju ert þú hér, en ekki heima undir sæng með konfektkassa? Þú tekur þér ekkert pásu frá ræktinni yfir jólin?“

Fyrir okkur sem höfum gert hreyfingu og hollustu að lífsstíl þykir svona fréttaflutningur álíka spennandi og að mæta inná baðherbergi landans á hvítasunnunni og spyrja hvers vegna verið sé að tannbursta sig á svona hátíðisdögum.  Naglinn bíður þess dags þar sem fréttnæmt þykir að húka heima með úttroðna vömbina en ómerkilegt að hrista skankana og koma blóðinu á hreyfingu….  hvort sem dagurinn heitir 26. desember eða 17. mars.

Flokkar: Bölsót · Lífstíll

Fimmtudagur 23.12.2010 - 11:11 - 4 ummæli

Boðskapur Naglans

Jæja góðir hálsar… jólakvikindið bara á morgun með öllum sínum kaloríum, sveittelsi og gúmmulaði.  Þeir sem hafa masterað þá iðju að gera hollustu og hreyfingu að lífsstíl vita að ólympískt át um jól og áramót er nauðsynlegur partur af prógrammet.  Því eins og Naglinn þreytist ekki á að jórtra, tyggja og hrækja ofan í lýðinn: Þurrelsi og svekkelsi eru ávísun á uppgjöf.

Hins vegar mun krónísk smurning innyflanna með rjómasósu og Nóa konfekti alla þrettán dagana, færa okkur ansi langt afturábak og stuðla að meiri fitusöfnun og sleni en við kærum okkur um. Hættan eykst á að sorg í sinni mæti nýju ári og frústrasjón heltaki mannskapinn.

Það er því mikilvægt að velja úr 1-2 daga sem við ákveðum að kýla vömbina og sleppa villidýrinu lausu á gnægtarborðunum.  Þess á milli halda sig nokkurn veginn á plani, og ef frávik eru naðsynleg að halda skömmtunum í mannlegri magamálsstærð.

Það sem skiptir samt mestu máli yfir hátíðirnar er að halda hreyfingunni í blússandi botni og gefa sér tíma í að mæta samviskusamlega þrátt fyrir innkaupastress, jólaskreytingarham, bökunarmaníu og innpökkunarsturlun.

Á milli jóla og nýárs verður hreyfingin enn mikilvægari til að eiga debet fyrir öllu átinu.

Allavega mun Naglinn nýta sér hinn dásamlega opnunartíma ræktarinnar hér í Danaveldi og viðra vömbina eftir jólaátið.
Við njálgarnir vitum að svívirðingar á járninu er ekki einungis hressandi fyrir sykurslenaðan skrokkinn, það gefur okkur líka innistæðu fyrir átveislunum eins og lesa má hér.

Farið inn í jólin með hamingju í hjarta og hófsemi í vasa, njótið þeirra með góðum mat og hreyfingu og komið útúr jólunum með góða samvisku og þurran skó.

Gleðileg jól!!

Flokkar: Hvatning · Lífstíll · Lyftingar · Mataræði

Laugardagur 18.12.2010 - 11:43 - 8 ummæli

Planheldni…. hvad for noget?

Nú eru aðeins tvær vikur þar til í hönd fer sá tími árs sem frústrasjón heltekur mannskapinn vegna skítafýlu út í sjálfa sig eftir ofeldi jólanna.

Netið er skannað í öreindir í örvæntingarfullri leit að skotheldu æfingaplani og sjóðandi matarplani til að losa sig við útþanda ístruna og færa rassinn aðeins norðar.
Vopnuð “töfraplaninu” mætir svo stríðalinn landinn fylktu liði inn á líkamsræktarstöðvarnar fyrstu vikuna í janúar.

Í viku 1, 2 og 3 (Naglinn er orðin svo dönsk að telja vikur), er liðið algjörlega anal með mataræðið, mætt upp á punkt og prik í ræktina og hamast og djöflast því nú skal lýsið sko leka.

Heldur fer þó að halla undan fæti í viku 4 og 5, nýjabrumið lekið af planinu, pizzunum fjölgar meðan ræktarmætingum fækkar….  í viku 7 er lufsast eftir minni á æfingar og nammikvöldin orðin að daglegu fransbrauði.

Áður en þú veist af er komin vika 47 og þú hefur verið dyggur styrktaraðli líkamsræktarstöðvanna enn eitt árið, gyllta planið liggur rykfallið ofan í tösku innan um grjótmyglaðar strillurnar og svitamorkið pungbindið.

Jólin eru handan við hornið en kjóldruslan eða jakkaskrattinn eru ennþá of fjandi þröng.  “Ohhhh… ef ég hefði bara haldið áfram mínu striki í mars…..”

Í þessu tilliti ætlar Naglinn að deila með ykkur leyndarmálinu að árangri?

Það er ekki nýjasta fitubrennslupillan sem lofar hefluðum kvið eftir helgi.

Það er heldur ekki nýjasti orkudrykkurinn, átaksnámskeiðið eða bumbubaninn úr sjónvarpsmarkaðnum.

Það er Planheldni…. Já þetta er nýyrði Naglans.

Að mæta í ræktina og djöflast í lóðunum, skilja ekkert eftir nema sinn eigin aumingjaskap og taka almennilega á því.

Að mæta út að hlaupa og slátra kílómetrunum sama hvernig viðrar og hversu lítið þú ert að nenna.

Að mæta í sund, í box, CrossFit, Boot Camp…. Hvað sem er að kitla pinnann þinn.

Að borða hollt og rétta skammta 90-95% tímans, ekki bara mánudag til föstudags.

Náttúrulögmálið er að sófalega og sjónvarpsgláp mun ekki bæta í byssurnar, Kringluráp bætir ekki bekkinn og kaffihúsaseta tætir ekki upp þolið.
Að laumast í nammipokann á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum mun ekki skafa mörina.

Þeir sem hafa náð sínum markmiðum með skrokkinn, sama hvort það er fitutap, kjötsöfnun, úthald eða styrkur geta sagt þér að lykillinn að árangrinum lá í að halda sig við efnið – að mæta á æfingar og halda sig við hollt mataræði… dag eftir dag, viku eftir viku, ár eftir ár.

Vissulega eru einhverjar breytingar gerðar á planinu á 5-7 vikna fresti en það sem rífur liðið áfram og bætir skrokkinn er löngunin til að ná markmiðinu og það veit að ekkert annað blífar en mæting, mæting, mæting og heldni, heldni, heldni árið út og inn.

Hið eina sanna matarplan eða æfingaplan er ekki það sem mun ákvarða árangurinn hjá þér.  Það er þín planheldni viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár…. eins og Naglinn hefur margtuggið, hrækt og jórtrað: Gerðu þetta að LÍFSSTÍL!!!

Ef þú nærð ekki árangri eru 99% líkur á að þú klikkaðir..… ekki planið.

Flokkar: Bölsót · Fitutap · Hugarfar · Hvatning · Lífstíll · Uppbygging

Mánudagur 13.12.2010 - 16:59 - 15 ummæli

Bjúgaldinbrjálæði

Eftir öll árin í heimskulega fáfræðis-myrkrinu þar sem bananar voru á bannlista hefur Naglinn gert sitt ítrasta til að vinna upp þennan tapaða tíma með gula sælgæti náttúrunnar.

Að sjálfsögðu er bjúgaldininu gefið gott pláss í morgunhamingju Naglans, en nýjasta grautar-kombóið djammar svo svakalega í munnholinu að bragðlaukarnir verða timbraðir á eftir og alvarleg fráhvörf gera vart við sig um leið og síðasta slikjan hefur verið skafin úr skálinni… með vísifingri hægri handar *roðn*
Naglinn fékk grunnhugmynd að gleðinni hjá drottningunni sjálfri en djassaði kvekendið aðeins upp.

Opskriften:

The same old…..

40g haframjöl
Husk
sjávarsalt
góðkunningjarnir kaniLL og vaniLL

Kokka lufsuna upp á gamla móðinn og henda í ísskáp

Á meðan grauturinn tjillar slakur í ísskápnum hefst þetta skemmtilega

2 tsk Chia fræ hrært saman með oggu vatni og möndludropum, látið slaka á kantinum og bólgna vel út

Banani…helst eldri en sólin

skorinn í sneiðar

PAMA pönnu og skella el banano á funheitt kvikindið – leyfa honum að sólbrenna svolítið, hella þá yfir 1,5 msk af sykurlausu Torani, heslihnetu/vanillu/karamellu virka öll vel í þennan gjörning.

Skúbba bananaklessunni yfir grautinn sem ætti nú að vera orðinn nægilega hlandvolgur til átu.

Bananagrautur

Og já… Naglinn borðar grautinn með gaffli, jafnvel hníf líka….. því þykkari því betra.

Toppurinn í teinóttu er að setja 1 tsk af náttúrulegu hnetusmjöri ofan á herlegheitin….sýra…nostalgía.

ÚFFF…. þvílíkt matarklám og dónaleg nautn sem þessi brjálæðingur ætti eingöngu að vera leyfilegur í fylgd fullorðinna.
Bon appétit mon chéris

Flokkar: Uppskriftir

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is