Föstudagur 13.1.2017 - 11:26 - FB ummæli ()

Skattheimta, sveitarfélög og almannahagur

Héraðsmiðillinn BB gerir að fréttaefni bókun mína frá 35. sveitarstjórnarfundi Súðavíkurhrepps, sem varðar lækkun á útsvarstekjum á milli ára. Það er afar þakkarvert að fjölmiðillinn skuli taka upp þessa umræðu.

Fyrirsögn BB er eftirfarandi: Skattsvik í Súðavík. Það skal árétta að orðið “skattsvik,, í þessari umræðu er fært inn af ritstjóra BB, sem skrifar umrædda frétt. Ásakanir um lögbrot er framlag ritstjóra BB.

Það er ekkert í bókun sveitarstjóra sem kallar samborgarana skattsvikara.

Hins vegar er bent á þá vá sem fylgir því þegar að útsvarstekjur lækka. Margs konar skýringar geta verið á bakvið slíka þróun. Í tilfelli Súðavíkurhrepps, og þetta er veruleiki allra sveitarfélaga á landinu, verður sveitarfélagið af miklum tekjum vegna einkaneyslu, sem tekin er í gegnum fyrirtæki, í stað þess að greiða starfsmönnum hærri laun, sem aftur skilar sér í meira framlagi til samneyslu samfélagsins.

Það er val þeirra sem kjósa að stýra eiginrekstri í gegnum einkahlutafélag að greiða lægri laun, og skila þess í stað meiri arði, sem síðan er skattlagður af ríkinu. Hins vegar er einn galli á gjöf Njarðar í því tilfelli og hann er að ríkið hefur þennan fyrirtækjaskatt fyrir sig sjálft, að nánast öllu leiti.

Kannski finnst lausnin í því að veita sveitarfélögum hlutdeilt í skattstofnun fyrirtækja. Sem væri þá mótvægi við þá fjármuni sem tapast í núverandi kerfi. Verðugt verkefni fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélag rekur sína þjónustu og velferð á skatttekjum. Ef þær dragast saman, dregst starfsemi sveitarfélagsins saman. Velferð og þjónusta við almenning minnkar. Ekkert ábyrgt sveitarfélag lætur þá staðreynd óhreyfða, ef skatttekjur þess dragast meira saman en eðlilegt getur talist. Þá er vegið að tilveru þess og velferð íbúa. Við því þarf að bregðast af ábyrgð, hreinskilni og festu.

Góð þjónusta við íbúa, öflugir skólar og styðjandi velferð í sveitarfélögum er almannahagur. Sé vegið að þessum atriðum er það skylda þeirra sem standa í stafni sveitarfélagana að vekja athygli á því og vinna markvisst gegn því. Með þetta að leiðarljósi skal lesa bókun sveitarstjóra frá 35. fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps. Hugmyndin er ekki að hengja neinn, hitt heldur, að standa vörð um almenning.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.10.2016 - 14:32 - FB ummæli ()

Eru Vestfirðingar óttaslegnir?

Grímur Atlason, settist í hljóðstofu RÚV á föstudaginn og ræddi AirWaves tónlistarhátíðina. Frábæran tónlistarviðburð, sem er orðin einn af hornsteinum tónlistarsenu Íslands.

Í hliðarskrefi við umræðuefnið fór Grímur að ræða fortíð sína og þá um leið hans tengingu við Vestfirði.

Grímur hefur nefninlega áhyggjur af Vestfjörðum, þar eru allir hræddir. Allir að fara flytja, menn að vinna með atvinnuuppbyggingu eins og laxeldi, er álverið ekki örugglega að koma hugsar fólk og það býr engin í Súðavík, segir Grímur leiður.

Til að sefa Grím og áhyggjurnar er rétt að eftirfarandi komi fram:
• Á suðursvæði Vestfjarða hefur verið 5% fólksfjölgun síðustu ár.
• Vestfirðir er stóriðjulausir, hafa verið það og verða það áfram samkvæmt ákvörðun sveitarfélaga á Vestfjörðum. Álverið er því ekki á leiðinni og engin að bíða.
• Laxeldi er matvælaframleiðsla sem er háð ströngu umhverfismati.
• Í Súðavíkurskóla hefur fjölgað börnum undanfarið, sem er sjálfsagt einn besti mælikvarði á íbúaþróun sveitarfélaga. Einungis réttindakennarar hafa umsjón með bekkjardeildum við grunnskólann. Skólastjórinn lauk nýverið meitararagráðu við HÍ í kennslufræðum og stjórnum skóla.
• Sveitarfélagið er með gjaldfrjálsan leikskóla. Þar hefur börnum fjölgað undanfarið.
• Í Súðavík býr tónlistarmaður sem verður eitt af aðalnúmerum Gríms á AirWaves í ár, Mugison.

Vestfirðingar er því ekki óttaslegnir, eða hræddir. Hitt þó heldur. En Vestfirðingar ræða stöðu sína og baráttumál, sakna þeirra sem flytja burt og fagna þeim sem setjast að. Eins og önnur byggðalög.

Það er til að mynda fjörug umræða þessa dagana um íbúaþróun miðbæjarins, í samhengi við uppgang ferðaþjónustu á svæðinu. Skyldu íbúar miðbæjarins vera hræddir og óttaslegnir. Eru íbúar miðbæjarins orðnir svo veikgeðja að þeir væru ginnkeyptir fyrir þriðja álverinu? Nei, þar mæta menn sjálfsagt verkefninu af festu og ábyrgð. Eins og Vestfirðingar.

En sjálfsagt að hafa áhyggjur af geðlagi Vestfirðinga.

Irónían í orðum Gríms er kannski sú að á meðan Grímur hefur áhyggjur af laxeldi á Vestfjörðum, situr hann í hljóðstofu í rvk sem er föðmuð af tveimur kraftmiklum álverum.

Það hafa margir komið að uppbyggingu Vestfjarða. Þeim hefur farnast misjafnlega. Það veit Grímur, sennilega er það sú vitneskja sem truflar hann í viðtalinu. Hann veit betur.

Vestfirðingar taka sinn tilvistadans við undirleik örlaganna. Stundum eru hreyfingarnar þungar og kraftmiklar, og stundum léttar og dúnleikandi.

En aldrei verður óttinn dansfélagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 16.7.2016 - 12:13 - FB ummæli ()

Ísafjarðarbær 150 ára – hugleiðing og kveðja

Ég er giska 7 ára á leiðinni vestur. Framundan er sumardvöl hjá frændfólki. Fram að þessu hafði ég lært að veröldin getur verið hættuleg. Bílarnir, kallarnir, sjórinn og allt þetta hitt sem feður og mæður eru verndandi fyrir.

Mánuður á Ísafirði og viðhorfið hafði breyst.

Ég labbaði sjálfur niður í bæ og keypti mér snúð með hörðu súkkulaði…og kringlu. Maður lifandi hvað kringlur er vont fyrirbæri nema fyrir vestan. Þar eru þær bakkelsi guðanna. Ég lá fram á bryggjukantinn í Hnífsdal, veiddi manna og húkkaði kola. Hjólaði síðan heim í einfaldri röð, Steini á undan til að láta mig vita af stórum bílum.

Viðhorfið hafði breyst. Lífið var frelsi, veröldin víð og ævintýrin sönn.

Ég er giska 19 ára borgarbarn á leiðinni vestur. Föðurlaus tinkarl í leit að hjarta. Framundan síðasti leggur menntaskólagöngunnar, knattspyrna og þetta sem rúnar alla í framan í tímans rás; ástin, átök og ábyrgð. Stór ákvörðun að flytja vestur og sumpart erfið. Kannski verður engin ákvörðun stærri en sú besta sem þú tekur í lífinu.

Ísafjörður varð mitt leiksvið næstu árin.

Það er engin ástæða að læðast með það sem satt er. Þessi ár fyrir vestan eru mér ekki bara ógleymanleg, ég er vegna þeirra.

Kom með tóman poka.

  • Fór sem stúdent.
  • Fór sem reynslumikill knattspyrnumaður.
  • Fór með tónlist í eyrunum og gítar í kjöltunni.
  • Fór með vini sem duga þar til lífið segir stopp.
  • Fór með félagsmál og pólitík í beinmergnum.
  • Fór með skýra hugmynd um hver ég vildi verða, hvert ég vildi fara.

Viðhorfið hafði breyst. Ég hafði breyst.

Ég er 31 árs á leiðinni vestur á Ísafjörð. Ég er að fara að ljúka knattspyrnukaflanum, loka hringnum. Hér fékk ég tækifærið, hér varð ég fyrst fyrirliði, hér lýk ég sem fyrirliði.

Ég er enn fyrir vestan.

Ég er auðvitað smátt korn í tímaglasi Ísafjarðarbæjar. Eitt af þúsundum sem bærinn hefur nært og nostrað við. Sumir staldra stutt við, sumir allt lífið.

Takk fyrir hjartað. Til hamingju með afmælið.

150 ár er afar merkilegur áfangi fyrir hvert bæjarfélag. Ísafjarðarbær hefur glæsta sigra, þungar sorgir, magnaða sögu ólíkra þéttbýliskjarna, stórbrotna menningararfleið og iðandi íþróttalíf í sínum sögu handritum.

Hlutverk Ísafjarðarbæjar í sveitarfélagaflóru Vestfjarða er afar mikilvægt. Hvort sem litið er til stjórnsýslu, menningar eða íþrótta þá er Ísafjarðarbær kompás sem önnur sveitarfélög taka sitt mið af.

Ísafjarðarbær er heimsbær sem hefur í sinni þroskasögu gert veröldina að sínum áhrifavaldi. Þessara áhrifa gætir síðan í lífi og starfi annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum, hefur dýpkað þau og gert sterkari. Fyrir það verður seint þakkað nægilega.

Fyrir hönd Súðavíkurhrepps þakka ég Ísafjarðarbæ fyrir samfylgdina, óska sveitarfélaginu blessunar um ókomin ár og kalla kveðjuna yfir: Ísafjarðarbær lengi lifi, húrra!

Gleðilegt afmæli.

Pétur G. Markan
Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.6.2016 - 09:47 - FB ummæli ()

Vestfirðir í kastljósi ríkisstjórnarinnar

Á ríkisstjórnarfundi þriðjudaginn 31. maí var tillaga forsætisráðherra um nefnd, Vestfjarðarnefnd, sem ætti að vinna aðgerðaráætlun fyrir Vestfirði samþykkt. Nefndinni verður ætlað að starfa í samneyti við önnur ráðuneyti og Fjórðungssamband Vestfirðinga.

Þessari tillögu forsætisráðherra og samþykkt ríkisstjórnarinnar er tekið fagnandi af Fjórðungssambandi Vestfirðinga, hér eftir nefnt FV, enda tilurð og forspil nefndarinnar runnið undan rifjum FV. Þann 15. febrúar segir svo í fundarsamþykkt FV:

“ Stjórn FV óskar eftir að ríkisstjórn skipi nefnd um aðgerðir á Vestfjörðum sem lúti að fjárfestingu, verkefnum stofnana og búsetuskilyrðum á Vestfjörðum. Meginmarkmið er að skapa aðstæður í samfélögum og atvinnulífi til að geta nýtt auðlindir svæðisins og skapa vöxt til framtíðar en með sjálfbærni að leiðarljósi. Skipan nefndarinnar verði með þeim hætti að í henni sitji að lágmarki þrír fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum. Komi einn fulltrúi frá skilgreindum atvinnu og þjónustusvæðum á Vestfjörðum, það er, einn frá norðursvæði, einn frá suðursvæði og einn frá sveitarfélögum á Ströndum og Reykhólahreppi.“

Það er því ánægjuefni að undirbúningur nefndarinnar sé komin af stað með samþykki ríkisstjórnarinnar. Eins og kemur fram í bókun stjórnar FV er gert ráð fyrir að lágmarki þremur fulltrúum frá sveitarfélögum á Vestfjörðum. Það þýðir að aðkoma Vestfirðinga verður tryggð í vinnu nefndarinnar, sem og þau verkefni sem FV hefur unnið að verði höfð að leiðarljósi.
Fjórðungssamband Vestfirðinga ber miklar vonir til að afurð nefndarinnar verði nægilega kröftug til að hafa afgerandi jákvæð áhrif á þá byggðaþróun sem átt hefur sér stað á Vestfjörðum undanfarið. Þau verkefni sem stjórn FV nefndi í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar eru skýr, afmörkuð og hafa hvert og eitt burði í sér til að vera leikbreytir, úr vörn í sókn.

Það er afar ánægjulegt að forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson ætli sér að setja Vestfirði undir sitt kastljós. Fjórðungurinn hefur kallað og ríkisstjórnin svarað.

Um þessa ánægjutilfinningu má hafa mörg orð. Hér verður reynt að lýsa henni í fáum orðum. Í hinu víða samhengi landsbyggðarinnar má segja að í þessu sértæka verkefni vakni von um að meiri pólitískur kraftur fari í byggða- og landsbyggðamál á næstu misserum. Málefni landsbyggðarinnar færist úr hugmyndafræði hjálparstarfs yfir í markvissa uppbyggingu landsins, þar sem byggðajafnrétti, hagsemi og sjálfbærni ráða för.

Ef sjónarhornið er þrengt að Vestfjörðum þá hefur fjórðungurinn verið í vörn, sem hefur aðeins gefið eftir, með tilfallandi ágjöf og pressu. Neikvæð íbúaþróun, minnkandi verðmætasköpun og mædd hagvaxtarþróun sem fylgir ekki landsmeðaltali er lýsing á ástandi sem lætur nærri. Ástandi sem er langt frá eðlilegt fyrir jafn gjöfult svæði. Með eðlilegu inngripi og átaki hins opinbera verður þessari þróun hrundið til baka. Ánægjan felst í því upphafi sem nefndin getur markað.

Það er afar mikilvægt að næstu skref verði fumlaust og markviss, nefndin komi hið fyrsta saman og leggi fram öfluga aðgerðaráætlun fyrir komandi haust. FV mun setja sína dáðustu menn í nefndina sem munu leggja til þekkingu, seiglu og aðhald, svo hvergi verði kvikað frá markmiðum og loforðum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.1.2016 - 12:11 - FB ummæli ()

Sameiginlegir hagsmunir

Það er fagnaðarefni þegar að góðar fréttir berast vestur frá Alþingi Íslendinga.

Nú er það staðfest að 15 milljónum hefur verið varið á fjárlögum næsta árs til að kosta undirbúningsvinnu við hringtengingu raforku Vestfjarða.  Það vel og þessu ber að fagna.

Hringtenging raforku á Vestfjörðum er lykilatriði og ein af forsendum fyrir því að hér verði viðsnúningur í atvinnulífi og menningu. Snúið verði frá þeirri þróun sem lýst í skýrslu byggðastofnunnar, þar sem fjallað er um hagvöxt landshluta 2009 – 2013, en þar segir m.a.;

„Mest dróst framleiðsla saman á Suðurnesjum og á Vestfjörðum frá 2009 til 2013, eða um 11-12%. Einkum virðist vera ástæða til þess að hafa áhyggjur af þróun mála á Vestfjörðum. Samtals hækkuðu launagreiðslur þar 10% minna en laun á landinu öllu. Á sama tíma fækkaði fólki á Vestfjörðum um 5%. Vísbendingar eru um að höfuðatvinnugreinin, sjávarútvegur, standi höllum fæti í þessum landshluta. Framleiðsla hefur lengi dregist saman á Vestfjörðum, dráttur í sjávarútvegi virðist vera meginskýringin á falli framleiðslu á Vestfjörðum undanfarin ár, en þar hafa byggingar, fjármálaþjónusta og skyldar greinar einnig dregist mikið saman.“

Lýsing skýrslunnar talar einfalt og skýrt mál. Hér þarf átak og samhentan vilja til breytinga. Vestfirðingar eiga auðlindir, og nú þarf átak til að treysta og byggja upp innviðina svo hér verði hægt að nýta þær til fullnustu.  Skapa hér kröftugri aðstæður til athafna og menningar, fjölgunar og allrahanda hagvaxtar.

Hringtenging raforku á Vestfjörðum spilar þar langan og fallegan sólókafla í tónverki sem verður söngur Vestfjarða inn í komandi framtíð.

Hringtenging Vestfjarða mun án efa veita stórum fjárfestingarverkefnum verkefnum brautargengi, eins og komið hefur fram í atvinnuuppbyggingarumræðu síðustu missera.  Uppbygging innviða svæðisins er forsenda nýrra tækifæra í atvinnumálum Vestfjarða.

Uppbygging atvinnumála á Vestfjörðum snýst ekki um einstök sveitarfélög eða einstaka menn. Heldur einstakt svæði, Vestfirði.  Hér viljum ala manninn, fjölga okkur og rækta framtíðina. Til þess þurfum bærilegar aðstæður, til jafns við aðra landsmenn.

Framundan er samráðsfundur sveitarfélaga á Vestfjörðum. Þar verður væntanlega rætt af festu um raforkumál Vestfirðinga, þá hringtengingu Vestfjarða.  Hér þurfum við að tala einni röddu, enda sameiginlegt hagsmunamál okkar allra, fyrir einstakt svæði.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.11.2015 - 16:42 - FB ummæli ()

Um draum um straum, byggðajafnrétti eða sjálfstæði.

Árið 1984 var vinnu við hringtengingu háspennulínu í kringum landið lokið. Við sama tækifæri sagði þáverandi forsætisráðherra að næsta verkefni væri að koma Vestfjörðum í hringsamband. Gott ef hann nefndi ekki mögulega atvinnuuppbyggingu í leiðinni sem því myndi fylgja.

Svo leið tíminn.

Fólkið beið og tíminn leið.

Árið 2015 er farið að sjá í endann á sjálfur sér og ef guð lofar tekur árið 2016 við. Og við höldum áfram að ströggla. Kveinum þegar rafmagnslaust er. Þusum þegar þolanlegt er. En erum aldrei jafnfætis öðrum landshlutum þegar kemur að grunngerð og stoðkerfi. Aldrei.

Krafa Vestfirðinga er einföld og skýr; Við viljum búa við sömu tækifæri, sömu grunngerð og sama stoðkerfi og aðrir landshlutar. Ölmusur afþakkaðar. Jafnræðis krafist. Byggðajafnréttis!

Í samþykktri ályktun á síðasta Fjórðungsþingi Vestfjarða kom eftirfarandi fram: „60. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Patreksfirði 2.-3. október 2015 krefst þess að ríkisstjórn og Alþingi leggi strax til sérstakt fjármagn til að vinna kerfisáætlun fyrir raforku- og gagnaflutninga á Vestfjörðum. Meginmarkmiðið er að tengja virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, og aðra hugsanlega virkjunarkosti í Ísafjarðardjúpi, við öll byggðarlög á Vestfjörðum. Virkjun Hvalár verður þannig forsenda nýrrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu um leið og afhendingaröryggi raforku er tryggt.“

Setjum ályktunina inn í vestfirskan raunveruleika. Vestfirðir búa við mikið magn fjölbreyttra náttúruauðlinda. Ein þeirra er kalkþörungur. Lifandi rauðbleik vera sem þrífst m.a. í Ísafjarðadjúpi. Með tímanum situr eftir hvít stoðgrind sem er rík af kalki og öðrum steinefnum. Ný verðmæti, ný störf og ný tækifæri.

Nú eru menn og fjárfestar tilbúnir að virkja þessa auðlind, fjárfesta í henni, skapa verðmæti og störf. Svæði sem sárlega vantar hagvöxt, verðmætasköpun og jákvæða íbúaþróun og býr við seilingarfjarlægð við auðlindina. Er ekki lausnin fundin? Það er allt klárt. Stærsta einstaka fjárfesting inn á vestfirskt efnahagssvæði um áratugabil. Sennilega sú stærsta í sögunni.

Nei.

Stutta svarið er það að Vestfirðir búa ekki við sömu aðstæður og aðrir landshlutar.

Vestfirðir búa ekki við einfaldar grunnaðstæður til að vinna úr sínum eigin auðlindum.

Það vantar að tryggja afhendingu raforku. Verkefnið þarf mest 10 mw. Í Álftafirði, Súðavík er ekki hægt að afhenda nægilega raforku. Dreifikerfið er getulaust, gamalt og grautfúið. Þessi náttúruhreina guðsgjöf sem við Íslendingar eigum svo nóg af að ef við viljum selja restina til Bretlands er það ekkert mál. Það virðast allir eiga nóg nema Vestfirðir…og Bretland. En menn eru samt að ræða úrlausnir fyrir Bretana. Það er ekki hægt að tryggja afhendingu á 10 mw til vinnslunnar. Þar stranda vestfirsk verðmæti, vestfirskur hagvöxtur og vestfirsk störf. 10 mw!

Setjum 10 mw í samhengi. Sveitarfélög á norðurlandi vestra vinna að álversverkefni. Orkuþörf verkefnisins er 206 mw. Hvernig geta menn verið svona brattir með orkukrefjandi verkefni? Jú, þeir búa við sambærilega grunngerð og meirihluti landsmanna, lesist, allir aðrir en Vestfirðingar, og því eiga þeir möguleika á að afhenda þetta magn. Ég fagna því og krefst þess sama.

Að tengjast orkulandsneti Íslands í báðar áttir, að búa við sambærilegt dreifikerfi og eiga sama möguleika á atvinnuuppbyggingu sem nýtir vestfirskar auðlindir í sinni sköpun er ekki áskorun til stjórnvalda, heldur valkostur. Það eða vestfirskt sjálfstæði.

Vestfirskt sjálfstæði…

…eða bylting í byggðajafnrétti sem hefst á hringtengingu háspennulínu til  Vestfjarða samhliða virkjunarframkvæmdum í Hvalá og vonandi tengdum virkjunum.

Byrjum á rafmagninu og svo bíða aðrir málaflokkar spenntir eftir úrlausn.

Mér er alvara og þekki tæplega 7 þúsund aðra sem eru að hugsa það sama.

Höfundur er sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og stjórnarmaður í Fjórðungssambandi Vestfjarða.

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is