Mánudagur 14.2.2011 - 11:04 - 10 ummæli

Að vakna með flær

Sá sem sefur með hundum vaknar með flær segir máltæki eitt allgott.
Í síðustu viku festi vefmiðillinn Pressan kaup á Eyjunni eða keypti upp samkeppnina eins og íslenskir viðskiptamenn hafa oft þurft að gera því þeir geta í raun ekki starfað í samkeppnisumhverfi heldur kjósa fákeppni og einokun sé þess nokkur kostur.
Í eigendahópi Pressunnar/Eyjunnar má nú kenna fríðan flokk. Þar er fremstur Björn Ingi Hrafnsson fyrrum stjórnmálamaður sem starfaði ötullega að eigin hag um árabil á kostnað Reykvíkinga. Þar er blaðafulltrúi Framsóknarflokksins og fótgönguliði Steingrímur Ólafssonog Rúnar Hreinsson náinn samstarfsmaður Björns Inga og kosningastjóri. Aftar í fylkingunni glittir svo í kámug trýnin á fyrrum útrásarvíkingum bakvið slæður eignarhaldsfélaga. Ég geri fastlega ráð fyrir því að nýr og stærri  vettvangur geri þeim kompánum kleift að verja þá sem lögðu Ísland í rúst, af meiri atorku en áður og ná til enn fleiri auðsveipra sálna sem vilja trúa því að glæpamenn séu rangindum beittir.
Ljóst er að rekstur vefmiðla skilar litlum hagnaði eins og tíðindi af miklum taprekstri Pressunnar hafa sýnt og ljóst að kennitöluskipti, annað þrautreynt ráð viðskiptasnillinga, er skammt undan ef ekki þegar hafið. Menn vilja eiga fjölmiðla til þess að hafa áhrif, ljúga skipulega og verja hendur sínar. Um þetta eru þegar nokkur dæmi á Íslandi dagsins í dag og samruni Pressu og Eyju er dapurlegur áfangi á niðurlægingartímum fjölmiðla.
Bloggferill minn hefur staðið með hléum frá ársbyrjun 2004 og hér á Eyjunni  frá mars 2009. Með vísan til orðatiltækisins í upphafi pistilsins læt ég þessu samstarfi lokið. Ég óska þeim sem eftir verða velfarnaðar í störfum því hér er margt sómafólk vel pennafært með heilbrigða sýn á samfélagið. Það verður hver og einn að finna sína aðferð til að losna við óbragðið úr munninum.
Ég er farinn.

Hér eftir munu bloggskrif mín birtast á þessari gömlu slóð: undir fyrirsögninni: Um þetta vil ég segja eftirfarandi:

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.2.2011 - 16:23 - 13 ummæli

Hver er maðurinn?

Mér áskotnaðist þessi mynd á dögunum. Hún er úr fórum Skúla Skúlasonar sem var einn af frumkvöðlum í ferðamennsku á Íslandi. Skúli tók þátt í starfi Ferðafélags Íslands frá stofnun en starfaði einnig með Nafnlausa félaginu sem var fyrirrennari FÍ frá 1916 til 1926.
Ég held að maðurinn lengst til vinstri sé Björn Ólafsson síðar ráðherra, við hlið hans stendur Einar Viðar, þá kemur óþekktur maður en næstur honum áminnstur Skúli Skúlason blaðamaður og fararstjóri. Maðurinn lengst til hægri gæti verið Helgi Jónasson frá Brennu en ég er samt ekki alveg viss.
Myndin er  tekin í einhverri ferð með Nafnlausa félaginu og má sjá merki félagsins á bílnum. Hún er ekki merkt með neinu ártali en freistandi að halda að hún sé tekin 1920-25 eða þar um bil. Ef einhver ber kennsl á manninn í miðjunni, vill votta að Helgi frá Brennu sé lengst til hægri eða yfirhöfuð leggja orð í belg verður því fagnað. Hvaða bíltegund er þetta t.d.?

Uppfært:

Ég er orðinn sannfærður um að maðurinn lengst til hægri er Tryggvi Magnússon og sennilega er „maðurinn“  í miðjunni Katrín Viðar, eiginkona Einars.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.1.2011 - 13:46 - 28 ummæli

Í skjóli óttans

Ákvörðun Hæstaréttar er áfall fyrir þjóðina í margvíslegum skilningi. Hún er áfall fyrir landskjörstjórn, áfall fyrir ríkisstjórnina og áfall fyrir forsætisráðherra og áfall fyrir orðspor Íslands. Hún er vandlega undirbúinn lítill sigur í stærra stríði milli þeirra sem vilja breytingar og hinna sem vilja óbreytt ástand.
Þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnar um að stjórnlagaþingið megi ekki taka af þjóðinni sé ég ekki í fljótu bragði hvernig á að færa þjóðinni stjórnlagaþing svo trúverðugt megi teljast. Verði boðað til nýrra kosninga í skugga þessa álits mun frambjóðendum fækka verulega og kjörsókn líklega verða enn minni en áður. Auk þess má vænta þess að „lyfseðlar“ verði notaðir í mun ríkari mæli en áður þar sem mönnum er betur ljóst en áður hve vægi fyrsta sætis á hverjum seðli er mikið.
Sumum finnst freistandi spara fé og tíma með því að  stytta sér leið framhjá áliti Hæstaréttar með því að láta þingið skipa nefnd sem hinir áður kjörnu fulltrúar sætu í. Um slíka ráðstöfun verður aldrei neinn friður og kallar einungis fram réttmætan vafa varðandi umboð fulltrúanna og leggur óvinahernum vopn í hendur.
Hefðu menn raunverulegan áhuga á því að leyfa lýðræðinu að marka för þá stæði núverandi ríkisstjórn upp úr stólum sínum og boðað yrði til nýrra kosninga. Jafnframt því segði landskjörstjórn af sér og sýndu þannig allir aðilar í verki einhvern vilja til þess að binda endi á fúsk og framtaksleysi sem liggur eins og mara yfir þjóðfélaginu.
Með þessari ákvörðun Hæstaréttar brast enn ein stoðin sem hélt upp tiltrú og trausti þjóðarinnar á stjórn og stjórnkerfi. Enn eitt ljós slokknaði og myrkrið varð svartara.
En það eina sem sameinar þingmenn allra flokka er óttinn við álit fólksins í landinu, óttinn við þá nauðsynlegu hreinsun sem kosningar gætu kallað fram. Þeir óttast okkur.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.1.2011 - 14:37 - 46 ummæli

„Hvít eymd“ í Hveragerði

Viðtal DV við Sigríði B. Baldvinsdóttur nýnasista í Hveragerði hefur vakið nokkra athygli. Sigríður fer með þekktar klisjur um yfirburði hvíta kynstofnsins og fátt um þær að segja. Kynþáttahyggja er sérstæð blanda af fáfræði, vænisýki og hreinni nesjamennsku og öflugasta lúsameðalið gegn henni er opinská umræða, fræðsla og upplýsing.
Sigríður og félagar hennar hafa með sér samtök sem kalla sig Blóð og heiður/Combat18 Ísland. Svolítið gúggl leiðir í ljós að erlendar fyrirmyndir eru bæði ofbeldisfull og hættuleg félög og þess vegna ætti ef til vill að gefa því gaum ef þau ná einhverri fótfestu hér. Sigríður og pótintátar hennar mættu með nasistafána á Austurvöll í mótmælum í haust en vildu þá lítið tjá sig við fjölmiðla.
Í febrúar 2001 birti Helgarblað DV viðtal sem ég tók við Hlyn Frey Vigfússon þá varaformanna Flokks íslenskra þjóðernissinna. Hér er tengill á viðtalið. Hlynur var dreginn fyrir dóm vegna ummæla sem lét falla um „Afríkunegra“ og dæmdur í sektir sem sjá má hér.
Þá var eins og nú nokkuð deilt um hvort blaðið ætti að hleypa skoðunum Hlyns og félaga hans fram í dagsljósið. Okkar skoðun var sú að með því væri starfsemi nasista gerð sýnileg og það yrði flokknum að fjörtjóni því skoðanir af þessu tagi ættu engan hljómgrunn og þyldu ekki opinbera umræðu. Þetta reyndist rétt. Flokkurinn sem boðað hafði framboð í kosningum hvarf eftir birtingu viðtalsins og uppkvaðningu dómsins enda fáir aðrir en Hlynur Freyr og tvö systkini hans sem vildu gangast við því að styðja hann.
Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa ekki viðrað teljandi ofstæki á þessum sviðum. Frjálslyndi flokkurinn hefur gengið lengst íslenskra flokka í því að nudda sér utan í hugmyndir þjóðernisofstækis og kynþáttahyggju en ekki uppskorið fylgi í samræmi við það. Sigríður sú sem DV ræðir við var t.d. á lista flokksins í síðustu kosningum. Þótt stundum gæti mikils ofstækis í feisbókarþvaðri og upphrópunum nafnleysingja sbr. umræðu um moskubyggingar í Reykjavík sér þess ekki stað að fólk sé fúst til að kjósa flokka með nasisma og útlendingahatur á stefnuskránni.

Þess vegna er það líklega rétt hjá DV að birta þetta viðtal við Hvergerðinginn Sigríði þó ekki væri nema til þess að viðra óloftið úr skúmaskotum fáfræði og heimsku. Hvort Sigríður megi eiga von á dómi er svo allt annað mál. Hvort rétt sé að dæma menn fólk fyrir skoðanir sínar er önnur og flóknari spurning. Hér er tilvitnun í dóminn yfir Hlyni Frey frá 2001.
„Dómurinn taldi háttsemi hans ekki verndaða af stjórnarskrárbundnu tjáningafrelsi samkvæmt 73. grein stjórnarskrárinnar né af 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu enda væri tjáningarfrelsið ekki skilyrðislaust. Takmörkun á því fælist m.a. í að menn yrðu að ábyrgjast framsetningu skoðana sinna fyrir dómi og því mætti setja ákveðnar skorður til verndar ákveðnum gildum m.a. vegna réttinda eða mannorðs annara. Í mannréttindasáttmálanum væri áréttað að ekkert ákvæði hans yrði túlkað á þann veg að þau heimili að öðrum réttindum yrði eytt eða takmörkuð. „Virðing fyrir mannlegri reisn allra manna jafnt er sá grundvöllur sem alþjóðlegir mannréttindasáttmálar og stjórnarskrár lýðræðisríkja byggja á og vernda og þeirri vernd verður ekki vikið til hliðar með vísan til tjáningarfrelsisákvæðisins.“
Netið gleymir engu og best að ljúka þessu með tilvitnun í Sigríði Bryndísi Baldvinsdóttur sem kemur upp þegar nafn hennar er gúglað:
„maður getur ekki opnað morgunnblaðið nema að þar sé mynd af vælandi negrabarni, af hverju er ekki meira af fréttum frá okkar heimshluta. Það sem er að gerast í nágrannalöndunum tildæmis. Er hvít eymd ekki fréttnæm?“
Ljóst er af viðtalinu við Sigríði að ekki þarf að fara nema austur í Hveragerði til þess að finna hvíta eymd.


Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.1.2011 - 23:03 - 40 ummæli

Ekki hæft til birtingar

Þriðja tölublað annars árgangs Fréttatímans kom hér inn um lúguna í morgun líkt og aðra föstudaga. Fréttatíminn er nýtt vikublað sem ég les oftast mér til skemmtunar og fróðleiks því margt í efnisvali og framsetningu blaðsins fellur mér vel. Þar vinna nokkrir langreyndir blaðamenn og fréttasnápar og sumir þeirra hafa skipað sér í fremstu röð í sínu fagi og það með réttu.
Í þessu þriðja tölublaði er viðtal við Þór Gunnlaugsson meintan læknamiðil. Hann er  lögregluþjónn á eftirlaunum sem virðist hafa snúið sér að því að heilun og lækningastarfsemi.  Hann markaðssetur starfsemi sína af talsverðri útsjónarsemi í viðtalinu með því stilla sér upp við hlið þekkta vörumerkja á þessu sviði á borð við Þorleif frá Bjarnarhöfn og Einar Jónsson frá Einarsstöðum sem voru hvor á sinni öld rómaðir fyrir meinta hæfileika sína.
Hinn fyrrum löggæslumaður segist ferðast eftir hugboðum þvert um heiminn til að lækna fólk og  klykkir svo út með því að segjast hafa fengist talsvert við ofvirk börn.
Fólki er auðvitað frjálst að trúa því sem það vill en mér finnst ekki fallegt að blekkja foreldra veikra barna til sín með þessum hætti. Fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega eiga ekki að tala við skottulækna eins og hæfileikar þeirra séu raunverulegir. Með því er verið að ala á hjátrú og vekja fólki falskar vonir.
Anna Kristine blaðamaður sem skrifar umrætt viðtal bítur svo höfuðið af skömminni með því að fullyrða í lok viðtalsins að loddarinn hafi læknað hana af verk í baki. Mér finnst þetta vera andstyggileg sölumennska og blekkingar af verstu tegund.
Á Íslandi í dag þurfum við mjög að halda á fjölmiðlum sem við getum treyst og Fréttatíminn hefur fram til þessa getað sagst vera án tengsla við þá sem steyptu landinu í glötun og fyrir vikið notið meira trausts en önnur blöð. Þetta traust má blaðið ekki misnota með því að bera svona þvætting á borð fyrir lesendur sína.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.1.2011 - 16:42 - 17 ummæli

Í nafni hinnar þöglu þjóðar

Margir hafa orðið til þess að lýsa áhyggjum sínum af þeirri hörku sem oft gætir í opinberri umræðu hin síðari misseri. Ýmis vefsvæði þar sem menn segja skoðanir sínar umbúðalaust vekja athygli fjölmiðlamanna sem henda ummælin á lofti. Um þetta eru mörg dæmi og nú síðast vakti óhug og skelfingu bréf sem Þórarinn nokkur sendi aðstoðarmanni ráðherra Höllu Gunnarsdóttur.
Bréf eins og það og ýmislegt sem menn skrifa á vefsíður kann að vekja óhug en umbúðalaus skrif hafa þó þann kost að lesendur sjá lóðbeint inn í hugskot höfundar.  Þeir geta síðan dregið sínar eigin ályktanir af því sem höfundur setur fram. Oft á tíðum þarfnast það ekki sérstakrar túlkunar því þegar menn tala beint úr pokanum þá birtist heimsmynd þeirra og viðhorf án mótunar af pólitískri rétthugsun eða kurteisi.

„Við sem erum raunverulega þjóðin og viljum hafa frelsi til að ferðast, frelsi til athafna, frelsi til framkvæmda, frelsi til skoðana, þurfum að standa upp og taka til máls. Við megum ekki láta einhverja menntahópa, listafólk, rithöfunda eða aðra taka okkar málefnalega umhverfi og jafnvel tala í okkar nafni … Við þetta venjulega fólk (þjóðin innan F4x4) sitjum síðan uppi með vandamálið og þurfum að takast á við það.“

Þessar línur hér að ofan urðu á vegi mínum á vef jeppaklúbbsins 4×4. Höfundur þeirra er Guðmundur G. Kristinsson sem er framarlega í félagsstarfi þess klúbbs og formaður nýstofnaðra samtaka sem kalla sig Ferðafrelsi. Mér finnst engin sérstök ástæða til að túlka þennan texta því mér finnst hann varpa afar skýru ljósi á heimsmynd og viðhorf Guðmundar og félaga hans.
Ég hef löngum vitað að vaskir baráttumenn í þessum ágæta klúbbi telja sig vera í stríði við ýmsa embættismenn og náttúruverndarmenn en ég vissi ekki fyrr en ég las þessi orð Guðmundar að flest menntafólk þjóðarinnar, listamenn og rithöfundar væru öfugu megin víglínunnar og teldust ekki til þjóðarinnar.
Sennilega er rétt að taka fram að ekki er víst að allir félagsmenn deili viðhorfum Guðmundar því um líkt leyti skrifar einn félagsmanna, Klemens Klemensson eftirfarandi af öðru tilefni:
„Ég verð að viðurkenna að stundum skammast ég mín fyrir hversu yfirgangur 4×4 er mikill.“
Aðeins fullgildir félagsmenn hafa skrifaðgang að vef klúbbsins og þessum ummælum Klemens mótmælti enginn en einn félagi tók undir þessa skoðun hans.  Af því mætti án efa draga ýmsar ályktanir þótt það verði ekki gert hér.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.1.2011 - 15:47 - 1 ummæli

Nýtt og betra líf

Það er auðvelt að strengja áramótaheit en erfiðara að fylgja þeim eftir. Ég er tíður gestur í ónefndri líkamsræktarstöð og sé að þessa dagana er góð aðsókn að stöðinni. Ef ég vildi skopast að samborgurum mínum þá myndi ég segja að hinir sakbitnu hamstrar sem troða tröppuvélar í svitabaði væru á harðaspani undan aukakílóum og sukki jólanna.
Þeir sem henda gaman að hjarðhegðun gefa sér þær forsendur að þegar kemur fram í febrúar leggist hverflynd alþýðan að konfektbaukum sínum á ný og gleymi strengdum áramótaheitum þar til á sama tíma að ári.
Ég held að margir skilji vel að lífið er langhlaup og geri sér grein fyrir því að ekki þýðir að breyta lífsstíl sínum í einhverjum krampakenndum átökum. Í þeim efnum er sígandi lukka best og betra að fara hægt og komast á leiðarenda.
Ferðafélag Íslands hélt í gærkvöldi kynningarfund vegna átaks sem fels tí því að ganga á 52 fjöll á ári. Rúmlega 300 manns mættu sem ber vott um hinn mikla og sívaxandi áhuga fólks á fjallgöngum og útivist. Á gamlársdag lauk samskonar átaki sem staðið hafði allt árið 2010. Þar kom í ljós að þótt 52 fjöll á ári sé býsna mikil skuldbinding þá voru rúmlega 100 manns sem skiluðu glæsilegum árangri og stunduðu göngurnar af miklu kappi. Margir tugir náðu 100% mætingu.
Átakið hefst á laugardaginn með göngu á Úlfarsfellið. Það er ekki sérlega hátt fjall en það er eitt skref á langri leið. Á listanum yfir fjöllin 52 sem FÍ ætlar að ganga á eru bæði Hvannadalshnúkur og Öskjuhlíð svo segja má að allt fjallróf Íslands sé tekið fyrir.
Á árinu sem er nýliðið var alveg sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með einbeittum fjallgöngumönnum og konum sem tóku þátt í Eitt fjall á viku með FÍ. Við sem fengumst við leiðsögn hópsins kynntumst honum betur en mörgum öðrum hópum og fengum sjá marga taka ótrúlegum framförum og breytast úr ólögulegum sófakartöflum í stælta göngugarpa með fjaðurmagn í spori.
Ég get því ekki annað en hlakkað til þess að fylgja næsta hóp í gegnum verkefni ársins.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.1.2011 - 14:53 - 4 ummæli

Eftirlit fyrir hvern?

Hver dagur flytur nýjar fréttir af óhóflegri díoxínmengun þar sem sorpi er enn brennt við frumstæðar aðstæður.  Í ljós kemur að Ísafjörður var ekki eini staðurinn þar sem eitri langt yfir mörkum var dælt yfir grunlausa íbúa. Það var einnig gert á Kirkjubæjarklaustri og í Vestmannaeyjum.
Umhverfisstofnun hefur altsvo í þrjú ár vitað um heilsuspillandi starfsemi þessara úreltu brennsluofna en virðist ekki hafa séð ástæðu til þess að aðhafast neitt. Eitthvað hefur verið pískrað um málið í eyru sveitarstjórnarmanna en langlundargeð Umhverfisstofnunar er með ólíkindum. Það er ekki fyrr en nú- þremur árum eftir að hinar skuggalegu mælingar lágu fyrir sem stofnunin drattast til þess að gefa umræddum stöðvum tveggja ára frest til úrbóta.
Þetta er gert í skugga uppljóstrunar um eitrið frá Funa og lokunar í kjölfarið. Enginn veit hvað Umhverfisstofnun hefði viljað þegja lengi um heilsuspillandi aðstæður án  þess að láta almenning vita með einhverjum hætti.
Eitt af því sem orsakaði margumtalað bankahrun á Íslandi var sofandi og lélegt eftirlit með fjármálastofnunum. Ef marka má þagnarhjúp og kæruleysi Umhverfisstofnunar vegna óhóflegrar díoxínmengunar þá er ástandið engu betra hjá þeim stofnunum sem eiga að hafa eftirlit með mengun. Það getur ekki verið í lagi að þegja yfir því árum saman að heilsuspillandi mengun sé langt yfir hættumörkum án þess að aðhafast.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.1.2011 - 09:45 - 7 ummæli

Yfirhylming á Ísafirði

Heldur dapurlegt er að sjá opinbera embættismenn og kjörna fulltrúa á hlaupum undan sannleikanum eftir að upp komst að banvænni mengun hafði árum saman verið dælt yfir grunlausa íbúa Ísafjarðar frá sorpbrennslunni í Funa.
Díoxín er stórhættuleg og þrávirk mengun. Hið opinbera eftirlit var á hendi Umhverfisstofnunar sem vissi um mengunina en aðhafðist ekkert. Hinir kjörnu fulltrúar í bæjarstjórn segjast hafa vitað um mengunina og upplýst íbúana. Mjög erfiðlega gengur að finna staðfestingu á því að það sé rétt. Flest bendir til þess að þagnarsamsæri innan héraðs og utan hafi ríkt um málið.
Undanfarin ár hefur oft mátt sjá Skutulsfjörð standa hálffullan af bláum reyk frá Funa á lognkyrrum sólardögum. Þá daga hafa flestir verið úti við að njóta veðurblíðunnar. Í þeim hópi hafa verið nokkrir sem vissu að í reyknum leyndist þrávirk og heilsuspillandi mengun langt yfir mörkum.
Umhverfisstofnun hefur algerlega brugðist sjálfsögðum skyldum sínum í þessu máli. Harðorðar áminningar í kansellístíl duga skammt meðan eitrið hleðst upp í umhverfinu og matvælaframleiðsla fer fram í skugga reyksins. Svo virðist sem stofnunin hafi ekki talið það skyldu sína að koma upplýsingum um hættuna áfram til íbúanna og leyft bæjaryfirvöldum að draga lappirnar árum saman og hunsa kröfur um úrbætur.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íbúar á Ísafirði taka strútinn á óþægileg mál sem varða heilsufar íbúa á svæðinu. Aldrei hefur verið hlustað á áhyggjur íbúa af mengun frá sorpbrennslunni hvorki meðan hún fór fram á Skarfaskeri við Hnífsdal né eftir að brennslan var flutt þaðan á lognkyrrasta staðinn á svæðinu í Engidal. Árum saman bjuggu Ísfirðingar við óheilnæmt neysluvatn, mengað af yfirborði. Um það ríkti einnig þagnarbindindi með virkri þátttöku allra heimamanna sem létu sér nægja að skopast að því að þeir sem hefðu alist upp við vatnið á Ísafirði hefðu hákarlsmaga.
Ísafjörður er ekki eini staðurinn á Íslandi sem hefur búið við mengun frá opinni sorpbrennslu. Sú spurning hlýtur að vakna hvort Umhverfisstofnun sitji á banvænum upplýsingum sem varða líf og heilsu íbúa víðar á landinu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.12.2010 - 15:21 - 3 ummæli

Uppgjör ársins

Í morgun heyrði ég mann segja í útvarpi allra landsmanna að á þessum tíma væri gott að líta um öxl og horfa fram á veginn. Þetta er samlíking sem er svolítið erfitt að skilja bókstaflega en ég held ég viti hvað hann meinti.
Ég hef bloggað með nokkrum hléum frá 2003 og hér á Eyjunni frá apríl 2009.  Á liðnu ári birtust hér pistlar um eitt og annað en flest sem fært var í tal hér tengist með einhverjum hætti útivist, náttúruvernd og ferðalögum. Eins og fara gerir deildu ekki allir skoðunum mínum og á köflum hvessti dálítið í athugasemdakerfinu.
Á nýju ári hyggst ég halda uppteknum hætti og skrifa um það sem vekur áhuga minn þegar mér finnst ástæða til. Í farvatni umræðunnar eru nokkur málefni sem líkleg eru til þess að vekja áhuga lesenda síðunnar. Áfram verður deilt um verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs og samþykkt hennar. Áform Umhverfisráðuneytis um stækkun griðlands í Þjórsárverum munu væntanlega ekki fara fram alveg hávaðalaust frekar en fyrirhuguð uppfærsla á náttúruverndarlögum. Ennfremur skilst mér að á döfinni sé breyting á umferðarlögum sem muni vekja upp andmæli einhverra.
Við þetta má svo bæta að líklega verður árið 2011 metár á sviði ferðaþjónustu og líklega verða ýmis atriði sem lúta að móttöku ferðamanna og umgengni þeirra við landið til umræðu.

Að þessu sögðu þakka ég lesendum mínum fyrir samfylgdina á gamla árinu. Ég ætla að fagna áramótum að hefðbundnum hætti en gera eina undantekningu á. Ég ætla ekki að kaupa flugelda framleidda í kínverskum þrælabúðum löðrandi í mengandi eiturefnum og sulla þeim yfir sjálfan mig og nágranna mína. Ég ætla að fá reikningsnúmerið hjá björgunarsveitinni sem ég versla venjulega við og leggja þar beint inn þá upphæð sem venjulega hefur farið til flugeldakaupa. Það verður mitt framlag til þess að draga úr sóðaskap, hávaða og mengun á gamlárskvöld.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is