Þriðjudagur 30.04.2013 - 11:47 - FB ummæli ()

Tveir kostir Framsóknar

Fyrstu skref Sigmundar Davíðs við myndun ríkisstjórnar eftir að hann fær umboð til þess úr hendi forseta síðar í dag verða fróðleg. Þau munu í senn sýna vel hversu grunduð áform hans um stjórnarmyndun eru, og um leið ráða töluverðu um samningsstöðuna gagnvart Sjálfstæðisflokknum.

Hann á í raun tvo kosti. Hinn fyrri er að sigla beint í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Það myndi undirstrika einbeittan ásetning hans um að mynda ríkisstjórn með honum. Það væri síður en svo óeðlilegt miðað við niðurstöður kosninga.

Það væri hins vegar skýr vísbending til annarra flokka um að hann hefði ekki áhuga á mögulegu samstarfi við þá. Slíkt flagg af hálfu Framsóknar gæti þrengt leiðir sem hún hugsanlega þyrfti að kanna síðar í ferlinu – ef Sjálfstæðisflokkurinn er ekki jafn óðfús að komast í ríkisstjórn hvað sem það kostar og Bjarni er að gefa vaxandi merki um.

Samhliða styrkti það stöðu Sjálfstæðisflokksins, sem hefði þá giska vel á hreinu að hann væri eini valkostur Framsóknar, og gæti jafnframt ýtt undir frumkvæði annarra flokka til að sprikla svolítið – ef svo ber undir.

Má af því tilefni rifja upp að Sjálfstæðisflokkurinn fékk í gær skýrt signal frá Bjartri framtíð, sem erfitt var að túlka öðru vísi en svo að nýi flokkurinn gæti alveg hugsað sér þriggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokki – ef slík staða kæmi upp á taflborðinu.

Hinn kostur Sigmundar Davíðs er sá að fara sér að engu óðslega og kanna afstöðu allra flokka áður en hann leggur í siglinguna í Herrans nafni og fjörutíu.

Um leið fengi Framsókn væntanlega betri yfirsýn yfir alla möguleika sína til að tryggja sér forsætisráðherrastólinn í fjögur ár og til að ná fram Framsóknarleiðinni – en á því hvílir allur trúverðugleiki Sigmundar Davíðs og flokksins til framtíðar. Þannig væri líka forræði Framsóknar undirstrikað og Sjálfstæðisflokkurinn settur “på plads” strax í upphafi.

Í stjórnmálum er nefnilega ekkert sjálfgefið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is