Miðvikudagur 15.6.2011 - 21:20 - Rita ummæli

Fyrstu heimildarmyndir Sjónvarpsins.

Mér var sagt frá því nú síðdegis að í Síðdegisútvarpinu í dag hefði verið sagt að ég hefði staðið að upphafi gerðar heimildarmynda í Sjónvarpinu.

Þetta er ekki rétt því að áður en ég gerði myndina „Hamarinn sem hæst af öllum ber“ fyrir 40 árum man ég að Hinrik Bjarnason gerði stutta heimildarmynd um trillusjómanninn Andrés á Patreksfirði, sem smíðaði bátinn sinn sjálfur, – alltaf kallaður Drési.

Einnig minnir mig að Magnús Bjarnfreðsson hafi gert tvo þætti í kringum 1970, annars vegar mynd sem hét „Öræfaperlan“ og snerist um Friðland að Fjallabaki og hins vegar mynd um Öræfasveitina.

Og ef ég man rétt gerði Ólafur Ragnarsson fyrstu heimildarmyndaröðina, en það voru nokkrir þættir um ferðalag Sjónvarpsmanna um Ísafjarðardjúp sem þá var að mestu vegalaust og því varð að sigla þar milli fjarða.

Í kjölfar þess kom síðan þáttaröðin „Heimsókn“ á árunum 1973-77 sem var helsta heimildamyndaviðfangsefni mitt á þeim árum en auk þess man ég að Magnús Bjarnfreðsson gerði nokkra þessara þátta og Rúnar Gunnarsson einn í félagi við mig.

Árið 1980 gerði Sigrún Stefánsdóttir afar vandaða og vinsæla þáttaröð undir heitinu „Þjóðlíf“ en „Stiklur“ hófu göngu sína árið eftir.

Vona að ég fari rétt með þetta svo að haft sé það er sannara reynist.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2011 - 12:03 - Rita ummæli

Þarf Geir að eiga óvini ?

Þarf Geir H. Haarde að eiga óvini meðan hann á „vini“ á borð við Hannes Hólmstein Gissurarson ?

Ef þið lesið pistil Hannesar á pressan.is hlýtur þessi spurning að koma upp.

Vitna að öðru leyti í blogg mitt í morgun um dularfullt „hvarf“ tenginga bloggpistla við pistil Hannesar á mbl.is og í fyrri pistla mína um mál Geirs, þar sem kemur fram sú skoðun mín, að eins og mál hafi skipast varðandi Landsdóm, sé best að máli Geirs ljúki sem fyrst með því að hann fái um frjálst höfuð að strjúka.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.6.2011 - 22:24 - Rita ummæli

Raunveruleg utanríkisstefna Íslands í 70 ár.

Eftir einn mánuð verða liðin 70 ár síðan Bandaríkjaher steig hér á land.  Með því var í raun brotið blað í utanríkisstefnu Íslands þótt opinberlega væri haldið fast við hlutleysi Íslands og að Bandaríkin væru að nafni til hlutlaus í stríðinu.

Bandaríkin stunduðu þá vaxandi hernaðaraðgerðir til að verja skip sín, sem sigldu til Bretlands með nauðsynjar og hergögn sem þau lánuðu Bretum með einstæðum kjörum sem nálguðust það að vera gjöf.

Í lok stríðsins stofnuðu þær þjóðir sem lýst höfðu yfir stríði við Öxulveldin til Sameinuðu þjóðanna, en Íslendingar vildu ekki segja neinni þjóð stríð á hendur og tóku því ekki þátt í því.

Eftir stríðið óttuðust margir íslenskir áhrifamenn að Íslendingar gætu beint eða óbeint orðið aðilar að stríðsaðgerðum ef þeir gengju í Sameinuðu þjóðirnar og litu þá einkum til valds Öryggisráðsins sem til að grípa til hernaðaraðgerða ef ráðist yrði með hervaldi gegn aðildarþjóðum.

Fyrir bragðið urðu Íslendingar ekki aðilar fyrr en 1946.

Ótti við að tengjast hernaðaraðgerðum reyndist á rökum reistur því að á vegum Sameinuðu þjóðanna var sent fjölþjóðalið til að berjast við Norður-Kóreumenn, sem höfðu ráðist á Suður-Kóreu sumarið 1950.

Árið áður höfðu Íslendingar gengið í NATÓ sem var hernaðarbandalag en taldi sig vera varnarbandalag, sem starfaði í svipuðum anda og Sameinuðu þjóðirnar gagnvart hugsanlegu árásarstríði á hendur einni NATÓ-þjóð eða fleirum.

Krafa um þjóðaratkvæði var sterk en ekkert ríki, sem gekk í NATÓ, taldi aðstæðurnar leyfa það. Ef maður sökkvir sér niður í heimsástandið 1948-49 er auðvelt að sjá af hverju það var ekki talið gerlegt.  Þegar kommúnistar frömdu í raun valdarán í Tékkóslóvakíu 1948 í skjóli þess að landið var á „áhrifasvæði“ þeirra og lokuðu landleiðinni frá Vestur-Þýskalandi til Berlínar sést glögglega þegar rýnt er í samtímaheimildir, að heimurinn var í raun talinn ramba á barmi þriðju heimsstyrjaldarinnar sem gæti hafist hvaða dag sem væri.

Loforðið frá 1949 um að aldrei yrði herlið á Íslandi á friðartímum varð að engu sumarið 1951 þegar gerður var í skugga Kóreustríðsins varnarsamningur við Bandaríkin sem skóp herstöðina á Miðnesheiði.

Kóreustríðið var eldfimt og Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi vildi í alvöru nota kjarnorkuvopn gegn Kína, sem hafði blandast í Kóreustríðið.  Varð Truman forseti að reka hann til þess að afstýra því að allt færi úr böndum.

Í átökunum á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar voru á grundvelli ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sendar hersveitir þangað og gerðar loftárásir, meðal annars á Belgrad, þar sem árás á Sjónvarpshúsið var harðlega gagnrýnd.

Lögspekingar hafa velt vöngum yfir því hvort Íslendingar hafi í raun verið þátttakendur í þessum hernaði, einkum eftir að hliðstæða gerðist 2003 þegar ráðist var með herlið inn í Írak og ályktun Öryggisráðsins borin fyrir því, þótt flestir telji nú að innrásin hafi í raun verið í blóra við ályktunina, af því að hún var gerð á fölskum forsendum, meðal annars þeirri að Írakar réðu yfir gereyðingarvopnum, sem aldrei fundust.

En hliðstæðan nær ekki yfir þann gerning tveggja íslenskra ráðherra að Ísland samþykkti að vera talið upp i hópi „viljugra þjóða“ til innrásar í Írak.

Með þeirri yfirlýsingu var gengið skrefinu lengra en nokkru sinni fyrr og erfitt að álykta annað en að með því hafi Ísland orðið að hreinum stríðsaðila þótt aðeins ein íslensk kona starfaði þar undir heraga innrásarliðsins.

Nú stendur NATO fyrir loftárásum í Líbíu á þeim forsendum að verið sé að verjast árásum spillts og grimms einvalds á óbreytta borgara á grundvelli ályktunar Sameinuðu þjóðanna.

Þar eins og í Írak, á Balkanskaga og í Kóreu var aldrei lýst yfir stríði eins og reglan var yfirleitt fram á miðja síðustu öld þegar hervaldi var beitt.

Búið er að útvatna muninn á „stríði“ og „vopnuðum átökum“ eða „vopnaðri íhlutun“ og andi George Orwells hvað varðar nafngiftir svífur yfir vötnunum.

Við gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland verður að taka mið af raunveruleikanum í heimsmálum þegar einstök ákvæði eru orðuð varðandi utanríkisstefnu landsins og afstöðu Íslendinga til hernaðar.

Allt frá 1941 hafa Íslendingar haldið stíft fram sérstöðu friðelskandi herlausrar þjóðar.

Samt höfum við háð þrjú „þorskastríð“ við Breta og aðeins við beittum vopnum, það er fallbyssum, við að stöðva togara eins og Everton, en Bretar nýtt sér yfirburði í skipum og vopnabúnaði og þá hótun sem í því fólst.

Í lokin brást hernaðaraðferð þeirra vegna þess að herskipin voru ekki smiðuð til að þola árekstra við íslensk varðskip og skuttogara og breski flotinn því að misssa skip sín eitt af öðru, vegna þess að þeir þorðu ekki að beita byssunum af ótta við afleiðingarnar varðandi aðild Íslendinga að NATO og varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.

Þetta er raunveruleikinn í þeirri skák sem tefld er á mörkum og friðsamlegra  og hernaðarlegra aðgerða eða blöndu af þeim sem hafa þarf í huga þegar velt er vöngum yfir stöðu Íslands í hörðum heimi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.6.2011 - 18:48 - Rita ummæli

Orkunýtinn iðnaður? Nei, það má ekki.

Á sjöunda áratug liðinni aldar fór að hljóma í eyrum landsmanna hugtakið „orkufrekur iðnaður“ í sambandi við þá möguleika sem væru á Íslandi til að selja orkuna í fallvötnum landsins.

Í framhaldinu reis álverið í Straumsvík og nú var farið af stað ferli, sem ekki virtist mega stöðva, því að við framkvæmdirnar við álver og virkjanir sköpuðust störf  og ef hætt var að virkja, þurfti þessi vinnukraftur sem og verktakarnir að leita að öðrum verkefnum.

Af þessu leiddi að sífellt þurfti að selja meiri orku, stækka álver og fjölga þeim og virkja helst í samfellu:  Búrfellsvirkjun 1, Sigölduvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Blönduvirkjun, Sultartangavirkjun, Búrfellsvirkjun 2, Vatnsfellsvirkjun, Kvíslaveita, Nesjavallavirkjun, Svartsengisvirkjun, Hellisheiðarvirkjun, Reykjanesvirkjun, Kárahnhjúkavirkjun.

Einn af helstu ráðamönnum þjóðarinnar orðaði þetta vel í mín eyru fyrir tólf árum: „Það verður að virkja stanslaust því að annars verður kreppa og atvinnuleysi.“

„En hvað gerist þegar búið verður að virkja allt, sem virkjanlegt er?“ spurði ég.

„Það er ekki okkar mál, heldur mál þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi“ var svarið.

Allt fram á okkar dag hefur þetta verið hugsunin og við hverjar einustu virkjanaframkvæmdir hafa glumið orðin“ orkufrekur iðnaður!“ sem fyrir löngu eru farin að hafa svipuð áhrif og orðið „kjöt“ á hunda Pavlovs sem slefuðu þótt ekkert kjöt kæmi.

En aðstæður allar hafa gjörbreyst síðan um 1970 þegar ég var í hópi þeirra sem slefuðu þegar orðin „orkufrekur iðnaður“ voru nefnd sem trúarsetning.

Orkuþörfin og virkjanahugmyndirnar hafa margfaldast í veldisáhrifum (exponental) og í landi, sem býr yfir takmarkaðri orku og heimi sem þyrstir í orku, er það einungis græðgisbruðl að halda enn áfram að hrópa „orkufrekur iðnaður!“ og ætla sér að selja þessa dýrmætu og takmörkuðu orku á útsöluprís með hrikalegum umhverfisspjöllum en vísa frá kaupendum sem nýta orkuna betur, passa betur inn í virkjanamöguleika okkar og skapa fleiri og betri störf á orkueiningu en „orkufrekur iðnaðar.“

Það er dapurlegt að enn skuli vera hrópað „orkufrekur iðnaður“ í umræðu um orkumál .

Engum virðist detta í hug að í orðanna hljóðan: „.orkufrekur..“ felst væri að nota orðin „orkunýtinn iðnaður“. bruðl og að nær væri að nota orðin „orkunýtinn iðnaður“.

Nei, það má ekki nefna. Hugsun skammtímagræðgi og bruðsl, sem skóp Hrunið, ræður ríkjum sem aldrei fyrr.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.5.2011 - 23:10 - Rita ummæli

Misskilningur sérfræðingsins.

Ég heyrði í Speglinum áðan ágætt viðtal við erlendan fræðimann um stjórnarskrár og gerð þeirra, sem ætlar að halda fyrirlestur í Háskólanum á morgun.

Í viðtalinu kom margt fróðlegt fram en einn misskilningur virtist samt hafa komist inn hjá honum þegar hann lýsti yfir efasemdum sínum með það að „venjulegt fólk“ gæti samið stjórnarskrá, – slíkt væri aðeins á færi sérfræðinga.

Sérfræðingurinn virðist ekki hafa kynnt sér nokkur mikilvæg atriði.

1. Stjórnlaganefnd vann mjög gott starf til undirbúnings verki Stjórnlagaráðs og naut leiðsagnar og umsagna fræðimanna í fremstu röð.  Settar upp skema með þremur mismunandi útgáfum af stjórnarskrárákvæðum, í fyrsta lagi núverandi stjórnarskrá sem hinn erlendi sérfræðingur taldi raunar um margt ábótavant, og síðan valkostur A og valkostur B, sem kæmi sem greina sem ný ákvæði eða endurbætt.

2. Í stjórnlagaráði sitja fjórir lögfræðingar með fjölbreytta reynslu,  tveir fyrrverandi alþingismenn, fyrrverandi laganemi og fleiri, sem hafa góða reynslu af því að fást við þjóðfélagsmál, þeirra á meðal tveir menn sem voru árum saman í forystu í stéttasamtökum.

Einnig háskólaprófessorar, annar þeirra í hagfræði en inn í hana fléttast lögfræði. Einnig sá Íslendingur sem mesta þekkingu hefur á kosningalögum og útfærslu kosninga bæði hér og erlendis.

Fleira háskólamenntað fólk er í ráðinu, en það er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að í ráðinu speglast mismunandi sjónarmið ólíks fólks sem kemur úr grasrótinni á mörgum sviðum þjóðlífsins.

3. Allan tímann í starfinu hefur verið leitað umsagna fjölda „sérfræðinga“ og annarra, sem geta miðlað af reynslu sinni til þess að finna veilur, ef þær eru, og færa til betri vegar.

4. Inn til okkar streyma ábendingar og ráðleggingar sem gott er að fá.

5. Fjöldi erlendra stjórnarskráa hefur verið fínkembdur til þess að bera þær saman og draga af þeim lærdóma.

Í lokin verður reynt að búa svo um hnúta að stjórnarskráin standist „álagspróf“ af ýmsu tagi eftir því sem tími gefst til.

Að sjálfsögðu er aldrei hægt að segja til um það fyrirfram hve fullkomið eða ófullkomið þetta verk verður.  En víst er að því fer fjarri að „sérfræðingar“ séu fjarri og verið sé að setja saman eitthvert stjórnarskrárbull alþingis götunnar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.5.2011 - 23:07 - Rita ummæli

Fleiri hliðar á málinu.

Sú niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar að eigandi bílskúrs eigi ekki einkarétt á að leggja bíl í aðkeyrslu að honum getur varla verið algild. Sé svo getur sú staða komið upp að eigandi bíls komist ekki með hann út úr skúrnum vegna þess að einhver annar í húsinu hefur lagt bíl sínum þannig að hann loki fyrir útleiðina úr skúrnum.

Mig grunar að málaferli út af svona málum komi  helst upp við hús þar sem íbúðir eru fáar.

Í stórum fjölbýlishúsum eru oftast húsfélög þar sem íbúar hafa samþykkt reglur um þetta en þar sem það hefur ekki verið gert sýnist vera kominn hvati til þess í framhaldi af þessum dómsmálum að samdar verði sérstakar reglur fyrir hvert hús.

Vandinn er hins vegar sá að aðkomufólk, sem er stundum gestir í húsunum leggur oft fyrir framan bílskúra og finnst ekkert athugavert við það, allra síst eftir að dæmt hefur á þann veg sem gert hefur verið.

Þegar svona gerist við stór fjölbýlishús getur verið ómögulegt fyrir þann sem á eða leigir bílskúrinn að finna út hver hafi lagt fyrir framan hann og getur í sumum tilfellum verið ómögulegt að koma bíl inn í bílskúrinn eða ná bíl út úr honum.

Landlægt tillitsleysi Íslendinga veldur því að sífellt koma upp vandamál af þessu tagi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.5.2011 - 21:43 - Rita ummæli

Jónas Elíasson og Sverrir Þóroddsson.

Þegar Þorbjörn heitinn Sigurgeirsson prófessor stundaði merkar segulmælingar úr lofti á áratugnum notaði hann til mælinganna flugvél af gerðinni Cessna 206, TF-STP, sem var eigu Sverris Þóroddsonar.

Sverrir var upprunninn í sviffluginu sem og Þorgeir Pálsson og ég flaug vélum Sverris talsvert á þessum árum auk þess sem ég dró svifflugmenn á Íslandsmótinu 1970 og kynntist því þessum mönnum vel.

Einn af samstarfsmönnum Þorgeirs í Háskólanum var Jónas Elíasson prófessor.

Í okkar fámenna þjóðfélagi geta svona tengsl útskýrt ýmislegt svo sem það að síðan í gosinu í fyrra hefur verið mikil umræða á milli okkar fjórmenninganna um skort á því að nota tækni og vísindi til að gera flugbann markvissara og betra og spara þannig ferðaþjónustu og flugfélögunum hundruð milljarða króna tjón.

Jónas Elíason er maður ákaflega frjór í hugsun og virðist aldurinn engu máli skipta í því sambandi.

Fyrstu vikurnar í gosunum í fyrra notaði ég mikið vél Sverris, TF-TAL, því að FRÚin var í fáránlega dýrri og tímafrekri skoðun vegna nýrra reglna frá EASA. TF-TAL er af gerðinni Cessna 206 eins og TF-STP var.

Jónas var fljótur að átta sig á því að vísindin gætu leyst úr flugbannsmálunum og hannaði í snarheitum mælitæki, sem með nýjustu tölvu- og GPS-tækni getur mælt öskumagn, kornastærð og feril flugvélarinnar sem flýgur með tækin auk ýmislegs annars.

Sverrir er snillingur í véltækni og hannaði ótrúlega einfalda uppsetningu og tengingu tækjanna.

Sverrir flaug síðan með þessi mælitæki á  TF-TAL og gerðar voru mjög athyglisverðar mælingar sem bentu til þess að flugbönnin miklu væru að mestu leyti óþörf ef tæknin yrði notuð til að rannsaka ástand loftsins á flugleiðunum, sem málið snerti.

Sjálfur gerði ég tilraun til að fljúga einn á TF-FRÚ í þurru öskumistri og einnig í 20 sekúndur í öskulituðu regni.

Ég tók þetta mál hvað eftir annað upp á bloggsíðum mínum en það var eins og að skvetta vatni á gæs.

Þetta var grátlegt því að  svo var að sjá að aldrei hefðu þurft að loka íslensku flugvöllunum.

En þá kom babb í bátinn. Bornar voru brigður á mælingarnar vegna þess að tækin væru nýsmíð og hefðu ekki verið vottuð.

Þetta kostaði allt fé og málið hefði strandað ef Jónas hefði ekki getað fengið styrk frá háskólanum í Dusseldorf til þess að kosta þetta að hálfu.  Finnst mér það leitt að íslensk yfirvöld skyldu ekki sjá sóma sinn í því að standa að þessu fyrir smáaura miðað við það tap, sem flugbönnin ollu.

Þegar Grímsvötn byrjuðu að gjósa leit ekki út fyrir að hægt yrði að þoka þessu máli áfram, því að ekki var búið að votta tækin tvö sem nú lágu fyrir og það .þýska ekki komið til landsins.

Síðastliðinn mánudag vildi svo heppilega til að þýska  tækið kom til landsins á siðustu stundu og þar með var hægt að taka upp stórbættar mælingar.

Það var ekki einasta að nú voru fyrir hendi tvö tæki, vottuð i bak og fyrfr, heldur gáfu tilraunir til kynna fullkomið samræmi á milli niðurstaðnanna úr mælingum þeirra.

Á mánudag flaug ég með mælingamenn frá Selfossi í miklu öskumistri og í björtu veðri í aðflugsleiðir Keflavíkurflugvallar og mjög merkilegar niðurstöður fengust sem ég hef rakið á bloggi mínu á mbl. is

Í fyrradag kom síðan öskuspá frá London sem að öllu óbreyttu hefði orðið til þess að allir flugvellirnir á Íslandi hefðu lokast í meira en sólarhring.

Í viðtölum vegna gossins á RUV og Bylgjunni  þennan morgun kom ég inn á þetta mál og var gagnrýndur fyrir,  svo og þessar útvarpsstöðar að láta mig komast upp með þennan „þvætting“.

En um miðjan daginn snerist dæmið óvænt við.

Isavia leitaði til Jónasar og Sverris og á þriðjudagskvöld fór Þóroddur sonur Sverris í flug vestur til Ísafjarðar og um flugstjórnarsvið Keflavíkur og Reykjavíkur, alls fjögur mælingaflug.

Niðurstöðurnar sýndu óyggjandi að óhætt var að opna þessi loftrými þá um morguninn og síðan tóku við tvö mælingarflug sem nauðsynleg voru í gær til að halda völlunum opnum.

Ég átti að vera á fundum í Stjórnlagaráði en hefði ég farið á þá hefðu vellirnir lokast !

Ég spái því að frumkvæði Jónasar og Sverris eigi eftir að skapa grunn að miklu vandaðri vinnu varðandi ösku frá gjósandi eldfjöllum íslenskum, en spáð er mun meiri tíðni eldgosa á næstu áratugum en verið hefur.

Ég hef reynt að segja þessa sögu af frumkvæði þeirra Jónasar og Sverris eftir getu og undrast að á þá skuli yfirleitt ekki minnst í fjölmiðlum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.5.2011 - 08:59 - 1 ummæli

Ekkert lært frá því í fyrra ?

Ég var í hópi þeirra sem hafði sitthvað að athuga við það hvernig staðið var að lokun íslenskra flugvalla í Eyjafjallajökulsgosinu.  Við tölvur úti í London sátu menn með forrit, sem tóku mið af flugatviki í blindflugi við miðbaug og gáfu út boð og bönn á Íslandi þegar hér var heiðskírt veður og kaldur og þurr vindur.

Á hinn bóginn tölu tölvusnillingarnir í góðu lagi að nota þessa flugvelli einmitt þá tvo daga þegar öskufall, öskumistur og svifryk af þess völdum voru mest á suðvesturhorninu !

Sagt var að menn ætluðu að læra af þessu en svo virðist ekki vera. Nú er hægt að fljúga frá Keflavík og Reykjavík í alheiðríkju og sveigja suður fyrir öskurykið á leið til Evrópu með fullu útsýni, sem tryggir það að ekki verði flogið inn í neinn suðrænan öskukökk í hitabeltisskýi.

En sett er bann við flugi  rétt eins og í fyrra. Kannski verður því aflétt eins og í fyrra þegar met öskufall verður við sunnanverðan Faxaflóa.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.5.2011 - 21:32 - Rita ummæli

Hinar fráleitu fyrirsagnir um Bubba og Davíð Oddsson.

Flestir kannast við risafyrirsögnina með myndinni af Bubba: „Bubbi fallinn!“  Bubbi fór að sjálfsögðu í mál, því að fyrirsögnin í DV gaf ekki aðeins í skyn að hann væri „fallinn“ gagnvart neyslu fíkniefna, heldur fór fyrirsögnin á útsíðu í Fréttablaðinu, sem flestir lesa, og í báðum blöðunum þurfti að lesa nánar um þetta í „smáaletrinu“ og raunar að fletta Fréttablaðinu til að fá útskýringu, sem fólst í því að hann væri byrjaður að reykja á ný.

Hann hætti því raunar nær samstundis og hefur verið reyklaus síðan. Aðdróttunin, sem birtist í aflvegaleiðandi fyrirsögninni gat komið sér illa fyrir Bubba vegna missis trausts manna á honum.

Nú sé ég fyrirsögn á eyjunni: „Davíð Oddsson bakkaði á stúlku“ og líkt og í fyrirsögninni um Bubba er allt annað gefið í skyn en er sannleikanum samkvæmt því að auðvitað dettur engum annað í hug sem les fyrirsögnina en að Davíð hefði bakkað bíl á stúlku.

Raunar hefði það út af fyrir sig ekki verið nein frétt þótt svo hefði verið, nema að stúlkan hefði slasast mikið og Davíð stungið af.

Þegar lesið er nánar um þennan stórmerka viðburð að Davíð Oddsson hefði bakkað á stúlku kemur í ljós að hann rakst í þrengslum í búð á stúlku, sem var þar að versla eins og hann.

Er þetta einhver minnst frétt sem ég hef nokkru sinni séð og hafa þó margar verið lítilfjörlegar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.5.2011 - 12:07 - Rita ummæli

Heilu og hálfu þingflokkarnir ekki lengur ráðherrar?

Hvað eftir annað hefur það gerst í áranna rás að heilu og hálfu þingflokkarnir hafa verið bæði þingmenn og ráðherrar.

Auk þess hefur reglan smám saman orðið sú að nær öll frumvörp, sem hljóta samþykki, eru stjórnarfrumvörp sem ráðherrar mæla fyrir.

Smám saman hefur Alþingi orðið að afgreiðslustofnun þar sem minnihlutinn hefur verið nær óvirkur.

Með þeim tillögum, sem nú sjást í svonefndu áfangaskjali í Stjórnlagaráðs, er gert ráð fyrir að ráðherrar verði að afsala sér þingmennsku á meðan á ráðherradómi þeirra stendur og að þeir hafi ekki tillögurétt í þinginu, heldur verði frumvörp, sem ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar beri fram, borin fram af fulltrúum viðkomandi þingnefnda eða formönum þeirra.

Við þetta mun vinnsla frumvarpa flytjast meira inn í þingið en nú er og vægi þingsins þannig aukast gagnvart framkvæmdavaldinu, auk þess sem hugmyndir í Stjórnlagaráði um hlutverk þingforseta munu auka vægi hans og þar með þingsins í heild.

Allar þessar hugmyndir viðraði Íslandshreyfingin í kosningabaráttunni 2007 en þá voru allir svo uppteknir af græðgisbólunni að þetta fékkst ekki rætt.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is