Miðvikudagur 30.12.2015 - 11:40 - FB ummæli ()

Mellumynd

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er mynd sem gengur fram af mér . Hún virðist nógu sakleysisleg þó. Tveir æðstu ráðamenn þjóðarinnar blómum skrýddir og skælbrosandi ásamt ritstjóra Fréttablaðsins framan við kyrfilega merktar höfuðstöðvar 365.  „Gerðu viðskipti ársins“ segir í myndatexta þar sem vísað er til  samnings stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna að mati dómnefdar Markaðarins, Stöðvar 2 og Vísis.

Hér er skólabókardæmi um það hvernig hagsmunatengsl fjölmiðils og valdhafa tvinnast saman á einni mynd. „Mellumynd“ gæti einhver kallað þetta (afsakið orðbragðið). Hér má sjá fjölmiðil koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum, sem aftur njóta góðs af hinni jákvæðu birtingarmynd þeirra framan við vörumerki mikilsráðandi fjölmiðils.

Myndin er óþægileg fyrir unnendur frjálsrar fjölmiðlunar og opinnar umræðu. Hún vekur óþægilegar minningar frá aðdraganda Hrunsins þegar lofgjörðir um „sterka“ (hægri sinnaða) stjórnmálamenn og útrásarvíkinga fylltu forsíður blaða og tímarita.

Upplýsingaskylda fjölmiðla og óhlutdrægni þeirra er nauðsyn í lýðræðislegu þjóðfélagi. Fjölmiðlar hafa veigamiklu hlutverki að gegna, þeir hafa til dæmis athafnaskyldu (þó að fáir átti sig á því) þ.e. skyldu til að upplýsa um það ef stjórnvöld eða sterkir hagsmunaaðilar aðhafast eitthvað sem varðar almannahagsmuni. Þannig má með rökum segja að fjölmiðlar á Íslandi hafi verið samsekir stjórnvöldum í aðdraganda Hrunsins vegna skortst á gagnrýni sem birtist í meðvirkni (lofgjörð um útrásarvíkinga) og þögn um tiltekna hluti sem áttu sér stað í fjármálageiranum.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að það sé ekki aðeins skylda fjölmiðla að miðla áfram upplýsingum og hugmyndum heldur er það einnig réttur almennings að fá slíkar upplýsingar. Vart þarf að taka fram að slík upplýsingamiðlun þarf að vera óbrengluð af hagsmuna- og/eða velvildartengslum. Hún þarf auðvitað líka að vera óbrengluð af óvild eða andstöðu. Hún þarf einfaldlega að vera hlutlaus. Þannig bera fjölmiðlar ríkar skyldur í lýðræðis- og réttarríki. Einmitt þess vegna er mikilvægt að sjálfstæði fjölmiðla og óhlutdrægni sé hafið yfir allan vafa. Alltaf.

Í því ljósi er þessi mynd eitt það óþægilegasta sem ég hef séð lengi. Hún er hvorki hlutlaus né upplýsandi. Hún er áróður þar sem saman tvinnast hagsmunir valdhafanna og fjölmiðilsins. Samtrygging.

Litla Ísland.

 

Flokkar: Bloggar · Menntamál · Þjóðlíf og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is