Laugardagur 29.10.2016 - 09:50 - FB ummæli ()

Hver er fáviti?

Eyrún Magnúsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar pistil í blaðið í dag undir fyrirsögninni „Ekki vera fáviti háttvirtur þingmaður“.  Pistillinn er skólabókardæmi um ákveðna blaðamennsku sem ekki er hátt skrifuð í fjölmiðlafræðum en er því miður óþarflega áberandi í íslenskri umræðu. Hún einkennist af einfeldningslegum alhæfingum um menn og málefni – í þessu tilviki alþingismenn – þar sem allir eru lagðir að jöfnu. Allir eru fávitar.  Í lok greinarinnar býður blaðamaðurinn verðandi þingmönnum að meðtaka hennar viskuþrungnu lífsreglur sem tryggja eiga ímynd þeirra í starfi. Um það segir hún: „Sé þér illa við að fólk hafi þá ímynd af þér að þú sért fáviti skaltu: a) ekki vera fáviti, b) ekki haga þér eins og fáviti. Þetta á ekki að geta klikkað.“

Vá! Maður fellur bara í stafi.

Athygli vekur að orðin „ímynd“ og „ímyndarsköpun“ skuli vera leiðarstef í þessum hugleiðingum blaðamannsins. Hún virðist ekki gera ráð fyrir því að stjórnmál snúist um annað. Það er sorglegt en segir kannski líka sitt um sýn þessa tiltekna blaðamanns á lífið almennt og þá ekki síður hennar eigið hlutverk.

Tvennt vekur áhyggjur af þessu tilefni.

Í fyrsta lagi að blaðamaður skuli leyfa sér að tala til ákveðinnar starfsstéttar (ef hægt er að kalla alþingismenn stétt fólks) með þessum hætti. Við vitum að á kaffistofum landsins og í kommentakerfum samfélagsmiðlanna viðgengst eitt og annað – en maður hlýtur að gera meiri kröfur til þeirra sem starfa á fjölmiðlum.

Þá er það líka sjálfstætt áhyggjuefni að boðið skuli upp á svona einfeldningslega umræðu í stærsta prentmiðli landsins, sem þrátt fyrir afleita ritstjórnarpólitík hefur lagt metnað sinn í fagleg efnistök á frétta- og innblaðsdeildum, og hefur oft á tíðum verið fyrirmynd upprennandi blaðamanna. Í því ljósi er pistill Eyrúnar Magnúsdóttur hjákátlegt klámhögg.

Umræða af þessu tagi er skoðanamyndandi. Hún er forheimskandi, og hún er sorgleg á kjördegi. Reyndar finnst mér svo langt gengið stundum í því að ala á mannfyrirlitningu og fordómum í garð kjörinna fulltrúa á Alþingi Íslendinga að það geti grafið undan stjórnfestu og stöðugleika í landinu. Ég spyr: Hvernig væri komið fyrir skólastarfi ef svona væri talað um kennara almennt? Lækna? Embættismenn hins opinbera? Og hvernig væri komið fyrir fjórða valdinu ef þetta væri álit almennings á blaðamönnum? Svari hver fyrir sig.

Mér finnst tími til kominn að spyrna hér við fótum – minn síðasti starfsdagur á Alþingi er vel til þess fallinn að taka til varna fyrir kjörna fulltrúa. Starf þeirra er viðamikið, erilsamt, erfitt og ábyrgðarmikið. Í því felast engin forréttindi en mikill trúnaður sem þingmenn taka alvarlega. Pistill Eyrúnar Magnúsdóttur ber þess vitni að hún og aðrir sem tala í svipaða veru gera sér sáralitla grein fyrir því hvað felst í starfi alþingismannsins – hafa kannski ekki áhuga fyrir því heldur. Þess vegna fer lítið fyrir þakklæti og virðingu í garð þeirra sem fórna samveru með fjölskyldu og ástvinum, verja nánast öllum frítíma sínum og starfsorku í þágu almennings.

Þökk og virðing – þær eru systur góðvildar og fegurðar. Hvort tveggja skortir sárlega í íslenska samfélagsumræðu og hefur gert lengi.

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.8.2016 - 09:55 - FB ummæli ()

Ofurskatt á ofurlaun

Krafan um ofurskatt á ofurlaun er nú vöknuð á ný – af fullum þunga og að gefnu tilefni. Því hvað er til ráða þegar samþykktir eru  kaupaukar til starfsmanna fjármálafyrirtækja sem nema milljörðum króna í samfélagi þar sem barnafjölskyldur, láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar eiga varla í sig né á? Hvers konar samfélag er það sem horfir þegjandi upp á slíkan ójöfnuð?

Við getum heldur ekki sem siðað samfélag sætt okkur við það brjálæði að menn sem hafa það að aðalstarfi að hafa eignir af fólki og fyrirtækjum í umboði kröfuhafa, skuli fá í kaupauka tugföld árslaun verkamanns.

Brynjar Níelsson segir í Fréttablaðinu í dag að það sé ómögulegt fyrir löggjafann að hafa áhrif á þessa þróun. Ekki sé hægt að fara í „geðþóttaákvarðanir“ ef menn geri eitthvað sem „talið sé óæskilegt“ enda varði málið ekki almannahagsmuni eins og hann orðar það.

Ég mótmæli þessu. Málið varðar almannahagsmuni og það er hlutverk löggjafans að setja lagaramma um almenn ásættanleg skilyrði til að tryggja frið og sátt í samfélaginu. Það á ekkert skylt við geðþótta.

Ofurgreiðslur í kaupaukum eru ögrun við almennt velsæmi – þær ýta undir úlfúð og vinnudeilur, grafa undan jafnvægi og sátt í samfélaginu. Þeim hefur verið mótmælt af aðilum vinnumarkaðarins, þingmönnum og almenningi, því við viljum búa í siðuðu samfélagi. Að skattleggja slíka óráðsíu út af borðinu með ofurskatti á ofurlaun varðar þess vegna almannahagsmuni. Liggi auðæfin á lausu – sem augljóslega er raunin – þá ber okkur einfaldlega sem siðuðum mönnum að láta ríkissjóð sækja handa almenningi hlutdeild í slík auðæfi.

Hrunadansinn er hafinn aftur – 2007 einkennin eru öll uppi. Nema hvað nú getum við ekki látið sem við sjáum ekki hvað er að gerast. Að þessu sinni eigum við val um það að forða siðferðishruni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.5.2016 - 10:15 - FB ummæli ()

Nýtt millidómstig – girðingar og gryfjur

Nú liggur fyrir þinginu frumvarp um dómstóla, sem gerir ráð fyrir nýju dómstigi, Landsrétti sem verður þá millidómstig. Um er að ræða grundvallarbreytingu á réttarkerfi okkar, því hún felur í sér milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir efra dómstigi, sem hingað til hefur ekki verið. Ég tel þá breytingu mjög til bóta en hef áhyggjur af ýmsu öðru, enda þó að ég styðji málið í heild sinni. Í ræðu minni í gær drap ég á þeim helstu atriðum sem mér finnst ástæða til að halda til haga varðandi þetta mál. Áhyggjur mínar lúta ekki síst að skipan dómara og eftirliti með þeim.

Pólitísk afskipti af dómstólum

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ráðherra geti vikið frá niðurstöðu hæfnisnefndar við val á dómara með samþykki Alþingis. Þetta færir ráðherranum geðþóttavald í raun, því allir vita að ráðherra hafa alltaf meirihluta Alþingis á bak við sig. Það er þess vegna einfalt mál fyrir ráðherra að leggja tillögu fyrir þingið og fá hana samþykkta með einföldum meirihluta. Það býður his vegar upp á pólitísk afskipiti af dómstólum landsins bæði í sýnd og reynd, sem er afar óheppilegt. Ég hef þess vegna lagt fram breytingartillögu, ásamt öðrum fulltrúum stjórnarandstöðunnar í allsherjar- og menntamálanefnd, um að Alþingi þurfi að samþykkja slíkt frávik með auknum meirihluta, þ.e. 2/3 greiddra atkvæða í þingsal. Þetta skiptir miklu því það færir valdið frá ráðherra til þingsins og þýðir að ekki er hægt að gera víkja frá niðurstðu hæfnisnefndar nema augljósar og réttmætar ástæður ráði.

Akademísk einsleitni og eftirlit með dómurum

Það er tvímælalaus réttarbót að ná fram milliliðalausri sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi og að Hæstiréttur fái skýrar afmarkað hlutverk sem fordæmisgefandi og æðsti dómstóll í réttarkerfi okkar. Hins vegar hafa umsagnaraðilar varað við hættu á því að eftirlit og aðhald með dómurum kunni að skorta vegna þess hvernig búið er um skipan og starfshætti dómara. Til dæmis hefur verið bent á að rík áhrif sitjandi hæstaréttardómara á skipan nýrra dómara geti leitt til akademískrar og faglegrar einsleitni við réttinn. Ég tek undir þær viðvaranir. Ég tek líka undir þær ábendingar sem hafa komið fram m.a. í ársskýrslum umboðsmanns Alþingis að í lög skorti skýr ákvæði um eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna. Úr þessu þarf að bæta og breyta lögum um Umboðsmann Alþingis þannig að starfssvið hans og eftirlitsheimildir nái líka til stjórnsýslu dómstólanna. Nú er að störfum nefnd um nýja löggjöf um Umboðsmann Alþingis og vonandi mun hún taka á þessu. Þá er mikilvægt að jafnréttislöggjöfin gildi og sé að fullu virt varðandi skipan dómara.

Atgervisröskun

Þá tel ég ástæðu til að taka mark á ábendingum um fyrirsjáanleg vandamál samhliða skipan 15 nýrra dómara á einu bretti, eins og dómstólafrumvarpið gerir ráð fyrir. Svo mikil nýliðun á skömmum tíma leiðir óhjákvæmilega af sér mikla tilfærslu atgervis í dómarastétt sem hætt er við að geti kallað fram skort á tiltrú vegna reynsluleysis dómara í byrjun. Bent var á það fyrir nefndinni að vænlegra gæti verið að dreifa þeirri nýliðun í stétt dómara sem nauðsynleg er vegna frumvarpsins niður á fimm til tíu ára tímabil til að takmarka þau neikvæðu áhrif sem skortur á reynslu meðal dómara kynni að hafa.

Í þriðja lagi er rétt að benda á að breytingarnar sem frumvörpin mæla fyrir um eru allar mjög kostnaðarsamar. Það hlýtur að vekja upp spurningar um það hvort nauðsynleg fjármögnun hafi verið tryggð á þeim dýru breytingum á dómskerfi sem nú þegar á bágt með að valda þeim verkum sem því eru falin vegna fjárskorts.

Hætta á spillingu?

Í fjórða lagi má auðvitað draga í efa að með þeirri útfærslu sem þetta frumvarp og þessi frumvörp um dómstóla og millidómstigið fela í sér sé brugðist nógu tryggilega við þeirri gagnrýni sem Greco, samtök ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu, hafa sett fram á íslenskt dómskerfi í matsskýrslu um Ísland sem kom út árið 2013.  Í frumvarpinu er að finna sérstakan kafla um sérfróða meðdómsmenn og þar er einnig kveðið á um að dómarar skuli leitast við að viðhalda þekkingu sinni í lögum. Þetta er vissulega bót í máli, en vera kann að gagnrýni Greco gefi tilefni til umfangsmeiri viðbragða. Ég fæ ekki séð að frumvarpið bregðist fyllilega við ýmsum öðrum ábendingum Greci, t.. d. um hættuna sem fylgir því að einn og sami dómari geti sinnt svo til öllum dómsmálum á tilteknu svæði á Íslandi um margra ára skeið; um skort á opinberum siðareglum fyrir dómara; og um vöntun þess að dómarar hljóti skilvirka þjálfun og kennslu í siðferði, heiðarleika og því að greina og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfi.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að meiri umræða hefði þurft að fara fram um möguleika þess að reka mál á tveimur dómstigum í þriggja dómstiga kerfi, þ.e. um fyrirkomulag þess að mál geti farið nokkurs konar hjáleið milli héraðsdóms og Hæstaréttar án viðkomu í Landsrétti og hugmyndir um að tiltekin mál verði fyrst tekin fyrir í Landsrétti án viðkomu í héraði. En þessar hugmyndir eru að mínu mati þess verðar að þær séu metnar og skoðaðar nánar.

Þrátt fyrir þær áhyggjur sem hér eru reifaðar tel ég engu að síður nauðsynlegt að gera þær úrbætur sem hér er verið að leggja til á núverandi dómskerfi þannig að hægt sé að ná fram markmiðum um milliliðalausa sönnunarfærslu og skerpa á stöðu Hæstaréttar í réttarkerfi okkar. Frumvarpið hefur verið í vinnslu í fjöldamörg ár og margir ráðherrar hafa komið að undirbúningi þess, bæði í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn. Þess vegna er nokkurs um vert að mál sem þetta lendi ekki inni í einhverjum kosningahasar, heldur sé til lykta leitt af „skynsamlegu viti“.

Flokkar: Dómsýsla og lögregla · Stjórnmál og samfélag · Stjórnsýsla

Laugardagur 7.5.2016 - 17:22 - FB ummæli ()

Áætlun um ójöfnuð

Í nýliðinni viku lagði ríkisstjórnin loks fram fjármálastefnu og ríkisfjármálaáætlun til 2021, mánuði of seint. Þetta eru grundvallarplögg sem sem slá tóninn fyrir fjármál ríkisins og hagstjórnina á næstu fimm árum. Þar eru dregnar eru upp helstu forsendur hagstjórnarinnar og rekstrarumhverfis ríkisins og sýnt fram á hvernig stjórnvöld hyggjast nýta sér skilyrðin til þess að ráðstafa fjármunum ríkisins og búa að helstu rekstrareiningum þess.

Í þeirri stefnu sem nú hefur verið kynnt er byggt á „grunngildum um sjálfbærni opinberra skuldbindinga og tilgangurinn er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi og treysta þannig skilyrði fyrir hagkvæmri nýtingu mannafla, fjármagns og auðlinda“ eins og það er orðað.  Þetta eru ágæt markmið svo langt sem þau ná. Ég sakna þess þó að sjá ekki í fjármálastefnunni önnur og fleiri markmið á borð við velferðarmarkmið um aukinn jöfnuð, byggð á tilteknum lífskjaraviðmiðum og markmið um menntunarstig svo dæmi sé tekið. Að mínu viti ætti slík markmiðssetning vel heima í fjármálastefnu ríkisins og fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

En þó að markmiðin nái skammt eru það þó leiðirnar að markmiðum fjármálastefnunnar, og að hluta til forsendurnar, sem ég geri athugasemdir við.  Til dæmis er gert er ráð fyrir óbreyttu gengi næstu fimm árin. Sú forsenda orkar mjög tvímælis í ljósi þeirrar ókyrrðar er verið hefur og verður um hríð í evrópska hagkerfinu.  Á sama tíma er verið að hrinda af stað losun gjaldeyrishafta, sem eins og allir vita felur í sér hættu á ókyrrð í innlenda hagkerfinu. Ofan á þá hættu eru uppi þensluviðvaranir. Í því ljósi skýtur skattalækkunarstefna ríkisstjórnarninnar skökku við því allir vita að skattalækkanir eru þensluhvetjandi aðgerð, auk þess sem fækkun skattþrepa leiðir af sér ójöfnuð og misskiptingu.

Niðurskurðurður stað tekjuöflunar

En ríkisstjórnin skeytir ekki um það heldur ætlar hún að mæta þensluhættunni með því að draga úr framkvæmdum og fjárfestingum hins opinbera. Hún ætlar líka að sitja sem fastast við sinn niðurskurðarkeip sem hún kallar „aðhald á útgjaldahliðinni“. Í sömu setningu er þó gengist við því sem allir sjá, að fjárfestingarþörfin er orðin afar brýn eftir efnahagshrunið 2008.

Um þensluhættuna í hagkerfinu skal ekki deilt. Ég tel engu að síður að stjórnvöld geti gert hvort tveggja, að fullnægja fjárfestingar- og framkvæmdaþörfinni en halda jafnframt innra jafnvægi í hagkerfinu með því að nýta betur þá tekjustofna sem nú liggja ónýttir hjá garði. Þá er ég ekki síst að vísa til auðlindagjaldsins eða veiðileyfagjaldsins sem ríkisstjórnin lækkaði á fyrstu dögum þessa kjörtímabils og afþakkaði þar með milljarða sem hefðu getað nýst til þess að lækka skuldir ríkisins eða til bráðnauðsynlegra framkvæmda í samgöngukerfinu sem ríkisstjórnin hefur vanrækt, eins og við vitum.

Þetta gera menn sér ljóst eins og sjá má á greinargerðinni með ríkisfjármálaáætluninni þar sem segir að mikil þörf hafi myndast fyrir nauðsynlega uppbyggingu í innviðum samfélagsins, einkum á sviði orku og samgönguinnviða. Þar er líka réttilega bent á að lágt viðhalds- og fjárfestingarstig undanfarin ár ásamt gríðarlegum vexti í ferðaþjónustu hafi kallað á aukna uppbyggingu í flugumferðarmannvirkjum samhliða fjárfestingu í orkuframleiðslu og raforkudreifingu. Á sama tíma er raunveruleg hætta á því að til dæmis ferðaþjónustan gangi of nærri náttúruperlum landsins og jafnvel eigin orðspori og markaðsmöguleikum vegna þess að hún er farin að ganga á sjálfa sig og gæði þess sem hún er að selja.

Illt er að hafa fullar hendur fjár en finna þeim ekki þarfleg verkefni.

Brýnni fjárfestinga- og framkvæmdaþörf er ekki svarað með aðgerðum í ríkisfjármálaáætluninni þótt fjármunir séu nægir í ríkissjóði eins og fram kom í þingræðu fjármálaráðherra um málið, 400 milljarða kr. afgangur. En fyrst að ekki skortir fjármagn, hvers vegna stóðum við þá í harðri baráttu við síðustu fjárlagaumræðu fyrir auknum framlögum til aldraðra og öryrkja, og fyrir kjörum bótaþega og barnafólks? Hvers vegna er þá ekki hægt að bæta stöðu ríkisútvarpsins sem um munar? Hvers vegna má þá ekki efla menntakerfið og veita viðtöku fullorðnu fólki í framhaldsskólana?  Varla er það þensluhvetjandi aðgerð. Hvaða þörf er á þá á því að gera þær breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem verið er að gera til mikils óhagræðis fyrir lífsafkomu nemenda og þá sérstaklega þeirra sem sækja nám sitt erlendis? Varla er það þensluhvetjandi að búa sómasamlega að ungu námsfólki erlendis.

Framhaldsskólarnir á landsbyggðinni berjast í bökkum og sjá ekki fram á bjartari tíma. Sumir hverjir fá ekki einu sinni áætlað fyrir raunverulegum nemendafjölda. Óhögguð er sú ákvörðun að beita fjárlagavaldi til að meina fullorðnum nemendum aðgengi að framhaldsskólunum. Háskólastigið býr við stefnuleysi. Ríkisútvarpið sér enn fram á mikinn niðurskurð til viðbótar við allt sem á undan er gengið og fyrirhugaðar eru breytingar til hins verra á LÍN sem fyrr segir.

Í góðærinu skyldi uppskera

Vera kann að milljarðarnir fljóti yfir barma ríkissjóðs og víst hefur efnahagur landsins batnað en ég gef lítið fyrir þau rök að þess vegna megi ekki taka eðlilegar arðgreiðslur af auðugum atvinnugreinum á borð við útgerð og ferðaþjónustu. Í góðæri er rétt að uppskera og safna í hlöðurnar til mögru áranna – sé það ekki gert verður heyfengurinn að hálmi sem engum nýtist. Sjávarútvegur og ferðaþjónusta mala gull og hafa aldrei staðið betur. Það er einmitt núna í góðærinu sem þau eiga að leggja ríkari skerf til samfélagsins. Þá gætum við, án þess að auka þenslu, byggt upp tíu hjúkrunarheimili um landið allt í staðinn fyrir þau þrjú sem ríkisstjórnin ætlar að láta nægja á næstu fimm árum, öll á höfuðborgarsvæðinu.

Það er annarlegt að hlífa auðugum atvinnugreinum á sama tíma og verið er að herða sultarólina í ríkisrekstrinum með þeim afleiðingum sem við sjáum nú þegar í velferðarkerfinu þar sem heilbrigðisstofnanir eru fjársveltar til skaða. Nú er gert ráð fyrir auknum fjármunum þar inn á næstu fimm árum en því miður þá er stofnkostnaðurinn inni í þeirri upphæð þannig að sáralítið bætist við til aukinnar þjónustu.

Samt vantar ekki peninga í ríkissjóð. Þess vegna sýnir þessi fjármálaáætlun að ríkisstjórnin að ráðstaf fjármunum hinna mörgu og smáu í þágu hinna ríku og fáu. Þetta er áætlun um ójöfnuð.

Flokkar: Óflokkað · Efnahagslíf og fjármál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 2.5.2016 - 12:06 - FB ummæli ()

Skattaskjólsfélög eru illgresið í matjurtagarðinum

Í þinginu í dag verður rætt um tillögu Samfylkingarinnar um alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gegn lágskattaríkjum.

Tilefnið þekkja allir. Tilgangur tillögunnar er að sporna við flutningi fjármagns þangað þar sem erfitt getur reynst að afla upplýsinga frá slíkum ríkjum og skattleggja með eðlilegum hætti þann hagnað og eignir sem til eru hjá félögum sem skráð eru í lágskattaríkjum. Uppljóstranir síðustu vikna í tengslum við Panamaskjölin hafa gefið innsýn í heim leyndarhyggju og skattaundanskota. Mikilvægt er að ríki heims taki höndum saman og stöðvi þá starfsemi sem þrifist hefur í lágskattaríkjum.

 

Enn skortir upplýsingar

Aflandsfélög og skattaskjól eru illgresi í matjurtargarði samfélags okkar.  Þau grafa undan samábyrgð og samkennd, þau veita undankomuleiðir frá heilbrigðum leikreglum, skekkja samkeppnisskilyrðin, raska undirstöðum þeirrar samfélagssáttar sem þarf að vera til staðar og er undirstaða þess að hægt sé að reka samfélag á forsendum samneyslu og samábyrgðar. Áhrifin af starfsemi aflandsfélaga og skattaskjóla eru mikil, ekki bara á samkeppnisumhverfi heldur  á skattkerfið sjálft og fjármálastöðugleika ríkja.

Í þinginu liggur einnig tillaga af sama meiði, það er þingsályktunartillaga VG um að láta fara fram rannsókn á fjölda og starfsemi félaga sem eru í skattaskjólum og tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum.

Þegar er komið í ljós að mikil brögð hafa verið að því að íslenskir ríkisborgarar hafi stofnað slík félög – hlutfall þeirra hér á landi langt um hærri m.v. mannfjölda heldur en í nokkru öðru nágrannaríki sem við berum okkur saman við. Samt tengjast þær upplýsingar sem nú hafa komið fram í Panaskjölunum ekki nema einni íslenskri fjármálastofnun og einni lögfræðiþjónustu, Mosssack Fonseca. Er því næsta öruggt að aflandsfélög í eigu Íslendinga séu langtum fleiri en fram er komið því hér á Íslandi störfuðu fleiri fjármálafyrirtæki á þeim tíma þegar mest gekk á, og aflandsfélögin spruttu upp eins og „sveppir á sumarvelli“ eins og Össur félagi minn orðaði það svo ágætlega í þingræðu fyrir helgi.

 

Grafið undan samábyrgð

Höfuðeinkenni skattaskjóla er skattleysi eða lágir skattar, lítilfjörlega löggjöf um banka og fjármálastarfsemi, og leynd yfir uppruna þess fjár sem geymt er þar.  Þau eru þess vegna kjörlendi fyrir peningaþvætti og illa fengið fé  og þess vegna tilvalin sem sannkölluð „skálkaskjól“. Þau eru til þess fallin að viðhalda og auka misskiptingu auðs í heiminum. Þau grafa undan velferð og velgengni samfélaga þar sem fjármunir sogast út úr hagkerfum ríkja inn í þessi fjármálasvarthol.

Aflandsviðskipti og varsla fjármuna í skattaskjólum fela þess vegna í sér samfélagsleg óheilindi sem ekki er hægt að líða. Nú er komið í ljós að starfsemi af þessu tagi hefur teygt anga sína mun dýpra inn í íslenskt samfélag en okkur óraði fyrir: Inn í stjórnmálaflokkana, inn í ríkisstjórn landsins þar sem 3 ráðherrar hafa m.a. tengst slíkri starfsemi. Forsætisráðherrann fyrrverandi sat sjálfur að samningum um uppgjör við kröfuhafa og gerði áætlanir um afnám gjaldeyrishafta en var á sama tíma sjálfur kröfuhafi og eigandi aflandsfjár. Hann neyddist til að segja af sér, en eftir sitja 2 ráðerrar á stóli, þ.á.m.. fjármálaráðherra landsins, æðsta stjórnvald skattsýslunnar á Íslandi, og talar eins og aflandsstarfsemi sé eðlilegur liður í viðskiptum.

Það er auðvelt að tala yfir þeim sem eiga ekkert val – yfir íslenskum almenningi sem fastur í viðjum krónunnar fær enn eina ferðina að horfa upp á „höfðingjana haga sér“. Menn sem muna ekki einu sinni hvar þeir lögðu frá sér 50 milljónir, hvort þær urðu eftir í Lúxembúrg eða á Seychelle-eyjum, eins og umræddur fjármálaráðherra.

 

Upprætum ósómann

Nú – þegar í ljós er komið hversu djúpt þessi starfsemi hefur teygt sig inn í íslenskt stjórnkerfi, verður ekki undan því vikist að uppræta þessi félög, og vinna bug á þeim óheilindum sem starfræksla þeirra og viðgangur felur í sér.  Fyrsta skrefið er að rannsaka umsvif og umfang slíkra félaga á Íslandi, og setja jafnhliða viðskiptaþvinganir á þau lönd sem gera út á að vera skattaskjól fyrir slík félög.

OECD skar upp herör gegn aflandsviðskiptum og skattaskjólum á tíunda áratug síðustu aldar, og Norðurlöndin hafa undan farinn áratug unnið að samræmingu aðgerða gegn skattaskjólum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.  Þess vegna hafa fjölmargir samningar um upplýsingagjöf vegna skattamála verið gerðir á undanförnum árum.

En betur má ef duga skal.  Hér á Íslandi hefur hvorki verið gerð tilraun til að komast að því hvert umfang slíkrar starfsemi var á þeim árum sem mest gekk á í fjármálalífinu hér á landi né hvert umfangið er nú og áhrif skattaskjóla á íslenskt samfélag hafa ekki verið metin. Það er löngu tímabært.

Við höfum á tyllidögum státað okkur af ríkri lýðræðishefð, og fram að hruni var hér oft talað um stéttlaust samfélag. Sú mynd hefur að undanförnu bjagast mikið, svo mikið að segja má að samfélagssáttin sé í húfi.

Þess vegna er mikilvægt að hreinsa til í garðinum, uppræta arfann og illgresið sem árum saman hefur fengið að sjúga næringu frá rótarkerfi matjurtanna sem gróðursettar voru samfélaginu til góðs. Matjurtirnar eru samneyslan, velferðarkerfið, heilbrigðistmálin, skólarnir – illgresið er það hugarfar sem liggur að baki starfsemi aflandsfélaga og skattaskjóla sem felur í sér ójöfnuð og ábyrðgarleysi, spillingu og rangsleitni.

Upprætingin þarf að eiga sér stað á mörgum flötum samtímis – í stjórnmálunum verða menn að axla ábyrgð og ganga undan með góðu fordæmi (á það skortir sem stendur).  Stjórnvöld verða auk þes sað gera gangskör að því að uppræta undanskot og leynimakk með fjármuni og taka afdráttarlausa afstöðu gegn starfsemi sem ýtir undir slík undanskot.

Flokkar: Alþjóðamál · Efnahagslíf og fjármál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 23.4.2016 - 12:04 - FB ummæli ()

Kosningasvikin undibúin? „Óvissa“ um Dýrafjarðargöng

Svik eru orð sem allt of oft kemur upp í stjórnmálum – því miður ekki að ástæðulausu. Stjórnmálamenn eiga til að veifa kosningaloforðum sem ekki er staðið við. Oft er ástæðan sú að ekki er hægt að ná pólitískri niðurstöðu um mál sem eru umfangsmikil og flókin. Þá er lítið við því að segja. En stundum er um að ræða mál sem enginn pólitískur ágreiningur hefur verið opinberaður um, og engin raunveruleg ástæða til að standa ekki við. Dýrafjarðargöng eru dæmi um slíkt mál. Þau hafa verið á dagskrá sem brýnasta jarðgangaframkvæmd á landinu frá því fyrsta jarðgangaáætlun var gerð árið 1999. Samt eru þau enn ekki orðin að veruleika, þó að allir flokkar hafi lýsti því ítrekað yfir að Vestfirðingar skuli njóta forgangs í samgöngumálum og allir þykist sjá hversu mikið sé í húfi fyrir þann landshluta að byggja þar upp sómasamlegar samgöngur, löngu á eftir öllum öðrum landshlutum.

Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur voru Dýrafjarðargöngin enn eina ferðina komin í forgang á sérstakri fjárfestingaáætlun. Samkvæmt henni átti að bjóða göngin út 2013/2014 og framkvæmdum að ljúka á þessu ári eða næsta. Er ekki að orðlengja það, að sú ríkisstjórn sem nú situr lét verða sitt fyrsta verk að afnema fjárfestingaætlunina og þar með var Dýrafjarðargöngum sópað út af borðinu, eina ferðina enn. Þó var svo látið líta út sem framkvæmdum væri einungis frestað – göngin skyldu boðin út seint á þessu ári (á kosningavetri) og framkvæmdir hefjast á því næsta. Í fyrirheitinu var því miður holur tónn, sem bæði ég og fleiri sem fylgst höfum lengi með gangi samgönumála í kjördæminu greindum auðveldlega — sjá t.d. áhyggjuskrif  HÉR og einnig HÉR

 

Jæja – nú er hafinn undirbúningur að enn einum kosningasvikunum. Samkvæmt þessari frétt HÉR er boðuð „óvissa um Dýrafjarðargöng“. Ástæðan sem gefin er upp eru yfirvofandi haustkosningar. Heyr á endemi. Ætla menn að halda því fram að stofnanir ríkisins, t.d. Vegagerðin, séu óstarfhæfar ef boðað er til kosninga? Auðvitað starfar framkvæmdavaldið þó að ríkisstjórnir hverfi frá og ný þing séu kosin. Haustkosningar ættu þvert á móti að verða til þess að útboði ganganna yrði flýtt enn frekar. Enginn pólitískur ágreiningur er um málið ef marka má orð manna í opinberum umræðum (en það er kannski ekki allt að marka sem menn segja).  Uppgefin ástæða er þess vegna fyrirsláttur.

Hinn bitri sannleikur sem nú gæti verið að afhjúpast er sá, að það hefur sennilega aldrei verið meining ríkisstjórnarinnar að standa við Dýrafjarðargöng fremur en fyrri daginn. Dýrafjarðargöngum skyldi bara veifað sem kosningadulu framan í Vestfirðinga eina ferðina enn. Business as usual.  Höndin sem hæst hélt þeirri kosningadulu tilheyrir þingmanni Vestfirðinga til 25 ára, Einari K Guðfinnssyni, sem nú hyggst hætta í pólitík. Skýrir það kannski afdrif málsins? Spyr sú sem ekki veit.

Vestfirðingar geta ekki látið þessi svik yfir sig ganga! Of oft hafa þeir verið dregnir á asnaeyrum í samgöngumálum og nú er mál að linni.

 

Flokkar: Samgöngur · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.4.2016 - 11:17 - FB ummæli ()

Metnaðarlaus samningur við Ríkisútvarpið

Fyrr í vikunni kynnti menntamálaráðherra nýjan þjónutusamning við Ríkisútvarpið, þremur mánuðum eftir að fyrri samningur rann út. Samningurinn er ekki aðeins gerður í skugga verulegs niðurskurðar sem athygli er vakin á i  bókun þriggja stjórnarmanna RÚV af þessu tilefni, heldur einnig í orrahríð árása og andstreymis sem Ríkisútvarpið hefur mátt sæta undanfarin misseri af hálfu þeirra sem nú fara með völd í samfélaginu.

Einhverjir segja sjálfsagt að þessi samningur sé nokkurskonar varnarsigur í stöðunni, og að í honum megi finna eitt og annað til bóta. Þann fyrirvara verður þó að slá við slíkum ályktunum, að menntamálaráðherra hefur ekki farnast vel við að uppfylla gefin fyrirheit undanfarin misseri. Í samningnum er gengið út frá því að þjónustan sé tryggð á landsbyggðinni. Ekki vil ég lasta það. Þá er kveðið á um að innheimt útvarpsgjald, miðað við árið 2016, lækki ekki að raunvirði á tímanum. Látum þetta vera, þó vitanlega sé búið að skerða útvarpsgjaldið umtalsvert. Þá er í samningnum gert ráð fyrir sérstakri 175 mkr fjárveitingu sem samþykkt var á gildandi fjárlögum til eflingar á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Sá böggull fylgir þó skammrifi að  þessir fjármunir eru skilyrtir við útvistun verkefna, og ef ekki verður áframhald á fjárveitingunni fellur niður skuldbinding Ríkisútvarpsins um að auka framlag til leikins efnis. Það er þess vegna afar mikilvægt að sérstakar fjárveitingar til leikins innlends efnis haldi áfram meðan RÚV er í yfirstandandi þrengingum.

Í samningnum er fjallað um lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins. Þar segir að stofnunin eigi að gera „fólki kleift að móta skoðanir sínar og draga ályktanir út fá réttum upplýsingum, eftir því sem framast er unnt hverju sinni“. Þessi orð leiða hugann að misræminu sem er milli þess mikilvæga lýðræðis- og menningarhlutverks sem stjórnvöld ætla Ríkisútvarpinu að sinna annars vegar, og hins vegar þeim skilyrðum sem stjórnvöld skapa stofnuninni til þess að rísa undir hlutverki sínu.  Höfum við  þó séð í sviptingum stjórnmálanna síðustu vikur hversu sjálfstæði og styrkur fjjölmiðla skiptir miklu fyrir opna og upplýsta umræðu þegar mikið gengur ár. Sjálfstæði og fagmennska fjölmiðla er ómetanlegur styrkur í lýðræðissamfélagi, en því miður líka vanþakkaður eiginleiki og lítils metinn af þeim sem síst skyldi, til dæmis stjórnvöldum. Það sjáum við ekki síst á því hvernig ráðamenn reyna jafnvel að taka sér ritstjórnar- og tyftunarvald yfir stofnuninni, ýmist með árásum, þrýstingi og hótunum, eða tilraunum til að sniðganga hana sem nýleg dæmi sanna, sjá t.d. HÉR og HÉR og HÉR.

Í fréttaflutningi hefur Ríkisútvarpið blessunarlega staðið af sér þennan þrýsting að mestu öndvert við ýmsa aðra fjölmiðla sem stundum hefur orðið hált á svellinu.

Sú ákvörðun stjórnarmeirilutans í desember síðastliðnum að skerða útvarpsgjaldið, annað árið í röð, hefur leitt til þess að RÚV neyðist til að skera niður grunnstarfsemi um 213 mkr á þessu ári. Sá niðurskurður kemur til viðbótar miklum niðurskurðaraðgerðum stofnunarinnar undanfarin ár þar sem höggvin hafa verið stór skörð í starfsmannahópinn og dagskrárgerðina. Enn sem fyrr er Ríkisútvarpið knúið til þess að höggva í sama knérunn, til skaða fyrir hlutverk sitt og virkni.

Nýi þjónustusamningurinn er samningur um skerta þjónustu eins og Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins hafa ályktað um. Samningurinn gerir ráð fyrir að dagskrárframboð og þjónusta geti á samningstímanum dregist saman um allt að 10% miðað við árið 2015.  Hann vegur að getu stofnunarinnar til að reka öfluga og gagnrýna fréttastofu sem „gerir fólki kleift að draga ályktanir út frá réttum upplýsingum“. Hann staðfestir viðvarandi og linnulausan niðurskurð á dagskrá. Hann frestar löngu tímabærri skráningu og hagnýtingu eldra efnis í Gullkistu RÚV þar sem varðveitt eru þjóðarverðmæti. Þá er allt eins líklegt að hann hefti vaxtarskilyrði nýrra sprota í dagskrárgerð eins og til dæmis KrakkaRÚV.

Hér er blasir því miður við nakið metnaðarleysi.

Þessi síðbúni þjónustusamningur menntamálaráðuneytisins við Ríkisútvarpið boðar ekki nýja tíma í starfsemi RÚV. Hann gerir vart meira en að halda í horfinu eftir langvarandi fjársvelti og andstreymi sem líkja má við einelti.

Við vitum þó öll  að Ríkisútvarpið er útvörður lýðræðis okkar og flaggskip upplýstrar umræðu. Þetta er stofnun sem þjóðin á og metur og allar kannanir sýna að landsmenn vilja varðveita og hlú að.

 

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Þjóðlíf og samfélag

Föstudagur 8.4.2016 - 21:14 - FB ummæli ()

Vantraust fellt í þingsal, en hvað gerir þjóðin?

Það voru hræddir stjórnarherrar sem læstu saman klónum í dag til þess að verjast dómi almennings. Þeir stóðu af sér vantraust í þinginu, en munu þeir standa af sér vantraust þjóðarinnar?
Öllum má ljóst vera að brýnustu verkefni stjórnamálanna í dag væru öll betur komin í höndum annarra en þessarar ríkisstjórnar – sérstaklega það brýna verkefni að endurvekja traust og sátt í samfélagi okkar. Aumlegar tilraunir til þess að skipta um merkimiða á ríkisstjórninni breyta engu þar um, svo alvarlegur er trúnaðarbresturinn sem orðinn er gagnvart þjóðinni og þinginu. Íslensk þjóð á kröfu á því að fá nýtt upphaf, hún á kröfu á því að fá sjálf að afhenda umboð sitt þeim stjórnmálaflokkum sem hún treystir. Þess vegna ætti að ganga til kosninga strax.
Traust er grundvöllur alls í stjórnmálum. Grundvöllur þess að friður geti haldist og jafnvægi innan samfélags, grundvöllur þess að þjóðarlíkaminn virki eins og til er ætlast. Grundvöllur fyrir samfélagssátt. Sé henni raskað má líkja því við sýkingu sem hamlar eðlilegri virkni – veldur vanlíðan, þreytu, óþoli, verkjum. Þannig er ástandið í íslensku samfélagi núna. Þjóðin finnur til – hana verkjar undan ástandinu, hún þarf og vill fá að vinna bug á meinsemdinni svo hún geti haldið áfram á braut daglegra verkefna.
Og hvert er meinið? Meinið er annars vegar spilling í íslensku, m.a. á vettvangi ríkisstjórnarinnar þar sem menn lifa í öðrum heimi en þjóðin, þar sem sérgæska, auðmannadekur og einkavinavæðing eru leidd til öndvegis í staðinn fyrir samstöðu með íbúum landsins og velferð þeirra. En það er fleira en spilling sem grefur undan trausti og sátt í íslensku samfélagi. Misskipting gæða, ójafnar byrðar að bera, óréttlæti og skeytingarleysi gagnvart lífi og örlögum fólks: Vinnandi manna, sjúklinga, aldraðra, ungs fjölskyldufólks, fátækra barna. Það skeytingarleysi sem hefur verið vaxandi frá því þessi ríkisstjórn tók við, er líka fleinn í holdi þjóðarinnar. Fleinninn sem grefur undan trausti og rýfur samfélagssáttina sem þarf að vera til staðar svo hægt sé að stjórna landinu.
Við Íslendingar höfum alist upp við það frá blautu barnsbeini að við séum ein þjóð – öll á sama báti og þegar gefur á þann bát leggjumst við öll á árar. En nú er sú mynd að breytast. Ráðamann landsins eru ekki á báti m eð okkur hinum – þeir hafa komið sér fyrir á skemmtisnekkjunni í námunda við Tortóla, meðan almenningur velkist um í árabátnum við landsteina hér heima.
Ráðherrarnir sem talað hafa fyrir því að landsmenn skuli áfram engjast í gjaldeyrishöftum og vaxtaviðjum íslensku krónunnar, þeir hafa haldið eigum sínum í erlendum skattaskjólum. Þeir eru í skjóli – hinir eru í höftum.
Upp á þetta þarf íslenskur almenningur að horfa, á sama tíma og 90 siðmenntuð lönd undir forystu OECD reyna nú að uppræta með samstilltu átaki aflandsfélög og skattaskjól vegna þess að skattaskjólin grafa undan tekjuleiðum ríkja, þar með velmegun samfélaga – þau skekkja leikreglurnar og koma niður á lífsskilyrðum almennings. Þetta sjá önnur ríki, en ríkisstjórn Íslands sér það ekki.
Höggdofa hefur þjóðin fylgst með afhjúpunum á tvískinnungi og siðferðisbrestum íslenskra ráðamanna, ósannindum þeirra, hártogunum og hálfsannleika. Fyrrverandi forsætisráðherra sat við samningaborðið þar sem samið var við kröfuhafana, og var á sama tíma sjálfur kröfuhafi ásamt konu sinni. Nú þegar hann hefur hrökklast frá er hann leystur af hólmi af samflokksmanni sem opinberlega lagði blessun sína yfir gjörðir forvera síns og sá ekkert athugavert við þær – sagði þvert á móti „einhversstaðar verða peningar að vera“ og síðan að það væri flókið að eiga peninga á Íslandi.
Tveir ráðherrar sem átt hafa eigur í skattaskjólum sitja enn í ríkisstjórninni. Fjármálaráðherra hefur gefið skýringar sem ekki standast fyrirliggjandi gögn – hann hefur með eigin hendi undirritað samninga og löggerninga sem sýna að skýringar hans standast ekki.
Nei, þessi stjórn á ekki lífdaga framundan, svo alvarlegur er trúnaðarbresturinn sem orðinn er gagnvart þjóðinni og þinginu, að því verður ekki líkt við neitt sem við þekkjum í íslenskum stjórnmálum. Sannkallað siðrof.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Þjóðlíf og samfélag

Laugardagur 2.4.2016 - 10:54 - FB ummæli ()

Einn í skjóli, annar í höftum

OECD – efnahags- og framfarastofnun Evrópu, hefur skorið upp herör gegn skattaparadísum og aflandsfélögum. Níutíu lönd vinna að sama markmiði með stofnuninni. Af hverju? Jú, vegna þess að þegar fjárfestar geyma peninga í skattaskjólum og komast hjá því að greiða skatta verður ríkissjóður viðkomandi landa af milljörðum sem annars færu í uppbyggingu innviða og velferðarþjónustu, svo dæmi sé tekið. Þannig grafa skattaskjólsleiðirnar undan velmegun samfélaga og koma niður á lífsskilyrðum innan viðkomandi ríkja.

Á meðan þessu fer fram reyna íslenskir ráðherrar  að bera í bætifláka fyrir sjálfa sig vegna eigna sem þeir hafa haldið innan aflandsfélaga í skattaskjólum. Þjóðin er höggdofa.

Fjármálaráðherra Íslands hefur orðið tvísaga varðandi eigur sínar erlendis. Fyrir ári  þrætti hann staðfastlega fyrir að eiga neitt í skattaskjóli. Nú hefur annað komið í ljós. Þá hlýtur lesandi að spyrja hvernig þessar eignir hafi verið gefnar upp til skatts. Voru þær gefnar upp til skatts? Hafi svo verið, þá hlýtur fjármálaráðherrann að hafa vitað af þessum eignum þegar hann þrætti fyrir þær í fyrrnefndu Kastljósviðtali. Sagði hann þá vísvitandi ósatt?

Er það ásættanleg staða fyrir þjóðþingið aðfjármálaráðherrann sem situr í skjóli þess skuli verða ber að ósannindum? Hvað finnst almenningi?

Snúum okkur þá að forsætisráðherra sem ásamt konu sinni á milljarð króna í skattaparadís á Tortóla. Þessa dagana klifa hann og fylginautar hans á því að ekki sé ólöglegt að eiga peninga í skattaskjólum erlendis. Það sé hins vegar ólöglegt að gefa ekki slíkar eignir upp til skatts. Við þetta er eitt að athuga.  Það er sú staðreynd að íslensk skattayfirvöld hafa engin tök á því að sannreyna neitt sem gefið er upp varðandi eignir í þessum félögum. Þetta kom skýrt fram á fundi stjórnarandstöðunnar með skattrannsóknastjóra sem haldinn var í gær um aflandsfélög og skattaskjól. Yfir þessum félögum ríkir mikil leynd í viðkomandi skattaskjólum, ekki er gerð krafa um skil ársreikninga eða annarra gagna og engar upplýsingar eru gefnar um starfsemi þeirra.

Hafi Sigmundur Davíð gefið umræddar eignir þeirra hjóna upp á skattskýrslu (einni eða fleiri? um það vitum við ekki, en eigurnar eru ekki nýtilkomnar) eru slíkar upplýsingar lítið annað en tölur á blaði sem segja nánast ekki neitt. Enginn getur sannreynt upplýsingarnar. Þó hlýtur það að vera sjálfsögð krafa af hálfu almennings að forsætisráðherrann sýni fram á það með óyggjandi hætti hvernig og hvenær þessar eigur hafa verið gefnar upp til skatts. Í því efni verða fjölmiðlar að rísa undir ábyrgð og kalla fram þessar upplýsingar.

Nú kann að vera að þetta verði gert – við skulum sjá til með það. Engu að síður situr það óbragð í munni, að maðurinn sem harðast hefur talað fyrir því að landsmenn skuli áfram engjast í viðjum íslensku krónunnar, hann hefur sjálfur haldið sínum eignum erlendis. Maðurinn sem sat við samningaborðið þar sem samið var við kröfuhafana, hann var sjálfur kröfuhafi ásamt konu sinni án þess að nokkur annar vissi. Maðurinn með stóryrðin lifir í allt öðrum heimi en íslenskur almenningur. Hann er í skjóli – hinir eru í höftum.

Upp á þetta þarf íslenskur almenningur að horfa, á sama tíma og siðmenntuð lönd reyna nú að uppræta með samstilltu átaki aflandsfélög og skattaskjól.

Lítilla sanda – lítilla sæva – lítil eru geð guma.

 

Flokkar: Alþjóðamál · Bloggar · Efnahagslíf og fjármál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.3.2016 - 15:10 - FB ummæli ()

Rússneska rúllettan á Súðavíkurhlíð

Árum saman hefur sú vitneskja legið fyrir að vegurinn um Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði og Súðavíkurhlíð í Álftafirði er stórhættulegur vegfarendum vegna tíðra ofanflóða, einkum snjóflóða. Þetta hefur komið átakanlega glöggt í ljós í ofviðrum þeim sem gengið hafa yfir Vestfirði undanfarin ár. Þess eru mörg dæmi, þar með nýleg, að fjöldamörg snjóflóð hafi fallið á þessari leið á fáeinum dögum. Fyrir þremur árum féllu flóð úr 20 af 22 skilgreindum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð. Tepptust þar með allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, höfuðstað Vestfjarða. Þær aðstæður sem þar með mynduðust eru með öllu óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum sem sækja heilbrigðisþjónustu og aðra grunnþjónustu til Ísafjarðar. Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð íbúa á Ísafirði í þjóðvegakerfinu yfir vetrarmánuðina.

22 snjóflóðagil á 2,8 km kafla

Nokkrar úttektir hafa verið gerðar á síðustu árum um mögulegar úrbætur á leiðinni um Súðavíkurhlíð. Í einni þeirra kemur fram að „fyrir þá sem ferðast daglega um Óshlíð eða Súðavíkurhlíð er snjóflóða- og grjóthrunshættan nálægt því að tvöfalda árlegar dánarlíkur í umferðinni sé miðað við meðaldánarlíkur Íslendinga í umferðinni.“

Vegurinn um Súðavíkurhlíð er einstæður hvað varðar snjóflóðahættu og grjóthrun. Víðast hvar er vegurinn alveg með sjó, í 5–30 m hæð yfir sjávarborði, og því mjög miklar líkur á alvarlegum slysum sé ekið út af veginum. Innarlega á Súðavíkurhlíð, á 2,8 km löngum kafla, eru 22 gil þar sem reglulega koma snjóflóð, en eitthvert grjóthrun er á 4 km kafla. Á Kirkjubólshlíð er snjóflóðahætta í mörgum giljum, einkum innan til.

Úttektir sýna að snjóflóðum á Súðavíkurhlíð hefur fjölgað mjög eftir 1991 vegna breytinga á veðurfari og ríkjandi vindátta sem valda snjósöfnun og flóðum í hlíðinni. Þannig mældust 56,2 snjóflóð á ári á Súðavíkurhlíð 1991–2000 samanborið við 42,7 á hinni stórhættulegu Óshlíð sem nú hefur verið leyst af hólmi með jarðgöngum til Bolungarvíkur. Úttektaraðilar hafa bent á að jarðgöng séu eina aðgerðin sem tryggt getur fyllsta öryggi á þessari leið auk þess sem þau mundu stytta vegalengdina milli byggðarlaga töluvert með tilheyrandi hagræðingu og úrbótum fyrir samskipti, atvinnulíf og þjónustu á svæðinu. Á skalanum 1–10 mundu jarðgöng fá árangurseinkunnina 10, en óbreytt ástand einkunnina 5. Það þýðir að Súðavíkurhlíðin er í reynd rússnesk rúlletta með tilliti til öryggis vegfarenda.

Íbúar langþreyttir

Íbúar á svæðinu og Fjórðungssamband Vestfirðinga hafa árum saman knúið á um að hafist verði handa um gerð jarðganga milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar til þess að bæta úr því ófremdarástandi sem sannarlega ríkir að óbreyttu. Árið 2006 skrifuðu 1.439 manns undir ,,áskorun til ríkisstjórnar um að hefja nú þegar rannsóknir og undirbúning að jarðgangagerð milli Súðavíkur og Ísafjarðar út frá samfélagslegum og öryggissjónarmiðum“. Vorið 2013 tók ég málið upp á Alþingi sem fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um að Álftafjarðargöng verði þegar sett inn á samgönguáætlun sem næsta jarðgangaframkvæmd á Vestfjörðum á eftir Dýrafjarðargöngum. Í millitíðinni verði tryggðar viðunandi snjóflóðavarnir á Súðavíkurhlíð. Nú hefur fjármagn fengist til snjóflóðavarnanna en göngin eru enn ekki komin á áætlun. Við það verður ekki lengur unað. Hef ég því að nýju lagt fram þingsályktun um málið, með stuðningi annarra þingmanna Norðvesturkjördæmis.

Í hnotskurn.

Jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar mundu ekki einungis leysa öryggismál á Súðavíkurhlíð heldur einnig á Kirkjubólshlíðinni þar sem snjóflóð og grjóthrun hafa einnig valdið vanda og hættu. Því má öllum ljóst vera hvílíkt öryggismál það er fyrir þá sem ferðast um þennan veg að flýta sem mest má verða jarðgöngum milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.

Flokkar: Landsbyggðin · Samgöngur · Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is