Fimmtudagur 22.9.2016 - 13:24 - 6 ummæli

Besta heilbrigðisþjónusta í heimi.

Samfylkingin tekur undir ákall 87.000 Íslendinga um að stórauka framlög til heilbrigðisþjónustunnar. Það er óásættanlegt að spítalar séu sveltir, á meðan efnahagur er á uppleið. Veikir Íslendingar og fjölskyldur þeirra, eiga að hafa forgang. Við eigum öll að geta gengið að öflugri opinberri heilbrigðisþjónustu um allt land. Og hún á að vera ókeypis.

Já, við höfum efni á þessu. Við erum rík af auðlindum. Það er ekki eftir neinu að bíða.

En meira fjármagn dugar ekki eitt og sér til að bæta opinberu þjónustuna. Við verðum að hlusta á okkar færasta fólk og breyta heilbrigðisþjónustunni svo peningarnir nýtist betur. Mesta þörfin er í opinberu þjónustunni og þangað viljum við beina kröftum okkar. Við viljum að nýr Landspítali rísi sem fyrst og að heilsugæslan geti tekið á móti öllum sem þurfa aðstoð hratt og örugglega, líka þeim sem þurfa á sálfræðiþjóðnustu að halda.

Lækna á sjúkrahúsin

Landlæknir hefur bent á nauðsyn þess að ráða lækna í full störf á Landspítalanum. Því erum við sammála en í dag eru margir læknar í hlutastarfi, sem ógnar öryggi sjúklinga og gerir rekstur spítalans óhagkvæman. Skýrsla McKinsey um stöðu Landspítalans, sem kom út í síðustu viku, tekur í sama streng. Þar kemur fram að 30% lækna Landspítala eru í hlutastarfi en eingöngu 3 – 7% lækna á sjúkrahúsunum sem voru til samanburðar. Ef yfirlæknar eru undanskyldir er hlutfallið á Landspítalanum þannig að um helmingur lækna er í hlutastafi.

Skýrari markmið

Skýrslan sýnir auk þess fram á alvarleg áhrif sem einkarekstur getur haft, ef ekki er vel haldið utan hann. Hálskirtlatökur eru t.d. óeðlilega algengar á Íslandi. Og reyndin er að við tökum hálskirtlana úr gríðarlegum fjölda barna. Það gengur þvert á bestu ráðleggingar og þróunina í öðrum ríkjum og skapar auk þess óþarfa áhættu. En mjaðmaskiptaaðgerðir eru hins vegar allt of fáar í samanburði við önnur Evrópuríki. Svo virðist sem að flóknar og lífsnauðsynlegar aðgerðir séu síður í forgangi. Við verjum peningunum frekar í það sem er einfalt og ódýrt.

Órjúfanleg bönd

En Landspítalinn er ekki eyland heldur hluti af heilu heilbrigðiskerfi um allt land og svo að þjóðarsjúkrahúsið geti sinnt sínum skyldum þarf önnur þjónusta að vera góð. Stóru sjúkrahúsin, sjúkraflutningar, minni heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimilin og heimaþjónustan. Allt tengist þetta órjúfanlegum böndum.

Verkefnið er því stærra en eingöngu að auka fjármagnið, en það sem ég get gert sem stjórnmálamaður er að setja nægt fjármagn inn í heilbrigðisþjónustuna og gefa okkar færustu sérfræðingum og stofnunum tækifæri til að þróa bestu heilbrigðisþjónustu í heimi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2016 - 21:31 - 2 ummæli

Um eftirlaun

Stutt ræða á Alþingi 30. ágúst 2016

Herra forseti

Ísland er ríkt land og hér á að vera best í heimi að lifa, eldast og eiga gott ævikvöld. Það er samt ekki hægt að segja að þannig sé staða allra sem eldri eru hér á landi. Of margir eldri borgarar lifa eingöngu á lágmarkseftirlaunum sem í dag eru 212 þús. kr. á mánuði. Er einhver hér í þessum sal sem getur lifað á rúmum 200 þús. kr. á mánuði? Nei, ég held ekki. 

Eldri borgarar eru augljóslega af báðum kynjum og fátækt er jafn slæm hvort sem um er að ræða karl eða konu. En samt sem áður er erfitt að horfa fram hjá því að kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna þegar þær eru ungar, launamunurinn hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur frá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri eftirlaun. Þannig eru konur líklegri til að búa við fátækt á sínum efri árum. Margar konur vinna í láglaunastörfum og aðrar hafa unnið hlutastörf vegna ábyrgðar á börnum og heimili, öldruðum foreldrum eða öðrum ættingjum. Þar að auki sjáum við iðulega skýr merki þess að konur reki höfuðið í glerþakið og fái ekki sömu tækifæri og framgang á vinnustöðum og karlmenn. Það hefur líka áhrif á launin og á eftirlaunin.

Ef við getum skipt þjóðarkökunni með réttlátari hætti getum við auðveldlega bætt kjör eldri borgara. Við höfum vel efni á því að hækka lágmarksgreiðslur afturvirkt og framvegis í takt við aðrar launahækkanir í landinu. Það er reisn yfir þjóð sem veitir öldruðum og öryrkjum líka mannsæmandi laun. Samfylkingin ætlar að hækka eftirlaunin, setja á sveigjanleg starfslok og einfalda fólki að skilja og verja rétt sinn svo það geti lifað með reisn ævina út.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.8.2016 - 14:14 - 4 ummæli

Veiðar og velferð

Við Íslendingar erum ekki sammála um hvernig eigi að skipta arðinum sem auðlindirnar okkar skapa og endalausar deilur eru um málið ár eftir ár. Þó margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindanýtingunni eins og best verður á kosið.

Kvótakerfi var sett á af umhverfisástæðum til að vernda nytjastofnana og framsal kvóta var heimilað af efnahagsástæðum. Það hefur leitt til gríðarlegrar hagræðingar í greininni. Sú aðgerð hefur hins vegar haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Með sölu kvóta er mögulegt að kippa í einni svipan stórum stoðum undan heilu byggðarlögunum. Fólkið í sjávarbyggðunum hefur borið kostnaðinn af hagræðingunni en ágóðinn að mestu runnið til einkaaðila. Og fólki finnst það óréttlátt og deilurnar halda áfram.

Ef gjöld og skattar eru of há er það almennt talið hafa slæm og bjagandi áhrif á samfélög og efnahagslíf. Það er því viðfangsefni stjórnmálamanna að finna jafnvægi milli skattheimtu og þeirrar velferðarþjónustu og útgjalda sem þeim er ætlað að standa undir. Það er hins vegar ein tegund skatta sem hagfræðingar eru almennt sammála um að hafi ekki slæm eða bjagandi áhrif og það eru auðlindaskattar og auðlindagjöld. Það eigum við að sjálfsögðu að nýta okkur.

Réttlæti og gagnsæi

Gallinn getur verið sá að ef hið opinbera handvelur þá sem fá nýtingarréttinn, þá verða sífelldar deilur um það og einnig um auðlindagjöldin ef við stjórnmálamennirnir ákveðum þau. Þessi vandamál er hægt að leysa hér á landi með útboðum á aflaheimildum. Útboði sem tryggir fullt verð með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og tekur tillit til byggðasjónarmiða. Nýtingarrétturinn ákvarðast með útboðunum og markaðurinn ákvarðar verðið og enginn deilir um það.

Kvótaútboð eru þegar stunduð á Íslandi en þau eru alfarið í höndum einkaaðila. Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu verði í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir þurfa að greiða stærri útgerðum 200 krónur fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins 13 krónur. Eina breytingin með útboði á aflaheimildum er því sú að þá mun þjóðin sjálf, eigandi auðlindarinnar, stunda frumútboð á heimildum og njóta arðsins.

Ef við gætum verið viss um að tekjurnar renni til uppbyggingar í sveitarfélögunum vítt og breitt um landið og til heilbrigðisþjónustu sem sárlega vantar fjármagn, mundi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og gætu treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram aðra. Fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.8.2016 - 10:56 - 10 ummæli

Hvers vegna var kjörtímabilið stytt?

Við leggjum nú af stað inn í síðustu daga þessa kjörtímabils töluvert fyrr en áætlað var. Ástæðan er sú fordæmalausa staða sem upp kom í kjölfar þess að Panamaskjölunum var lekið og í ljós kom að fjöldi Íslendinga, og þar á meðal æðstu embættismenn, höfðu nýtt sér skattaskjól sem notuð eru til að koma peningum undan sameiginlegum sjóðum landsmanna. Það var þjóðinni áfall að forsætisráðherra landsins skyldi vera flæktur í málið, og viðtalið fræga og fréttirnar í kjölfarið voru óbærilega vandræðalegar og þjóðin skammaðist sín fyrir umræður á erlendum fréttastöðum um spillta ráðherra á Íslandi. Fjármálaráðherra og innanríkisráðherra þurftu síðan að útskýra hvers vegna þeirra nöfn voru líka í skjölunum.

Það var tilfinning fólks um svik og spillingu sem kallaði fram fjölmennustu mótmæli í sögu Íslands. Krafan var kosningar strax!

Málamiðlun

Forsætisráðherrann sagði af sér og núverandi forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra báðu þjóðina að sætta sig við að kláruð yrðu ákveðin mál fyrir kosningar en kjörtímabilið yrði stytt um eitt þing. Þegar spurt var um kjördag var svarið: Það fer eftir því hvernig stjórnarandstaðan hagar sér.

Þetta svar er og hefur ekki verið boðlegt og ríkisstjórninni til minnkunar. En þrátt fyrir þessa hótun og þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki fengist til að segja kjósendum hvenær yrði kosið fyrr en nú fimm mánuðum síðar, vann stjórnarandstaðan þétt við þeirra hlið hér á Alþingi síðastliðið vor við að klára mikilvæg mál. Það samstarf gekk vel og er vert að rifja það upp nú þegar við höldum inn í þetta stutta sumarþing.

Ríkisstjórnin rúin trausti

Sannleikurinn er sá að það ríkir megn óánægja með sitjandi ríkisstjórn á fleiri en einu sviði. Heilbrigðisþjónustan líður fyrir fjárskort og það gerir menntakerfið líka. Kjör aldraðra og öryrkja hafa dregist aftur úr lágmarkslaunum. Grunur hefur vaknað um vond vinnubrögð, svo sem í Borgunarmálinu og sala ríkiseigna tortryggð. Farið var í leiðréttingu á húsnæðislánum sem gagnaðist ríkum allra best. Þunginn í ferðamannastraumnum eykst sífellt án þess að gripið sé til neinna aðgerða. Og ríkissjóður hefur orðið að tugum milljarða króna undanfarin þrjú ár vegna lækkaðra veiðigjalda og skatta á þá sem mest eiga. Allt þetta bitnar á venjulegu fólki sem er á lágum eða meðallaunum. Og það er engin þolinmæði lengur fyrir slíkum vinnubrögðum.

Von um betri ríkisstjórn

Það er þó ekki allt kolsvart og staða ríkisfjármála er að mörgu leyti góð, og með réttum áherslum og góðri forgangsröðun verður hægt að byggja upp opinberu þjónustuna og styrkja innviði landsins. Nú er líka góð von um að ný ríkisstjórn taki við stjórnartaumunum eftir kosningar.

Það kemur satt að segja á óvart að sjá kosningaloforð stjórnarflokkanna sem birtast í áætlun þeirra í ríkisfjármálum til næstu fimm ára. Fyrirfram hefði maður búist við digrum loforðapakka með hinum ýmsu uppbyggingarverkefnum, en flokkarnir hafa ákveðið að sýna sitt rétta andlit og gera ekki ráð fyrir meiri peningum inn í heilbrigðiskerfið eða til háskólanna, ekkert meira í vaxta- og barnabætur og nánast ekkert í uppbyggingu vegakerfisins. Og þegar spurt er hvernig skuli þá byggja upp Ísland er svar þeirra einfalt: einkarekstur. Einkarekin sjúkrahús, heilsugæsla, skólar, vegir og flugvöllur.

Ríkisstjórnin mun ekki klára kjörtímabil sitt vegna þess hún er rúin trausti.

Áherslur jafnaðarmanna

Kosið verður að nýju 29. október. Við í Samfylkingunni tölum fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar og nýrri stjórnarskrá. Fyrir öflugu velferðarsamfélagi, réttlátari skiptingu þjóðarkökunnar, jafnrétti til náms, gæða heilbrigðisþjónustu sem allir geta notið og mannsæmandi kjörum á öllum stigum lífsins.

Það er góður möguleiki á að betri ríkisstjórn taki við eftir nokkrar vikur. Og það er afar gleðilegt.

Ræða flutt á Alþingi 17. ágúst 2016

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.8.2016 - 20:09 - 7 ummæli

Ávinningur af útboði veiðiheimilda

Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu vikur um stjórn fiskveiða hér á landi í kjölfar útboðs Færeyinga á aflaheimildum og sölu kvótans frá Þorlákshöfn. Umræðan er einkum um það réttlætismál að fólkið í landinu fái að njóta arðsins sem eign þess skapar og fái fullt verð fyrir veiðileyfin. Verð sem sett yrði til heilbrigðisstofnana  um allt land og til annarrar uppbyggingar. Við Íslendingar erum rík af auðlindum og teljum það eina af okkar mestu blessun.  Mörg lönd í sömu stöðu glíma við bölvun auðlindanna, spillinguna. Hér á landi birtist hún helst í því að útgerðarmenn ausa fé í stjórnmálamenn og núverandi ríkisstjórnarflokka til að reyna að tryggja  sérhagsmunina og halda úti dagblaði sem talar þeirra máli.

Sjávarbyggðir bera kostnað

Þó margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindarnýtingunni eins og best verður á kosið. Hugmyndafræði sjálfbærar þróunar á einstaklega vel við í útfærslu reglna um nýtingu sjávarauðlindarinnar.  Auðlindanýting er sjálfbær til lengri tíma ef hún leiðir til jafnvægis þriggja þátta; umhverfisáhrifa, efnahagsáhrifa og samfélagsáhrifa. Við höfum nú þegar tekið tvö skref af þessum þremur við stjórn fiskveiða. Kvótakerfið var sett á af umhverfisástæðum, til að vernda nytjastofnana og það var áhrifaríkt skref frá sjónarhóli umhverfisáhrifa.  Það olli hinsvegar misrétti milli kynslóða nýrra og eldri útgerðarmanna og hamlaði nýliðun.  Nokkrum árum síðar var framsal kvóta heimilað af efnahagslegum ástæðum og það hefur leitt til gríðarlegrar hagræðingar í greininni.  Sú aðgerð hefur hins vegar haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Með sölu kvóta er mögulegt að kippa í einni svipan stórum stoðum undan heilu byggðalögunum eins og nýlegt dæmi úr Þorlákshöfn sýnir.  Fólkið í sjávarbyggðunum hefur borið kostnaðinn við hagræðinguna en ágóðinn að mestu runnið til einkaaðila.

Réttlæti og sátt

Við höfum náð nokkuð góðum árangri með tvo af þremur þáttum sjálfbærar þróunar í sjávarútvegi, en það höfum við gert á kostnað samfélagslegrar sáttar.  Spurningin sem við stjórnmálamenn verðum að svara er þessi: Hvernig getum við náð öllum þremur hliðum sjálfbærrar þróunar við nýtingu sjávarauðlindarinnar? Samfylkingin hefur lengi talað fyrir útboði veiðiheimilda.  Sú aðgerð ein og sér færir  samfélaginu réttlátari hlut í auðlindaarðinum og gerir nýliðun í greininni mögulegri.  Í dag er staðan þannig að eigandi auðlindarinnar, þjóðin sjálf, fær aðeins um 10% af arðinum en útgerðarmönnum er leyft að ráðstafa 90% hlut. Það hallar verulega á okkur eigendur auðlindarinnar og það mun ekki nást sátt um kerfið á meðan svo er. Við getum tekið strax skref í rétta átt með því að bjóða út viðbótarkvóta sem ákveðinn hefur verið fyrir næsta fiskveiðiár. Fyrir þinginu liggur frumvarp með lagabreytingum sem gerir einmitt þetta mögulegt. Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn eru úr þremur stjórnmálaflokkum.

Hlutur sveitarfélaga

Með því að sveitarfélög fái aukna hlutdeild í ariðunum t.d. í gengum sóknaráætlun landshluta, getum við styrkt stöðu þeirra til uppbyggingar með hugviti heimamanna. Útboð veiðiheimilda tryggir fullt verð fyrir sjávarauðlindina. Með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og staka tillit til byggðasjónarmiða ásamt ríflegri hlutdeild sveitarfélaga í því verði sem útgerðarmenn eru tilbúnir til að bjóða, myndi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og gætu losað sig undan  taprekstri dagblaðsins. Fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2016

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.7.2016 - 12:54 - 3 ummæli

Ríkisstjórn á fyrirvara

Það kom mér á óvart að lesa það í stuttri grein í Fréttablaðinu eftir félags- og húsnæðismálaráðherra að hún hefði samþykkt fimm ára fjármálaáætlun ríkisins með fyrirvara þegar að áætlunin var til afgreiðslu á ríkisstjórnarfundi. Þetta er sannarlega stórfrétt. Fyrirvarinn kom ekki fram þegar að mælt var fyrir áætluninni á Alþingi og ekki heldur við umræður í fjárlaganefnd um málið. Þvert á móti lagði meirihluti fjárlaganefndar til með framsóknarþingmann í forystu, að fjármálaáætlunin yrði samþykkt óbreytt.

Ráðherra tekur undir gagnrýni mína, ASÍ og fleiri á lækkun vaxtabóta og barnabóta. Hvoru tveggja mun koma illa við ungar barnafjölskyldur verði stefnan látin standa óbreytt og auka ójöfnuð hér á landi.

Alvarlegir fyrirvarar
Félags- og húsnæðismálaráðherra segir að hún hafi gert alvarlega fyrirvara við afgreiðslu fimm ára áætlunar ríkisstjórnarinnar. Fjármálaáætlunin er hins vegar grunnur fjárlagafrumvarps sem er helsta stefnuplagg stjórnvalda. Fyrirvarinn er því sannarlega alvarlegur, ekki síst fyrir samstarf stjórnarflokkanna.

Reyndar gerði fjármála- og efnahagsráðherra eins konar fyrirvara við fjármálaáætlunina í viðtölum í fjölmiðlum síðustu daga. Þar sagðist hann meðal annars vilja að Landspítalinn fengi umtalsverði hærri fjárveitingar til rekstrar en nú er og þar með mælti hann gegn eigin fjármálaáætlun.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þessu til viðbótar gagnrýnt búvörusamningana ákaft síðustu daga og samkvæmt því virðist ekki vera meirihluti á þingi fyrir samningum sem bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa nú þegar skrifað undir.

Ríkisstjórn ríka fólksins er því stýrt með alls konar fyrirvörum síðustu lífdagana. Það er ekki trúverðugt eða merki um stefnufestu og vönduð vinnubrögð.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.7.2016 - 19:49 - 4 ummæli

Skattsvik og þrælahald

Fyrirsögnin er ógeðfelld en þetta eru samt orðin sem lýsa best því sem verkalýðsfélög víða um land horfa upp á. Í verktakabransanum eru til fyrirtæki sem vilja hlunnfara erlenda starfsmenn með því að greiða þeim laun sem ná ekki lágmarkslaunum hér á landi.  Í ferðaþjónustunni ríkir eins konar gullgrafaraæði þar sem það sama fyrirfinnst. Reynt er að hafa laun af fólki og svört atvinnustarfsemi viðgengst. Þó flestir fari sem betur fer eftir lögum ber þetta okkur ekki fagurt vitni. Það ætti enginn að hylma yfir með þeim svíkja undan skatti eða hafa umsamin laun af fólki. Það eru ekki aðeins erlendir starfsmenn sem verða fyrir barðinu á þeim sem vilja skyndigróða og brjóta lögin. Mörg dæmi er um að illa sé komið fram við ungt fólk sem starfar í veitingahúsum eða hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Dæmi eru til að mynda um að starfsmenn fái engin útgreidd laun og séu titlaðir lærlingar þó enginn sé kennarinn eða skólinn.

Til að uppræta þessa skömm og lögleysu þarf eftirfarandi að gerast:

  • Félög atvinnurekenda og verkalýðsfélög taki höndum saman við eftirlit með launagreiðslum.
  • Aðalverktakar beri ábyrgð á því að undirverktakar fari  að íslenskum lögum og launasamningum.
  • Efla þarf eftirlit Ríkisskattsstjóra.
  • Beita á sektum og leyfissviptingum ef fyrirtæki fara ekki eftir samningum um lágmarkslaun og aðbúnað starfsfólks.

Jafnaðarmenn geta ekki setið þöglir hjá og látið verkalýðsfélög ein um að benda á skattsvik og bera ábyrgð á að uppræta það sem kalla má með réttu  þrælahald hér á landi. Við í Samfylkingunni munum ekki þegja yfir slíku eða samþykkja með fjársvelti eftirlitsstofnana eins og nú er gert. Við munum einnig beita okkur fyrir lagasetningu sem skýrir ábyrgðarsvið þeirra sem um ræðir.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.6.2016 - 12:48 - 22 ummæli

Brexit

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi eru stórtíðindi. Hún vekur upp áhyggjur af áhrifum popúlista og rasista í Evrópu og hún gengur þvert á ráðleggingar flestra sérfræðinga, atvinnulífs og forystumanna í breskum stjórnmálum. Breska þjóðin er klofin og mikið verk framundan hjá Bretum að vinna úr stöðunni og sætta fylkingar. Skotland og Norður Írland kusu með áframhaldandi aðild og óljóst hver viðbrögð þeirra verða.

En ekki síst verður þörf á að sætta á afstöðu kynslóðanna, unga fólksins og þeirra sem eldri eru. Ungt fólk vildi frekar vera áfram innan ESB, en verður nú ekki lengur hluti af hinu opna evrópska samfélagi. Það verður að gefa þeim von um að framtíð þeirra sé þrátt fyrir það björt og örugg.

Í hönd fer nú efnahagsleg óvissa sem enginn veit hvar endar. Fyrstu viðbrögð eru að markaðir falla, pundið veikist umtalsvert og forsætisráðherrann segir af sér. Bretland er enn ósjálfbært um orku og mun þurfa að tryggja sér gas og olíu, rétt eins og um miðja síðustu öld þegar tryggja þurfti aðgang að kolum og stáli. Þessi niðurstaða mun væntanlega breyta Evrópusambandinu og Evrópusamvinnu, og við Íslendingar verðum að fylgjast vel með og meta stöðuna hverju sinni með hagsmuni okkar að leiðarljósi.

Ein leið væri að hvetja til þess að Bretar verði innan EES eða EFTA. En ef til vill munum við nú heyja varnarbaráttu fyrir þá samninga, á meðan Bretar og Evrópusambandið semja um úrsögn.

Samfylkingin er alþjóðlegur og opinn flokkur og við viljum mikla samvinnu við aðrar þjóðir. Þessi niðurstaða breytir því ekki. Við viljum að þjóðin fái að ráða um aðild að ESB, en við höfum hvorki fengið að klára samninginn til að bera hann undir þjóðina, né fengið að kjósa um áframhald viðræðna. Stjórnmálamenn í Bretlandi voru ekki smeykir við að spyrja þjóðina. Sennilega hefur svokallaður „ómöguleiki“ ekki verið uppgötvaður í breskum stjórnmálum.

Tryggja þarf stöðugleika í Evrópu, og að þjóðernisrembingur nái ekki yfirhöndinni yfir friðarbandalaginu sem tryggt hefur góð lífskjör og öryggi borgara sinna allt frá síðari heimstyrjöld. Vonum að Bretland og Evrópusambandið finni leiðina áfram í sameiningu.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.6.2016 - 15:59 - 5 ummæli

Búvörusamningar – fyrir hvern?

Vegna þeirra búvörusamninga, sem nú eru til umræðu í atvinnuveganefnd Alþingis, verða greiddir beint úr ríkissjóði um 14 milljarðar króna á hverju ári næstu 10 árin. Þegar slík upphæð rennur úr sameiginlegum sjóðum okkar þurfa rökin fyrir því að vera skotheld og almannahagur augljós. Ef ekki, geta alþingismenn ekki samþykkt frumvörpin.

Mörg sjónarmið og rök eru fyrir sérstökum stuðningi við landbúnað, bæði hér á landi og í öðrum löndum. Lægra verð á vöru, byggðasjónarmið og matvælaöryggi eru þau algengustu. Samfylkingin vill að stuðningi ríkisins við framleiðslu landbúnaðarvara verði breytt og að tekið verði upp árangursríkara fyrirkomulag sem styrkir um leið byggðir, eykur frelsi bænda, gerir nýliðun þeirra auðveldari, stuðlar að nýsköpun, eykur hagkvæmni framleiðslunnar og bætir hag neytenda.

Ungir bændur

Við fyrstu sýn er afar jákvætt að í samningunum er gert ráð fyrir að horfið verði frá framseljanlegu greiðslumarki, sem skaðað hefur hagsmuni yngri og nýrra kúabænda. En það á ekki að gerast fyrr en eftir fimm ár og til staðar er endurskoðunarákvæði sem gæti gert þau áform að engu. Framseljanleikinn hefur leitt til þess að opinber stuðningur, sem ætlaður var til að skapa framboð af góðri vöru á góðu verði, lendir hjá fjármagnseigendum, lánastofnunum og þeim sem hættir eru búskap. Ungur bóndi sem kaupir sig inn í kerfið er því í sömu stöðu og ef enginn opinber styrkur væri í boði. Þessu verður að breyta.

Neytendur

Hvað eru neytendur að fá fyrir þá miklu fjármuni sem settir eru í búvörusamninga? Hvers vegna eru engin skref tekin sem leyfa aukna samkeppni? Mat Samkeppniseftirlitsins er að samningarnir treysti fákeppni í sessi og það sé ekki aðeins skaðlegt fyrir neytendur heldur líka bændur. Koma samningarnir í raun til móts við byggðasjónarmið eða eru það aðeins örfá svæði sem njóta góðs af? Þessum  spurningum er enn ósvarað þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ráðherra málaflokksins um að ekki komi til greina annað en að samþykkja samningana. Óboðlegt er að þingmenn og almenningur fái ekki skýrari svör við þessum spurningum áður en frumvörpin koma til afgreiðslu Alþingis nú í haust.

Hvað væri góður samningur?

Skynsamleg landnýting, dýravelferð, sjálfbærni  og umhverfisvernd ættu að vera skilyrði fyrir opinberum stuðningi, en nýju samningarnir mæta alls ekki þessum áherslum Samfylkingarinnar og fjölmargra annarra sem hafa gert athugasemdir. Byggðastyrkir eða landræktarsamningar, eins og eru gerðir af hálfu Evrópusambandsins hafa mætt byggðasjónarmiðunum ágætlega og þær áherslur má nýta betur til að efla byggðir landsins og auka fjölbreytni í atvinnulífi.

Gæta þarf mun betur að hagsmunum neytenda sérstaklega þegar semja á til 10 ára, binda hendur Alþingis í meira en tvö kjörtímabil, án sýnilegs ávinnings og neinna kerfisbreytinga sem máli skipta. Stærsta breytingin er á verðlagningu búvöru án þess að útskýrt sé hvernig breytingarnar gagnast almenningi. Mat Samkeppniseftirlitsins er að ef frumvörpin verði að lögum muni það skapa réttaróvissu og skaða almannahagsmuni. Eftir stendur þá spurningin: Fyrir hvern vann ríkisstjórnin þegar hún samdi við bændur?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. júní 2016

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.6.2016 - 16:33 - 1 ummæli

Leiðin að betri heilbrigðisþjónustu

Við í Samfylkingunni viljum leiða stærsta verkefni næsta kjörtímabils sem verður endurreisn heilbrigðisþjónustunnar. Við veljum leið samhjálpar, umhyggju og jöfnuðar í stað samkeppni um sjúklinga.
Hrunið og kreppan sem henni fylgdi leiddi óhjákvæmilega til niðurskurðar í heilbrigðismálum, en hnignun heilbrigðiskerfisins hófst því miður löngu fyrir hrun. Skortur á fjárfestingum og rekstrarfé blasir við hvert sem litið er. Þótt sjúklingum hafi á sama tíma fjölgað vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar, hefur uppbygging sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva ekki fylgt þeirri þróun undanfarna áratugi. Aftur á móti hefur hlutur sjúklinga í rekstri kerfisins vaxið jafnt og þétt.

En sjúklingar eiga ekki að þurfa að taka upp veskið þegar þeir þurfa á læknishjálp að halda, og Íslendingar munu seint sætta sig við lakari og dýrari þjónustu en þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar. Þess vegna viljum við í Samfylkingunni að heilbrigðisþjónustan verði í framtíðinni gjaldfrjáls.

Svo að heilbrigðisþjónustan verði betri viljum við jafnframt:

  • Efla heilsugæsluna um allt land.
  • Hefja byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.
  • Eyða löngum biðlistum eftir nauðsynlegum aðgerðum hratt og örugglega.
  • Uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða og langveika þar sem búið er vel að fólki með persónulegri þjónustu.
  • Betra aðgengi að geð- og sálfræðiþjónustu með áherslu á börn og ungt fólk.
  • Og lögfesta notendastýrða persónubundna aðstoð.

Markmiðið er skýrt því öll viljum við betri heilbrigðisþjónustu, en það skiptir máli hvernig verkefnið verður leyst. Við vitum að með gildi og forgangsröðun Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands að leiðarljósi, munum við gera það vel.

Greinin birtist áður í Fréttablaðinu

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is