Þriðjudagur 16.5.2017 - 21:04 - Rita ummæli

Yfirtaka á Fjölbrautaskólanum við Ármúla

Hugmyndir menntamálaráðherra um breytingar á rekstri Fjölbrautaskólans við Ármúla finnast mér fráleitar hvort sem litið er út frá faglegum sjónarmiðum eða rekstrarlegum.

Menntamálaráðherra Kristján Þór Júlíusson sagði í þættinum Víglínunni á Stöð2 laugardaginn 13. maí að þeir sem gagnrýna þá fyrirætlan hans að láta hagsmunaaðila í atvinnulífinu yfirtaka rekstur Fjölbrautaskólans við Ármúla þurfi að svara því hvernig mæta eigi þeim áskorunum sem framhaldsskólakerfið stendur frammi fyrir. Ráðherrann gerir þessar kröfur til okkar sem gagnrýnum fyrirhugaðar aðgerðir en gerir ekki þá sömu kröfur til sín þegar að kallað er eftir því að hann rökstyðji breytingarnar sem hann leggur til á rekstri skólans.

Hvaða áskorunum standa framhaldsskólarnir í landinu frammi fyrir nú um stundir?

Þeir standa frammi fyrir því að:

  • Tryggja eins gott aðgengi að námi og mögulegt er enda eru framhaldsskólar hornsteinar byggða um allt land.
  • Bregðast við styttingu námstíma til stúdentsprófs vegna þess að nemendum fækkar við það í bóknámi og veldur mestum breytingum í hreinum bóknámsskólum.
  • Takast á við tímabundna náttúrulega fækkun nýnema.
  • Fámennari skólar þurfa að vinna meira saman til að tryggja fjölbreytt námsframboð ýmist með staðbundnu námi eða fjarnámi.
  • Vinna gegn brottfalli nemenda.
  • Efla starfsmenntun.

Hvernig skyldi menntamálaráðherra vilja leggja framhaldsskólunum lið við að takast á við þessar áskoranir? Hann segist helst vera að huga að því að sameina tvo stóra skóla í Reykjavík. Hann vill láta Tækniskólann sem er stærsti skóli landsins og býður nemendum upp á fjölbreytt ná í tæknigreinum taka yfir góðan rekstur á 900 nemenda skóla sem sérhæfir sig í námsframboði á heilbrigðissviði og þjónar auk þess þrettánhundruð nemendum með fjarnámi.

Er nema von að menn spyrji hvað ráðherranum gangi til og velti fyrir sér samhenginu?

Ef breytingin tekur gildi á næsta skólaári hafa hvorki nemendur né kennarar möguleika á að bregðast við með því að velja sér annan skóla til náms eða starfa og réttindi starfsfólksins ótryggð.

Ef ráðherrann lætur til skara skríða er það skemmdaverk fremur en stuðningur við þær áskoranir sem framhaldsskólarnir standa frammi fyrir og skipta svo miklu máli fyrir einstaklinga og menntunarstig í landinu.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.5.2017 - 17:14 - Rita ummæli

Skjól fyrir einkarekstur

Nú hefur komið í ljós að landlæknir og heilbrigðisráðherra eru ekki sammála um túlkun laga um sjúkratryggingar. Þetta kemur skýrt fram með yfirlýsingu frá landlækni frá 19. apríl sl. og birt er á heimasíðu embættisins. Heilbrigðisráðherra virðist telja að einkareknar heilbrigðisstofnanir þurfi ekki sérstakt leyfi ráðherra til að reka sérhæfða heilbrigðisþjónustu eða sjúkrahúsþjónustu, heldur nægi einungis staðfesting frá Embætti landlæknis um að þær uppfylli faglegar kröfur. Þær geta síðan fjármagnað rekstur sinn með samningi Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur.

Með þessari fráleitu túlkun heilbrigðisráðherra hafa stjórnvöld enga stjórn á því hvert opinbert fjármagn rennur eða hvaða rekstrarform verða ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi. Hér er einfaldlega lúffað fyrir villtustu draumum frjálshyggjumanna en almannahagur fyrir borð borinn.

Til að bregðast við þessari slæmu stöðu hefur Samfylkingin flutt frumvarp um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Tillaga okkar er um að ráðherra geti ekki gert þjónustusamninga við einkaaðila í heilbrigðiskerfinu nema með samþykki Alþingis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og að arðgreiðslur af heilbrigðisþjónustu verði óheimilar. Frumvarpið var líka lagt fram á síðasta kjörtímabili en fékkst ekki samþykkt og hefur nú verið í meðferð velferðarnefndar frá því febrúar. Þessi tillaga Samfylkingarinnar hefur fengið mjög jákvæðar umsagnir, enda í samræmi við vilja meginþorra almennings.

Gætum að grunnstoðunum

Hugmyndum um gróða og markað hefur verið þröngvað inn í umræðuna um viðkvæma stöðu heilbrigðiskerfisins. Þeir sem vilja selja ríkinu heilbrigðisþjónustu hafa ráðið för með því að skilgreina þarfirnar og útfærsluna sjálfir og er í raun leyft að skammta sér almannafé.

Ekkert kallar á aukinn einkarekstur nema frjálshyggjustefna núverandi ríkisstjórnar með heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar, sem leyfir einkavæðingunni að blómstra í hans skjóli. Við hin þurfum að gæta að og verja grunnstoðir velferðarkerfisins kröftuglega nú þegar að hugmyndir um aukinn einkarekstur vaða uppi. Einkarekstur getur ekki komið í staðinn fyrir trausta opinbera heilbrigðisþjónustu sem er öllum aðgengileg og rekin er af myndarbrag. Aldrei má minnsti vafi leika á því hvort hagsmunir sjúklinga eða rekstraraðila heilbrigðisstofnana vegi þyngra.

Grein um sama efni birtist í Fréttablaðinu 24. apríl 2017

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.4.2017 - 14:16 - Rita ummæli

Svikin kosningaloforð

Ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benenediktssonar er svik við kjósendur og almenning í landinu. Hún er svik við ungt fólk jafnt sem aldraða. Áætlunin er í engu samræmi við kosningaloforð. Viðreisn og Björt framtíð sem vildu mála sig upp þegar að þeim fannst við eiga sem jafnaðarmenn í kosningabaráttunni, hafa fallist á allar áherslur Sjálfstæðismanna.

Hvar er uppbygginguna að finna í þessari áætlun í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, almennri velferð og samgöngum?

Hvar er hina skynsamlegu sveiflujöfnun að finna?

Hvar er að finna aðgerðirnar sem stuðla eiga að efnahagslegum stöðugleika?

Hvar eru aðgerðirnar sem eiga að stuðla að félagslegum stöðugleika og friði á vinnumarkaði?

Svörin við öllum þessum spurningum er: Hvergi.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skilar þar auðu enda stóð aldrei annað til á þeim bænum. Skattar eru meira að segja lækkaðir á tíma hagvaxtar og þenslu. Kannast einhver við það úr fortíðinni? Virðisaukaskattur var lækkaður á árinu 2007 úr 14% í 7%. Það voru hagstjórnarmistök í bullandi góðærinu og nú á að leika svipaðan leik með lækkun á almenna virðisaukaskattsþrepinu 1. janúar 2019.

Fúsk í fjármálum
Fjármálaáætlunin er byggð á fjármálastefnunni sem enn er ekki afgreidd en umræður hafa verið um í þinginu að undanförnu. Í stefnunni er ekki skapað svigrúm fyrir aukin útgjöld ef hagspár reynast óraunsæjar og samdráttur verður í hagkerfinu á árunum fram til ársins 2022. Í samræmi við stefnuna er engin áform í áætluninni um að auka tekjur af efnaðasta fólki landsins og af þeim fyrirtækjum sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar í sjávarútvegi, orkuframleiðslu eða stóriðju. Það eru sérstök vonbrigði og ekkert annað en fúsk, að í engu sé brugðist við skýrum athugasemdum fjármálaráðs og Seðlabankans um fjármálastefnuna. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að ekki sé tekið mið af hagsveifluleiðréttingu þegar að afkomumarkmiðin eru ákveðin. Væri það gert er ljóst að áætlaður afgangur af opinberum fjármálum ætti að vera meiri en stefnan og þar með fjármálaáætlunin gera ráð fyrir.

Af umsögn fjármálaráðs má ráða að afla þurfi aukinna tekna svo að velferðarkerfið verði ekki fórnarlamb niðurskurðar ef aðstæður breytast í hagkerfinu og að stjórnvöld geti lent í spennitreyju fjármálastefnunnar.

Norræn velferð
Forsætisráðherra sagði kátur á dögunum að þegar að ríkisstjórnin væri búin að lækka virðisaukaskattinn í 22,5% 1. janúar 2019, þá væri almennaþrepið hér orðið það lægsta á Norðurlöndunum. Áður en við segjum Jibbí! og Húrra! við þessu, skulum við fá svör við því hvort þjónustustig velferðarþjónustunnar verði þá líka hér það lægsta á Norðurlöndunum.

Nær væri að stefna að því að ná þeim góða félagslega jöfnuði sem einkennir Norðurlöndin, sem þar er greitt fyrir með stigvaxandi tekjuskatti og öfluðu virðisaukaskattskerfi. Norðurlöndin eru einu samfélögin sem staðist hafa ágang frjálshyggjunnar enda hafa jafnaðarmenn þar oftast verið við stjórnvölin og hægrimenn ekki gert breytingar á skattkerfi eða velferð þá sjaldan að þeir hafa náð völdum. Við ættum að stefna þangað í átt að auknum jöfnuði og réttlæti. Fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fer með íslenskt samfélag í þver öfuga átt og svíkur fólkið í landinu sem bjóst við öðru eftir fagurgala í aðdraganda kosninga.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.3.2017 - 08:17 - Rita ummæli

Einkavæðing bankanna

Það eru stór orð að segja að þjóðin hafi verið blekkt þegar Búnaðarbankinn var seldur. Einkavæðing bankanna og vöxtur þeirra í kjölfarið var rót hrunsins og við erum enn að glíma við slæmar afleiðingar þess.

Margir hafa getið sér til um einmitt það að um blekkingar hafi verið að ræða en ekki sannreynt fyrr en nú. Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður gerði athuganir á sínum tíma á reikningum þýska bankans og benti á að ekkert væri þar að finna um að bankinn hefði verið raunverulegur kaupandi Búnaðarbankans. Vilhjálmur hélt því fram að um blekkingar væri að ræða en viðbrögðin þá voru þau að athuganir hans voru gerðar tortryggilegar.

Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu oft eftir athugun á stjórnsýsluháttum þegar að bankarnir voru einkavæddir og efuðust um gæði þeirra.

Ögmundur Jónasson þingmaður Vg hafði ásamt fleiri stjórnarandstöðuþingmönnum efasemdir um raunverulega þátttöku þýska bankans í kaupunum og spurði þáverandi viðskiptaráðherra um það. Ögmundur fékk skriflegt svar í febrúar 2006 frá Fjármálaeftirlitinu á þann veg að stofnunin teldi að ekkert benti til annars en að þýski bankinn hefði verið hluthafi í Eglu hf.

Efasemdum og grun um blekkingar og slæma stjórnsýslu í aðdraganda einkavæðingarinnar og í kjölfar hennar var ýtt ákveðið til hliðar meðal annars af ráðherrum, Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitinu. Í því ljósi er niðurstaða rannsóknarinnar sérstaklega sláandi um að eignarhald þýska bankans á hlutunum í Eglu hf og þar með í Búnaðarbankanum hafi aðeins verið að nafninu til og til málamynda og yfirvarp fyrir endanleg yfirráð, áhættu og ávinning annarra aðila.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna kemur fram að S- hópnum hafi verið greint frá því í ágúst 2002 að við val á kaupanda Búnaðarbankans yrði gefinn „plús fyrir erlenda peninga“, eins og það var orðað.

Erlendur hluthafi í Eglu hf er kynntur til sögunar stuttu síðar og S-hópurinn komst upp með að gefa óljósar upplýsingar um erlenda eigandann og athuganir sem gerðar voru, voru óformlegar.

Hvers vegna voru blekkingarnar mögulegar? Hvers vegna var ekki gengið harðar eftir upplýsingum um aðkomu og fjármögnun þýska bankans sem öllum var ljóst, af umræðum í fjölmiðlum og við ráðamenn að skipti miklu máli við mat á kaupendum? Hvernig gat þetta gerst?

Alþingi samþykkti haustið 2012 þingsályktun sem flutt var af þingmönnum Samfylkingarinnar, Vg og Hreyfingarinnar undir forystu Skúla Helgasonar þingmanns Samfylkingarinnar, um að ráðast í rannsókn á einkavæðingu allra bankanna þriggja. Þeirri samþykkt hefur ekki verið fylgt eftir en á auðvitað að gera og hefja rannsóknina eins fljótt og auðið er.

Og sagan má aldrei endurtaka sig!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.3.2017 - 16:53 - 1 ummæli

Baráttukveðjur til kvenna

Hugmyndina að sérstökum baráttudegi kvenna átti Clara Zetkin, þýsk kvenréttindakona og sósíalisti, sem bar hana fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910. Þess vegna er 8. mars alþjóðlegur baráttudagur kvenna.

Barátta kvenna fyrir réttindum kvenna og jafnrétti er þó nokkuð eldri. Svokallaðar Suffragettur var býsna herská kvennahreyfing sem barðist með óvenjulegum og harkalegum meðulum getum við sagt, s.s. hungurverkföllum fyrir málefnum kvenna í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20., bæði í Breska heimsveldinu og Vestan hafs. Andstæðingarnir sögðu þá að konur væru of miklar tilfinningaverur til að fara með mikilvæg völd, þær gætu ekki hugsað rökrétt og yfirvegað eins og karlmenn.

Því miður verðum við enn vör við slík viðhorf, meira að segja nýlega á Evrópuþinginu, en það er sem betur fer mjög sjaldgæft í seinni tíð.

Oft er fullyrt að jafnrétti kynjanna sé þegar orðið að raunveruleika hér á landi. Bæði sé það tryggt með lögum og Íslendingar svo meðvitaðir um mikilvægi jafnréttis að ójafnréttið mælist varla. Þetta er því miður rangt. Ójafnréttið leynist víða og staða karla og kvenna er sannarlega ekki jöfn á meðan að kynbundinn launamunur mælist.

Sterkar konur og fyrirmyndir hafa rutt brautina fyrir okkur hinar hér á landi og fyrir það er ég afar þakklát.

Þó konur nálgist það að vera helmingur þingmanna þá er kynjahalli sannarlega til staðar við ríkisstjórnarborðið. Það er nauðsynlegt og það er réttlætismál að konur sitji til jafns við karla við borðin þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar fyrir samfélagið, hvort sem er í ríkisstjórn, á þingi, í sveitarstjórnum, samninganefndum um kaup og kjör eða stjórnum fyrirtækja.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum voru tvöfalt fleiri karlar í fyrsta sæti framboðslista en konur eða 123 karlar og 61 kona.

Ég hvet konur til að taka sér meira pláss í stjórnmálunum og í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Baráttukveðjur!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.2.2017 - 11:00 - 2 ummæli

Sala bankanna

Þegar við ræðum bankakerfið íslenska, umfang þess og þjónustu, þurfum við að horfa til þess að við erum fámenn og markaðurinn lítill. Við þurfum þrátt fyrir smæðina að koma okkur upp regluverki og eftirliti með fjármálastarfsemi sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og trausts, og það er einnig forsenda þess að rekin sé samkeppnisfær utanríkisverslun.

Sjálfstæður gjaldmiðill með óstöðugu gengi sem hefur mikil áhrif á breytingar verðlags í landinu er líka eitt sérkenni íslenska hagkerfisins ásamt verðtryggingu.

Það er mikilvægt að ríkið beiti eigendaáhrifum sínum í bönkunum til þess að stuðla að heppilegri og hagkvæmri þróun á fjármálamarkaði og skipulagi hans.

Markmið ætti að vera að hér á landi þrífist fjármálakerfi sem getur staðið af sér fjármálaáföll. Framtíðarskipan fjármálakerfis á Íslandi þarf að miða að því að kerfið verði öruggt, skilvirkt og hæfilega umfangsmikið fyrir þjóðarbúskapinn.

Mér finnst mikilvægt að við tryggjum það í núverandi stöðu að fjármálakerfið verði ekki til frambúðar í óbreyttri mynd. Aðkallandi breyting er að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Almenningur verði þannig varinn fyrir áhættu fjárfestingabankastarfsemi og búnir verði til bankar sem sjá um þjónustu á eins ódýran máta og mögulegt er, við fólk og venjuleg fyrirtæki. Greiðslukerfið og fjárfesting með lágmarksáhættu verði hluti af almennri þjónustu við fólkið í landinu.

Þess vegna eigum við alls ekki að selja bankana frá okkur núna, heldur nýta tækifærið til að endurskipuleggja bankakerfið. Að því loknu mætti skoða hagkvæmni þess að selja hluta kerfisins.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.1.2017 - 16:15 - Rita ummæli

Ferðamannaparadís

Allt sem skiptir máli fyrir þróun ferðaþjónustunnar hér á landi skiptir einnig máli fyrir Suðurland, enda vinsælustu ferðamannastaðirnir á því landssvæði. Ferðaþjónustan er á örfáum árum orðin ein af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar en enginn hefur almennilega haldið um stjórnartaumana og stýrt þróun hennar eða metið áhrif umfangs hennar, s.s. á aðrar atvinnugreinar, fasteignaverð og þenslu. Stjórnvöld hafa ekki sinnt því mikilvæga hlutverki að ákvarða hvernig hagkvæmast og best er að ferðaþjónustan þróist til framtíðar, meta kostnað af ágangi ferðamanna og hvað teljast megi æskilegt rekstrarumhverfi atvinnugreinar í miklum vexti. Ef ekki verður gripið strax um taumana er líklegt að orðspor Íslands sem ferðamannastaðar skaðist, ferðamönnum fækki og fjárfestingar í greininni beri sig ekki með slæmum fjárhagslegum afleiðingum.

Almenn rekstrarskilyrði

Við þurfum að stýra þróuninni og skapa ferðaþjónustunni almenn rekstrarskilyrði sem tryggja tekjur til viðhalds vega, í heilbrigðisþjónustu, sjúkraflutninga og löggæslu. Ferðamenn fá afslátt af virðisaukaskatti sem nemur a.m.k. 10 milljörðum króna á ári. Þessi upphæð ætti að renna til uppbyggingar sem nýtist greininni og um leið landsmönnum öllum. Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili var algjörlega óásættanlegt. Sú nýja verður að grípa í taumana og víkja af þeirri braut að almenningur beri kostnaðinn af uppbyggingu nauðsynlegra innviða á sama tíma og ferðamennirnir fá afslátt.

Birtist fyrst í héraðsblaðinu Suðra 19. janúar 2017

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.10.2016 - 11:54 - 5 ummæli

Óábyrg efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins

Formaður Sjálfstæðisflokksins skilur ekki enn hvernig hann skildi eftir lág- og millitekjufólk – 80 prósent landsmanna! – en lækkaði skatta á efnaðasta fólk landsins. Það er svo merkileg þessi mýta um að hægrimenn stjórni betur en aðrir eða hafi meira vit á peningum, því hún stenst enga skoðun. Indriði Þorláksson, fyrrum ríkisskattstjóri, afgreiddi fjármálaráðherrann snyrtilega og benti honum á að aukin skattbyrði komi vissulega til vegna hærri tekna hjá meirihluta launafólks, en það ekki raunin hjá þessum ríkustu 20 prósentum. Þeirra skattur hefur lækkað á sama tíma að tekjur þeirra hafa hækkað meira en annarra.

Jafnvel þótt allt annað í kosningabaráttunni hafi farið framhjá kjósendum, er hér komin ein mikilvæg ástæða til að skipta um stjórn. Því þessi stjórn vinnur eingöngu samkvæmt löngu úreltum kenningum um brauðmola til almúgans og mikilvægi þess að sumir lifi í lúxus en aðrir dragi fram lífið. Þeir hafa rangt fyrir sér.

Svona á að gera þetta

Ef bæta á stöðu almennings, en ekki bara þeirra ríkustu, verður að beina sköttunum í rétta átt. Það jafnvægi bjó Samfylkingin til fyrir nokkrum árum, með þrepaskiptum tekjuskatti. Þeir hafa lægstu tekjurnar greiða minnst í skatt, en þeir sem eru í mestu færum borga mest. Það er réttlátt, og á því byggja þau samfélög sem helst er horft til í heiminum og jafnaðarmenn hafa byggt upp.

Útboð á kvóta er ekki sérstakt áhugamál Samfylkingarinnar, heldur réttlætismál fyrir okkur öll. Að afnema undanþágur ferðamanna frá greiðslu virðisaukaskatts er leið til að fjármagna grunnþjónustu. Þannig öflum við peninga til að standa undir öflugri gjaldfrjálsri þjónustu við sjúklinga og nemendur og verðum í færi til að styðja við barnafjölskyldur, aldraða, öryrkja og þeirra sem eru fastir á fokdýrum leigumarkaði.

Góður jarðvegur fyrir einkaframtak

Vissulega verður að búa fyrirtækjum landsins góðan jarðveg með hagstæðum sköttum og gjöldum, en það er best gert með lækkun tryggingagjalds. Það lækkaði ekki nema um hálft prósent seint á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir loforð um annað. Skattalækkunum hægrimanna  er venjulega beint í kolrangar áttir og annað dæmi um það er ferðaiðnaðurinn, sem er orðin okkar stærsta og öflugasta atvinnugrein. Eitt sinn átti það við að styrkja þá grein beint, en nú hjálpum við henni ekki með skattalækkunum. Besti stuðningurinn við móttöku ferðamanna er með uppbyggingu innviða, betri vegum, betri aðstöðu, verndun náttúrunnar og eflingu heilsugæslu og löggæslu.

Líka til heimbrúks

Sagan sýnir að vinstrimenn eru sérstaklega færir í efnahagsstjórn því við hugsum um almannahag. Utanríkisráðherra sækir nú heim háskóla og virtar stofnanir erlendis og útskýrir hversu vel við stjórnuðum í efnahagshruninu. Hún mætti gjarnan brúka þann fyrirlestur hér heima líka, kjósendum til upplýsingar.

Skattabreytingar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hafa snúist um að raska því jafnvægi sem við sköpuðum milli skattgreiðenda og nú greiða ríkustu 20% þjóðarinnar hlutfallslega lægri skatta en aðrir. Það er óréttlátt og því eigum við breyta. Það er helsta ógn við stöðugleika á Íslandi og ástæða þess að ASÍ styrkir nú verkfallssjóði sína.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.10.2016 - 14:24 - 1 ummæli

Ábyrg stefna og útfærðar leiðir Samfylkingarinnar

Eftir kosningar verða kaflaskil og tækifæri til að gera breytingar sem skipta máli fyrir almenning í landinu. Kjósendur ráða ferðinni og niðurstaðan verður vonandi hagfelld þeim flokkum sem vilja sjá umbætur strax.

Samfylkingin er málsvari barnafjölskyldna. Við viljum að þær fái betri stuðning með því að lengja fæðingarorlofið og hækka barnabæturnar. Við þurfum öll að búa einhvers staðar og Samfylknigin hefur útfært leið til þess að styðja við leigjendur og ungt fólk sem vill komast á húsnæðismarkaðinn með 5.000 leiguíbúðum á næstu fjórum árum og forskoti á fasteignamarkaði með fyrirframgreiddum vaxtabótum.

Að lækka vexti er eitt stærsta hagsmunamál fjölskyldna og nýr gjaldmiðill er valkostur sem verður að bjóðast Íslendingum. Samfylkingin vill að þjóðin fái að kjósa um áframhald viðræðna við Evrópusambandið.

Samfylkingin leggur ríka áherslu á að auka jöfnuð með réttlátari skiptingu auðsins sem auðlindir okkar gefa og við höfum útfært leiðir til þess. Við viljum bjóða út kvótann og afnema undanþágur ferðamanna frá almenna virðisaukaskattþrepinu. Við erum sannarlega rík af auðlindum, en verðum að fá fleiri krónur fyrir hvern ferðamann, fyrir hvern veiddan fisk og hvert selt megawatt.

Stóru málin

Við leggjum áherslu á velferð, með húsnæðisöryggi, gott heilbrigðiskerfi, góðri menntun og atvinnumarkaði sem býður um upp á áhugaverð og vel launuð störf. Við leggjum mikla áherslu á jafnrétti kynjanna, mannréttindi minnihlutahópa og flóttafólks, á nýja stjórnarskrá og að Ísland leggi sig raunverulega fram í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

Við eigum að virða alþjóðaskuldbindingar í loftslagsmálum og stíga ákveðin skref í átt að því að gera Ísland kolefnishlutlaust á næstu áratugum. Mikilvægasta skrefið í þá átt er að vinna áætlun fyrir orkuskipti og hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis. Súrnun sjávar er vaxandi vandamál og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir vistkerfi Íslands. Við eigum að standa okkur miklu betur í stærsta sameiginlega verkefni mannkyns sem er að stöðva hlýnun jarðar.

Verkalýðshreyfingin og jafnaðarmannaflokkurinn

Vinnumarkaðurinn hefur verið uppnámi allt kjörtímabilið. Ástæðan er sú að stjórnvöld hafa ekki unnið með aðilum vinnumarkaðarins að sameiginlegri lausn. Þessi tregða stjórnvalda er ástæða þess að samstaða næst ekki og stöðugleikanum er ógnað. Samfylkingin mun vinna með verkalýðshreyfingunni að kjarabótum. Samhljómur er með málflutningi Samfylkingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar um gjaldfrjálsra heilbrigðisþjónustu, betri stuðningi við barnafjölskyldur, nýjum húsnæðislausnum og nýjum gjaldmiðli. Að þessu verður umbótastjórn að vinna. Félagslegur stöðugleiki verður að vera til staðar svo hægt sé að viðhalda þeim efnahagslega stöðugleika, sem fyrir ótrúlegt harðfylgi náðist á fjórum árum eftir hrun.

Kjósum Samfylkinguna

Baráttan gegn aukinni misskiptingu og fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins þolir enga bið. Samfylkingin er með útfærðar lausnir og dýrmæta reynslu eftir að hafa tekið til eftir hrunið. Við getum lagt þá reynslu og okkar leiðir inn í umbótastjórn með ýmsum hætti, en mikilvægast er að breytingar eigi sér stað strax eftir næstu helgi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.10.2016 - 14:10 - 5 ummæli

Hvað varð um lán SÍ til Kaupþings?

Upplýsingarnar sem greint var frá í gærkvöldi í Kastljósi um mögulegan leka úr Seðlabankanum til starfsmanns Samtaka fjármálafyrirtækja, eru grafalvarlegar og krefjast þess að lekinn og hugsanlegar afleiðingar hans séu rannsakaðar og upplýstar að fullu. Samtal forsætisráðherra og seðlabankastjóra verður að birta.

Ekki er síður alvarlegt að sérstakur saksóknari skuli ekki hafa upplýst Seðlabankann um lekann ef hann átti sér stað, og ástæður þess þarf að skoða. Það verður líka óhjákvæmilegt að rannsaka viðskipti með hlutabréf og lánveitingar komi í ljós að upplýsingum um fyrirhugað lán til Kaupþings hafi verið lekið.

Nú vitum við að Davíð Oddsson, sem seðlabankastjóri, taldi lánveitinguna vera tapað fé. Þá vakna spurningar um hvað varð um féð sem lánað var, og hvað gerðist í bönkunum daginn sem lánveitingin fór fram og afhverju var lánað sama dag og átti að setja neyðarlög? Hverra hagsmuna voru þeir að gæta?

Það hlýtur að vera krafa almennings að vita hvað varð um peningana og að það verði gert strax!

Umfjöllun Kastljóssins má sjá hér

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is