Mánudagur 27.3.2017 - 19:40 - FB ummæli ()

Aðalfundur Heimssýnar

Aðalfundur Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, verður haldinn þriðjudaginn 28. mars 2017 klukkan 20:00 í húsakynnum Heimssýnar í Ármúla 6 í Reykjavík. Ræðumaður er Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, og fundarstjóri Haraldur Ólafsson veðurfræðingur.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf, kosningar og önnur mál.

Allir félagsmenn og stuðningsfólk Heimssýnar er velkomið.

Framkvæmdastjórn Heimssýnar

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 2.2.2017 - 18:07 - FB ummæli ()

Atvinnulífið hafnar ESB

Meirihluti félagsmanna í félagi íslenskra atvinnurekenda telur að ekki eigi að halda viðræðum við ESB áfram og stór meirihluti þeirra er á móti aðild að ESB. Samkvæmt nýlegri könnun vilja 52% félagsmanna ekki halda viðræðum áfram á meðan aðeins 35,1% vilja halda þeim áfram. Aðeins 16,9 prósent eru á því að Ísland eigi að gang í ESB á meðan 55,7% eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki að ganga í ESB.

Á þessu sést að íslenskt atvinnulíf hafnar algjörlega aðild að ESB.

Athyglisvert í þessari könnun er einnig að mun færri vilja taka upp evru, bæði eru þeir í miklum minnihluta og þeim fækkar jafnframt.

Mbl.is birti frétt um málið, sjá hér.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 1.12.2016 - 12:22 - FB ummæli ()

Fullveldishátíð Heimssýnar 1. desember

fullvmyndFullveldishátíð Heimssýnar var haldin 1. desember 2016, í húsakynnum Heimssýnar, Ármúla 4-6 í Reykjavík, og hófst klukkan 20:30.

 

Dagskrá var fjölbreytt:

Ávörp: Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar og Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar

Hátíðarræða: Haraldur Ólafsson veðurfræðingur

Hljómsveitin Reggí Óðins

Sigurður Alfonsson harmonikkuleikari

Söngur, tónlist og kaffiveitingar

Kynnir: Þollý Rósmundsdóttir

Á myndinni eru flestir þeir sem fram komu á fullveldishátíðinni. Talið frá vinstri: Haraldur Ólafsson, Halldóra Hjaltadóttir, Þollý Rósmundsdóttir, Reggí Óðinsdóttir og Jón Bjarnason. Á myndina vantar Sigurð Alfonsson og svo aðra meðlimi í hljómsveit Reggí Óðins.

Allir velkomnir

Heimssýn

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.10.2016 - 22:31 - FB ummæli ()

Þetta sögðu þau um ESB í kvöld!

Umræðurnar um ESB-málin í kosningasjónvarpinu áðan voru um margt áhugaverðar. Fram kom að Birgitta og Píratar geta ekki gert upp hug sinn, Þorgerður og Viðreisn reyna að láta líta út fyrir að vera ekki alveg viss um hvort þau vilji í ESB, og Össur og Samfylking vilja ennþá inn í þetta brennandi hús eins og Jón Baldvin kallar það. Það voru bara Guðlaugur Þór og Vésteinn Valgarðsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Alþýðufylkingar, sem sögðu það alveg skýrt að það væri algjörlega andstætt hagsmunum Íslendinga að ganga í ESB. Fulltrúar annarra flokka skýra sjónarmið sín síðar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, sagði það mikilvægt að ræða um ESB-málin í fullri alvöru. Hann sagði að við vissum hvað ESB væri því það væri til staðar fyrir augum okkar. Eins gætum við séð hvernig samninga væri hægt að fá með því að skoða samninga aðildarríkja. Hann sagði að þau skref til frelsis í viðskiptum sem stigin hefðu verið hér á landi að undanförnu hefðu ekki getað verið stigin hefðum við verið í ESB – og hann bætti því við að værum við í ESB þyrftum við að hækka tolla, auka við umsvif tollgæslunnar og auka skrifræðið. Þá sagði Guðlaugur að það væri mikilvægt að skoða og ræða hvernig það gengi í ESB-löndunum með mikilvægt mál eins og atvinnu en gífurlegt atvinnuleysi væri hjá ungu fólki í ESB-löndum (það er um 50% á Spáni og víðar). Þá sagði Guðlaugur að tækifæri myndu opnast fyrir Íslendinga vegna Brexit. Að lokum sagði Guðlaugur að krónan hefði komið Íslendingum vel til sveiflujöfnunar og til að draga úr atvinnuleysi – en hins vegar væri mikið atvinnuleysi í evrulöndunum.

Vésteinn Valgarðsson, Alþýðufylkingu, sagðist vera fortakslaus andstæðingur ESB. Hann sagði evruna ekki leysa neinn vanda. Ísland væri sjálfstætt hagkerfi með eigin hagsveiflu (sem er óháð og ólík hagsveiflu evrulanda að jafnaði) og því þyrftu Íslendingar að vera með eigin gjaldmiðil. Vésteinn sagði að ef við hefðum haft evruna við fjármálahrunið hefðu Íslendingar tekið skellinn í formi fjöldaatvinnuleysis og það hefði orðið töluvert verra fyrir alþýðu og allan þorra manna. Íslenska krónan hefði bjargað því sem bjargað varð. Þá sagði Vésteinn að ESB væri ólýðræðislegt samband (minna má t.d. að það eru embættismenn frá Brussel, sem hafa ekkert lýðræðislegt aðhald, sem nú eru að víla og díla um málefni alþýðunnar í Grikklandi). Enn fremur sagði Vésteinn að ESB verndaði stórauðvaldið og stuðlaði að markaðsvæðingu félagsmála. Hann sagði að hann og hans flokkur vildi halda í fullveldið af því að það væri hægt að nota þjóðinni til hagsbóta. Og varðandi viðræðurnar við ESB sem sigldu í strand sagði Vésteinn að ESB hefði sjálft stöðvað þær af því að það gat ekki fellt sig við þá fyrirvara sem Alþingi setti (m.a. um auðlindamál). Því þyrfti að afnema þá fyrirvara ef halda ætti áfram viðræðum – sem hann taldi greinilega mikið óráð.

Össur Skarphéðinsson reyndi að halda því fram að það ætti að vera auðvelt að ná „hagstæðum“ samningum við ESB. Hann heldur greinilega að þjóðin sé búin að gleyma því þegar hann og hans fólk sögðu að það ætti ekki að taka nema 12-18 mánuði að ljúka samningum þegar hann sótti um aðild árið 2009. Honum tókst hins vegar að sigla samningunum í strand á um tveimur árum með þeim samningsskilmálum sem hann og Alþingi settu sem lágmarkshagsmunaviðmið fyrir Íslendinga. Það er því ljóst að ef Össur ætlar í samningaviðræður núna þá verður það ekki gert öðruvísi en að skilyrði Alþingis um viðræður verði algjörlega hunsuð. Hann er svo ólmur í því að halda áfram að hann er núna tilbúinn til þess, segir hann, að leyfa þjóðinni að taka afstöðu til þess hvort halda eigi áfram viðræðum. Eins og kom fram hjá öðrum í kvöld þýðir það nýja umsókn og í raun að fallið verði frá lífsnauðsynlegum fyrirvörum Íslendinga sem Alþingi setti. Þá vitnaði Össur í skýrslu Seðlabankans þar sem kemur fram að Íslendingar geti vel haldið áfram með krónuna – en gangi þeir í ESB þurfi Íslendingar að taka upp evru.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn, sló úr og í að þessu sinni. Hún var alveg búin að gleyma myntráðinu, líklega vegna þess að hún veit að það fiskast engir kjósendur á það. Þorgerður þóttist ekki geta svarað því hvort hún vildi í ESB, heldur vildi hún bara að þjóðin yrði spurð um áframhaldandi viðræður. Hún veit það sem einlægur ESB-aðildarsinni að eina leiðin til að teyma þjóðina inn í ESB er að koma þessum aðlögunarviðræðum (sem Jón Torfason fjallar svo skilmerkilega um í bók sinni um Villikettina í VG) í gang að nýju.

Birgitta Jónsdóttir, Pírötum, sagðist vilja upplýsta umræðu um ESB, t.d. um það hvað aðildarviðræður þýða, hvaða áhrif þær hafa á stjórnsýsluna og fleira. Það þyrfti að skoða reynsluna úr þeim viðræðum sem strönduðu. Hún sagði að það væri mjög skiptar skoðanir hjá Pírötum um aðild að ESB. Sumir vildu að Ísland gerðist aðili, aðrir væru á móti því og svo væru sumir, eins og hún, sem hefðu ekki gert upp hug sinn.

Ef það gæti orðið til að aðstoða Birgittu að gera upp hug sinn þá má minna hana á að viðræður við ESB eins og þær eru stundaðar í dag – og reyndar síðasta áratuginn nánast – eru þannig að gengið er út frá því að þau lönd sem vilji hefja viðræður vilji gerast aðilar – að þau vilji inn í sambandið. Þess vegna þurfa umsóknar- og viðræðulönd að skuldbinda sig til að aðlaga lög og reglur að því sem gildir í ESB áður en af aðild verður – eða að löndin verði í það minnsta búin að skýra nákvæmlega frá því hvernig það verði gert í þeim tilvikum sem það næst ekki fyrir aðild. Þess vegna notar ESB svokallaða IPA-styrki (sem sumir kalla mútur) til að flýta fyrir aðlögun landanna (Instrument for Pre-Accession Assistance: IPA) – til að auðvelda aðlögun (sjá m.a. bók Jóns Torfasonar um Villikettina).

Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðum annarra framboða um þetta efni síðar í vikunni.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 20.3.2016 - 10:16 - FB ummæli ()

Hjörleifur um öngstræti ESB

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, ritaði í liðinni viku yfirgripsmikla og skarpmælta grein um stöðu ESB og framtíð Íslands. Nei við ESB hefur fengið leyfi Hjörleifs til þess að endurbirta hér grein hans sem birtist í Morgunblaðinu 17. þessa mánaðar.

 

Hjörleifur Guttormsson:

Evrópusamband í öngstræti og þörfin á að rækta garðinn heima fyrir

 

Hjorleifur

Það blæs ekki byrlega fyrir Evrópusambandinu nú um stundir. Sambandið glímir við tilvistarvanda og margir fyrrverandi stuðningsmenn samrunans sem ESB stendur fyrir setja stórt spurningarmerki við framtíð þess. Þótt mest umtalaða deilumálið sé nú flóttamannastraumurinn og gjörólík viðbrögð aðildarríkja við honum, hafa fleiri undirstöður verið að bresta, ein af annarri. Í þeim efnum er afdrifaríkast að trúin á evruna sem sameiginlegan gjaldmiðil fer ört dvínandi og hún er af mörgum talin undirrót efnahagslegrar stöðnunar og hrikalegs atvinnuleysis í mörgum aðildarríkjum. Nýjasta hálmstráið vegna flóttamannavandans er afar umdeildur samningur við Tyrki, sem reynt verður að innsigla á leiðtogafundi ESB nú í vikulokin.

Ummæli liðinnar viku úr þremur áttum

Í liðinni viku varð vart opnaður fjölmiðill svo ekki dyndu yfir dómsdagsspár um framtíðarhorfur ESB. Á mánudegi kom fram í Ríkisútvarpinu Jón Baldvin Hannibalsson sem kynnti sig sem fyrrverandi harðvítugasta talsmann þess að Ísland gengi í Evrópusambandið. „Ég hef endurskoðað þá afstöðu. Einfaldlega vegna þess að þegar ég horfi á Evrópu, þá sé ég Evrópusamband sem er nánast í sjálfsmorðsleiðangri vegna þess að pólitíska forystan hefur algjörlega brugðist … Peningasambandið er byggt á röngum grunni og stenst ekki. Það mun ekki standast nýtt áhlaup.“ – Á miðvikudegi átti BBC svonefnt „Hard talk“-viðtal við Mervyn King, fyrrverandi yfirmann Englandsbanka sem er höfundur að umtalaðri bók The End of Alchemy: Money, Banking and the Future of the Global Economy (Útg. W.W. Norton & Co.). Í viðtalinu varaði King ekki aðeins við alvarlegum brotalömum í bankastarfsemi á heimsvísu heldur stimplaði evruna sérstaklega sem líklegan banabita ESB. – Á föstudegi steig svo fram fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Anne Krueger, og sagði Íslendinga vel geta notað krónu áfram og réð jafnframt Íslandi frá að ganga í evrusamstarfið. (Fréttablaðið 11. mars, s.12). Vitnaði hún sérstaklega til vandræða Grikkja sem vítis til varnaðar.

Gengur ESB í gapastokk Tyrkja?

Upplausnin í Evrópusambandinu er engin óskastaða fyrir þróun mála á meginlandi Evrópu, þótt sá sem hér talar sé gagnrýninn á ólýðræðislega uppbyggingu þess og nú sem fyrr andsnúinn aðild Íslands að ESB. Það kapp sem lagt var á stækkun ESB frá 1990 að telja og sérstaklega upp úr síðustu aldamótum er nú að koma því í koll samhliða spennitreyju evrunnar. Gjáin sem nú er öllum sýnileg milli nýrra aðildarríkja og þeirra gömlu undir forystu Þýsklands verður tæpast brúuð þannig að grói um heilt. Schengen-kerfið er í uppnámi og Merkel Þýskalandskanslari virðist einnig vera að missa tökin innanlands ef marka má úrslit fylkiskosninga um síðustu helgi. Nú á að reyna að stemma stigu við flóttamannastraumnum með samkomulagi við Tyrki gegn háum fjárgreiðslum og öðrum tilslökunum. Það mælist hins vegar illa fyrir, enda gengur það gegn alþjóðlegum skuldbindingum Sameinuðu þjóðanna um meðferð flóttamanna. Ólýðræðislegar tiltektir Erdogans forseta innanlands bæta ekki úr skák. Á þetta mun reyna á leiðtogafundi ESB og Tyrkja á næstu dögum og niðurstaðan getur orðið afdrifarík.

Framtíð Íslands getur orðið björt

Þróun innan Evrópusambandsins á síðustu misserum ætti að sýna Íslendingum hvílíkt óráð það var að leita eftir aðild okkar að sambandinu 2009. Við sluppum með skrekkinn og ólíklegt er að þeir sem enn knýja á um að þráðurinn verði tekinn upp á ný nái eyrum margra. Sjálfsagt er að rækta framvegis góð tengsl við ESB eins og aðra og finna þeim samskiptum form sem hæfir. Þjóðin hefur að verulegu leyti unnið sig út úr afleiðingum efnahagshrunsins og á það nú fyrst og fremst við sjálfa sig að leggja hér grunn að farsælli framtíð í eðlilegu samstarfi við grannþjóðir beggja vegna hafsins. Undirstaða efnalegs velfarnaðar er þó fyrst og fremst framsýnt skipulag um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og víðtæka landvernd. En til að hér dafni traust samfélag þarf jafnframt öfluga menningar- og menntastefnu og að þess sé gætt að engir verði utangarðs, hvorki heimamenn eða nýir landnemar.

Orð í tíma töluð

Nýlega barst mér í hendur grein eftir Guðrúnu Nordal sem birtist í Tímariti Máls og menningar (1. hefti 2016) og ber heitið Veisla í farangrinum. Greinin er í senn óður til menningararfsins og hvatning til að rækta hann og endurnýja í gerbreyttu samfélagi frá því sem var um miðja síðustu öld. Guðrún segir m.a.: „Þegar við íhugum framtíð íslenskunnar og rannsókna á íslenskri menningu og sögu, finnum við að hún tengist að mörgu leyti afdrifum og möguleikum okkar litla samfélags í norðurhöfum og afstöðu okkar sjálfra til landsins og tungumálsins. Hvernig verður umhorfs ef við missum tengsl við tungu og sögu þess fólks, sem hefur byggt landið frá níundu öld, og þau sérkenni sem tungan ljær menningu okkar?“ Svar hennar er, að þótt íslenskan sé undurlítil í samfélagi tungumálanna sé það undir okkur sjálfum komið að hún nái að endurnýja sig og blómstra á nýrri öld tölvu og tækni.

Höfundur er náttúrufræðingur.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 26.2.2016 - 17:51 - FB ummæli ()

Göran Persson spáir hruni evrunnar

GoranperssonEinn helsti þungaviktarmaður jafnaðarmanna og Norðurlanda í evrópskri pólitík síðustu áratugina, forsætisráðherrann fyrrverandi í Svíþjóð, Göran Persson, segir í viðtali við sænska fjármáladagblaðið Dagens Industri í gær að stærsta ógnin sem ESB standi frammi fyrir sé hvorki úrsögn Breta né flóttamannavandinn heldur ný fjármálakreppa sem gæti kippt fótunum undan evrunni.

Göran Persson lék aðalhlutverkið í sænskum stjórnmálum frá 1994 til 2006 þegar hann fyrst sem fjármálaráðherra átti stóran þátt í því að Svíar gerðust aðilar að ESB og síðan sem forsætisráðherra frá 1996 til 2006.

Persson segir að lágvaxtastefna Seðlabanka evrunnar og fleiri seðlabanka sé helsta ástæðan fyrir þeirri ógn sem sé að byggjast upp gegn fjármálakerfinu. Hann segir að fjármálabólur séu að blása út sem geti sprungið fyrr en varir með látum. Persson óttast að eitt af stóru evrulöndunum muni lenda í erfiðleikum vegna fjármálakreppunnar og slíka erfiðleika muni fjármálakerfið á evrusvæðinu og í ESB ekki ráða við.

Persson segir í viðtalinu að fari Bretar úr ESB gæti það auðveldað frekari samruna þeirra ríkja sem eftir verða. Hins vegar gæti þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi í júní um aðild að ESB orðið kveikjan að þeirri nýju fjármálakreppu sem hann óttast að skelli á. En jafnvel þótt atkvæðagreiðslan í Bretlandi verði ekki kveikjan að þeirri kreppu þá verði undirliggjandi fjármálavandi evrunnar tifandi tímasprengja sem geti sprungið hvenær sem er.

Naumur meirihluti Svía samþykkt aðild að ESB árið 1994 eða 52%. Árið 2004 höfnuðu 56% Svía því að taka upp evruna og samkvæmt síðustu könnunum hafa tæplega 80% Svía verið á móti evrunni.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 3.2.2016 - 12:18 - FB ummæli ()

Prófessor varar við útbreiðslu fjölónæmra baktería með ESB-reglum

professorKarlKarl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, segist óttast aukna útbreiðslu fjölónæmra baktería verði innflutningsbann á hráum og ófrosnum kjötvörum afnumið. Þessi ummæli viðhafði hann í kjölfarið á nýju ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sem segir að innflutningsbann íslenskra stjórnvalda á hráu og ófrosnu kjöti brjóti í bága við EES-samninginn.

Svo segir í frétt Ríkisútvarpsins:

 

Í löndum þar sem fjölónæmar bakteríur eru algengari, sé dánartíðni af völdum slíkra baktería hærri og horfur sjúklinga verri.

Samkvæmt nýju ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins brýtur innflutningsbann íslenskra stjórnvalda á hráu ófrosnu kjöti í bága við EES-samninginn. Íslensk stjórnvöld íhuga nú hvernig bregðast skuli við stöðunni sem upp er komin.

Karl segir að íslensk kjötframleiðsla sé í sérflokki hvað varðar litla notkun sýklalyfja, og óttast að fjölónæmum bakteríum sem berast milli manna og dýra, fjölgi verði innflutningsbannið afnumið.

„Í löndum þar sem ónæmi er algengara en á Íslandi, eru sýkingar af völdum þessara fjölónæmu baktería algengari og sýkingar af völdum fjölónæmra baktería hafa hærri dánartíðni og horfur sjúklinga eru marktækt verri heldur en ef þeir væru að sýkjast af næmum bakteríum,“ segir Karl í samtali við fréttastofu. „Fyrir utan það að í sumum tilfellum getur verið mjög erfitt að uppræta sýkingar af völdum baktería sem eru ónæmar fyrir nánast öllum sýklalyfjum.“

Hættan er raunveruleg

Hann segir hættuna vissulega til staðar í dag, til að mynda vegna innflutts grænmetis og ferðamanna. Mjög grannt sé fylgst með því að þeir beri ekki með sér fjölónæmar bakteríur inn á sjúkrahús landsins. Þá hafi fjölónæmar bakteríur nú þegar borist til landsins, sem tekist hafi að hefta útbreiðslu á. Hann segir ónæmi baktería mismikið eftir löndum, áhættan sé langmest í Asíu og meiri í Suður-Evrópu en í Norður-Evrópu. Ísland sé hins vegar með eitt lægsta ónæmishlutfall í álfunni, þó víðar væri leitað.

„Því miður þá er mín skoðun sú að þessi áhætta sé raunveruleg og að þetta muni gerast. Við viljum bara að það gerist hægt og seint, þannig að þegar það gerist þá verði komin ný sýklalyf,“ segir Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.1.2016 - 18:20 - FB ummæli ()

Tíu rökum ESB-aðildarsinna svarað

euprobFyrir stuttu var hér fjallað um tólf ástæður til að forðast aðild Íslands að Evrópusambandinu. Aðildarsinnar greindu nýverið frá tíu ástæðum sem þeir töldu mæla með aðild. Hér verður þeim málflutningi aðildarsinna svarað lið fyrir lið:

 

 1. Lægra matvælaverð á Íslandi?

ESB-sinnar nefna að verð á landbúnaðarvörum gæti í einhverjum tilvikum lækkað örlítið ef vörurnar væru fluttar inn frá ESB þar sem þær eru verksmiðjuframleiddar á risabúum á 500 milljóna manna markaði. Þeir gleyma hins vegar að taka með í reikninginn hin fjölmörgu störf sem myndu tapast hér á landi og minna fæðuöryggi og aukna sjúkdómahættu sem þessu myndi fylgja. Kosturinn við okkar litla markað er meðal annars mun vistvænni framleiðsla. Upplýst hefur verið að notkun sýklalyfja í Þýskalandi og á Spáni, svo dæmi séu tekin, sé 40-60 sinnum meiri en hér á landi. Landbúnaðarstefna ESB hefur haft gífurlega neikvæð áhrif á landbúnað og ýmis héruð bæði í Svíþjóð og Finnlandi. Sænskir bændur eru nú að skera upp herör gegn kerfi ESB og ætla að taka málin aftur í sínar hendur.

 

 1. Ísland öðlast raunverulegt fullveldi?

ESB-aðildarsinnar segja að Ísland öðlist raunverulegt fullveldi með því að ganga í ESB því við höfum lítið um þær ákvarðanir að segja sem eru teknar innan ESB og settar eru í löggjöf hér á landi. ESB-aðildarsinnar gleyma því þó að Íslendingar gætu haft meiri áhrif á upphafsstigum reglusetningar í ESB. Jafnframt gleyma þeir því að Íslendingar fengju aðeins 5 atkvæði af 750 á ESB-þinginu og aðeins 3 atkvæði af 350 í ráðherraráðum, þar sem mikilvægustu ákvarðanir eru teknar. ESB-aðildarsinnar vilja heldur ekki skilja að það eru stóru þjóðirnar sem ráða för í flestum veigamiklum málum í ESB og þá langt út fyrir hlutfallslegt vægi þeirra. Tilskipanir frá Brussel um ríkisfjármál aðildarlandanna og aðgerðir varðandi málefni flóttamanna sýna m.a. hið skerta fullveldi ríkja í ESB. Árangursleysið við að ná markmiðum um opinberar skuldir og verðbólgumarkmiðum sýnir svo getuleysi ESB í efnahagsmálum.  Svipað má segja um ringulreiðina í flóttamannamálum.

 

 1. Lægri vextir?

ESB-aðildarsinnar héldu lengi fram þeirri firru að allir vextir yrðu með svipuðum hætti í ESB og lægri en ella. Staðreyndin er að vextir í sumum löndum sem verst urðu úti í evrukreppunni ruku upp úr öllu valdi þar sem fáir vildu lána þeim um tíma. Staðreyndin er einnig sú að vextir hafa verið mjög mismunandi til neytenda, hvort sem er á húsnæðislánum eða öðru, í hinum ýmsu evrulöndum. Staðreyndin er einnig sú að ástæðan fyrir mjög lágum vöxtum víða á evrusvæðinu nú er sú að hagkerfið hefur verið í frosti, framleiðsla allt of lítil, eftirspurn of lítil og atvinnuleysi víða ógnvænlega mikið. Þrátt fyrir talsvert langt tímabil með lágum vöxtum hefur ekki tekist að blása almennilega í glæður atvinnulífs í ESB og hagvöxtur að meðaltali verið nálægt núllinu.

Það má svo ekki gleyma einu skýrasta dæminu um skaðsemi evrunnar og meðaltalsvaxtastefnunnar á evrusvæðinu. Það dæmi er Írland. Írar fengu allt of lága vexti eftir að landið tók upp evruna. Fyrir vikið jókst skuldasöfnun gífurlega á Írlandi og bólumyndun í hagkerfinu sem endaði með miklum skelli. Seðlabanki Evrópu krafðist þess svo að skattborgarar tækju á sig ábyrgð á skuldbindingum einkabankanna. Fyrir það munu Írar lengi líða.

 

 1. Nothæfur gjaldmiðill?

Gjaldmiðill greiðir fyrir viðskiptum. Flestir gjaldmiðlar eru þjóðargjaldmiðlar og eru einkum notaðir í viðkomandi löndum en minna í alþjóðlegum viðskiptum. Svo eru til gjaldmiðlar sem eru einnig notaðir í alþjóðlegum viðskiptum. Þar er Bandaríkjadalur langsamlega öflugastur, en einnig er stuðst við jen, sterlingspund og evru. Það er ekkert markmið í sjálfu sér fyrir ríki að gjaldmiðill þess keppi við stærstu alþjóðlegu viðskiptagjaldmiðlana.

Gengi annarra gjaldmiðla en krónunnar hefur einnig sveiflast talsvert. Það á undanfarið við um evru, Bandaríkjadal og aðra miðla. Værum við með evru myndi gengið sveiflast talsvert gagnvart Bandaríkjadal sem er viðmiðun í stórum hluta viðskipta.

Það er alger fásinna að möguleg upptaka evru myndi flýta losun fjármagnshafta. Því var haldið fram af fulltrúum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að umsókn um aðild að ESB myndi flýta afnámi hafta. Staðreyndin er að umsóknin hafði engin áhrif á þá þróun. Það mál verður leyst af okkur hér innanlands.

ESB-aðildarsinnum er tamt að tala um kostnaðinn við krónuna. Þeir gleyma hins vegar því að með krónunni hafa Íslendingar farið úr því að vera ein fátækasta þjóð í Evrópu á fáeinum mannsöldrum í það að vera ein sú ríkasta.

Jafnframt gleyma ESB-aðildarsinnar hinum gífurlega kostnaði sem evran veldur víða í ESB-löndunum sem felst í því hvernig evran hefur stuðlað að hinum mikla atvinnuleysi á jaðarsvæðum álfunnar. Það er nú kominn tími til að ESB-aðildarsinnar átti sig á þeim kostnaði en reyni ekki að slá ryki í augu fólks.

Það er enn fremur fjarri lagi að verðtrygging yrði úr sögunni þótt evra yrði tekin upp. Sömu verðtryggðu samningar myndu gilda áfram, sumir til áratuga, hvort sem það eru útlán til húsnæðiskaupa eða verðtryggð skuldabréf sem eru stór hluti eignar lífeyrissjóða, svo dæmi sé tekið.  Hins vegar er hægt að draga úr verðtryggingu eins og að einhverju leyti hefur verið gert að undanförnu.

 

 1. Lægri skólagjöld í breskum háskólum?

Það er óvíða ódýrara að mennta sig en á Íslandi og gæði menntunar eru bara nokkuð góð. Hægt er að afla sér ódýrrar framhaldsmenntunar á Norðurlöndum og mun víðar. Breska skólakerfið er svo sem ágætt en skarar ekki fram úr öðrum löndum nema örfáir skólar. Breskir skólar hafa sóst eftir því að fá framúrskarandi nemendur frá Íslandi og boðið þeim góða styrki til framhaldsmenntunar. Lægri skólagjöld fyrir aðra íslenska nemendur í breskum háskólum skipta vissulega máli, en þau vega ekki mikið þegar allir hagsmunir eru teknir saman og reynt að vega og meta hvað sé hagkvæmast fyrir íslensku þjóðina og námsmenn í heild til lengri tíma litið.

 

 1. Niðurfelling tolla?

Við getum fellt niður þá tolla sem við teljum hagkvæmt. Þróunin hefur verið í þá átt að lækka og fella niður tolla gagnvart viðskiptalöndum okkar, meðal annars á matvælum. Hins vegar getur verið hagkvæmt fyrir okkur að hafa tolla á tilteknum vörum til að vernda mikilvæga framleiðslu hér á landi sem á í samkeppni við verksmiðjubúskap á meginlandi álfunnar. Við höfum gert fjölmarga viðskiptasamninga við önnur ríki, t.d. Kína og Færeyjar sem færa okkur margvíslegan ávinning. Slíkir samningar og aðrir sem við höfum gert falla niður við aðild að ESB. ESB-aðild þýðir því niðurfellingu tolla að einu leyti en að öðru leyti förum við inn fyrir tollmúra ESB (t.d. á áli). ESB leggur nefnilega tolla á ýmsar vörur sem þegar eru tollfrjálsar hér á landi. Það er raunar athyglisvert hvað íslensk stjórnvöld gera lítið úr mikilvægi tollverndar og hafa verið tilbúin að fella þá niður einhliða.

 

 1. Erlendar fjárfestingar – aukin atvinnutækifæri?

ESB-aðildarsinnar halda því fram að með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru yrði auðveldara að laða að erlenda fjárfesta til Íslands, sem myndi þá vonandi skila sér í því að erlend fyrirtæki myndu setjast hér að í auknum mæli og skapa þannig atvinnu fyrir Íslendinga. Hér á landi hefur á undanförnum áratugum verið talsverð erlend fjárfesting. Vissulega hefur stór hluti hennar verið tengdur við arðbæran orkuiðnað og líklega varhugavert að hraða erlendum fjárfestingum um of í þeim geira. Þrátt fyrir krónuna hafa fjárfestar frá ýmsum nágrannalöndum fjárfest einnig í eignum, fyrirtækjum og verðbréfum hér á landi, meira að segja undanfarin ár, því þrátt fyrir fjármagnshöftin eru ekki settar teljandi hömlur á fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Til lengri tíma eru það framleiðsluþættirnir sem skipta máli þegar meta á það hversu arðbært er að fjárfesta í tilteknu landi. Þar skipta mestu auðlindir landsins, innviðir hagkerfisins og færni vinnuaflsins. Gjaldmiðillinn skiptir þar litlu máli. Þjóðin hefur ekki viljað heimila algjört frelsi í fjárfestingum í sjávarútvegi og það hefur verið takmarkaður pólitískur áhugi á því að heimila erlendar fjárfestingar í orkuiðnaði. Almenningur á Íslandi vill halda opinberum yfirráðum yfir stórum hluta orkuframleiðslunnar. Það verður því ekki ætlað annað en að ESB-aðildarsinnar vilji óheftar fjárfestingar erlendra aðila í auðlindum landsins, bæði tengdum sjávarútvegi og orkuframleiðslu. Með því er hætt við að arðurinn af fjárfestingunum færi úr landi í ríkari mæli.

 

 1. Fyrir landsbyggðina?

ESB-aðildarsinnar halda því fram að við fengjum einhverja styrki til byggðamála í gegnum ESB. Staðreyndin er sú að vegna styrks íslensks hagkerfis yrðu Íslendingar sjálfir að greiða þessa styrki í gegnum skatta sem lagðir yrðu á almenning. Auk þess myndi aðild að ESB grafa undan landsbyggðinni með því að vega að framleiðslu í sveitum landsins með óheftum innflutningi á matvælum.

 

 1. Stærsta viðskiptablökk í heimi?

Með aðild Íslands að ESB yrðum við  hluti af stærstu viðskiptablökk í heimi og hefðum áhrif á mótun hennar, segja ESB-aðildarsinnar. Í fyrsta lagi virðast aðildarsinnar vera búnir að gleyma því að við erum aðilar að evrópska efnahagssvæðinu og njótum þar með í veigamiklum atriðum sama fjórfrelsis og ESB-þjóðir almennt. Þeir virðast einnig gleyma því að með aðild að ESB myndum við tapa samningssjálfstæði í mörgum málum, ekki síst sjávarútvegsmálum. Værum við hluti af ESB hefði Brussel úthlutað okkur kvóta, þar með talið í makríl, og við myndum auk þess tapa sæti okkar við samnings- og fundarborðið í margs konar alþjóðlegu samhengi.

 

 1. Friður, frelsi og jafnrétti?

ESB-aðildarsinnar segja að markmið Evrópusambandsins hafi frá upphafi verið að stuðla að friði. Ekki skal gert lítið úr þeim markmiðum en heldur hefur ESB tekist óhönduglega til þar sem það hefur komið nærri. Nægir að nefna stríðið á Balkanskaga, deilur á Sri Lanka og átök í Vestur-Afríku. Hefur ESB stuðlað að auknum jöfnuði eða jafnrétti? Samkvæmt nýlegri könnun Eurostat, Hagstofu ESB, eiga 120 milljónir Evrópubúa á hættu að lenda í fátækt og félagslegri útskúfun. Ójöfnuður af því tagi getur verið jarðvegur fyrir átök. Það er því ekki skrýtið að ESB skuli stefna að því að koma sér upp her. Og fyrir hvern hefur ESB stuðlað að frelsi? Ekki hefur frelsi þeirra tugmilljóna manna sem misst hefur vinnuna aukist. Ekki hefur frelsi þeirra kvenna aukist sem hafa misst vinnuna í þjónustu hjá hinu opinbera en þurfa í staðinn að aðstoða aldraða og sjúka ættingja sína ókeypis. Það er nefnilega þannig að efnahagsþrengingarnar sem evran veldur hefur víða farið verst með konur. Jöfnuður og jafnrétti hefur minnkað, frelsið verið skert og friðurinn hangir víða á bláþræði í álfunni, t.d. vegna þess hve óhönduglega hefur tekist til í málefnum er varða flóttamenn.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 28.11.2015 - 16:00 - FB ummæli ()

Hornsteinar ESB hrynja og þar með ESB sjálft

markRutteOrð forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, eru enn ein staðfesting þess að Evrópusambandið þolir ekki áföll. Fjármálakreppan sýnir að evrusamstarfið gengur ekki upp. Straumur flóttamana sýnir að Schengen-samstarfið virkar ekki. Þar með er búið að kippa tveimur af fjórum hornsteinum undan ESB-samstarfinu. Schengen og evran gætu tekið allt ESB með sér í fallinu.

Pólitísk græðgi sjálfskipaðra leiðtoga ESB er að verða þeim að falli. Þeim nægði ekki að stuðla að frelsi í viðskiptum með vöru og þjónustu á svæðinu. Um þau markmið var tiltölulega góð sátt miðað við annað. Trúarkenningar þeirra boðuðu að það þyrfti líka að tryggja frjálst flæði fjármagns innan svæðisins og þeir bjuggu til Seðlabanka Evrópu og evruna. Sá seðlabanki er einn sá ógegnsæjasti í veröldinni þar sem sérhagsmunir virðast fá betri aðgang en almannahagsmunir. Evran var góð fyrir þau lönd sem gátu náð efnahagslegu forskoti en hún varð martröð annarra ríkja.

Og nú verður fjórða frelsið, ferðafrelsið, skert af því að Schengen virðist hafa verið hrákasmíð. Það er hætta á að Evr­ópu­sam­bandið falli eins og Róm­ar­veldi til forna vegna flótta­manna­vand­ans í álf­unni, seg­ir for­sæt­is­ráðherra Hol­lands, Mark Rutte.

Arkitektar Evrópusambandsins voru drifnir áfram af kennisetningum án jarðsambands.

ESB-byggingin er eins og lítið hús sem er stækkað með stórrri viðbyggingu. Vandinn er bara sá að hornsteinar viðbyggingarinnar eru ótraustir. Þannig hafa tveir af fjórum hornsteinum ESB reynst vera fúasmíð sem ekki þolir álag. Þegar hornsteinarnir gefa sig er hætt við að þeir taki allt húsið með sér í fallinu.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 18.11.2015 - 12:33 - FB ummæli ()

Tólf ástæður til að hafna Evrópusambandsaðild

esbneitakkÞað eru margar ástæður til að hafna aðild Íslands að ESB. Með aðild að Evrópusambandinu myndu áhrif og völd færast í ríkari mæli til Brussel og grundvöllur velferðar íslensku þjóðarinnar yrði ótryggari. Hér að neðan eru nefndar tólf ástæður til að hafna Evrópusambandsaðild:

 

 1. Úrslitavald yfir auðlindum

Það er grundvallarregla hjá ESB að stofnanir þess hafa „úrslitavald um varðveislu lífríkis sjávarauðlinda í samræmi við sameiginlegu fiskveiðistefnuna“. Allt tal um að Íslendingar geti fengið varanlega undanþágu frá þessari meginreglu er ábyrgðarlaus áróður. Mörg aðildarríki hafa sótt það fast en ekkert þeirra fengið annað en tímabundna aðlögun. Lögsaga Íslendinga yfir auðlindum sjávar umhverfis landið er sjö sinnum stærri en landið sjálft. ESB fengi úrslitavald um hámarksafla sem leyfður yrði, veiðitegundir, veiðisvæði og veiðitíma. Reglum um „hlutfallslegan stöðugleika“ (hliðsjón af veiðireynslu) getur meirihluti ráðherraráðsins breytt þegar henta þykir. Rétti komandi kynslóða til fiskimiðanna yrði stefnt í mikla hættu.

 

 1. Atvinnuleysið er eitt helsta einkenni ESB

Stórfellt atvinnuleysi er eitt helsta einkenni á atvinnulífi ESB og fylgifiskur aðildar. Þar kemur aðallega tvennt til. Í fyrsta lagi er vinnumarkaður í ESB þunglamalegur og hefur lítinn sveigjanleika. Í öðru lagi hefur mismunandi hagþróun innan evrusvæðisins gert það að verkum að jaðarríkin, svo sem Grikkland, Spánn, Ítalía, Portúgal, Írland og Finnland, hafa tapað í verðsamkeppninni gagnvart Þjóðverjum og nánustu nágrönnum þeirra. Þjóðverjar hafa unnið sigra í viðskiptasamkeppninni og safnað auði á meðan mörg önnur ríki hafa orðið undir og tapa atvinnutækifærum. Þess vegna hefur atvinnuleysið verið á bilinu 20-30 prósent í nokkrum löndum á suður-jaðri ESB og um 50% meðal ungs fólks.

 

 1. Óhagkvæmt myntsvæði fyrir Ísland

Óhagræðið af sameiginlegri vaxta- og peningastefnu á evrusvæðinu ýtir sem sagt enn frekar undir atvinnuleysi í jaðarríkjunum. Ýmislegt bendir til þess að ESB sé í raun ekki hagkvæmt myntsvæði, hvað þá að svæðið sé hagkvæmt myntsvæði með Íslandi. Ástæðan er m.a. sú að hagsveiflur eru gjörólíkar hér og á meginlandi Evrópu. Þess vegna hentar önnur peninga- og vaxtastefna. Án þeirrar aðlögunar sem fæst í gegnum gengi krónunnar er einnig víst að Íslendingar yrðu mun lengur að ganga í gegnum hagsveiflur.

 

 1. Samningsrétturinn glatast

Um þriðjungur af verðmæti sjávaraflans fæst úr svonefndum deilistofnum sem flakka úr einni lögsögu í aðra. Hingað til höfum við Íslendingar haft samningsrétt við önnur ríki, svo og ESB, um veiðar úr þessum stofnum. Við ESB-aðild myndum við framselja það vald til yfirstjórnar ESB. Nýjar tegundir bætast við lífríkið í lögsögu Íslendinga, t.d. með breytingu á hitastigi sjávar svo sem gildir um makríl. Ef við hefðum afhent ráðamönnum ESB samningsréttinn og hlýtt boðum þeirra og bönnum væri nær ekkert veitt hér af þessum tegundum, t.d. kolmunna sem skilað hefur tugmilljarða króna virði í þjóðarbúið á hverju ári.

 

 1. Þungt högg fyrir landbúnaðinn

Íslenskur landbúnaður veitir okkur öryggi í fæðuframleiðslu sem yfirleitt einkennist af miklum gæðum auk þess sem hann styrkir jöfnuð okkar í viðskiptum við aðrar þjóðir og heldur uppi atvinnu og byggð í landinu. ESB-aðild yrði þungt högg fyrir landbúnaðinn sem sviptur yrði tollvernd. Samdráttur í búvöruframleiðslu myndi valda auknu atvinnuleysi víðs vegar um land í sveitum og þéttbýli sem byggir afkomu sína á framleiðslu landbúnaðarafurða. Eftir hrun fjármálalífsins er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að spara gjaldeyri og draga úr atvinnuleysi í stað þess að auka innflutning á kostnað innlendrar framleiðslu og hækka heildargreiðslu til atvinnuleysisbóta.

 

 1. Ísland yrði sem eyðilegt sjávarþorp?

ESB-aðild útheimtir að opnað sé fyrir fjárfestingu erlendra fyrirtækja í sjávarútvegi. Íslensk útgerð er skuldum vafin og í erfiðu árferði gætu veiðiheimildir auðveldlega safnast á hendur erlendra auðfélaga og arðurinn (virðisaukinn) þannig flust úr landi. Ísland gæti því „breyst í kvótalaust sjávarþorp“, eins bent hefur verið á.

 

 1. Valdajafnvægið skekkist – ESB í hag

Með aðild að ESB færist vald yfir veigamiklum þáttum til Brussel. Dæmi: 1) yfirráðin yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu; 2) rétturinn til að gera fiskveiðisamninga við önnur ríki; 3) rétturinn til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki; 4) rétturinn til að afnema tolla eða leggja á tolla; 5) æðsta dómsvald til ESB-dómstólsins o.s.frv. ESB-aðild er þess eðlis að hún útheimtir breytingu á stjórnarskrá Íslands í grundvallaratriðum. Það væru mikil afglöp gagnvart komandi kynslóðum ef við afsöluðum réttindum þjóðarinnar í hendur öðru ríki eða ríkjasambandi. Ákvörðun um ESB-aðild má því ekki taka út frá skammtímasjónarmiðum, svo sem aðsteðjandi kreppu eða vandamálum tengdum gengi krónunnar, heldur verður að horfa áratugi fram í tímann og minnast þess að einmitt í krafti sjálfstæðisins bætti þjóðin lífskjör sín frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu og til að verða ein sú ríkasta.

 

 1. Nýtt stórríki

Seinustu sex áratugi hefur ESB þróast hratt og fengið öll helstu einkenni nýs stórríkis sem stjórnað er af forseta og ríkisstjórn, þingi og æðsta dómstól og hefur sameiginlega utanríkisstefnu og fiskveiðilögsögu, landamæraeftirlit til skamms tíma, stjórnarskrá, fána og þjóðsöng og stefnir að einum gjaldmiðli. Ekkert bendir til þess að þessi þróun sé á enda runnin þótt ákveðið hik hafi nú orðið á sumum þáttum. Meginmarkmiðið með framsali aðildarríkjanna á mikilvægustu þáttum fullveldis síns til miðstjórnarvaldsins í Brussel er að byggja upp nýtt risaveldi sem þjónar innri þörfum Sambandsins, þ.e. þeirra hagsmuna og viðmiða sem þar eru ríkjandi. Réttarstaða aðildarríkjanna verður hliðstæð fylkjunum í Bandaríkjum Ameríku sem hafa sjálfstjórn í vissum málaflokkum en búa við skert sjálfstæði og sterkt alríkisvald.

 

 1. Völd litlu ríkjanna fara minnkandi

Völd lítilla ríkja í ESB fara smám saman minnkandi en völd hinna stóru vaxandi. Stefnt er að meirihlutaákvörðunum í stórauknum mæli með hliðsjón af íbúafjölda aðildarríkjanna. Ísland fengi 3 atkvæði af 350 í ráðherraráðum, þar sem mikilvægustu ákvarðanir eru teknar, og 5 atkvæði af 750 á ESB-þinginu. Sjálfstæð rödd Íslands myndi að mestu þagna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Því fámennara og áhrifaminna sem aðildarríki eru þeim mun meiri er skerðing sjálfstæðisins og hvergi yrði sú skerðing jafn tilfinnanleg og hér, m.a. vegna þess hve sjávarútvegur vegur þungt í efnahagslífi okkar og orkuauðlindirnar eru miklar og vannýttar. Hætt er við að Ísland verði eins og hreppur á jaðri risaríkis þegar fram líða stundir.

 

 1. Samþjöppun valds í ESB og lýðræðishalli

Í ESB hefur mikið vald færst til embættismanna í Brussel og til ráðherra sem taka veigamestu ákvarðanir. Þingið hefur fyrst og fremst staðfestingar- og eftirlitsvald. Almennir þegnar í aðildarlöndunum hafa því lítil áhrif á þróun mála og afar dræm kosningaþátttaka til þings ESB sýnir hve framandi og fjarlægt Brussel-valdið er þeim. Lýðræðishallinn í ESB er ein og sér næg ástæða til að hafna ESB-aðild. Valddreifing er tímans kall en sívaxandi valdasamþjöppun í miðstýrðum stofnunum ESB sem að litlu leyti lúta eftirlitsvaldi kjósenda er tilræði við þróun lýðræðis í Evrópu. Á Íslandi geta kjósendur fellt ríkisstjórn sem þeim líkar ekki við en í ESB hefðu þeir engin áhrif á hverjir yrðu hinir nýju yfirboðarar landsmanna. Þá er evran, evrusamstarfið og Seðlabanki Evrópu ein skýrasta birtingarmynd lýðræðishallans. Stýrivextir og gengi miðast við meðaltalsþróun þar sem hagsmunir stóru ríkjanna eru í fyrirrúmi auk þess sem leynd hvílir yfirákvörðunum Seðlabanka Evrópu og fundargerðir ekki birtar líkt og annars staðar.

 

 1. Valdamiðstöðin er fjarlæg

Fjarlægð Íslands frá valdamiðstöðvum ESB og þekkingarleysi embættismanna þar á íslenskum aðstæðum minnir okkur á hve fráleitt er að Íslandi sé stjórnað úr 2000 km fjarlægð. Hætt er við að brýnar ákvarðanir sem varða okkur Íslendinga miklu velkist oft lengi í kerfinu í Brussel og það gæti orðið okkur til mikils skaða, t.d. í sjávarútvegsmálum og á öðrum sviðum auðlindanýtingar. Margar ESB-reglur henta Íslendingum alls ekki vegna smæðar íslensks samfélags og ólíkra aðstæðna í fámennu landi. Skemmst er að minnast ESB/EES-reglnanna um bankakerfið sem hafði það í för með sér að íslenskir bankar gátu þanist út á ESB-svæðinu. Samtímis var það krafa stjórnmálaaflanna í ESB-löndunum að íslenska ríkið, þ.e. skattgreiðendur á Íslandi, myndu bera ábyrgð á Icesave og bönkunum. Það var aðeins með hugrekki og þreki nokkurra íslenskra forystumanna og íslensks almennings að þeirri aðför að hagsmunum Íslendinga var hrundið. Við þurfum að geta sniðið okkur stakk eftir vexti og valið það sem okkur hæfir best.

 

 1. Hernaðarveldi í uppsiglingu

Í Lissabonsáttmálanum, sem verður ígildi stjórnarskrár ESB, eru heimildir fyrir Evrópusambandsher. ESB gerir ráð fyrir að í framtíðinni þurfi Sambandið að efla hernaðarmátt sinn og í 42. gr. í Sambandssáttmálanum (The Treaty on European Union, TEU) er áskilið að stofnaður verði her til að gæta hagsmuna ESB, bæði í Evrópu og annars staðar.  Minna má jafnframt á þá staðreynd að Hollande, forseta Frakklands, vísar nú í stofnsáttmála Evrópusambandsins, þar sem kveðið er á um að varnarsamstarf aðildarríkjanna hefjist sjálfkrafa verði eitt þeirra fyrir árás, og óskar á þeim grunni eftir aðstoð aðildarríkja ESB við hervarnir.

Flokkar: Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is