Laugardagur 9.4.2011 - 10:58 - 11 ummæli

Nú er best að segja já.

Samkvæmt skoðanakönnunum verður neiið ofan á. Davíð ætlar að segja nei. Sama fólkið og kaus yfir okkur Davíð Oddsson trekk í trekk og þar með hrunið ætlar að segja nei. Sömu skáldin og sungu honum lof á fimmtugsafmælinu ætla að segja nei. (Sú bók finnst á bókasafninu) Sömu mennirnir og brugguðu Icesavedílinn ætla að segja nei. Það mikill og andstyggilegur fnykur af þessu Neii. Svo eru hinir sem finnst þessi ríkisstjórn hafi brugðist í Landsdómsmálinu, Magmamálinu, Libyumálinu og gangi erinda heimskapitalismans á alltof mörgum sviðum og ætla að segja nei. Það er það fólk sem ég er oftast sammála. En ekki í dag. Ég get ekki tekið sömu afstöðu til fjármála, því um það snýst málið, einsog mestu fjármálafífl Íslandssögunnar. Ég ætla  að taka mér stöðu með hinum varkáru og segja já.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.4.2011 - 17:59 - 8 ummæli

Kjaftasögur í stað frétta?

Árangurslaust hef ég reynt að skrá mig inn mörgum sinnum til að skrifa athugasemd við fréttir Eyjunnar. Ekki tókst það heldur í dag þegar ég ætlaði að gera athugasemd við það hvað Ögmundur og Jón Bjarnason ætli að kjósa á morgun.

Ég spyr því hér : Hvers konar fréttaflutningur er þetta? Báðir þessir menn hafa lýst því yfir að þeir ætli að segja já á morgun. Eyjan þykist vita betur. Ef ég vissi ekki að Sigmundur Davíð er staddur á flokksþingi Framsóknar þá hefði ég haldið að hann skrifaði þessar fréttir. Því svona dylgjur um annað fólk hefur helst verið hægt að heyra af hans munni. En svo náttúrlega líka í Orðinu á götunni.

Ef  Eyjumenn geta ekki látið sér nægja að nota Orðið á götunni fyrir kjaftasögur þá verður að krefjast þess að  sá sem skrifar slíkar fréttir skrifi undir fullu nafni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.3.2011 - 11:24 - 21 ummæli

Mannauðsfagmennska

Kærunefnd jafnréttismála hefur nú kveðið upp úr um það að kona sem sett var í fimmta sæti yfir hæfa umsækjendur í stöðu skrifstofustjóra í forsætisráðuneyti sé hæfari en sá sem settur var í fyrsta sæti og hlaut stöðuna.  Samkvæmt gömlum og góðum íslenskum siðum æpa menn nú á það að Jóhanna, sem augsýnilega vildi vanda sig ákaflega vel, segi af sér. Mér finnst hins vegar  annað brýnna en tala um Jóhönnu.

Það þarf að tala við hana. Og  biðja hana um  að upplýsa  hverjir það voru sem raðað var í annað, þriðja og fjórða sætið. Og hvort hún vilji ekki athuga hvort þeir eða þau hafi kannski allir líka verið hæfari en sá sem var settur í fyrsta sætið. Og mér finnst einnig  að ef sú sem dúmpað  var í fimmta sæti er hæfari en sá sem lenti í því  fyrsta þá þurfi að fara neðar á listann og sannprófa hvort þar leynist ekki líka konur sem eru jafnhæfar eða hæfari en sú sem er í því  fimmta.  Úrskurður kærunefndar snýst nefnilega ekki bara um fyrsta og fimmta sætið, hann setur alla hæfnisröðun „mannauðsfagmanna“ í þetta starf í uppnám.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.3.2011 - 16:29 - 16 ummæli

Um siðferði mitt

Ég hef ekki verið dugleg að blogga undanfarið. En það hefur ekki verið af siðrænum ástæðum. Ég hef þó alvarlega íhugað hvort ég ætti að halda áfram að kveða mér hljóðs á Eyjunni. Og hef komist að eftirfarandi niðurstöðu:

Í veröld þarsem allir fjölmiðlar og bloggmiðlar, nema einn, eru í höndum raunverulegra valdhafa í samfélaginu, eignamanna, og flestum fjölmiðlum er stýrt af körlum, nema einum, og þeir lyfta oft upp ímyndum karla og kvenna sem mér þykja ekki geðfelldar – þá hefur sá  sem vill láta í sér heyra  ekkert val – nema það hvort hann vill láta heyra í sér víða eða ekki. Ég mun því alveg eins og ég get ekki sagt mig úr lögum við þetta samfélag þó kerfið sé mér ekki geðfellt  heldur ekki segja mig úr lögum við Eyjuna né nokkurn annan miðil skoðanna(Um moggann ræði ég ekki. Það yrði of langt mál.).

Ég birti hins vegar einnig pistla og leiklistargagnrýni mína á Smugan. is sem ég tel vera besta vefmiðilinn og er ritstýrt af konu. Þar birtist í dag rýni um sýningu Þjóðleikhússins, Heddu Gabler.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.2.2011 - 09:29 - 6 ummæli

Þjóðnýtum!

Það virðist vera alveg ástæðulaust að lífeyrissjóðirnir séu að kaupa eitthver réttindi til baka af Magma. Eins og kemur fram í frétt hér á síðunni og haft er eftir forstjóranum þá er lítinn ágóða að hafa af þessum jarðhita. Okkur ætti því ekki að verða skotaskuld úr því að þjóðnýta  fyrirtækið. Bætur geta  varla orðið háar þegar tekinn er yfir lélegur bissness.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.2.2011 - 15:19 - 5 ummæli

Já, hvaða nefnd ákveður froðuna?

Í Bakþönkum Fréttablaðsins í dag setur blaðamaðurinn Júlía Margrét Alexandersdóttir fram það sem hún kallar eilífðarspurningu: „Hvað er froða og hvað ekki og hverja eigum við að velja í nefnd til að ákveða það?“

Ég hélt að svarið við þessu væri löngu komið. Nefndin  fyrir löngu skipuð. Eða hvað kallast það eiginlega sem  ritstjórnir dagblaða, fjölmiðla og flestra vefmiðla  hella yfir okkur í bland við auglýsingar?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.2.2011 - 17:39 - 8 ummæli

Karaamah

Blaðamaðurinn Salem Karam skrifar:

Eitt orð hljómaði af meiri styrk en nokkuð annað í byltingunni í Túnis: karaamah. Það merkir reisn á arabísku. Í arabískri menningu er karaamah ómetanlegt. Glati maður reisn sinni, þá er hann glataður. Og ef til vill má segja að reisn hafi jafn mikla þýðingu í arabiskri hefð og frelsi í þeirri vestrænu. Í orðinu karaamah felast réttindi manna og gildi. Rétturinn til að lifa með sóma, mennta sig, vinna og taka þátt í stjórnmálum.  Byltingarnar í Túnis og Egyptalandi fjalla um fólk sem hefur glatað sínu karaamah og vill öðlast það aftur.

(Sv. Dagbladet,02022011)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.2.2011 - 11:29 - 7 ummæli

Kairó og alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Ýmsir fréttamenn á Norðurlöndunum gleyma ekki heildarmyndinni þegar fjallað er um Túnis, Egyptaland og uppreisnirnar í Norður-Afríku. Þeir benda á að við séum að verða vitni að öflugustu lýðræðisbyltingunni í heiminum frá því 1989. En þó vissulega sé hægt að bera ýmislegt saman í atburðunum 1989 og atburðunum í Norður- Afríku dag þá sé þar reginmunur á.  Austur- Evrópa  hafi reynst auðveld bráð fyrir ofbeldi alþjóða nýfrjálshyggjunnar en arabíska byltingin beinist einmitt gegn slíkum öflum.

Túnis hafi verið frá því um 1990 augasteinn alþjóðagjaldeyrissjóðsins og alþjóðabankans. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi lofsungið  á næstum ljóðrænan hátt hinn nú eftirlýsta  fyrrverandi forseta Túnis, Ben Ali, fyrir að vera frumkvöðull í að setja einstaklega opnar reglur fyrir erlenda fjárfesta og útflutning þeirra á arði. Og hrósuðu honum síðast í september fyrir að hafa bætt skilyrðin fyrir atvinnurekstur  og samkeppnishæfni hagkerfisins!

Og í síðustu úttekt sinni á  ástandinu í Egyptalandi segir alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að landið hafi „ frá 2004 tekið afgerandi framfaraskref  í umfangsmiklum umbótum á kerfinu“ þegar Mubarak lét til dæmis bara á einu ári einkavæða 17 ríkisfyrirtæki og koma á sérstökum útflutnings fríverslunarsvæðum með samningum við Israel og Bandaríkin. Sérfræðingar alþjóðagjaldeyrissjóðsins lofsyngja Mubarak fyrir heilbrigða hagstjórn, viðbrögð hans við fjármálakreppunni og  sjöprósent hagvöxt!

En rán Mubaraks á þjóðarauðnum  er ekki það eina sem heillar alþjóða kerfið við þann mann. Bandaríkin hafa ekki veitt hærri hernaðarstyrki til nokkurs annars ríkis en hans að undanskildu auðvitað Israel.  Herflugvélarnar sem fljúga yfir mótmælendum á Tahirtorgi koma beint eða óbeint frá Bandaríkjunum. Táragassprengjurnar eru búnar þar til líka.  Einræðisherrann hefur haldið sig við völd  í þrjátíu ár með því að aðstoða Bandaríkin í tveimur styrjöldum gegn Írak, með því að læsa syðra hliðinu að Gaza, loka göngunum undir múrnum, taka þátt í áróðurstríðinu gegn Íran, halda Suezkanalnum opnum fyrir olíu og öðrum fröktum heimsverslunarinnar , opnað pyntingarklefa sína fyrir menn grunaða um hermdarverk sem rænt hefur verið um allan heim m.a. frá Svíþjóð – og svona almennt séð hlýtt bandarísku heimsvaldasinnunum í einu og öllu.

Það er gegn þessum valdhöfum sem egypska þjóðin rís núna. Spurningin er hvort hún sé jafn ómeðvituð, veik og sundruð og við vorum í búsáhaldabyltingunni? Vinni hún sigur verður það þá Phyrrusarsigur? Vaknar hún upp næsta dag og spyr: amma af hverju ertu með svona stórar tennur?

( Byggt að hluta á  grein Andreas Malm  í Aftonbladet.se 02.02.2011)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.1.2011 - 08:48 - 9 ummæli

Gunnar Thoroddsen.

Ævisaga Gunnars Thoroddssen er fimmhundruð og áttatíu blaðsíður. Mér hefur loks tekist að þræða mig í gegnum þær. Þó eru ævisögur stjórnmálamanna ekki minn uppáhaldslestur. Það eru hinsvegar ævisögur skálda og ég því orðin þrælvön   doðröntum  íslenskrar bókaútgáfu.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann að loknum lestri er aðdáun á afkomendum Gunnars að veita skrásetjaranum Guðna Th. Jóhannessyni aðgang að öllum dagbókum og bréfum Gunnars. Á ýmsum stöðum þarsem stuðst er við þann efnivið stíga fram aðrir menn undir nafni Gunnars en samtími hans þekkti; menn sem lesandi getur kímt yfir og ekki er alveg laust við að nokkuð dragi úr þeim ljóma sem nafn hans hafði vissulega í huga mínum og fleiri. Skondnir hátíðlegir markmiðalistar eru birtir, léttvægur skáldskapur, -varla vottur af þeirri glettni sem skein úr augum mannsins í sjónvarpinu – og ótrúlega samviskusamlega bókfærir Gunnar skjall annarra. Helsta  hvöt þessa lífsferils virðist vera að komast til æðstu metorða – en ekki varð mér alveg ljóst hvernig sú hvöt fæddist. Hvaða aðstæður eða eiginleikar leiddu til þess.  Nema að síendurteknar upplýsingar um að hann hafi ávallt verið annar í röðinni á öllum prófum sem hann gekkst undir hafi átt að  að leiða lesanda á ákveðið spor. Þó hygg ég að þar leynist fremur ákveðin örlagahyggja (eða stílbragð) skrásetjara, gegnumgangandi í allri bókinni : Gunnari var ekki skapað að vera fyrstur, hann hlaut ávallt að vera númer tvö.

Hann er það reyndar líka í þessari bók því að það er fyrst og fremst afhjúpunin og lýsingin á Sjálfstæðisflokknum ekki Gunnari sem gerir að lesandi leggur hana ekki frá sér. Þar fer skrásetjari á kostum. Hann afhjúpar, svolítið stundum eins og af tilviljun eða í leiðinni,  flestar sögulegu mýturnar sem búnar hafa verið til um þann flokk og forystumenn hans. Hann sýnir fram á tengsl við nasista í Þýskalandi í upphafi;  hann lýsir uppbyggingu þrælskipulagðs flokks sem skrásetur þjóðina  með sér og móti; njósnar um hana, ofsækir andstæðinga,mútar og smalar fólki á kjörstaði. Betur finnst mér þó hefði mátt kafa  í hvaða hagsmunir lágu að baki hjá einstökum forystumönnum í vígaferlum þeirra. Til dæmis hefur Valur Ingimundarson sýnt fram á hvernig viðskiptahagsmunir ákveðinna íslenskra fyrirtækja réðu miklu um inngönguna í Nato en fram hjá því skautar Guðni um of.

Ég tel hins vegar að valda kafla úr þessari bók ætti að gera að skyldulesningu í framhaldsskólum landsins og ræða þá í tengslum við hvernig endurreisa megi lýðræði  og siðfræðileg gildi í þessu landi. Davíð Oddsson og stjórnarhættir hópsins  í kringum hann fæddust ekki í tómarúmi, þeir virðast vera rökrétt niðurstaða leiðtogadýrkunar og misbeitingu valds innan flokksins frá upphafi.

Við Íslendingar höfnuðum Gunnari Thoroddsen  vissulega sem forseta, því ekki vildum við að forsetaembættið gengi að erfðum og  frekar vildum við forsetafrú  á Bessastaði sem fór í Hagkaupsslopp út í búð og engan átti pelsinn en fína frú( það lykilatriði vantar reyndar í bókina). En hins vegar voru ýmsir sem  sáu í Gunnari mann sem að hætti Thoroddsena reis af hugsjón upp gegn skrýmslum. Guðni Th. sviptir okkur þeirri sjálfsblekkingu.

Og  þessi bók er því ekki aðeins heppileg til að kenna í skólum. Rithöfundar  geta áreiðanlega fundið hér mikinn efnivið.  Einkum leikritaskáld. Átökin sem hér er lýst. Andhetjan sem er í miðpunkti og verður fyrir hverju áfallinu á fætur öðru í baráttunni um völd, gæti verið sótt í sum verk Shakespeares.

( Ein af hugsjónum Gunnars, en þær á hann vissulega til, er barátta fyrir nýrri stjórnarskrá. Þeir kaflar eru líka áhugaverðir inn í umræðu dagsins)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.1.2011 - 20:57 - 7 ummæli

Hvernig er stjórnskipan okkar aftur?

Það er alveg óhætt að segja að gæfan er ekki fylgikona  forseta alþingis.  Það er auðvitað rétt og skylt að þingnefnd rannsaki hvernig stóð á því að hann gerði bandalag við lögregluna og skrifstofu alþingis um að þegja um tölvumálið gagnvart  alþingismönnum. Enn meiri ástæða er þó til að rannsaka tengsl forseta, skrifstofustjóra og lögreglunnar  í máli níumenninganna.

Eða ríkja  lögreglustjórar og skrifstofustjórar  yfir alþingi?

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is