Sunnudagur 23.2.2014 - 17:24 - FB ummæli ()

Spurning um fullveldi þjóðar

Í mínum huga snýst sú ákvörðun stjórnarflokkanna að draga umsóknina að ESB til baka ekki bara, og kannski minnst, um ESB og hugsanlega aðild Íslands, heldur fullveldi þjóðarinnar yfir sínum eigin málum. Þjóðin á að ráða en ekki Vigdís, Gunnar Bragi, Sigmundur Davíð, svikararnir í Sjálfstæðisflokknum eða LÍÚ.

Orð eiga að standa og ætli ríkisstjórnin að sitja áfram þarf hún að læra að nota eyrun sín.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.2.2014 - 10:27 - FB ummæli ()

Ný stjórnarskrá samþykkt 17. júní?

Á síðasta kjörtímabili reyndu menn að breyta stjórnarskránni. Svo vill til að allir þeir flokkar sem buðu fram og náðu kjöri í kosningunum 2009 lofuðu endurskrá á stjórnarskránni í einhverri mynd. Framsóknarflokkurinn gekk einna lengst og lofaði blautum draumi allra lýðræðissinna. Minn flokkur vildi líka stjórnlagaþing fólksins og stjórnarflokkarnir þáverandi Samfylking og VG vildu báðir í þá vegferð. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á ályktun landsfundar 2009 um endurskoðun á stjórnarskránni og aðkomu þjóðarinnar  að því verki.

Eins og kunnugt er var lögð gríðarleg vinna í verkið og allri þjóðinni boðið að borðinu á ýmsum stigum máls. Ferlið vakti aðdáun og eftirtekt víða um heim og útkoman var ljómandi. Í lok kjörtímabilsins afhjúpaðist hins vegar gunguskapur flestra þingmanna sem ekki höfðu í sér dug til að klára málið með sómasamlegum hætti. Þess í stað var tillaga Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar um frestun og enn eina nefndarskipanina á nýju kjörtímabili samþykkt. Sú letilega hugmynd virtist runnin undar rifjum Guðmundar Steingrímssonar að fresta þessu bara því næsta þing þyrfti alltaf líka að samþykkja málið. Best væri því að afhenda þeim þá enn ókjörnu fulltrúum öll völd í málinu. Guðmundur stakk upp á því að hin nýja stjórnarskrá yrði svo kannski samþykkt á 70 ára afmæli lýðveldisins sem vill til að er 17. júní n.k.

Síðast þegar ég frétti var nefnd um nýja stjórnarskrá undir forustu Sigurðar Líndal sem forsætisráðherra skipaði í nóvember s.l. búin að funda þrisvar. Það er nokkuð ljóst að hinn tárvoti draumur Guðmundar Steingrímssonar um nýja stjórnarskrá á lýðveldisafmælinu er nokkuð langt undan. En hvað skyldu þeir sem lögðu til frestun málsins síðasta vor vera að gera til að reka á eftir að það verði einhvern tímann klárað? Einhvern veginn fréttist lítið af því.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.2.2014 - 22:53 - FB ummæli ()

Ráðherra segir af sér …

Ráðherra innflytjendamála segir af sér. Í Bretlandi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.2.2014 - 12:44 - FB ummæli ()

Platlýðræði í Smáralind?

Ég sá í Fréttablaðinu í morgun að Björt framtíð ætlar að stofna félag í Kópavogi í kvöld. Fundurinn verður haldinn í Smáralind sem vissulega er stærsta bygging í Kópavogi og kannski búast menn við miklum mannfjölda á þessum stofnfundi. Það læddist reyndar að mér sá grunur að ætlunin væri alls ekki að fá sem flesta virkasta félaga heldur búa til þá ímynd að fólki fyndist það velkomið. Það mega jú allir koma í Smáralindina og flestir hafa komið þangað áður og væru því ekki að gera neitt óvenjulegt eða ögra sjálfum sér þótt þeir kæmu á fundinn.

Ég hef örlitla reynslu af því að stofna stjórnmálaflokka (humm, humm) og starfa í þeim og einhvern veginn á ég erfitt með að fá þá hugmynd til að ganga upp að Smáralind sé kjörinn vettvangur til þeirra fjörugu skoðanaskipta sem mér finnst starf í stjórnmálaflokkum þurfa að byggjast á.

Við búum við fulltrúalýðræði, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það fer þannig fram að stjórnmálaflokkar bjóða fram lista af frambjóðendum, bæði til alþingis og sveitastjórna og starf flokksins byggir á ákveðinni hugmyndafræði og ekki síst málefnum. Stjórnmálaflokkar, hvað sem okkur kann að finnast um þá, eru þannig hugsaðir að flokksmenn leggi í púkk í málefnavinnunni og komi sér saman um opinbera stefnu fyrir flokkinn með því að kjósa um málin eða sammælast um þau. Þetta gera flokkarnir með ýmsum hætti. Ég hef fylgst með beinum útsendingum af Landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem hægt er að sjá almenna flokksmenn takast á um stefnumálin í nefndastarfi, í almennum umræðum og svo með atkvæðagreiðslu um stjórnmálaályktanir í flestum málaflokkum sem verða svo að stefnu flokksins. Reyndar er það ekki þannig að hver einasti flokksmaður geti tekið sæti á Landsfundi sem rýrir lýðræðið á þeim bænum töluvert. Píratar gera svipaða hluti, nema bara á netinu, þar sem hver einasti flokksmaður getur skráð sig í málefnahópa og greitt atkvæði um allar tillögur. Þar geta allir haft aðkomu svo lengi sem þeir nota netið. Hin fullkomna leið til ákvarðanatöku í stjórnmálastarfi er því vandfundin, því flestar útiloka einhverja með einhverjum hætti. Flestir flokkarnir reyna hins vegar að gera flokksmönnum eða einfaldlega öllum sem vilja taka þátt eins auðvelt fyrir og hægt er, sums staðar eru jafnvel veittir ferðastyrkir svo fólk eigi auðveldara með að komast á fundi. Það er svo frambjóðenda og hinna kjörnu fulltrúa að kynna, tala fyrir og reyna að hrinda stefnunni sem sköpuð var af fjöldanum í framkvæmd.

Lýðræði byggir nefnilega öðru fremur á samræðu um hvaða ákvarðanir á að taka og sú samræða þarf að fá að blómstra og  heyrast.

Fyrir síðustu alþingiskosningar höfðu kjósendur urmul af nýjum valkostum að velja um. Ég ætla þó að leyfa mér að halda því fram að aðeins tveir þeirra hafi lagt fram stefnu sem unnin var í opnu og lýðræðislegu ferli þar sem öllum sem vildu taka þátt í að móta hana var boðið að borðinu og ákvarðanataka fór fram af félögunum sjálfum, þ.e. Píratar og Dögun. Björt framtíð er reyndar með heimasíðu þar sem fólk getur lagt inn hugmyndir, rætt þær og greitt þeim atkvæði en endanleg samantekt og ákvarðanataka virðist fara fram á lokuðum vettvangi. Hin nýju framboðin virðast mér hafa samið sínar stefnuskrár í þröngum, lokuðum hópi, jafnvel bara af örfáum við eldhúsborð. Þar stóð fjórflokkurinn sig betur en mörg hinna nýju framboða, auk þess sem frambjóðendur margra þeirra virtust missammála stefnunni eða jafnvel hvorki þekkja hana né skilja, eins og ég hef áður bent á.

Í auglýsingu Bjartar framtíðar í dag segir að á fundinum verði hefðbundin stofnfundamál á dagskrá. Nú er það svo að félög geta starfað með ýmsum hætti. Sum hafa stjórn og formlegan strúktúr, önnur ekki, sum innheimta félagsgjöld, önnur ekki og svo hafa þau tilgang og markmið. Slíku er gjarna lýst í samþykktum eða lögum félagsins og yfirleitt eru drög af slíku lögð fram á stofnfundi; til umræðu, breytinga og svo samþykkta. Til að fundargestir – væntanlegir félagar – geti kynnt sér málin er ekki verra að þau drög liggi fyrir áður en fundurinn fer fram svo menn geti kynnt sér með hvaða hætti félagið á að starfa. Ég get ekki séð að svo sé hér.

Þá er „almenn umræða um Ályktun Bjartar framtíðar“ á dagskrá og vísað í hana á heimasíðu. Hana má finna hér. Þar má líka sjá að hún var samþykkt af stjórn flokksins en ekki almennum flokksmönnum. Nú vil ég hvetja Kópavogsbúa sem og aðra áhugamenn um stjórnmál og stjórnmálastarf að mæta á fundinn og sjá hvort þessi umræða verður sannarlega almenn, það er að almenningur geti tekið þátt í henni með því að tjá sig en ekki bara sitja kjurr og hlusta.

Stjórnmálaflokkur á nefnilega ekki að vera eins og hver önnur neysluvara; hönnuð og framleidd af einhverjum öðrum og hjúpuð ímynd útbúinni á auglýsingastofu, eins og það sem vanalega er borið á borð fyrir okkur í Smáralind. Stjórnmálaflokkur á að vera lifandi kvika þar sem allir eiga að geta tekið þátt og settt sitt mark á flokksstarfið og málefnin. Er það svoleiðis hjá Bjartri framtíð eða er okkur bara ætlað að halda það? Kannski verður þetta góður og opinn fundur þar sem allir hafa málfrelsi og tillögurétt en kannski leiksýning, samskonar platlýðræði og þegar „Samtök um Bjarta framtíð“ efndu til opinnar hugmyndasamkeppni um nafn nýja flokkinn. Það er nokkuð augljóst að það nafn lá þegar fyrir.

 

getFile.php

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.1.2014 - 21:32 - FB ummæli ()

Flopp eða tækifæri?

Verðtryggingarnefndin búin að skila niðurstöðum sínum. Nefndin klofnaði en meirihlutinn ákvað að fara alls ekki eftir skipunarbréfinu sínu heldur einhverju allt öðru.

Nú er það svo að bæði ríkisstjórnin og Alþingi eru ekki endilega bundin af því sem sérfærðinganefnd leggur til um mál. Nú reynir því á menn, ekki síst forsætisráðherra sem skipaði hópinn. Eins og stendur er hann hafður að athlægi. Hann lofaði leiðréttingum skulda og þær eiga að koma í hlutfalli við kjörfyldi Framsóknarflokksins og hann lofaði afnámi verðtryggingar sem sérfræðingahópurinn vill setja í nefnd 2016! Nú getur Sigmundur Davíð annað hvort farið eftir nefndinni og hlotið nafnbótina svikari ársins eða raunverulega uppfyllt kosningaloforð Framsóknarflokksins.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.1.2014 - 10:55 - FB ummæli ()

Hátt gengi krónunnar!

Ég viðurkenni að mér svelgdist á yfir fréttum RÚV af kolmunaveiðum en útgerðarmenn segja lítið upp úr þeim að hafa nema vinnu fyrir fólk (sem reyndar teljast prýðilegar ástæður og alveg nóg þegar reisa á álver með tilheyrandi virkjunum, eyðileggingu náttúrunnar, skattaafsláttum og háum uppbyggingarkostnaði).

Ástæðan er meðal annars sögð hátt gengi krónunnar, auk hinna alræmdu veiðigjalda og verðfalls á afurðum. Gengisvísitalan hefur vissulega lækkað en hvort hægt sé beinlínis að tala um hátt gengi okkar ónýta gjaldmiðils set ég stórt spurningarmerki við.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.1.2014 - 18:49 - FB ummæli ()

Til varnar Geir Haarde 17 ára

Það er auðvelt að skilja að fólki blöskri innihaldið í grein eftir kornungan mann, Geir nokkurn Haarde 16 eða 17 ára gamlan menntskæling sem birt er á DV.is í dag. Einna lengst í gagnrýninni á greinina gengur hann sjálfur, tæpum 50 árum síðar, og segir hana fjarstæðukenndan barnaskap, ummælin fáránleg og höfundi ekki til sóma og þar er ég honum hjartanlega sammála. Fyrir nútímafólk eru þessi viðhorf sannarlega fáránleg og sem betur fer í raun óskiljanleg þótt því miður örli enn á þessum viðhorfum allt of víða. Greinin var skrifuð og birt árið 1968, fjórum árum áður en ég fæddist en engu að síður held ég að margir jafnaldrar mínir skilji hvernig hægt var að skrifa hana þótt við tökum ekki undir það sem þar stendur.

Þegar ég var að alast upp var bara ein sjónvarpsstöð, ein útvarpsstöð og upplýsingaflæði um umheiminn í raun takmarkað, alla vega miðað við það sem nú gengur og gerist. Þó hafði orðið mikil breyting á, miðað við það sem foreldrar mínir ólust upp við. Bæði heima hjá mér og í skólanum voru til og lesnar barnabækur á borð við Tíu litla negrastráka með myndum eftir Mugg, Bláskjá og Litla svarta Sambó sem allar eru litaðar af kynþáttakyggju. Ég minnist þess ekki að nokkur hafi bent á að þar væri að finna vafasaman boðskap. Bækur Enidar Blyton voru einnig lesnar upp til agna þar sem illmennin voru iðulega sígunar og dökkir yfirlitum, skítugir og með ör á enninu. Hlutirnir voru þó farnir að breytast og fjölbreyttari heimsmynd farin að breiðast út í lesefni minnar kynslóðar miðað við það sem áður var.

Það er erfitt, ef ekki útilokað, að spóla til baka og reyna að skilja þjóðfélagið sem svona grein sprettur upp úr en jafnmikilvægt að muna að hún endurspeglar einmitt miklu frekar það – þjóðfélagið sjálft á Íslandi árið 1968 fremur en einstaklinginn sem færði viðhorfin í orð.

Öll höfum við einhvern tímann verið ung og vitlaus eða dregið ályktanir út frá takmarkaðri sýn eða heimsmynd. Svo þroskumst við flest og heimsmyndin stækkar og breytist. Ég hef yfirleitt ekki verið sammála Geir Haarde í stjórnmálum eða hans flokki yfirleitt en mér finnst ekki réttlátt að dæma orð hans frá 1968 út frá því fjölmenningarsamfélagi sem við, sem betur fer, höfum borið gæfu til að skapa hér árið 2014. Því miður eru þau viðhorf sem birtast í greininni frá 1968 þó ekki með öllu horfin og það er verkefni okkar allra að uppræta þau. Gerum það frekar en að ráðast á 17 ára dreng sem er ekki lengur til.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.1.2014 - 13:28 - FB ummæli ()

Fimm ár frá búsó

Jólin 2008 fengum við hjónin tvenn jólakort með skilaboðunum “Sjáumst í byltingunni í janúar” frá fólki sem ekki tengdist svo við vissum. Eins og segir í laginu hans Bubba, “bylting lá í loftinu árið 2009”. Einhvern veginn vissu allir í hvað stefndi.

Þann 20. janúar 2009 var ég á fundi úti í háskóla á þeim tíma sem mótmælin áttu að byrja við þinghúsið en renndi eftir það niður í bæ. Það var hræðileg tilfinning að standa fyrir framan Alþingishúsið og hafa engin önnur úrræði til að krefjast breytinga en að vera með læti. Svona var þá komið fyrir okkur.

Ég stóð í fjöldanum, en þó svo alein, og gat mig vart hrært. Takturinn ómaði allt í kringum mig og mannfjöldinn varð eins og ein lífræn heild, með eitt hjarta sem sló í takt.

Ég fylgdist með ungmennum reyna að klifra yfir vegginn inn í Alþingisgarðinn, nokkrir komust þangað og að húsinu sem var útbíað í eggjum, súrmjólk og drasli. Lögreglan mætti fólkinu af meiri hörku þennan fyrsta dag en ég hafði áður upplifað og fjölmörgum krökkum var komið fyrir í bílakjallara þingsins eins og þau væru hin seku í þessu öllu saman.

Þennan fyrsta dag búsáhaldabyltingarinnar gat ég hvorki hrópað né kallað. Ég var buguð af sorg. Seinna kynntist ég sumum þeirra sem voru inni í húsinu og óttuðust jafnvel um öryggi sitt. Þá tilfinningu get ég vel skilið þótt ég hefði litla samúð með þeim einmitt þá. Stundum hefur mér fundist ég skynja það á samþingmönnum mínum að við sem stóðum fyrir utan höfum haft einhverja sérstaka ánægju af því. Það á alla vega ekki við mig. Mér leið hörmulega en stóð þarna sem lömuð þangað til mér var orðið kalt inn að beini.

Daginn eftir klæddi ég mig betur. Þinghaldi var reyndar aflýst en ég ákvað að fara samt og taka mér stöðu við þinghúsið, vopnuð málmdollu sem glumdi í og skeið. Ég óttaðist að mótmælin myndu lognast út af og ákvað því að mæta alltaf á þeim tíma sem þau áttu að byrja. Mörgum finnst óþægilegt að vera fyrstir og snúa frá ef fáir eru mættir. Mér er hins vegar alveg sama. Ég ákvað að það væri mitt hlutverk að sjá til þess að einhverjir væru á staðnum um leið og herlegheitin áttu að byrja. Ég fór svo aftur í vinnuna þegar mér var orðið of kalt. Ég var aldrei niðri í bæ á kvöldin og upplifði því hvorki ofbeldi gegn lögreglunni og þegar mótmælendur tóku sér stöðu fyrir framan þá og mynduðu þannig varnarskjöld né þegar kveikt var í Oslóartrénu.

Þennan dag bárust mótmælin yfir að stjórnarráðinu á meðan jarðarför stóð yfir í Dómkirkjunni. Villimennska mótmælenda var ekki meiri en það að þeir vildu ekki trufla útför. Við stjórnarráðið var hins vegar meiri hasar en fólkið gerði aðsúg að Geir Haarde sem reyndi að komast frá húsinu í bíl og svo út af stæðinu. Honum fylgdu bæði lögregla og óeinkennisklæddir verðir. Jóhann, maðurinn minn tók fjölmargar myndir og endaði með egg á enninu.

Svona liðu dagarnir þar til ríkisstjórnin fór frá völdum. Ég reyndi að vera með þeim fyrstu á staðinn og stóð meðal annars fyrir utan Valhöll þegar Geir tilkynnti samflokksmönnum sínum að hann hefði greinst með krabbamein. Ég fór svo aftur í vinnuna og reyndi að hvetja alla 150 fésbókarvini mína til að mæta líka. Jóhann tók myndir í gríð og erg og á mikið safn ljósmynda af hinum ýmsu mótmælum frá hruni. Kvöldunum vörðum við hins vegar heima við og hlúðum að drengjunum okkar og fjölskyldunni.

Laugardaginn 25. janúar vorum við stödd heima hjá foreldrum mínum þegar Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér og horfðum þar á blaðamannafund hans. Á eftir skáluðum við fyrir Björgvini og því að loksins skyldi einhver stíga það skref að axla snefil af ábyrgð. Loks fór svo stjórnin frá, minnihlutastjórnin tók við með stuðningi Framsóknarflokksins gegn því að hún tæki til í skuldamálum heimilanna, setti hjól atvinnulífsins í gang og kæmi á stjórnlagaþingi til að semja nýja stjórnarskrá.

Síðan þá eru liðin fimm ár og svo ótal margt hefur gerst. Þó hefur alltof fátt breyst í raun og veru.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.12.2013 - 22:25 - FB ummæli ()

Íþróttaboltakarl ársins?

Ég er hundfúl yfir vali á íþróttamanni ársins og ekki í fyrsta skipti. Síðustu 12 ár  boltamenn unnið og þar af aðeins ein (stórkostleg) kona.

Boltaíþróttir geta verið frábærar og allt það en þær eru bara ekki allt.

Í ár fannst mér ung frjálsíþróttakona eiga heiðurinn skilið. Ekki bara voru það nokkur íslandsmet sem féllu heldur varð hún líka Evrópumeistari og heimsmeistari. Hvern þurfti hún að vinna í viðbót, geimverur? Eða karla?

Ég velti líka fyrir mér hvort bein útsending frá þessum viðburði sem maður situr alltaf límdur yfir þótt innst inni viti maður að það sé ávísun á vonbrigði sé rétti vettvangurinn fyrir stéttabaráttu íþróttafréttamanna?

Hefð er fyrir því að íþróttafréttamenn velji íþróttamann ársins en hefðum má breyta. Er ef til vill kominn tími til þess að þjóðin sjálf velji íþróttamann ársins? Hugsanlega yrði það til þess að þeir sem segja fréttir af íþróttaviðburðum myndu loks átta sig á því að fólkið í landinu hefur áhuga á fleiri íþróttum en þeim sem snúast um bolta.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.12.2013 - 16:17 - FB ummæli ()

Þegar gott fólk gerir ekkert

Í gær birtist við mig viðtal í vefritinu Kjarnanum þar sem stiklað er á stóru um ýmislegt. Í viðtalinu segir meðal annars:

Eftir að hafa stigið út úr hringnum horfir Margrét nú inn í hann. Og hún hefur áhyggjur. „Ég hef mjög miklar áhyggjur af þessari orðræðu í utanríkismálunum. Stefnan virðist vera að horfa aðallega inn á við, helst bara í Skagafjörðinn.

Við vorum litli nýi róttæki flokkurinn á þingi á síðasta kjörtímabili og inn í slíka flokka leita ýmis öfl, meðal annars xenófóbísk (útlendingahatur). Við vorum gríðarlega meðvituð öll þrjú sem mynduðum þingflokkinn um að þetta væri eitthvað sem við ætluðum að berja niður ef við gætum. Þessi viðhorf spretta hins vegar oft upp þegar þrengir að. En svo finnur þessi orðræða sér stað ekki hjá okkur heldur í elsta stjórnmálaflokknum (Framsóknarflokknum). Á Norðurlöndunum hafa þetta verið nýir flokkar sem hafa verið að koma með þessa orðræðu. Að mestu nýjustu flokkarnir í hverju landi fyrir sig.

En mér finnst þessi orðræða hafa fundið sér ákveðna fótfestu inni í Framsóknarflokknum núna. Ég þekki marga þingmenn þar og sumt af þessu fólki er á algjörlega öndverðum meiði og tekur engan veginn undir þessa orðræðu. En það lýsir þeim skoðunum sínum ekki út á við. Og það er mjög hættulegt þegar ekkert opinbert nei kemur frá Framsóknarflokknum gegn þessum skoðunum. Vondir hlutir gerast þegar gott fólk stendur hjá og gerir ekki neitt. Mér finnst það dálítið óhugnanlegt. Það er sannarlega hópur á Íslandi sem hefur þessar skoðanir. Mér fannst eins og að forysta Framsóknarflokksins hafi leyft því að gerast að flokkurinn höfði til þessa hóps. Ég held að Sigmundur Davíð sé í raun enginn rasisti. Eins og ég þekki hann er hann mjög víðsýnn og skemmtilegur maður. En hann leyfði þessu samt að malla. Og flokkurinn græddi á því í síðustu kosningunum.“

Nú hefur ágætur kunningi minn og atvinnuframsóknarmaður Jóhannes Þór Skúlason gert kröfu á að ég biðji hann og aðra framsóknarmenn afsökunar á þessum ummælum. Það ætla ég ekki að gera. Hins vegar er mér bæði ljúft og skylt að útskýra betur hvað ég á við.

Í viðtalinu talaði ég um „xenófóbíska“ orðræðu en ekki þau hugtök sem oftar eru notuð í íslensku svo sem rasisma, útlendingahatur eða kynþáttahyggju. Þótt ég reyni yfirleitt að nota íslensk orð og hugtök finnst mér hreinlega vanta góða þýðingu á þessu orði. Kannski er það góðs viti, ef til vill er það vegna þess að þessi mál hafa til þessa ekki verið áberandi vandamál hér á landi.

Orðið xenófóbía vísar til órökréttrar hræðslu við útlendinga og erlend og framandi áhrif.  Í viðtalinu er skýring sett inn í sviga lesendum til hagræðingar. Hún er ekki frá mér komin og ég hefði skýrt orðið öðruvísi.

Því miður finnst mér það sem ég kalla xenófóbísk viðhorf hafa náð að skjóta rótum á Íslandi síðustu misserin og ég get ekki betur séð en að þau hafi náð fótfestu innan Framsóknarflokksins. Mér fannst ég reyndar líka sjá þau í minnst tveimur af þeim nýju framboðum sem buðu fram fyrir síðustu alþingiskosningar; Flokki heimilanna og Hægri-Grænum og mér finnst þessi orðræða áberandi hjá mörgum hörðum andstæðingum ESB. Svo vill til að sumir þeirra eru framsóknarmenn, m.a. formaður Heimssýnar.

Þar sem því hefur verið haldið fram opinberlega að ekki sé nokkur fótur fyrir þessu vil ég taka nokkur dæmi.

Þekkt er þegar þingmaður Framsóknarflokksins, Vigdís Hauksdóttir, spurði þáverandi innanríkisráðherra um hælisleitendur og hvort skoðað hef verið hvort rétt væri að hælisleitendur bæru ökklabönd sem sýndu staðsetningu þeirra. Ég hvet fólk til að smella á hlekkinn hér fyrir ofan og lesa fyrirspurnina í heild sinni og íhuga hvers kyns viðhorf til flóttamanna birtast þar. Mér finnast þau viðurstyggileg og óhugnanlegt að sjá einhvern velta þessum málum fyrir sér án minnstu samúðar. Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna kveður á um að allir menn hafi rétt til að flýja ofsóknir enda þótt þeir þurfi að ferðast ólöglega og nota fölsuð skilríki. Flóttamenn eru ekki sjálfkrafa glæpamenn og það er ekki bara ljótt að líta svo á, fyrst og fremst ber það merki um mikla vanþekkingu. Ef menn vilja glöggva sig betur á viðhorfum Vigdísar til flóttamanna, landamæravörslu og útlendinga má benda mönnum á að hlusta á þetta viðtal. Sem mótvægisaðgerð mæli ég með því að fólk renni yfir pistil Evu Hauksdóttur sem svarar Vigdísi ágætlega.

Sami þingmaður sem nú er formaður fjárlaganefndar Alþingis og gegnir því mikilli ábyrgðarstöðu fyrir okkur öll var eini þingmaðurinn á síðasta þingi sem greiddi atkvæði gegn því að Ísland yki framlög sín til þróunarhjálpar sem eru skammarlega lág og eins og bent hefur verið á hefur Ísland, eitt ríkasta og þróaðasta ríki í heiminum, fengið meiri aðstoð á lýðveldistímanum en við höfum veitt. Nú er verið að draga úr framlögum Íslands. Tilviljun? Ég held ekki. Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna.

Í desember 2010 tók Vigdís ekki þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi um veitingu ríkisborgararéttar. Hún laumaði sér út á meðan.

Þá birtast tilhneigingar til að halda Íslendingum á Íslandi meðal annars í tillögum Vigdísar um að leggja álögur á námsmenn sem lært hafa erlendis en snúa ekki strax heim aftur. Á fésbókarsíðu sinni hefur hún einnig hrósað málflutningi Fremskrittspartiet norska og hún hefur kallað IPA-styrkina glópagull. Í hugarheimi Vigdísar virðist allt útlent vont, alla vega í samanburði við „hið hreina innlenda“. Meira að segja rafmagn frá útlöndum er „skítugt“:

… erum við þá tilbúin til að blanda okkar hreinu orku saman við orku Evrópusambandsríkjanna sem er búin til með kolum og kjarnorku? Ég segi nei takk. Við erum því með því að fara í þetta verkefni um leið að gjaldfella okkar eigin orku og menga hana með þeirri skítugu orku sem þarna er að finna.

Þetta eru hennar eigin orð sem féllu í umræðum á Alþingi um hugsanlegan sæstreng. Og allt íslenskt virðist að sama skapi gott, jafnvel þótt iðnaðarsalt sé notað í matvælaframleiðslu. Að benda á að slíkt geti vart verið heilnæmt er „krataáróður„.

Í þessu viðtali lýsir Vigdís yfir yfirburðum kristinnar trúar yfir islam þegar henni er bent á ýmislegt vafasamt í Biblíunni. Hún segir að réttlæting á þrælahaldi, kvenkúgun og fyrirlitning á samkynhneigð sé ekki að finna í Biblíunni. „Mér finnst þú frekar vera að lesa upp úr trúarriti múslima,“ segir hún og spyr svo hvort þáttastjórnendur hafi ekki örugglega fermst.

Nú gæti einhver sagt að þetta sé nú bara hún Vigdís og hún tali ekki fyrir alla framsóknarmenn. Það getur verið erfitt þegar kjörinn fulltrúi fer að blaðra einhverja vitleysu. Það er nefnilega stjórnarskrárbundinn réttur hans að gera slíkt. Samkvæmt 48. grein stjórnarskrárinnar eru alþingismenn  eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. En það er hægt að svara þessari vitleysu og flokkurinn getur valið annan fulltrúa í oddvitasæti lista. Öll þessi dæmi sem ég rek hér að ofan nema eitt eru frá síðasta kjörtímabili og rötuðu öll í fjölmiðla. Ég tek það fram að ég lagðist ekki í mikla rannsóknarvinnu til að finna þau og man eftir mörgum í viðbót.

Ég man hins vegar ekki eftir því að nokkur málsmetandi framsóknarmaður hafi svarað henni opinberlega eða séð sig knúna til að standa upp og lýsa því yfir að þingmaðurinn sé að lýsa sínum persónulegu skoðunum en ekki framsóknarmanna almennt.

Við búum við fulltrúalýðræði. Í því fellst að flokkarnir velja sína fulltrúa og fólkið í landinu velur svo flokka. Framsóknarmenn hafa ekki bara einu sinni heldur tvisvar telft Vigdísi Hauksdóttur fram sem oddvita annars lista flokksins í Reykjavík. Oddviti lista er talsmaður flokksins í kosningum og kjörinn fulltrúi er einnig talsmaður þess flokks sem hann situr fyrir. Ef framsóknarmenn vilja ekki að fólk líti svo á að xenófóbísk orðræða grasseri innan flokksins þá ættu þeir að líta í eigin barm og velja einhvern annan til að tala fyrir flokkinn en Vigdísi Hauksdóttur.

En dæmin eru fleiri. Silja Dögg Gunnarsdóttir lýsti því yfir á Alþingi að hún vilji herða eftirlit með flóttamönnum. „Mörgum þykir óþægilegt að þessi hópur fólks sé án eftirlits á meðan staða þeirra er könnuð,“ sagði nýbakaða þingkonan og finnst þá væntanlega sjálfsagt að víkja mannréttindum fólks til hliðar. Á heimasíðu sinni hefur Frosti Sigurjónsson velt því upp hvers vegna erlendir fangar séu ekki sendir úr landi og vill gera „átak“ í þeim efnum. Ásmundur Einar Daðason hefur haft áhyggjur af útlensku kjöti og sýnt nánast krampakennd viðbrögð af ótta við samskipti við Evrópusambandið einsog sjá má t.d. hér. Mér finnst sú orðræða sem fer fram á vettvangi Heimssýnar og á vegum þess apparats einnig oft lykta af xenófóbíu og það þarf ekki að lesa lengi á bloggsíðu þess félagsskapar til að fá ónotatilfinningu en sem kunnugt er var Ásmundur Einar formaður Heimssýnar um skeið. Núverandi formaður er Vigdís Hauksdóttir en bæði Ásmundur Einar og Frosti eiga sæti í stjórn. Þá hef ég ekkert nefnt hina hliðina á peningnum, upphafningu á öllu því sem íslenskt er: þjóðmenningunni, íslenska kúrnum og glímusýningum og fánahyllingum á flokksráðsfundum. Og mikilvægi þess að halda rjómanum hreinum.

Ég minnist þess vart að þessum tilhneigingum ýmissa framsóknarmanna hafi verið andmælt af öðrum framsóknarmönnum eða apparötum innan flokksins. Á því er þó ein undantekning þegar aðalfundur fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Kópavogi samþykkti ályktun sem fól í sér áskorun til formanns flokksins um að láta af orðræðu þar sem útlendingar væru tengdir við afbrot og sjúkdóma. Sigmundur Davíð hafði lagt fram fyrirspurnir á Alþingi þar sem hann spurðist fyrir um fjölda og hlutfall erlendra fanga í íslenskum fangelsum og hvort útlendingar stundi hér skipulögð innbrot. Í ályktuninni segir meðal annars:

„Fyrirspurnir eða orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga eru til þess fallnar að auka á fordóma í samfélaginu og draga úr umburðarlyndi og samhug.“

Þá varar fundurinn við því að:

… alið sé á umræðu á þjóðernislegum nótum og úlfúð í garð þeirra samborgara okkar sem eru af erlendu bergi brotnir og þess sem erlent er. Það mun ekki skila samfélaginu fram á veg.

Fáar þjóðir eiga jafn mikið undir góðum samskiptum við aðrar þjóðir og Íslendingar og við eigum að eiga samstarf við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli og taka vel á móti þeim sem hingað leita yfir lengri eða skemmri tíma, rétt eins og vel er tekið á móti Íslendingum erlendis.

Þetta finnst mér fín ályktun og henni er ég hjartanlega sammála. Hún er frá því í maí 2011 og ég sakna þess að hafa ekki heyrt gott fólk í Framsókn andmæla opinberlega þeim flokkssystkinum sínum sem ala á hræðslu og andúð við það sem frá útlöndum kemur síðan þá. Næg eru tækifærin, því miður. Á meðan það er ekki gert hljótum við sem horfum á og höfum áhyggjur af því hvert þjóðfélagið okkar stefnir að líta svo á að talsmáti og hegðun þeirra talsmanna sem flokkurinn sjálfur hefur valið til trúnaðarstarfa og til að tala fyrir þeim sjónarmiðum sem hann stendur fyrir samrýmist því sem Framsóknarflokkurinn boðar. Þá skiptir minna máli hvað stendur í hinni opinberu stefnu.

Vondir hlutir gerast nefnilega þegar gott fólk stendur hjá og gerir ekki neitt. Vaxandi andúð á útlendingum og það að  yfir 3500 manns leggi nafn sitt við síðuna „Mótmælum mosku á Íslandi“ er  ekki vandamál eins flokks eða afmarkaðs hóps í samfélaginu heldur okkar allra sem myndum þetta samfélag. Og okkur ber öllum skylda til að reyna að gera eitthvað í þessu en standa ekki aðgerðarlaus hjá og leyfa illskunni að blómstra.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is