Miðvikudagur 28.05.2014 - 10:43 - FB ummæli ()

Opið bréf til Birkis Jóns Jónssonar

Kæri Birkir Jón,

nú er ég búin að krefja þig um svör við spurningu sem brennur á mér í nokkra daga án árangurs. Ég fór fínt í það til að byrja með, spurði þig bara á facebook, en hef ekki fengið nein svör. Spurningin er:

Hvað finnst þér sem oddvita Framsóknarflokksins í Kópavogi um ummæli oddvita sama flokks um afturköllun á lóð undir mosku í Sogamýri?

Ég spyr um afstöðu þína sem frambjóðanda flokksins til stjórnarskrárbundinna algildra mannréttinda er lúta að trúfrelsi og jafnræði trúfélaga sem sumir flokksmenn og frambjóðendur Framsóknarflokksins virðast vilja afnema. Á meðan ekkert heyrist frá forystu flokksins eða oddvitum í öðrum kjördæmum gera kjósendur, rétt eins og oddvitinn í Reykjavík, ráð fyrir því að þögn sé sama og samþykki. Henni hafi verið falið að sigla þessu skipi í strand.

Mér finnst ekki nema sanngjarnt að gefa þér tækifæri til að hreinsa þig af þessari óværu Birkir minn.

Á fésbókinni blessaðri hafa vinir þínir verið duglegir við að benda mér á að þetta sé sérstakt málefni Reykvíkinga. Ég er ósammála því. Mannréttindi varða okkur öll, hvar sem við búum. Ég vil líka fá það á hreint hvort þeir sem hyggjast kjósa flokkinn í Kópavogi vegna þess að hann ætlar að vera með frístundakort fyrir aldraða séu í leiðinni að kjósa með útlendingaandúð og skerðingu stjórnarskrárbundinna réttinda fólks.

Með von um skjót svör,

Margrét

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is