Sunnudagur 25.05.2014 - 17:15 - FB ummæli ()

Slagurinn sem við verðum alltaf að taka

Þótt ég hafi starfað í stjórnmálum í nokkur ár og hafi skoðanir á öllu mögulegu og ómögulegu hef ég furðulítið gaman að því að deila við fólk eða standa í þrasi um alla hluti. „Pick you battles,“ hef ég sagt við syni mína og fleiri, t.d. þegar sá eldri endaði á að klára veturinn í ensku í 8. bekk inni hjá skólastjóranum, vegna þess að hann neitaði að taka niður hettuna í enskutíma nema kennarinn gæti vísað í skólareglur um að honum væri skylt að gera það. Það gat kennarinn ekki gert og hvorugt vildi lúffa.

Einn slag tek ég þó alltaf í umræðunni, hvar sem hún á sér stað. Annars væri ég nefnilega ekki manneskja, heldur bara lítið skítseiði. Það er slagurinn um réttindi fólks; réttinn til að elska hvern sem maður vill, réttinn til að trúa því sem maður vill, réttinn til að tjá huga sinn og réttinn til að vera maður sjálfur.

Þegar þrengir að er hætta á því að xenófóbísk viðhorf skjóti rótum. Sagan hefur sýnt okkur það, Þýskalands nasismans er kannski skýrasta dæmið. Þrátt fyrir þá órökréttu hugsun að „hinir“ taki störfin frá fólkinu (því fleira fólk skapar fleiri störf) er það einmitt mantran sem er þulin. Eða þá „ásóknin í velferðarkerfið“ eins og lesa mátti í Reykjavíkurbréfi Moggans síðustu helgi:

Það er ekkert rangt við það, að fólk vilji fá upplýst, hvort engu skipti fyrir það, ef annarra þjóða fólk sæki bæði hratt og í miklum mæli inn í velferðarkerfi, sem það hefur ekkert lagt til, og muni sennilega frá fyrsta degi þurfa mjög á að halda.

Þetta er tómt bull – atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi er meiri en annarra.

Ástæða þess að ég skrifa þetta núna er nýframkomin afstaða oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík á móti úthlutun mosku á hálfgerðri umferðareyju á milli Suðurlandsbrautar og Miklubrautar, lóðar sem ég efast um að þjóðkirkjan myndi sætta sig við. Það er óþarfi að tilgreina hér allt bullið sem fram hefur komið í málflutningi hennar, það hefur þegar verið gert víða. Ekki virðast þær þrjár konur sem skipa sætin á eftir xxxvitanum miklu nær um grundvallarmannréttindi, því miður. Fimmti maður á lista á hrós skilið fyrir að yfirgefa skipið og mæla gegn þessari, að því er virtist í fyrstu, sjálfsprottnu stefnu Sveinbjargar. Með því að skoða opinbera Facebook-síðu framboðsins má hins vegar sjá að þar á bæ er aðeins bætt í:

framsokn

Ég er ekki trúuð manneskja og vil standa vörð um frelsi mitt til að standa utan þjóðkirkjunnar, vera ekki þvinguð til að sækja trúarlegar athafnir nema á eigin forsendum og ræða þessi mál á opinberum vettvangi. Á sama hátt vil ég að þeir sem trúa hafi rétt til að iðka trú sína á eigin forsendum og velja sér aðild að því trúfélagi sem þeir vilja. Trúfrelsi er það sem við köllum algild mannréttindi. Þau má aldrei skerða og við höfum undirgengist sáttmála sem eiga að tryggja öllum trúfrelsi, svo sem Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá tryggir stjórnarskráin okkar, sú gamla en reyndar einnig sú nýja ef menn vilja færa sig inn í 21. öldina, bæði trúfrelsi og jafnræði borgaranna.

Það er lagaleg skylda sveitarfélaga að útvega trúfélögum ókeypis lóðir. Við getum haft ýmsar skoðanir á því per se en sé það gert gildir það að jafnræði verður að ríkja á meðal trúfélaganna. Sem er einmitt eins og það á að vera.

Ég hef haft áhyggjur af vaxandi andúð gegn útlendingum á Íslandi, ekki síst múslimum. Fræg er viðurstyggileg síða á Facebook, Mótmælum mosku á Íslandi þar sem sjá má hatrið og fáfræðina krauma. Í gær tók ég skjáskot af dagsgamalli færslu á Facebook-síðu Sveinbjargar framsóknaroddvita þar sem einn forsvarsmanna þeirrar síðu lofar Sveinbjörgu, Framsókn og flugvallarvinum svo gott sem stuðningi yfir 4000 fylgismanna síðunnar. Það var freistandi að birta hana strax en ég vildi vera sanngjörn og gefa heimsborgaranum tækifæri til að gera hreingerningu á síðunni sinni eða alla vega afþakka stuðning þessa hóps. Nú eru liðnir tveir sólarhringar og ekkert slíkt hefur gerst. Því finnst mér rétt að birta skjáskotið hér:

sveinbjorg

Segir Sveinbjörg kannski bara „já takk“? Og hvað segja aðrir forsvarsmenn og oddvitar Framsóknarflokksins? Ætlar Sigmundur Davíð að segja „já takk“ með þögn sinni um málið? En varaformaðurinn eða ritarinn? Og hvað segja aðrir oddvitar flokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum? Birkir Jón í Kópavogi? Stefán í Skagafirði? Guðmundur á Akureyri og allir hinir? Ætlar þetta fólk að samþykkja þetta með þögn sinni? Mér finnst það vera siðferðislega skylda okkar allra að berjast gegn slíkum viðhorfum, hvar sem þau er að finna. Og það gerir maður ekki með því að þegja.

Ég verð þó að segja að bjóst þó hálfpartinn við þessu. Þetta er einmitt mál sem við sem skipuðum uppstillingarnefnd Dögunar fyrir framboðið í Reykjavík vildum setja á oddinn og taka skýra afstöðu til. Dögun stendur fyrir lýðræði, sanngirni og réttlæti og stendur fyllilega undir því. Eitt af því frábæra við Reykjavík á 21. öldinni er að hér er fjölmenningarlegt samfélag. Hér býr fólk sem hefur kosið að taka fullan þátt í samfélaginu okkar þótt það reki uppruna sinn til annarra landa og því ber að fagna. Það er stórkostlega gjöfult fyrir okkur öll og menningin blómstrar. Því fleiri raddir sem heyrast, því betra.

Það hefur löngum tíðkast hjá nútímalegum stjórnmálaflokkum að reyna að tryggja að sem flestir hópar séu sýnilegir á framboðslistum; konur, karlar, kennarar, verkamenn, forstjórar, fatlað fólk, nemar, öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Svo er ekki óalgengt að einn innflytjandi sé aftarlega á lista. Á hann er svo hægt að benda þegar málefni þeirra koma til tals. „Jú, sjáðu, við erum víst með útlendinga!“ Þátttaka fólks af erlendum uppruna í íslenskum stjórnmálum hefur þó ekki verið í neinu samræmi við fjölda þeirra í landinu, því miður. Því vildum við breyta, bæði við sem sátum í uppstillingarnefnd sem og allir þeir sem tóku sæti á lista Dögunar í Reykjavík. Okkur fannst mikilvægt að listinn endurspeglaði fjölmenningarlegt samfélag og sérstaklega vildum við ráðast gegn þeim fordómum sem múslimar á Íslandi þurfa að kljást við. Og það er ekkert smá.

Við vorum svo heppin að Salmann Tamimi gaf kost á sér á listann, ekki bara sem skraut heldur alvöru frambjóðandi. Það fannst okkur stórkostlegt tækifæri til að gefa skýr skilaboð um að Dögun stæði undir nafni sem framboð sem setur mannréttindi, réttlæti og sanngirni á oddinn en ekki síður tækifæri til þess að fá þessa andstöðu upp á yfirborðið og berjast gegn henni. Salmann er óþreytandi baráttumaður og skipar 3. sæti lista Dögunar í Reykjavík. Ég er stolt af því að hafa komið að þeirri ákvörðun að svo yrði því hann er víðsýnn og góður maður sem á virkilegt erindi í borgarmálin og hefur innsýn í heim innflytjenda í borginni sem er mörgum hulinn. Því miður virðast fjölmiðlar ekki hafa áttað sig á þessum vinkli í málinu og mér vitanlega hafa engir fjölmiðlar leitað eftir viðbrögðum hans eða oddvita Dögunar vegna stóra moskumálsins.

Þótt ég sé ýmsu vön átti ég ekki von á því svaðaleg skítkasti sem framboð Salmanns kallaði fram á opinberum vettvangi. Það er með ólíkindum að lesa það níð og hatursáróður sem er að finna í ýmsum kimum netsins, svo sem á umræddri síðu og á tenglum sem þar er að finna. Þá virðist fólk leyfa sér að setja fram mun fordómafyllri athugasemdir við umfjöllun um Dögun en ég hef áður séð. Vegna þeirrar upplifunar óttast ég að bragð Sveinbjargar, Framsóknar og flugvallarvinanna takist og fleyti henni inn í Borgarstjórn þar sem slík viðhorf eiga ekkert erindi og eru hættuleg.

En kjósendur eiga val. Það er hægt að kjósa með mannréttindum, lýðræði, réttlæti og sanngirni. Nú er það spurningin, erum við manneskjur eða bara lítil skítseiði?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is