Föstudagur 14.03.2014 - 23:45 - FB ummæli ()

Flókið mál …

Um tilnefningar og sigurvegara á íslensku tónlistarverðlaununum vil ég koma á framfæri að það er alger og helber tilviljun að þetta eru að meirihluta til karlar. Hefði svo auðveldlega getað öfugt.

Þetta sá ég á fésbókinni áðan hjá skólasystur minni Sóleyju Tómasdóttur og af gömlum vana var ég næstum búin að læka þótt mér líki auðvitað ekki það sem hún var að segja.

Lækið hefði verið vegna þess að þarna skín í gegn bæði kaldhæðni (sem ég kann að meta) og sannleikur. Ég hef ekki framkvæmt nákvæma talningu en mín tilfinning er eins og Sóleyjar, meirihluti verðlaunahafa hafi verið karlar að þessu sinni eins og svo oft áður.

Og það er rétt að spyrja sig af hverju.

Það er líka rétt að spyrja sig af hverju fleiri strákar en stelpur keppa í Gettu betur.

Og þá man ég alltaf eftir því þegar Nemendafélag Verzlunarskóla Íslands fékk að leggja próf fyrir alla nemendur skólans, ætli það hafi ekki verið árið 1991. Gefið var frí í eina kennslustund og fulltrúar félagsins gengu í allar stofur og lögðu prófið fyrir alla sem vildu taka þátt. Flestar stelpurnar ákváðu að nota tækifærið og skreppa í Kringluna. Ég varð eftir og tók prófið en hespaði því af og fór svo að gera annað. Sumir bekkjarbræðra minna reyndu að smygla sér inn á bókasafn til að fletta spurningunum upp. Það fannst mér frekar glatað. Og þeir notuðu allan tímann og hjálpuðust að við að svara spurningunum í örvæntingarfullri tilraun til fá fullt hús stiga. Og ef ég man rétt var það þriggja stráka lið sem keppti fyrir hönd skólans þann vetur eins og svo oft áður. Spurning hvort staðan hefði verið önnur ef flestar stelpurnar hefðu ekki ákveðið að fara í Kringluna? Og af hverju völdu þær það frekar en að taka þátt?

Svarið er örugglega ekki að það hafi verið helber tilviljun.

En svarið er örugglega ekki einfalt heldur.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is