Miðvikudagur 05.03.2014 - 11:11 - FB ummæli ()

Lýðræðinu frestað

Hún vakti ekki mikla athygli, litla fréttin um að Reykjavíkurborg hyggist nýta sér heimild til að fresta fjölgun borgarfulltrúa úr fimmtán í 23 – 31. Einu viðbrögðin sem ég varð var við voru fagnaðarlæti leiðarahöfundar Morgunblaðsins sem vill að borgin gangi enn lengra og fái sveitarstjórnarlögunum breytt svo borgarfulltrúarnir geti haldið áfram að vera bara fimmtán, rétt eins og árið 1908 enda reynst “farsælt” að hans mati.

Ekki einungis hefur íbúafjöldinn í Reykjavík margfaldast á rúmum hundrað árum, heldur hefur verkefnum sveitarfélagsins fjölgað og þau vaxið til muna. Borgin er að sýsla í ýmsu sem engum datt í hug að þyrfti að gera fyrir hundrað árum og því í mun fleiri horn að líta. Og komast fimmtán borgarfulltrúar yfir það? Nei, það gera þeir ekki. Árum saman hafa varaborgarfulltrúar, einn frá hverjum flokki, verið í vinnu hjá borgarbúum. Grunnlaun þeirra eru 70% af launum aðalfulltrúa. Stjórnmálaflokkur sem fær kjörinn mann í borgarstjórn fær því í raun tvo fyrir einn en með því að halda hinum opinbera fjölda fulltrúa í tölunni fimmtán þarf hver flokkur að ná um 7% fylgi. Það er ansi þægilegt fyrir þá sem fyrir eru á fleti. Ja, nema Framsókn.

Auk þess velur hver flokkur fólk í ráð og nefndir sem hinir kjörnu fulltrúar (og varafulltrúarnir) komast ekki yfir að sinna. Í stað þess að borgarbúar velji fólk í hverfaráðin og hinar ýmsu nefndir stjórna flokkarnir því. Stjórnmálaflokkur sem fær einn mann kjörinn í borgarstjórn er þar með kominn með launuð verkefni fyrir um þrjátíu manns, suma hverja sem borgarbúar vita lítil deili á og hafa takmarkaðan aðgang að.

Í álíka stórum sveitarfélögum í nágrannaríkjum okkar eru fulltrúarnir 43 – 81.  Í Stavanger búa 122.000 manns, um fjögur þúsund fleiri en í Reykjavík og þar eru fulltrúarnir 67 og í Jönköping þar sem íbúarnir eru 125.000 eru þeir 81.

Þetta fólk er fæst í fullu starfi sem kjörnir fulltrúar. Víða er eins konar framkvæmdastjórn sveitarfélagsins sem sinnir hinum daglega rekstri. Aðrir kjörnir fulltrúar funda sjaldnar en sitja í ráðum og nefndum. Þeir veita stjórninni aðhald, sinna eftirlitshlutverki og leggja stóru línurnar sem unnið er eftir.

Sveitarstjórnarmál þurfa ekki endilega að vera flokkspólitísk. Þau snúast um að reka skóla, sorphirðu, snjómokstur og aðra þjónustu við íbúanna. Langstærstum hluta tekna er fyrirfram ráðstafað í lögbundin verkefni en fulltrúarnir geta haft mikil áhrif á hvernig þau er gerð og hvað það kostar. Það vantar fleiri og fjölbreyttari raddir, raddir venjulegra íbúa. Samtök ábyrgra hundaeigenda, samtök um skutllausan lífstíl, Kjalnesingar, félag bridsspilandi eldri borgara, þrýstihópar öryrkja og atvinnulausra eiga fullt erindi í borgarmálin. Fleiri kjörnir fulltrúar í borgarstjórn endurspegla íbúana og skilja þarfir þeirra betur og geta þar með veitt betri þjónustu. Fjölgun þeirra þarf ekki og á ekki að fela í sér aukinn kostnað. Borgarbúar eru þegar að greiða her manns laun. Það er ekki nema sanngjarnt að þeir fái að velja það fólk sjálft, þannig að ábyrgð og umboð sé skýrt og fólk hafi meira um sín mál að segja. Það væri farsælt.

Greinin birtist fyrst í Reykjavík Vikublað þann 22. febrúar 2014.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is