Mánudagur 03.03.2014 - 14:26 - FB ummæli ()

Ómöguleikinn í lífi og starfi

Ég sá viðtal í sjónvarpinu við lögmann sem fékk ómögulegt verkefni. Síminn hringdi og hann var beðinn um að verja Anders Behring Breivik fyrir dómstólum, manninn sem hafði framið hroðalegustu fjöldamorð sem norska þjóðin hefur þurft að þola, alla vega í seinni tíð. Mann sem við flest fyrirlítum, skiljum ekki og sjáum ekki að eigi sér neinar málsbætur. Lögmaðurinn, Geir Lippestad, ráðfærði sig við konu sína sem er hjúkrunarfræðingur. Hún benti réttilega á að ef Breivik hefði komið særður á sjúkrahús hefðu læknar og hjúkrunarfólk þurft að gera að sárum hans og veita honum nákvæmlega sömu þjónustu og öllum öðrum sjúklingum. Þannig samfélagi viljum við búa í.

Þrátt fyrir að fæst okkar hefðu heyrt orðið „ómöguleiki“ eða verið tamt að nota það fyrir nokkrum vikum er það sennilega fantafínt til að lýsa því verkefni sem Geir Lippestad tók að sér. Það gerði hann vegna þess að allir eiga rétt á verjanda í réttarríki, sama hversu skelfilegur glæpurinn er. Og þrátt fyrir mikla andstöðu, hótanir og almennan ómöguleika verkefnisins sinnti lögfræðingurinn skyldu sinn.

Sjálfsagt er ómöguleikinn mun víðar. Kennara gæti þótt felast í því viss ómöguleiki að vera með óþekkan krakka í bekknum sínum. Hann kennir samt. Strætóbílstjóranum gæti langað að fara nýjar og ótroðnar slóðir en hann verður að láta sér leiðakerfið nægja. Þótt við séum vonandi flest að sinna verkefnum dags daglega sem eru okkur að skapi þá vitum við öll að gera þarf fleira en gott þykir. Einhver þarf að þrífa ísskápinn.

Alþingismenn og ráðherrar eru kjörnir til að vinna fyrir þjóð sína, fólkið í landinu. Verkefnin eru margskonar og misskemmtileg og mörg ekki að finna í nokkurri einustu stefnuskrá flokkanna, hvað þá að þau yrðu kosningaloforð. Leiðinlegasta frumvarp sem ég hef lesið var um rafeyri. Það varð engu að síður að lögum eftir að þingmenn allra flokka höfðu lagst yfir málið, gaumgætt það og yfirfarið. Ég fullyrði að enginn hafði sérstaka ánægju af því. Engu að síður var það gert enda hluti af skyldum þingmanna. Til þess m.a. voru þeir kosnir og þessir hlutir verða að vera í lagi, annars virkar þjóðfélagið ekki.

Það er hins vegar ekki nokkur einasti ómöguleiki fólginn í því að ríkisstjórn sem ekki vill ganga í ESB haldi áfram aðildarviðræðum, væri það niðurstaða þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samninganefnd var að störfum. Hún var skipuð hæfu fólki og samningsmarkmið höfðu verið skilgreind. Það er nefnilega ekki þannig að ráðherrarnir sitji sjálfir við samningaborðið. Það er ekki nokkur einasti vandi í því fólginn að kalla samninganefndina saman að nýju og fela henni að halda áfram viðræðum út frá þeim skynsamlegu samningsmarkmiðum sem utanríkismálanefnd Alþingis skilgreindi sumarið 2009.

Það er hins vegar heilmikill ómöguleiki fólginn í því að sitja uppi með ráðherra sem áttar sig ekki á að það er ekki í lagi að segja eitt en gera annað og að maður á ekki að lofa neinu nema treysta sér til að standa við það. Jafnvel enn verra er að vera með ráðherra sem átta sig ekki á því að störf þeirra eiga að vera í þágu þjóðarinnar en ekki þeirra sjálfra eða flokksins þeirra. Ráðherra sem treystir sér ekki til að framfylgja vilja þjóðarinnar, hann hlýtur hreinlega að segja af sér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is