Laugardagur 01.03.2014 - 21:14 - FB ummæli ()

Pissað á staur

Ég á dásamlegan hund sem heitir Loki (eða kannski á hann mig). Hann er rúmlega átta ára labrador, blíður, góður en umfram allt skemmtilegur. En hann er ógeldur.

Þótt hann sé eins blíður og góður og hugsast getur er honum annt um karlmennsku sína. Þegar við erum í göngutúr og hann verður var við aðra hunda á svæðinu þarf hann mjög nauðsynlega að pissa á næsta staur. Hann þarf að láta umheiminn vita að hann sé þarna, eigi þetta og megi þetta. Hann er aðalgaurinn í hverfinu, sko.

Hegðun ríkisstjórnar Íslands minnir mig stundum á hann Loka minn. Menn eru mikið í því að marka sér stöðu án þess að nokkur sýnileg þörf sé á því að mínu mati.

Dæmi um það er að Illugi Gunnarson lét það nánast verða sitt fyrsta verk sem ráðherra að skipa Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóra FME, stjórnarformann LÍN ásamt  því að setja fleiri sjálfstæðismenn í stjórn. Í raun skiptir engu hver er stjórnarformaður LÍN svo lengi sem hann sé hæfur, lög um sjóðinn eru nokkuð skýr en þetta er hrein og klár yfirlýsing um yfirráð sjálfstæðismanna yfir málaflokknum og að það skipti litlu í augum ráðherrans hvað menn voru að sýsla fyrir hrun. Pissað á staur.

Skýrasta dæmið um þesskonar markeringu er hins vegar tillaga svokallaðs utanríkisráðherra um að umsókn Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Það er flestum hulin ráðgáta hvernig nokkur maður gat orðað tillöguna svo freklega og augljóslega í andstöðu við margsögð kosningaloforð beggja flokka. Tillöguflytjandi getur ekki talist mjög næmur á umhverfi sitt. Hér hæfir klisjan „blaut tuska í andlitið“ prýðilega. Tillögunni er hins vegar ætlað að sýna vald ráðherrans, sýna að það er hann sem ræður og það skiptir engu máli hvað þjóðinni finnst. Hann ræður, hann á þetta, hann má þetta. Hann er aðalgæinn, allavega í Skagafirðinum. Ég held reyndar að hann hafi misreiknað sig aðeins. Fólki er verulega misboðið og ég er sannfærð um að enginn maður hafi framleitt eins marga Evrópusinna á eins stuttum tíma og svokallaður hæstvirtur utanríkis.

Sem leiðir hugann að orðum Dr. Rogers Mugford, frumkvöðli í hundaþjálfun sem bendir á það í bók sinni Never say no! að heimurinn væri örugglega betri staður ef helstu ráðamenn veraldar væru geldir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is