Föstudagur 21.02.2014 - 10:27 - FB ummæli ()

Ný stjórnarskrá samþykkt 17. júní?

Á síðasta kjörtímabili reyndu menn að breyta stjórnarskránni. Svo vill til að allir þeir flokkar sem buðu fram og náðu kjöri í kosningunum 2009 lofuðu endurskrá á stjórnarskránni í einhverri mynd. Framsóknarflokkurinn gekk einna lengst og lofaði blautum draumi allra lýðræðissinna. Minn flokkur vildi líka stjórnlagaþing fólksins og stjórnarflokkarnir þáverandi Samfylking og VG vildu báðir í þá vegferð. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á ályktun landsfundar 2009 um endurskoðun á stjórnarskránni og aðkomu þjóðarinnar  að því verki.

Eins og kunnugt er var lögð gríðarleg vinna í verkið og allri þjóðinni boðið að borðinu á ýmsum stigum máls. Ferlið vakti aðdáun og eftirtekt víða um heim og útkoman var ljómandi. Í lok kjörtímabilsins afhjúpaðist hins vegar gunguskapur flestra þingmanna sem ekki höfðu í sér dug til að klára málið með sómasamlegum hætti. Þess í stað var tillaga Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar um frestun og enn eina nefndarskipanina á nýju kjörtímabili samþykkt. Sú letilega hugmynd virtist runnin undar rifjum Guðmundar Steingrímssonar að fresta þessu bara því næsta þing þyrfti alltaf líka að samþykkja málið. Best væri því að afhenda þeim þá enn ókjörnu fulltrúum öll völd í málinu. Guðmundur stakk upp á því að hin nýja stjórnarskrá yrði svo kannski samþykkt á 70 ára afmæli lýðveldisins sem vill til að er 17. júní n.k.

Síðast þegar ég frétti var nefnd um nýja stjórnarskrá undir forustu Sigurðar Líndal sem forsætisráðherra skipaði í nóvember s.l. búin að funda þrisvar. Það er nokkuð ljóst að hinn tárvoti draumur Guðmundar Steingrímssonar um nýja stjórnarskrá á lýðveldisafmælinu er nokkuð langt undan. En hvað skyldu þeir sem lögðu til frestun málsins síðasta vor vera að gera til að reka á eftir að það verði einhvern tímann klárað? Einhvern veginn fréttist lítið af því.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is