Þriðjudagur 04.02.2014 - 12:44 - FB ummæli ()

Platlýðræði í Smáralind?

Ég sá í Fréttablaðinu í morgun að Björt framtíð ætlar að stofna félag í Kópavogi í kvöld. Fundurinn verður haldinn í Smáralind sem vissulega er stærsta bygging í Kópavogi og kannski búast menn við miklum mannfjölda á þessum stofnfundi. Það læddist reyndar að mér sá grunur að ætlunin væri alls ekki að fá sem flesta virkasta félaga heldur búa til þá ímynd að fólki fyndist það velkomið. Það mega jú allir koma í Smáralindina og flestir hafa komið þangað áður og væru því ekki að gera neitt óvenjulegt eða ögra sjálfum sér þótt þeir kæmu á fundinn.

Ég hef örlitla reynslu af því að stofna stjórnmálaflokka (humm, humm) og starfa í þeim og einhvern veginn á ég erfitt með að fá þá hugmynd til að ganga upp að Smáralind sé kjörinn vettvangur til þeirra fjörugu skoðanaskipta sem mér finnst starf í stjórnmálaflokkum þurfa að byggjast á.

Við búum við fulltrúalýðræði, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það fer þannig fram að stjórnmálaflokkar bjóða fram lista af frambjóðendum, bæði til alþingis og sveitastjórna og starf flokksins byggir á ákveðinni hugmyndafræði og ekki síst málefnum. Stjórnmálaflokkar, hvað sem okkur kann að finnast um þá, eru þannig hugsaðir að flokksmenn leggi í púkk í málefnavinnunni og komi sér saman um opinbera stefnu fyrir flokkinn með því að kjósa um málin eða sammælast um þau. Þetta gera flokkarnir með ýmsum hætti. Ég hef fylgst með beinum útsendingum af Landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem hægt er að sjá almenna flokksmenn takast á um stefnumálin í nefndastarfi, í almennum umræðum og svo með atkvæðagreiðslu um stjórnmálaályktanir í flestum málaflokkum sem verða svo að stefnu flokksins. Reyndar er það ekki þannig að hver einasti flokksmaður geti tekið sæti á Landsfundi sem rýrir lýðræðið á þeim bænum töluvert. Píratar gera svipaða hluti, nema bara á netinu, þar sem hver einasti flokksmaður getur skráð sig í málefnahópa og greitt atkvæði um allar tillögur. Þar geta allir haft aðkomu svo lengi sem þeir nota netið. Hin fullkomna leið til ákvarðanatöku í stjórnmálastarfi er því vandfundin, því flestar útiloka einhverja með einhverjum hætti. Flestir flokkarnir reyna hins vegar að gera flokksmönnum eða einfaldlega öllum sem vilja taka þátt eins auðvelt fyrir og hægt er, sums staðar eru jafnvel veittir ferðastyrkir svo fólk eigi auðveldara með að komast á fundi. Það er svo frambjóðenda og hinna kjörnu fulltrúa að kynna, tala fyrir og reyna að hrinda stefnunni sem sköpuð var af fjöldanum í framkvæmd.

Lýðræði byggir nefnilega öðru fremur á samræðu um hvaða ákvarðanir á að taka og sú samræða þarf að fá að blómstra og  heyrast.

Fyrir síðustu alþingiskosningar höfðu kjósendur urmul af nýjum valkostum að velja um. Ég ætla þó að leyfa mér að halda því fram að aðeins tveir þeirra hafi lagt fram stefnu sem unnin var í opnu og lýðræðislegu ferli þar sem öllum sem vildu taka þátt í að móta hana var boðið að borðinu og ákvarðanataka fór fram af félögunum sjálfum, þ.e. Píratar og Dögun. Björt framtíð er reyndar með heimasíðu þar sem fólk getur lagt inn hugmyndir, rætt þær og greitt þeim atkvæði en endanleg samantekt og ákvarðanataka virðist fara fram á lokuðum vettvangi. Hin nýju framboðin virðast mér hafa samið sínar stefnuskrár í þröngum, lokuðum hópi, jafnvel bara af örfáum við eldhúsborð. Þar stóð fjórflokkurinn sig betur en mörg hinna nýju framboða, auk þess sem frambjóðendur margra þeirra virtust missammála stefnunni eða jafnvel hvorki þekkja hana né skilja, eins og ég hef áður bent á.

Í auglýsingu Bjartar framtíðar í dag segir að á fundinum verði hefðbundin stofnfundamál á dagskrá. Nú er það svo að félög geta starfað með ýmsum hætti. Sum hafa stjórn og formlegan strúktúr, önnur ekki, sum innheimta félagsgjöld, önnur ekki og svo hafa þau tilgang og markmið. Slíku er gjarna lýst í samþykktum eða lögum félagsins og yfirleitt eru drög af slíku lögð fram á stofnfundi; til umræðu, breytinga og svo samþykkta. Til að fundargestir – væntanlegir félagar – geti kynnt sér málin er ekki verra að þau drög liggi fyrir áður en fundurinn fer fram svo menn geti kynnt sér með hvaða hætti félagið á að starfa. Ég get ekki séð að svo sé hér.

Þá er „almenn umræða um Ályktun Bjartar framtíðar“ á dagskrá og vísað í hana á heimasíðu. Hana má finna hér. Þar má líka sjá að hún var samþykkt af stjórn flokksins en ekki almennum flokksmönnum. Nú vil ég hvetja Kópavogsbúa sem og aðra áhugamenn um stjórnmál og stjórnmálastarf að mæta á fundinn og sjá hvort þessi umræða verður sannarlega almenn, það er að almenningur geti tekið þátt í henni með því að tjá sig en ekki bara sitja kjurr og hlusta.

Stjórnmálaflokkur á nefnilega ekki að vera eins og hver önnur neysluvara; hönnuð og framleidd af einhverjum öðrum og hjúpuð ímynd útbúinni á auglýsingastofu, eins og það sem vanalega er borið á borð fyrir okkur í Smáralind. Stjórnmálaflokkur á að vera lifandi kvika þar sem allir eiga að geta tekið þátt og settt sitt mark á flokksstarfið og málefnin. Er það svoleiðis hjá Bjartri framtíð eða er okkur bara ætlað að halda það? Kannski verður þetta góður og opinn fundur þar sem allir hafa málfrelsi og tillögurétt en kannski leiksýning, samskonar platlýðræði og þegar „Samtök um Bjarta framtíð“ efndu til opinnar hugmyndasamkeppni um nafn nýja flokkinn. Það er nokkuð augljóst að það nafn lá þegar fyrir.

 

getFile.php

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is