Þriðjudagur 21.01.2014 - 18:49 - FB ummæli ()

Til varnar Geir Haarde 17 ára

Það er auðvelt að skilja að fólki blöskri innihaldið í grein eftir kornungan mann, Geir nokkurn Haarde 16 eða 17 ára gamlan menntskæling sem birt er á DV.is í dag. Einna lengst í gagnrýninni á greinina gengur hann sjálfur, tæpum 50 árum síðar, og segir hana fjarstæðukenndan barnaskap, ummælin fáránleg og höfundi ekki til sóma og þar er ég honum hjartanlega sammála. Fyrir nútímafólk eru þessi viðhorf sannarlega fáránleg og sem betur fer í raun óskiljanleg þótt því miður örli enn á þessum viðhorfum allt of víða. Greinin var skrifuð og birt árið 1968, fjórum árum áður en ég fæddist en engu að síður held ég að margir jafnaldrar mínir skilji hvernig hægt var að skrifa hana þótt við tökum ekki undir það sem þar stendur.

Þegar ég var að alast upp var bara ein sjónvarpsstöð, ein útvarpsstöð og upplýsingaflæði um umheiminn í raun takmarkað, alla vega miðað við það sem nú gengur og gerist. Þó hafði orðið mikil breyting á, miðað við það sem foreldrar mínir ólust upp við. Bæði heima hjá mér og í skólanum voru til og lesnar barnabækur á borð við Tíu litla negrastráka með myndum eftir Mugg, Bláskjá og Litla svarta Sambó sem allar eru litaðar af kynþáttakyggju. Ég minnist þess ekki að nokkur hafi bent á að þar væri að finna vafasaman boðskap. Bækur Enidar Blyton voru einnig lesnar upp til agna þar sem illmennin voru iðulega sígunar og dökkir yfirlitum, skítugir og með ör á enninu. Hlutirnir voru þó farnir að breytast og fjölbreyttari heimsmynd farin að breiðast út í lesefni minnar kynslóðar miðað við það sem áður var.

Það er erfitt, ef ekki útilokað, að spóla til baka og reyna að skilja þjóðfélagið sem svona grein sprettur upp úr en jafnmikilvægt að muna að hún endurspeglar einmitt miklu frekar það – þjóðfélagið sjálft á Íslandi árið 1968 fremur en einstaklinginn sem færði viðhorfin í orð.

Öll höfum við einhvern tímann verið ung og vitlaus eða dregið ályktanir út frá takmarkaðri sýn eða heimsmynd. Svo þroskumst við flest og heimsmyndin stækkar og breytist. Ég hef yfirleitt ekki verið sammála Geir Haarde í stjórnmálum eða hans flokki yfirleitt en mér finnst ekki réttlátt að dæma orð hans frá 1968 út frá því fjölmenningarsamfélagi sem við, sem betur fer, höfum borið gæfu til að skapa hér árið 2014. Því miður eru þau viðhorf sem birtast í greininni frá 1968 þó ekki með öllu horfin og það er verkefni okkar allra að uppræta þau. Gerum það frekar en að ráðast á 17 ára dreng sem er ekki lengur til.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is