Mánudagur 20.01.2014 - 13:28 - FB ummæli ()

Fimm ár frá búsó

Jólin 2008 fengum við hjónin tvenn jólakort með skilaboðunum “Sjáumst í byltingunni í janúar” frá fólki sem ekki tengdist svo við vissum. Eins og segir í laginu hans Bubba, “bylting lá í loftinu árið 2009”. Einhvern veginn vissu allir í hvað stefndi.

Þann 20. janúar 2009 var ég á fundi úti í háskóla á þeim tíma sem mótmælin áttu að byrja við þinghúsið en renndi eftir það niður í bæ. Það var hræðileg tilfinning að standa fyrir framan Alþingishúsið og hafa engin önnur úrræði til að krefjast breytinga en að vera með læti. Svona var þá komið fyrir okkur.

Ég stóð í fjöldanum, en þó svo alein, og gat mig vart hrært. Takturinn ómaði allt í kringum mig og mannfjöldinn varð eins og ein lífræn heild, með eitt hjarta sem sló í takt.

Ég fylgdist með ungmennum reyna að klifra yfir vegginn inn í Alþingisgarðinn, nokkrir komust þangað og að húsinu sem var útbíað í eggjum, súrmjólk og drasli. Lögreglan mætti fólkinu af meiri hörku þennan fyrsta dag en ég hafði áður upplifað og fjölmörgum krökkum var komið fyrir í bílakjallara þingsins eins og þau væru hin seku í þessu öllu saman.

Þennan fyrsta dag búsáhaldabyltingarinnar gat ég hvorki hrópað né kallað. Ég var buguð af sorg. Seinna kynntist ég sumum þeirra sem voru inni í húsinu og óttuðust jafnvel um öryggi sitt. Þá tilfinningu get ég vel skilið þótt ég hefði litla samúð með þeim einmitt þá. Stundum hefur mér fundist ég skynja það á samþingmönnum mínum að við sem stóðum fyrir utan höfum haft einhverja sérstaka ánægju af því. Það á alla vega ekki við mig. Mér leið hörmulega en stóð þarna sem lömuð þangað til mér var orðið kalt inn að beini.

Daginn eftir klæddi ég mig betur. Þinghaldi var reyndar aflýst en ég ákvað að fara samt og taka mér stöðu við þinghúsið, vopnuð málmdollu sem glumdi í og skeið. Ég óttaðist að mótmælin myndu lognast út af og ákvað því að mæta alltaf á þeim tíma sem þau áttu að byrja. Mörgum finnst óþægilegt að vera fyrstir og snúa frá ef fáir eru mættir. Mér er hins vegar alveg sama. Ég ákvað að það væri mitt hlutverk að sjá til þess að einhverjir væru á staðnum um leið og herlegheitin áttu að byrja. Ég fór svo aftur í vinnuna þegar mér var orðið of kalt. Ég var aldrei niðri í bæ á kvöldin og upplifði því hvorki ofbeldi gegn lögreglunni og þegar mótmælendur tóku sér stöðu fyrir framan þá og mynduðu þannig varnarskjöld né þegar kveikt var í Oslóartrénu.

Þennan dag bárust mótmælin yfir að stjórnarráðinu á meðan jarðarför stóð yfir í Dómkirkjunni. Villimennska mótmælenda var ekki meiri en það að þeir vildu ekki trufla útför. Við stjórnarráðið var hins vegar meiri hasar en fólkið gerði aðsúg að Geir Haarde sem reyndi að komast frá húsinu í bíl og svo út af stæðinu. Honum fylgdu bæði lögregla og óeinkennisklæddir verðir. Jóhann, maðurinn minn tók fjölmargar myndir og endaði með egg á enninu.

Svona liðu dagarnir þar til ríkisstjórnin fór frá völdum. Ég reyndi að vera með þeim fyrstu á staðinn og stóð meðal annars fyrir utan Valhöll þegar Geir tilkynnti samflokksmönnum sínum að hann hefði greinst með krabbamein. Ég fór svo aftur í vinnuna og reyndi að hvetja alla 150 fésbókarvini mína til að mæta líka. Jóhann tók myndir í gríð og erg og á mikið safn ljósmynda af hinum ýmsu mótmælum frá hruni. Kvöldunum vörðum við hins vegar heima við og hlúðum að drengjunum okkar og fjölskyldunni.

Laugardaginn 25. janúar vorum við stödd heima hjá foreldrum mínum þegar Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér og horfðum þar á blaðamannafund hans. Á eftir skáluðum við fyrir Björgvini og því að loksins skyldi einhver stíga það skref að axla snefil af ábyrgð. Loks fór svo stjórnin frá, minnihlutastjórnin tók við með stuðningi Framsóknarflokksins gegn því að hún tæki til í skuldamálum heimilanna, setti hjól atvinnulífsins í gang og kæmi á stjórnlagaþingi til að semja nýja stjórnarskrá.

Síðan þá eru liðin fimm ár og svo ótal margt hefur gerst. Þó hefur alltof fátt breyst í raun og veru.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is