Föstudagur 20.12.2013 - 16:17 - FB ummæli ()

Þegar gott fólk gerir ekkert

Í gær birtist við mig viðtal í vefritinu Kjarnanum þar sem stiklað er á stóru um ýmislegt. Í viðtalinu segir meðal annars:

Eftir að hafa stigið út úr hringnum horfir Margrét nú inn í hann. Og hún hefur áhyggjur. „Ég hef mjög miklar áhyggjur af þessari orðræðu í utanríkismálunum. Stefnan virðist vera að horfa aðallega inn á við, helst bara í Skagafjörðinn.

Við vorum litli nýi róttæki flokkurinn á þingi á síðasta kjörtímabili og inn í slíka flokka leita ýmis öfl, meðal annars xenófóbísk (útlendingahatur). Við vorum gríðarlega meðvituð öll þrjú sem mynduðum þingflokkinn um að þetta væri eitthvað sem við ætluðum að berja niður ef við gætum. Þessi viðhorf spretta hins vegar oft upp þegar þrengir að. En svo finnur þessi orðræða sér stað ekki hjá okkur heldur í elsta stjórnmálaflokknum (Framsóknarflokknum). Á Norðurlöndunum hafa þetta verið nýir flokkar sem hafa verið að koma með þessa orðræðu. Að mestu nýjustu flokkarnir í hverju landi fyrir sig.

En mér finnst þessi orðræða hafa fundið sér ákveðna fótfestu inni í Framsóknarflokknum núna. Ég þekki marga þingmenn þar og sumt af þessu fólki er á algjörlega öndverðum meiði og tekur engan veginn undir þessa orðræðu. En það lýsir þeim skoðunum sínum ekki út á við. Og það er mjög hættulegt þegar ekkert opinbert nei kemur frá Framsóknarflokknum gegn þessum skoðunum. Vondir hlutir gerast þegar gott fólk stendur hjá og gerir ekki neitt. Mér finnst það dálítið óhugnanlegt. Það er sannarlega hópur á Íslandi sem hefur þessar skoðanir. Mér fannst eins og að forysta Framsóknarflokksins hafi leyft því að gerast að flokkurinn höfði til þessa hóps. Ég held að Sigmundur Davíð sé í raun enginn rasisti. Eins og ég þekki hann er hann mjög víðsýnn og skemmtilegur maður. En hann leyfði þessu samt að malla. Og flokkurinn græddi á því í síðustu kosningunum.“

Nú hefur ágætur kunningi minn og atvinnuframsóknarmaður Jóhannes Þór Skúlason gert kröfu á að ég biðji hann og aðra framsóknarmenn afsökunar á þessum ummælum. Það ætla ég ekki að gera. Hins vegar er mér bæði ljúft og skylt að útskýra betur hvað ég á við.

Í viðtalinu talaði ég um „xenófóbíska“ orðræðu en ekki þau hugtök sem oftar eru notuð í íslensku svo sem rasisma, útlendingahatur eða kynþáttahyggju. Þótt ég reyni yfirleitt að nota íslensk orð og hugtök finnst mér hreinlega vanta góða þýðingu á þessu orði. Kannski er það góðs viti, ef til vill er það vegna þess að þessi mál hafa til þessa ekki verið áberandi vandamál hér á landi.

Orðið xenófóbía vísar til órökréttrar hræðslu við útlendinga og erlend og framandi áhrif.  Í viðtalinu er skýring sett inn í sviga lesendum til hagræðingar. Hún er ekki frá mér komin og ég hefði skýrt orðið öðruvísi.

Því miður finnst mér það sem ég kalla xenófóbísk viðhorf hafa náð að skjóta rótum á Íslandi síðustu misserin og ég get ekki betur séð en að þau hafi náð fótfestu innan Framsóknarflokksins. Mér fannst ég reyndar líka sjá þau í minnst tveimur af þeim nýju framboðum sem buðu fram fyrir síðustu alþingiskosningar; Flokki heimilanna og Hægri-Grænum og mér finnst þessi orðræða áberandi hjá mörgum hörðum andstæðingum ESB. Svo vill til að sumir þeirra eru framsóknarmenn, m.a. formaður Heimssýnar.

Þar sem því hefur verið haldið fram opinberlega að ekki sé nokkur fótur fyrir þessu vil ég taka nokkur dæmi.

Þekkt er þegar þingmaður Framsóknarflokksins, Vigdís Hauksdóttir, spurði þáverandi innanríkisráðherra um hælisleitendur og hvort skoðað hef verið hvort rétt væri að hælisleitendur bæru ökklabönd sem sýndu staðsetningu þeirra. Ég hvet fólk til að smella á hlekkinn hér fyrir ofan og lesa fyrirspurnina í heild sinni og íhuga hvers kyns viðhorf til flóttamanna birtast þar. Mér finnast þau viðurstyggileg og óhugnanlegt að sjá einhvern velta þessum málum fyrir sér án minnstu samúðar. Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna kveður á um að allir menn hafi rétt til að flýja ofsóknir enda þótt þeir þurfi að ferðast ólöglega og nota fölsuð skilríki. Flóttamenn eru ekki sjálfkrafa glæpamenn og það er ekki bara ljótt að líta svo á, fyrst og fremst ber það merki um mikla vanþekkingu. Ef menn vilja glöggva sig betur á viðhorfum Vigdísar til flóttamanna, landamæravörslu og útlendinga má benda mönnum á að hlusta á þetta viðtal. Sem mótvægisaðgerð mæli ég með því að fólk renni yfir pistil Evu Hauksdóttur sem svarar Vigdísi ágætlega.

Sami þingmaður sem nú er formaður fjárlaganefndar Alþingis og gegnir því mikilli ábyrgðarstöðu fyrir okkur öll var eini þingmaðurinn á síðasta þingi sem greiddi atkvæði gegn því að Ísland yki framlög sín til þróunarhjálpar sem eru skammarlega lág og eins og bent hefur verið á hefur Ísland, eitt ríkasta og þróaðasta ríki í heiminum, fengið meiri aðstoð á lýðveldistímanum en við höfum veitt. Nú er verið að draga úr framlögum Íslands. Tilviljun? Ég held ekki. Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna.

Í desember 2010 tók Vigdís ekki þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi um veitingu ríkisborgararéttar. Hún laumaði sér út á meðan.

Þá birtast tilhneigingar til að halda Íslendingum á Íslandi meðal annars í tillögum Vigdísar um að leggja álögur á námsmenn sem lært hafa erlendis en snúa ekki strax heim aftur. Á fésbókarsíðu sinni hefur hún einnig hrósað málflutningi Fremskrittspartiet norska og hún hefur kallað IPA-styrkina glópagull. Í hugarheimi Vigdísar virðist allt útlent vont, alla vega í samanburði við „hið hreina innlenda“. Meira að segja rafmagn frá útlöndum er „skítugt“:

… erum við þá tilbúin til að blanda okkar hreinu orku saman við orku Evrópusambandsríkjanna sem er búin til með kolum og kjarnorku? Ég segi nei takk. Við erum því með því að fara í þetta verkefni um leið að gjaldfella okkar eigin orku og menga hana með þeirri skítugu orku sem þarna er að finna.

Þetta eru hennar eigin orð sem féllu í umræðum á Alþingi um hugsanlegan sæstreng. Og allt íslenskt virðist að sama skapi gott, jafnvel þótt iðnaðarsalt sé notað í matvælaframleiðslu. Að benda á að slíkt geti vart verið heilnæmt er „krataáróður„.

Í þessu viðtali lýsir Vigdís yfir yfirburðum kristinnar trúar yfir islam þegar henni er bent á ýmislegt vafasamt í Biblíunni. Hún segir að réttlæting á þrælahaldi, kvenkúgun og fyrirlitning á samkynhneigð sé ekki að finna í Biblíunni. „Mér finnst þú frekar vera að lesa upp úr trúarriti múslima,“ segir hún og spyr svo hvort þáttastjórnendur hafi ekki örugglega fermst.

Nú gæti einhver sagt að þetta sé nú bara hún Vigdís og hún tali ekki fyrir alla framsóknarmenn. Það getur verið erfitt þegar kjörinn fulltrúi fer að blaðra einhverja vitleysu. Það er nefnilega stjórnarskrárbundinn réttur hans að gera slíkt. Samkvæmt 48. grein stjórnarskrárinnar eru alþingismenn  eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. En það er hægt að svara þessari vitleysu og flokkurinn getur valið annan fulltrúa í oddvitasæti lista. Öll þessi dæmi sem ég rek hér að ofan nema eitt eru frá síðasta kjörtímabili og rötuðu öll í fjölmiðla. Ég tek það fram að ég lagðist ekki í mikla rannsóknarvinnu til að finna þau og man eftir mörgum í viðbót.

Ég man hins vegar ekki eftir því að nokkur málsmetandi framsóknarmaður hafi svarað henni opinberlega eða séð sig knúna til að standa upp og lýsa því yfir að þingmaðurinn sé að lýsa sínum persónulegu skoðunum en ekki framsóknarmanna almennt.

Við búum við fulltrúalýðræði. Í því fellst að flokkarnir velja sína fulltrúa og fólkið í landinu velur svo flokka. Framsóknarmenn hafa ekki bara einu sinni heldur tvisvar telft Vigdísi Hauksdóttur fram sem oddvita annars lista flokksins í Reykjavík. Oddviti lista er talsmaður flokksins í kosningum og kjörinn fulltrúi er einnig talsmaður þess flokks sem hann situr fyrir. Ef framsóknarmenn vilja ekki að fólk líti svo á að xenófóbísk orðræða grasseri innan flokksins þá ættu þeir að líta í eigin barm og velja einhvern annan til að tala fyrir flokkinn en Vigdísi Hauksdóttur.

En dæmin eru fleiri. Silja Dögg Gunnarsdóttir lýsti því yfir á Alþingi að hún vilji herða eftirlit með flóttamönnum. „Mörgum þykir óþægilegt að þessi hópur fólks sé án eftirlits á meðan staða þeirra er könnuð,“ sagði nýbakaða þingkonan og finnst þá væntanlega sjálfsagt að víkja mannréttindum fólks til hliðar. Á heimasíðu sinni hefur Frosti Sigurjónsson velt því upp hvers vegna erlendir fangar séu ekki sendir úr landi og vill gera „átak“ í þeim efnum. Ásmundur Einar Daðason hefur haft áhyggjur af útlensku kjöti og sýnt nánast krampakennd viðbrögð af ótta við samskipti við Evrópusambandið einsog sjá má t.d. hér. Mér finnst sú orðræða sem fer fram á vettvangi Heimssýnar og á vegum þess apparats einnig oft lykta af xenófóbíu og það þarf ekki að lesa lengi á bloggsíðu þess félagsskapar til að fá ónotatilfinningu en sem kunnugt er var Ásmundur Einar formaður Heimssýnar um skeið. Núverandi formaður er Vigdís Hauksdóttir en bæði Ásmundur Einar og Frosti eiga sæti í stjórn. Þá hef ég ekkert nefnt hina hliðina á peningnum, upphafningu á öllu því sem íslenskt er: þjóðmenningunni, íslenska kúrnum og glímusýningum og fánahyllingum á flokksráðsfundum. Og mikilvægi þess að halda rjómanum hreinum.

Ég minnist þess vart að þessum tilhneigingum ýmissa framsóknarmanna hafi verið andmælt af öðrum framsóknarmönnum eða apparötum innan flokksins. Á því er þó ein undantekning þegar aðalfundur fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Kópavogi samþykkti ályktun sem fól í sér áskorun til formanns flokksins um að láta af orðræðu þar sem útlendingar væru tengdir við afbrot og sjúkdóma. Sigmundur Davíð hafði lagt fram fyrirspurnir á Alþingi þar sem hann spurðist fyrir um fjölda og hlutfall erlendra fanga í íslenskum fangelsum og hvort útlendingar stundi hér skipulögð innbrot. Í ályktuninni segir meðal annars:

„Fyrirspurnir eða orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga eru til þess fallnar að auka á fordóma í samfélaginu og draga úr umburðarlyndi og samhug.“

Þá varar fundurinn við því að:

… alið sé á umræðu á þjóðernislegum nótum og úlfúð í garð þeirra samborgara okkar sem eru af erlendu bergi brotnir og þess sem erlent er. Það mun ekki skila samfélaginu fram á veg.

Fáar þjóðir eiga jafn mikið undir góðum samskiptum við aðrar þjóðir og Íslendingar og við eigum að eiga samstarf við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli og taka vel á móti þeim sem hingað leita yfir lengri eða skemmri tíma, rétt eins og vel er tekið á móti Íslendingum erlendis.

Þetta finnst mér fín ályktun og henni er ég hjartanlega sammála. Hún er frá því í maí 2011 og ég sakna þess að hafa ekki heyrt gott fólk í Framsókn andmæla opinberlega þeim flokkssystkinum sínum sem ala á hræðslu og andúð við það sem frá útlöndum kemur síðan þá. Næg eru tækifærin, því miður. Á meðan það er ekki gert hljótum við sem horfum á og höfum áhyggjur af því hvert þjóðfélagið okkar stefnir að líta svo á að talsmáti og hegðun þeirra talsmanna sem flokkurinn sjálfur hefur valið til trúnaðarstarfa og til að tala fyrir þeim sjónarmiðum sem hann stendur fyrir samrýmist því sem Framsóknarflokkurinn boðar. Þá skiptir minna máli hvað stendur í hinni opinberu stefnu.

Vondir hlutir gerast nefnilega þegar gott fólk stendur hjá og gerir ekki neitt. Vaxandi andúð á útlendingum og það að  yfir 3500 manns leggi nafn sitt við síðuna „Mótmælum mosku á Íslandi“ er  ekki vandamál eins flokks eða afmarkaðs hóps í samfélaginu heldur okkar allra sem myndum þetta samfélag. Og okkur ber öllum skylda til að reyna að gera eitthvað í þessu en standa ekki aðgerðarlaus hjá og leyfa illskunni að blómstra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is