Miðvikudagur 11.12.2013 - 11:57 - FB ummæli ()

Fátækt

Þeir mælikvarðar á fátækt sem notaðir eru eru einkum tvenns konar: Afstæð fátækt og algild fátækt. Með afstæðri fátækt er átt við þegar fólk er fátækt í samanburði við aðra í samfélaginu. Við sjáum töluvert af henni hér á landi. Fólk getur ekki leyft sér það sama og náunginn. Algild fátækt er þegar fólk líður skort á lífsnauðsynjum svo sem mat, vatni og húsaskjóli. Sem betur fer er hún fremur fátíð hér á landi. Ungbarnadauði, einn af helstu fylgifiskum algildrar fátæktar, er t.d. fátíður á Íslandi. Á lista Sameinuðu þjóðanna er Ísland það landi í öllum heiminum þar sem fæst börn deyja á fyrsta ári eða 2,9 á hver 1000. Í Sierra Leone deyja 160 börn af hverjum 1000 sem fæðast á fyrsta ári og 278 af hverjum 1000 látast á fyrstu fimm æviárunum. Það er meira en fjórðungur allra barna. Þótt við getum sannarlega búið betur um fólkið okkar búa Íslendingar almennt ekki við algilda fátækt. Þegar ég heyri sagt að við höfum ekki efni á að veita þróunarhjálp eða eigum fyrst að hugsa um rassgatið á okkur sjálfum áður en við sinnum útlendingum fýkur í mig.

Í upphafi 20. aldarinnar var Ísland eitt fátækasta ríki Evrópu. Ástæðan fyrir því að svo er ekki lengur er meðal annars sú að við fengum hjálp og aðstoð til þróunar frá öðrum löndum sem þá voru lengra á veg komin og eins og Stefán Ingi Stefánsson hefur bent á höfum við á lýðveldistímanum fengið meira en við höfum látið í té. Nú er það skylda okkar að endurgreiða heiminum það og gott betur. Okkur kemur mannkynið við. Við erum vel aflögufær og Þróunarsamvinnustofnun hefur haft lag á að gera mikið úr litlu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is