Mánudagur 09.12.2013 - 19:58 - FB ummæli ()

Fólkið sem eldar ekki og hið opinbera

Fyrir nokkrum dögum var áhugaverð grein í Fréttablaðinu og Vísi þar rætt var við tvær  hressar og heilbrigðar manneskjur sem teljast sennilega vera til fyrirmyndar í þjóðfélaginu. Eitt eiga þær sameiginlegt. Þau elda hvorugt oft og nota eldhúsið lítið.

Þessi lífstíll er mér frekar framandi þar sem hef unun af því að elda og ég hef aldrei búið ein. Ég er líka frekar nísk og myndi sjá á eftir aurunum sem færu í daglegar máltíðir á veitingahúsum. Svo er ég líka lítið gefin fyrir hinn dæmigerða skyndibita; sveitta hamborgara, pítsur og franskar. Þegar ég fer út á borða geri ég það annað hvort til að eiga góða stund með vinum eða til að smakka eitthvað sem ég kann ekki (enn) að elda sjálf.

Einu sinni vann ég með manni sem sagði mér að hann dreymdi um að leggja niður eldhúsið sitt. Hann bjó einn og þar sem við unnum var dýrindis mötuneyti. Honum leiddist að þurfa að standa í því að hafa til mat handa sér einum á hverjum degi og kannski fannst honum skemmtilegri tilhugsun að skreppa á kaffihús eða í bakarí og fá sér kaffi og rúnnstykki þar á morgnana og geta litið í blöðin í leiðinni og skreppa svo út á kvöldin.

Þótt ég elski að elda er ég alls ekki viss um að ég myndi nenna að elda fyrir mig eina á hverju kvöldi. Þá sjaldan sem ég er ein heima nenni ég því alla vega ekki. Ég er því alveg tilbúin að fallast á það að í einhverjum tilfellum væri ágætt að leggja bara niður eldhúsið.

Á tímum Maós lögðu milljónir Kínverja niður eldhúsin sín. Það var þó ekki af fúsum og frjálsum vilja heldur vegna fyrirskipana að ofan. Stjórnvöld ráðskuðust með fólkið og skipulögðu líf þess „betur“. Fólki var almennt gert að snæða í mötuneytum vinnustaða sinna þar sem það bjó í mörgum tilfellum líka og í stökkinu mikla voru eldhúsáhöld, svo sem pottar og pönnur sem áður höfuðu verið verið notuð á heimilum, brædd því hver vinnustaður þurfti að skila sínu til járnframleiðslunnar. Þegar ég dvaldi í Kína í nokkra mánuði árið 2008 fór ég meðal annars í matreiðsluskóla. Hann sóttu bæði útlendingar sem vildu kynna sér kínverska matargerð en líka Kínverjar sem ekki kunnu að elda. Þeir höfðu ekki alist upp við matargerð á heimilinu og enn er það svo að margir í Kína hafa ekki eldhús. Í borgum er víða húsnæðisskortur og hin dæmigerða þriggja manna kínverska fjölskylda býr gjarna í einu herbergi og hefur þar brúsa með soðnu vatni, rafmagns hrísgrjónasuðupott og örbylgjuofn. Í sameiginlegu rými er svo oftast gashella eða hellur,  jafnvel úti í porti. Margar fjölskyldur deila því í mörgum tilfellum með sér eldunaraðstöðunni. Úti á næsta götuhorni er svo hægt að fá ódýran og góðan mat allan sólarhringinn og það nýta sér flestir hvort sem þeir eiga eldhús eða ekki. Snemma á morgnanna trilla menn út stórum hellum þar sem steiktar eru stórar pönnukökur með eggi, svartbaunamauki og fleiru. Þeir eru horfnir um tíuleytið en þá hafa aðrir tekið við sem selja sætar kartöflur bakaðar í olíutunnum, grillspjót, soðkökur, núðlur, steikt hrísgjrón og allt hitt. Það er því bæði mjög auðvelt og getur verið afar ódýrt að elda ekki í Kína.

Mér finnast felast mikil lífsgæði í því að hafa eldhús, sérstaklega þar sem enginn stendur úti á götu hér í Hvömmunum til að selja mér gómsætan mat allan sólarhringinn. Hins vegar get ég alveg sett mig í spor þeirra sem vilja leggja niður eldhúsið sitt eða nota það mest lítið. Það er þeirra val. Því finnst mér í raun alveg fáránlegt að hið opinbera skuli hlutast til um að allir eigi að hafa eldhús hvort sem þeir hafa einhvern áhuga á að nota það eða ekki. Í nýrri byggingarreglugerð er grein um eldhús:

6.7.7. gr.

Eldhús.

Eldhús íbúða skulu vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henta stærð íbúða. Þau skulu þó ekki vera minni en 7 m². Heimilt er að víkja frá lágmarksstærð eldhúsa í íbúðum minni en 55 m² og skal hönnuður þá rökstyðja skriflega að rýmið sé fullnægjandi að stærð.

[…]1)

Þegar eldhús íbúðar er sameinað stofu er heimilt að samnýta borðkrók.

Á eldhúsi íbúðar skal vera opnanlegur gluggi. Ekki er þó gerð krafa um að hafa glugga í eldhúsi sé það hluti af stofu eða borðstofu og þannig frá því gengið að tryggt sé að nægileg dagsbirta verði í eldhúsinu. Í slíkum tilvikum ber að reikna stofu og eldhús sem eitt herbergi við ákvörðun gluggastærða.

Eldhús íbúðar skal loftræst í samræmi við ákvæði 10.2. kafla.

Í íbúðum sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skal athafnarými framan við eldhúsinnréttingu ekki vera minna en 1,50 m að þvermáli eða sýnt fram á að unnt sé að breyta innréttingunni á þann veg.

Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.

Á Íslandi er það sem sagt þannig að hið opinbera telur það skyldu sína að skikka okkur öll til að hafa eldhús að lágmarki sjö heila fermetra. Okkur er hins vegar heimilt í þeim undantekningartilfellum þar sem eldhús íbúðar er sameinað stofu að „samnýta borðkrók“. Takk fyrir það!

Nú vil ég ekki gera lítið úr byggingarreglugerðum. Það er nauðsynlegt að setja einhverar reglur um byggingar og hafa eftirlit með mannvirkjum í smíðum. Það getur komið í veg fyrir mikið tjón og að byggingar séu ótryggar.

En þegar hið opinbera er farið að skipta sér að því hvað eldhúsið sé stórt eða hvort við höfum eldhús yfir höfuð, hvar borðkrókurinn sé eða hvort þvottahús sé ekki örugglega í eða tilheyri íbúð (þrátt fyrir að milljónir manna um heim allann lifi prýðilegu lífi án þess að eiga sína eigin þvottavél) þá finnst mér of langt seilst og forsjárhyggjan farin að skerða frelsi einstaklinganna algjörlega að ástæðulausu. Það hentar ekki lífstíl allra að þurfa að borga fyrir minnst 7 m² undir eldhús. Ef það ágæta fólk sem ekki vil elda tekur einhvern tímann upp breyttan lífstíl; fer að hlaða niður börnum eða fær skyndilega áhuga á matargerð, þá er hvort sem er trúlegt að viðkomandi myndi vilja búa með öðrum hætti og jafnvel annars staðar og flytja hvort sem er.

Það er ekki við hæfi að líkja íslenskum stjórnvöldum við Maó formann. Hins vegar finnst mér stigsmunur en ekki eðlis að ákveða fyrir borgarana að enginn skuli hafa eldhús eða að allir skuli hafa eldhús, hvort sem þeir nota það eða ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is