Þriðjudagur 03.12.2013 - 22:31 - FB ummæli ()

Einhliða og án fyrirvara

Utanríkisráðherra sendi frá sér ansi skondinn brandara í formi yfirlýsingar úr ráðuneytinu. Þar segir meðal annars:

Skrifstofa stækkunarmála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) hefur einhliða og án fyrirvara tilkynnt ákvörðun um að hætta öllum IPA-verkefnum sem hafin voru á Íslandi. Framkvæmdastjórnin mun segja samningum upp með tveggja mánaða fyrirvara og verða bréf þess efnis send á næstu dögum.

Nú er það svo að þetta kemur sér ekki vel enda eru verkefni, styrkt með IPA styrkjum víða í gangi og jafnvel erfitt að hætta þeim í hvelli. Og þetta kemur heldur ekki á óvart. IPA styrkir stóðu okkur til boða sem þjóð sem sótt hafði um aðild að Evrópusambandinu. Þar sem annar stjórnarflokkurinn á síðasta kjörtímabili, VG, var lítið hrifinn af þessum styrkjum (þið munið, glerperlur og eldvatn) var farið varlega í að þiggja þá. Línan var sett á verkefni sem þurfti hvort sem er að ráðast í og myndu nýtast okkur óháð því hvort af aðild yrði. Ekki var t.d. sótt um styrki til að breyta einhverju í landbúnaðarkerfinu sem þyrfti að breyta EF við gengjum í sambandið. Þar átti engu að breyta fyrr en ljóst væri að þjóðin vildi þangað inn. Það fannst mér skynsamlegt.

Það sem gerðist nú er hins vegar afleiðing af því að utanríkisráðherrann, og þar með Ísland, hætti aðildarviðræðum við ESB. Það gerðist einhliða og án fyrirvara. Hann var ekki fyrr sestur í stólinn en hann tilkynnti að ekki yrði lögð meiri vinna í umsóknina á sinni vakt og svo var gert hlé á viðræðunum alla vega þar til þjóðinn hefði sagst vilja halda áfram í þjóðaratkvæðagreiðslu. Gallinn er bara að hana virðist ekki eiga að halda heldur. Þetta er því nokkuð einhliða hjá Gunnari Braga.

Á heimasíðu sinni segir utanríkisráðherrann: „Núna hefur Evrópusambandið brugðist þeim fjölmörgu aðilum sem það hefur gert samninga við um IPA styrki.“ Færslan heitir „Evrópusambandið veldur vonbrigðum“ sem er auðvitað líka brandari því við vitum að ráðherrann hefur aldrei bundið neinar vonir við ESB. Svo hlýtur hvert mannsbarn að sjá að þá er enginn tilgangur fyrir ESB að leggja Íslandi til styrki í þróunarverkefni og enn óheiðarlegra af okkur að þiggja þá ef ekki stendur til að halda umsóknarferlinu áfram.

Svo heppilega vill til að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og að eigin sögn einn ötulasti baráttumaður gegn IPA-styrkjum sem til er sagði á Beinni línu DV að auðvitað ætti að skila styrkjunum. Kannski er það þess vegna sem fjárlagafrumvarpið er enn fast í nefnd – verið er að leita að fé til að endurgreiða „múturnar“?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is