Laugardagur 23.11.2013 - 22:45 - FB ummæli ()

Vika feita tékkans

Til hamingju öll! Eftir nokkrar klukkustundir rennur upp „vika feita tékkans“ (ef við segjum að sunnudagur sé fyrsti dagur vikunnar (og ef við gerum það ekki ættum við að endurnefna bæði þriðjudag og fimmtudag)).

Sigmundur Davíð sjálfur hefur „boðað upprisu millistéttarinnar“ og það finnst mér reyndar löngu tímabært.

Ef við eigum að vera alveg sanngjörn (eins og mér finnst að við ættum alltaf að vera) þá er rétt að hrósa síðustu ríkisstjórn fyrir að hlífa þeim sem höfðu allra lökustu kjörin og reyna að ná í aura aukalega af þeim sem eiga yfirdrifið nóg af þeim. Það var gert og mér fannst það vel.

Það sem mér fannst hins vegar ekki ganga upp var hvernig sífellt var þrengt að þeim sem gerðu allt rétt. Venjulegu fólki (aka millistéttinni) sem hafði ekki ofurtekjur, fólki sem ekki fór til útlanda á hverju ári, fólki sem vann sín lág- eða millilaunastörf og þáði alla þá aukavinnu sem gafst til að geta komið sér upp „öruggu“ húsnæði yfir fjölskylduna sína svo börnin gætu búið við öryggi. Hver hefði trúað því árið 2007 að kaup á þriggja herbergja íbúð teldust til áhættufjárfestinga?

Jón og Gunna (45 ára) sem aldrei bauðst að fá 100% lán og stóðu alltaf sína plikt hafa nefnilega tapað mestu. Þeir sem keyptu íbúð á 100% lánum árið 2007 hafa ekki tapað neinu því þeir áttu ekki neitt. Þeim hefur hins vegar boðist ýmis „úrræði“ því yfirlýst markmið endurreistu bankana voru að viðhalda greiðslugetu og hámarka endurheimtur. Jón og Gunna sem hafa greitt af verðtryggðum lánum árum saman en horft á höfuðstólinn rjúka upp yfir matsverð íbúðarinnar þrátt fyrir skilvísar greiðslur hafa hins vegar tapað öllu. Og það finnst mér ósanngjarnt og það ber að leiðrétta. Annað er ekki hægt að lifa við.

Auk þess er það millistéttin sem ber samfélagið uppi. Fólk sem er ekki í veseni. Fólk sem hefur menntað sig. Fólk sem mætir samviskusamlega til vinnu alla daga, fólkið sem borgar skatta og er gott við börnin sín. Einmitt þetta fólk er mest hætta á að við missum úr landi því einmitt þeim býðst að gerast hjúkrunarfræðingar og verkamenn á olíuborpöllum í Noregi.

Ég hef heyrt alls konar slúður um væntanlegar aðgerðir; að þetta sé nánast ekki neitt sem máli skiptir, að þetta sé hámark þriggja milljóna niðurfærsla á kostnað skattgreiðenda fyrir þá sem ekki eiga meira en þrjár milljónir í húsnæði sínu miðað við fasteignamat yfir í það að þetta verði raunverulegar aðgerðir, framkvæmdar með neyðarlögum sem sett verða á yfir helgi.

Í vikunni ættum við að komast að því hvað stendur til að gera. Hin „blandaða leið“ sem forsætisráðherra boðaði í dag er held ég þó ekki það sem hann var kosinn til að gera. Sennilega skortir kjark.

———–

Það er hins vegar alltaf … ja pirrandi eða hjákátlegt, eftir því hvernig skapi maður er í, að fylgjast með viðbrögðum og væntingum stofnanna og hagsmunaaðila um boðaðar skuldaleiðréttingar.

Í fyrradag las ég frétt um að hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur ársfjórðungum  hefði aukist um 70% á milli ára og var hann þó var ærinn fyrir. Viðskiptabankarnir þrír sem fóru svo ævintýralega á hausinn árið 2008 hafa hagnast ævintýralega síðan þá. Hluti af þeim hagnaði skrifast á betri endurheimtur lána. Það var nefnilega alls ekki gert ráð fyrir því að verið gætum greitt öll þessi stökkbreyttu lán.

Síðustu daga höfum við líka heyrt fréttir af því að kröfuhafar bankanna, í flestum tilfellum vogunarsjóðirnir sem keypt hafa kröfur eftir hrun, hafi greitt eitthvað meira en verið hefur í umræðunni fyrir kröfurnar. Því eigi „svigrúmið“ að vera minna en rætt var um í kosningabaráttunni í vor.

Sko. Vogunarsjóðir eru í áhættufjárfestingum. Það er eðli þeirra. Þeir taka sénsinn og annað hvort tapa þeir eða vinna stórt. Þeir sem keyptu í bönkunum strax eftir hrun gerðu sennilega mjög góð kaup. Orðið á götunni var að kröfur væru að fara á allt niður í 5%. Samkvæmt síðustu fréttum hafa kröfur verið seldar fram og til baka. Einhverjir hafa því þegar grætt á þessu braski. Mergur málsins er þó sá að íslenskum skattgreiðendum ber nákvæmlega engin skylda til að tryggja þeim sem nú eiga kröfur í þessum þrotabúum hagnað. Í fimm ár hefur verið ljóst að þetta gæti farið á hvern veginn sem er. Ef einhver var svo vitlaus að kaupa þessar kröfur er það hans vandamál.

Það er líka hjákátlegt (eða pirrandi) að sjá fréttir af því að fólk „þurfi“ nú ekkert leiðréttingar. Flestir geti lifað án þeirra. Hér er um réttlætismál að ræða. Rökin eru meðal annars þær að innstæðueigendur fengu allt sitt tryggt á meðan þeir sem skuldu máttu horfa á skuldirnar stökkbreytast og bera verðtryggingu og vexti. Og 80.000 íslendingar eiga ekki krónu með gati. Samfélagssáttmálinn rofnaði. Hér grær ekki um heilt fyrr en fólk finnur fyrir réttlæti. Hvað fyndist mönnum um það ef tryggingarfélag ætlaði allt í einu að greiða bara þeim tjónþolum sem virkilega þyrftu á því að halda?

Og það er einmitt það sem ég óttast. Nú er „vika feita tékkans“ að renna upp. Síðasti séns í réttlætið. Ég óttast einkum tvennt: 1) Að fólk muni ekki finna réttlæti og þetta verði einhver málamyndagjörningur sem engu máli skiptir og 2) að skattgreiðendum (þ.e. millistéttinni) verði sendur reikningurinn og bankarnir geti farið að greiða vogunarsjóðunum ofurhagnaðinn sinn. Þá væri nefnilega betur heima setið en af stað farið.

Ég myndi ekki vilja vera sá forsætisráðherra sem boðaði slíkt miðað við fyrri yfirlýsingar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is