Miðvikudagur 20.11.2013 - 12:02 - FB ummæli ()

Saga af makríl

Fyrir nokkrum árum fór makríll að synda inn á íslenskt hafsvæði í stórum stíl. Hægt er að færa ágæt rök fyrir því að þá megi Íslendingar veiða hann, éta sjálfir eða selja. Makríll étur svif  og fleira og ef hann fengi að synda um íslenskan sjó óáreittur myndi hann éta fæðuna frá öðrum lífverum. Íslendingar fóru því að veiða makrílinn.

Sumir voru ansi stórtækir í þessum veiðum og virtust hugsa meira um að landa sem mestu en ekki skapa sem mest verðmæti úr því sem veitt var. Töluvert af aflanum hefur farið í bræðslu en ekki verið frystur og seldur til manneldis. Við það fara mikil verðmæti forgörðum því makríll þykir víða herramannsmatur þótt við höfum ekki komist upp á lag með hann hér á landi.

Á síðustu árum hafa veiðar aukist gífurlega, reyndar svo mikið að sumir hafa talað um ólympískar veiðar:

  • 2006 4.200 tonn
  • 2007 36.500 tonn
  • 2008 112.353 tonn
  • 2009 116.142 tonn
  • 2010 121.993 tonn
  • 2011 158.895 tonn
  • 2012 152.347 tonn

Nú berast fregnir af því að íslensk stjórnvöld hyggist úthluta kvóta á makríl og byggja á veiðireynslu síðustu ára. Þeim sem stunduðu ólympískar veiðar og hugsuðu bara um að landa sem mestu á sem skemmstum tíma en ekki skapa sem mest verðmæti fyrir samfélagið verður því væntanlega umbunað fyrir þá vafasömu starfsemi. Kvótann mega þeir svo framselja, leigja eða veðsetja eins og þeim sýnist.

Það hefur sýnt sig að framsal kvóta ýtir undir skuldsetningu í sjávarútvegi. Hyggðust þeir sem veitt hafa makríl í minna magni en unnið hann til manneldis, stækka við sig eða nýir aðilar  koma inn í greinina yrðu þeir því að kaupa kvóta af þeim fengu hann ókeypis vegna hinnar miklu „veiðireynslu“ sinnar. Svo hægt sé að kaupa kvóta verða flestir að fá lán. Þótt fiskurinn í sjónum eigi samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða að vera sameign íslensku þjóðarinnar þá eru veiðiheimildir bundnar við ákveðin skip og þau gjarna veðsett fyrir kvótakaupunum. Skip með kvóta er mun verðmeira en skip án kvóta. Verðmætin felast í veiðiheimildunum. Byggðastofnun hefur tekið þátt í slíkum viðskiptum.

Nú er það svo að makríllinn er flökkustofn. Fyrir nokkrum árum fannst hann vart við Íslandsstrendur, svo var allt í einu krökkt af honum. Hann gæti allt eins synt burtu aftur eða stofninn minnkað vegna þeirrar ofveiði sem allt bendir til að sé stunduð.

Hvað gerist þá? Jú, þeir sem veitt hafa mest og fengu mestan kvóta gætu hafa selt hann, hagnast vel og lifað í vellystingum til æviloka. Þeir sem keyptu hann myndu tapa. En hvar lendir tapið? Það lendir væntanlega á þeim sem lánuðu því skipin ein og sér eru sjaldnast nægilega verðmæt.

Fyrir nokkrum árum komst upp að einu tryggingar fyrir lánum Byggðastofnunar til nokkurra fyrirtækja á sviði rækjuvinnslu voru  rækjukvóti. Svo óheppilega vildi til að hann var verðlaus. Ríkissjóður þurfti því að leggja þessari stofnun okkar til hundruði milljóna til að bæta upp tapið. Fyrir það fé hefði verið hægt að borga skuldir, kaupa ný tæki á Landspítalann eða hækka örorkubætur.

Það er nokkuð fyrirsjáanlegt að slíkt gæti endurtekið sig ef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heldur sig við fyrirætlanir sínar að bókstaflega gefa kvótann í hlutfalli við veiðireynslu síðustu ára.

Til er ofureinföld lausn á þessu öllu saman: Leigjum út veiðiheimildirnar á markaði og látum þjóðina njóta góðs af í stað þess að einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið eins og virðist vera lenska hér á landi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is