Mánudagur 18.11.2013 - 15:01 - FB ummæli ()

Takk, bless og áfram með smjörið!

Á laugardaginn tók ég þátt í ótrúlega skemmtilegum og jákvæðum gjörningi þegar því stjórnmálaafli sem ég hef starfað með og fyrir síðustu fjögur árin var formlega slitið eins og alltaf stóð til að gera. Þór Saari tók að sér að senda út fréttatilkynningu sem mér finnst reyndar ekki ná þessu mómenti sérlega vel og mér sýnist flestir túlka sem uppgjöf. Svo er ekki.

Hreyfingin á rætur sínar í Borgarahreyfingunni sem hugsuð var sem „Hit and Run“ framboð sem átti að ryðja brautina inn á Alþingi og sýna og sanna að það væri hægt að vinna með öðrum hætti en gert hafði verið síðustu áratugina innan flokkakerfisins. Við ætluðum aldrei að verða stofnun heldur afl með takmarkaða stefnuskrá sem einkenndist af þeirri stöðu sem þá var og þeim bráðaaðgerðum sem við töldum nauðsynlegt að ráðast í. Í samþykktum var bæði kveðið á um að stefnuskrá mætti ekki breyta og að leggja skyldi hreyfinguna niður þegar markmiðum væri náð eða ljóst væri að þeim yrði ekki náð.

Síðustu ár gekk á ýmsu í mínu pólitíska lífi. Ferðalagið byrjaði brösulega enda höfðum við enga reynslu af starfi í stjórnmálum. Svo tókst okkur að fóta okkur og mér finnst við geta horft stolt til baka.

Við stunduðum tilraunastjórnmál og það segir sig sjálft að það takast ekki allar tilraunir. Og sumar takast þótt þær endi ekki með stórkostlegum sigri. Allar tilraunir færi okkur nefnilega nær réttu marki. Út á það ganga þær.

Ég held ég geti fullyrt að við störfuðum oftast nær málefnalega, bæði með stjórnarandstöðu (t.d. í Icesave-málunum og skuldamálum heimilanna) og stjórnarflokkunum (t.d. þegar kom að nýrri stjórnarskrá, auðlindamálum og nátttúruvernd). Við mátum hvert mál fyrir sig og tókum afstöðu til þess en ekki út frá því hver lagði það fram. Það er kannski ótrúlegt en í því fólst ákveðin nýjung á Alþingi.

Þegar við lögðum af stað með framboð Borgarahreyfingarinnar vorið 2009 sögðu mér flestir að þetta væri vonlaust. Það væri allt of flókið að stofna nýjan flokk og hann næði aldrei upp fyrir 5% þrörskuldinn. Íslandshreyfingin, flott og þarft framboð, náði bara 2,5% atkvæða árið 2007 þrátt fyrir rándýra kosningabaráttu að hætti þess árs. En okkur tókst það nú samt. Þegar Borgarahreyfingin sprakk í öreindir stuttu eftir kosningar var sagt að í kjölfar dapurlegra örlaga hennar myndi aldrei nokkur maður nema kannski Ástþór reyna að stofna nýjan stjórnmálaflokk aftur. Annað átti eftir að koma á daginn og gróskan í framboðsmálum landsmanna náði vonandi hámarki síðasta vor. Þá náðist sá árangur að um fjórðungur kjósenda kaus ný framboð. 5% þröskuldurinn sá svo til þess að um helmingur þeirra atkvæða féllu „dauð“. Það var nefnilega allt í einu svo undurlétt og sjálfsagt að mati margra að stofna nýjan stjórnmálaflokk allt í einu.

Síðustu ár hef ég verið svo heppin að fá að starfa með  fjölda frábærs fólks sem ég nú tel meðal minna kærustu vina. Engan úr þeim hópi þekkti ég fyrir hrun. Fyrir það er ég gríðarlega þakklát.

Þakklátust er ég þó fyrir traustið sem mér var sýnt, bæði með kjöri mínu en ekki síður á meðan ég starfaði á Alþingi. Reynslubankinn stækkaði umtalsvert.

Verkinu var þó ekki lokið enda takmarkað sem þrír þingmenn í stjórnaandstöðu geta gert einir og sér. Það eru því næg verkefni framundan sem við hljótum öll að láta okkur varða. Við hrunið rofnaði samfélagssáttmálinn og ég held að það grói aldrei um heilt fyrr ein stökkbreytt lán heimilanna verða leiðrétt og fólk finni fyrir réttlætinu á eigin skinni. Verðtrygginguna þarf að afnema og okkur vantar nothæfan gjaldmiðil. Við verðum líka að klára stjórnarskrárbreytingarnar með sóma. Það verður sífellt vandræðalegra að rífast um hvað forsetinn má og hvað ekki. Ný stjórnarskrá færir valdið til fólksins þar sem það á heima og setur stjórnvöldum skýrari regluramma sem skort hefur svo mjög. Og umfram allt er hún okkar, sprottin upp úr merkilegri vinnu með þátttöku þjóðarinnar. Auk þess myndi hún tryggja þjóðinni arðinn af auðlindum sínum sem skýrir auðvitað þá miklu andstöðu sem hún mætir víða.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir mig en einnig hvetja fólk til að halda áfram að stunda tilraunastjórnmál innan allra flokka og hreyfinga. Þetta er nefnilega ekki búið enn og því að vera borgari fylgja ekki bara réttindi heldur líka skyldur. Okkur ber að veita stjórnvöldum aðhald og taka þátt í heilbrigðum skoðanaskiptum. Lýðræði byggir nefnilega á samræðu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is