Mánudagur 11.11.2013 - 13:46 - FB ummæli ()

Gjáin

Alveg finnst mér ótrúlega ömurlegt að hlusta á og lesa umræður þar sem dregin eru upp tvö atriði og látið eins og um ósamrýmanlegar andstæður sé að ræða. Um pólana tvo, menningu og heilbrigðiskerfið. Eða var það höfuðborgarsvæðið og landsbyggðin? Flugvöllurinn eða dauði? Þjóðarleikvang fyrir íþróttaleiki eða Hörpu? Vinstri eða hægri?

Einföld skilgreining á menningu er að hún sé það sem geri mennina mennska. Hún er okkur lífsnauðsynleg. Svo eigum við einnig skýrslur um að hún sé mikilvæg atvinnugrein sem skili miklu til samfélagsins í beinhörðum peningum. Fjármunir til menningar eru  góð fjárfesting.

Heilbrigðiskerfið er líka mikilvægt. Án þess erum við illa stödd og ég hef verulegar áhyggjur af stöðu þess. Ég held að innst inni séum við öll sammála um að við viljum forgangsraða í þágu þess. Það þýðir ekki að við ættum að loka Hörpunni og Þjóðleikhúsinu gera Sinfóníuhljómsveitina að áhugamannasveit.

Og höfuðborgarbúar eru ekki óvinir fólksins á landsbyggðinni. Íþróttir eru hvorki mikilvægari né ómerkilegri en óperur og innanlandsflug mun ekki leggjast af þótt flugvellinum verði fundinn nýr staður. Gætum við farið að ræða málin án þess að ráðast á annað fólk og draga upp mynd af tveimur pólum og halda því fram að þeir séu ósamrýmanlegir þegar þeir eru oftar en ekki, þegar nánar er að gáð, sitthvor hliðin á sama peningnum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is