Mánudagur 04.11.2013 - 22:47 - FB ummæli ()

Af flengingum og lausum hölum

Loksins fæ ég að vita hvað gerðist á þessum undarlegu ríkisráðsfundum en tvær bækur ráðherra í síðustu ríkisstjórn eru væntanlegar og þar á að segja sögur. Ég man vel eftir að hafa setið með þeim Bjarna og Sigmundi Davíð, förðuðum í drasl, rétt fyrir útsendingu á Kryddsíldinni á gamlársdag og ekkert bólaði á leiðtogum stjórnarflokkanna því ríkisráðsfundinum lauk ekki á tilsettum tíma. Steingrímur kom svo einn en vildi ekkert segja annað en að „þetta hafi nú verið meira“ og „þetta var alveg ótrúlegt, hreint!“ Það hefur ekki verið hefð fyrir því að ljóstra upp efni þessara funda. Í ljósi þess sem nú hefur komið fram um ríkisráðsfundina sem fylgdu í kjölfarið hefði ég átt að segja „You ain´t seen nothing yet“. Jóhanna kom svo í annarri eða þriðju auglýsingapásu, eftir að hafa tekið upp áramótaávarpið á RÚV. Þetta var reyndar í árslok 2011, rétt áður en bók Össurar hefst.

En já. Þeir Össur og Steingrímur eru ekki sérstaklega hressir með bóndann á Bessastöðum. Ég er mishress, svona eftir því hvernig blæs. Það sem blasir við öllum og við hljótum flest að vera sammála um er að starfslýsing embættisins er á reiki.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er að finna nokkrar greinar um hvað embættið stendur fyrir. Þar stendur meðal annars:

9. gr. Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja. …

11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna. …

15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
16. gr. Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
 Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði. …

21. gr. Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.
22. gr. [Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Forsetinn setur reglulegt Alþingi ár hvert. …

24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið], enda komi Alþingi saman eigi síðar en [tíu vikum] eftir, að það var rofið. [Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.]
25. gr. Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.

Ef þessar greinar eru lesnar einar og sér mætti ætla að forsetinn væri ansi valdamikill en þó ábyrgðarlaus. Og ýmsir fræðingar hafa fært fyrir því býsna sannfærandi rök að forsetaembættið hafi verið töluvert valdameira í upphafi lýðveldistímans en að þeir sem gegnt hafi embættinu hafi beitt sér með mismunandi hætti og dregið hafi úr völdum forseta jafnt og þétt. Sá sem nú situr fimmta kjörtímabilið sitt hafi hins vegar gert sig gildandi með öðrum hætti og endurheimt völd sem forsetanum sé samkvæmt stjórnarskrá ætlað að hafa. En svo er það þrettánda greinin:

13. gr. Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.

Fyrir venjulegt fólk er þetta í besta falli ruglingslegt og eins og við munum flest var háð heil kosningabarátta um embættið nýlega sem snérist mest um það hvað í því fælist eiginlega. Frambjóðendur voru nefnilega fæstir sammála um það.

Ég get líka haft samúð með fyrrverandi utanríkisráðherra sem segir ríkisstjórnina hafa verið flengda og fyrrverandi fjármálaráðherra sem segir forsetann hafa leikið lausum hala og að ákvarðanir hans hafi jaðrað við afnám þingræðisins. Nánar má lesa um umkvartanir ráðherranna fyrrverandi hér. Ég vil þó benda á í þessu samhengi að á síðasta kjörtímabili var gerð heiðarleg tilraun til að setja nýjar, skýrari og betri reglur um forsetaembættið og svo margt annað sem hefur verið lasið hjá okkur. Þær eru að finna í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá sem þessir fyrrverandi ráðherrar segja að forsetinn hafi einmitt bókað andstöðu sína við. Ég sakna þess að þessir herramenn hafi ekki verið öflugri talsmenn þess að klára það þarfa verk.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is