Fimmtudagur 31.10.2013 - 12:10 - FB ummæli ()

Hundar og hálfvitar

Fólk sem ég þekki hefur nýlegar tekið að sér tík sem auglýst var á heimasíðu hinnar frábæru Dýrahjálpar sem hjálpar dýrum í vanda að finna ný heimili til framtíðar eða pössun til lengri eða skemmri tíma. Þar er líka hægt að auglýsa eftir týndum dýrum. Sjálfboðaliðasamtökin eru mikið þarfaþing og þar er unnið reglulega gott starf sem ég vil hvetja alla sem vilja og geta tekið að sér dýr til að skoða.

Tíkin er ljúf og góð, ægifögur, mjúk kelirófa, ansi klár og fljót að læra og yfirleitt kát og til í leik. Á þeim stutta tíma sem hún hefur verið á nýja heimilinu hefur hún tekið miklu ástfóstri við nýju fjölskylduna sína. Hún ber þess samt merki að lífið hafi ekki alltaf verið dans á rósum. Hún er tortryggin í garð fólks sem hún hefur ekki hitt áður og á það til að hörfa ef maður nálgast hana snögglega eins og hún búist jafnvel við höggi. Og hún sýnir merki um kvíða þegar fólkið hennar þarf að bregða sér frá. Hún kann ekki heldur að ganga í ól þrátt fyrir að vera á öðru ári. Það amar þó ekkert að sem ást, umhyggja og gott uppeldi mun ekki laga fljótt og vel.

En nú mánuði eftir að hún yfirgaf gamla heimilið sitt vegna „aðstæðna“ bárust fréttir af því að fólkið sem átti hana áður og sagðist ekki geta sinnt henni væri að fá sér nýjan hund!

Hundar eru ekki leikföng! Þeir eru lifandi dýr og miklar félagsverur sem þurfa umönnun, alúð, daglega hreyfingu og umfram allt félagsskap frá fólkinu sínu. Allir hundar þurfa þetta, stórir sem litlir. Ef fólk telur sig ekki hafa getað sinnt einum hundi þá mun dæmið ekki ganga upp með þann næsta heldur. Hvolpar eru vissulega sætir og yndislegir en þeir stækka og verða fullvaxnir hundar og það þarf að sinna þeim í 12-15 ár á hverjum einasta degi. Ef fólk er ekki tilbúið að taka upp þann lífstíl sem þarf til að halda hund á það ekki að fá sér svona dýr. Gullfiska eða kannski hamstur en alls ekki hund.

12-15 ár eru langur tími og ýmislegt getur breyst hjá fólki því lífið er jú ansi óútreiknanlegt þótt maður reyni að skipuleggja það eins og kostur er. Veikindi, húsnæðismissir, hjónaskilnaðir og ofnæmi eru meðal þess sem geta sett strik í reikninginn. Þess vegna eru samtök eins og Dýrahjálpin svo mikilvæg. En þau eiga ekki að þurfa að þjónusta fólk sem stendur fyrir raðgæludýrahaldi þar sem hvert dýrið tekur við að öðru og stoppar stutt við á heimilinu.

Kæra fólk, að eiga dýr, sérstaklega hunda og ketti, er langtímaskuldbinding og krefst þess að fólk forgangsraði þannig að dýrið sé ekki afgangsstærð. Ef þið treystið ykkur ekki til þess er betra að sleppa dýrahaldi en að gerast hálfviti sem lítur á gæludýr sem leikfang í stuttan tíma og fær sér svo nýtt þegar hann er orðinn leiður á því gamla.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is