Laugardagur 26.10.2013 - 23:57 - FB ummæli ()

Kæri Pawel,

Svar við bloggi Pawels Bartoszeks Russel Brand hafnar fjórflokknum,

Kæri Pawel,

ég er ekki marxisti en samt skil ég hluta af því sem Russel Brand er að segja. Ég er meira svona fyrir frjálst flæða fjármagns, hugmynda, viðskipta, nothæfa/alþjóðlega mynt … hvaða flokkur var það nú aftur?

Ég hef alltaf kosið og mér finnst undantekningarlaust að allir eigi að nota kosningaréttinn sinn því ekki er hann sjálfsagður … en stundum hef ég skilað auðu af því að mér hafa fundist bara vera ókostir í boði. Kostina hefur stundum vantað að mínu mati. En hér erum við auðvitað svo „heppin“ að hafa bara 5% regluna en ekki einmenningskjördæmi og tveggja flokka kerfi og því sem næst 50% reglu eins og er þar sem Russel Brand hefur kosningarétt.

Þótt mér finnist gaman að hlusta á Russel Brand og hann kveiki einhverja von í brjósti „róttæklinga“ eins og ég tel mig vera (þú mátt trúa því að synir mínir eru mér hjartanlega ósammála og finnst ég örugglega mjög gamaldags í skoðunum (eins og vera ber)) þá er ég ósammála honum að mörgu leyti. Ég held að það sé hægt að breyta kerfinu innan frá. Ég held reyndar að það sé hægt utan frá líka. Og að við verðum að gera það.

Það sem mér líkar ekki í þeirri stjórnskipan sem nú er við líði er að þeir ríku verði alltaf ríkari en við hin öll, 99%-in töpum. Mér finnst nefnilega ekki gott að tapa.

Ég vil búa í velferðarsamfélagi. Kannski er það eitthvað sem þú ert ekki að fíla. Í mínum huga þýðir það að fólk þarf ekki að borga fyrir menntun og heilbrigðisþjónustu og enginn þarf að vera heimilislaus og svelta. En ég vil að það borgi sig að vera duglegur og að það borgi sig að vinna. Ég er ekki viss um að það sé svoleiðis núna.

Ég er samt nokkuð sammmála Russel Brand um að flestir flokkar séu eins. Þeir taka t.d. flestir við peningum frá fyrirtækjum (sem ekki hafa kosningarétt né skoðanir en vissulega hagsmuni). Og auðræði er ekki lýðræði og við verðum að berjast gegn því. En ég fagnaði samt ekki ræðunni hans þótt ég skynjaði í henni einhver straumhvörf. Mér finnst nefnilega að fólk eigi að taka þátt. Því að vera borgari fylgja ekki bara réttindi heldur líka skyldur. Og það er okkar borgaralega skylda að hafa áhrif á lýðræðið og það er ekki hægt nema taka þátt.

Bestu fáanlegar,

Margrét

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is