Sunnudagur 20.10.2013 - 23:48 - FB ummæli ()

Þetta með Besta flokkinn

Mér finnst Jón Gnarr frábær borgarstjóri. Hann hefur notað embættið til að vekja á athygli á mannréttindum og friði og það finnst mér dýrmætt. Og svo er hann líka úberkúl og skemmtilegur, hvort sem það er þegar hann mætir opinberlega eitthvert sem Jedi-riddari, heldur ræður um múmínálfana eða er með flottasta atriðið í gleðigöngunni (stundum á eftir Páli Óskari). Og Góðan daginn dagurinn er frábær viðbót við alla hina dagana. Bestur finnst mér hann samt í pólitík.

Það er nefnilega misskilningur að hann taki ekki þátt í leiknum. Hann gerir það en spilar hann bara allt öðruvísi en flestir aðrir. Þegar fólk sýnir ruddaskap og frekju sýnir hann auðmýkt og tilfinningar. Og þannig slær hann vopnin úr höndum flestra og er í raun ósigrandi. Það sparkar enginn í liggjandi mann.

Ég bý ekki í Reykjavík og finn ekki á eigin skinni hvort staðsetningar sorptunna séu vandamál eða hvort sameiningar skóla hafi verið alveg glataðar. Og ég keyri Hofsvallagötuna sjaldan en ég hjóla töluvert og hleyp um stígakerfi borgarinnar og það er að verða betra og betra. En ég keyri líka en finn samt ekkert fyrir því að „þrengt sé að einkabílnum“. En lífið í miðbænum hefur orðið mun skrautlegra á þessu kjörtímabili, það er greinilegt. Og þegar fréttir berast af því að Besti flokkurinn sé stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í skoðanakönnunum og þar á bæ séu menn í alvöru að hugsa um að dubba einhvern Ísfirðing upp í leiðtogadjobbið finnst mér það dásamlegt. Verð svo glöð að ég brosi í korter!

En það er þetta með Besta flokkinn sem truflar mig. Fyrir síðustu kosningar var hann áhlaupsflokkur. Hit and run framboð. Hann gerði atlögu við kerfið og komst inn fyrir grindverkið. Ég þekki svoleiðis enda var Borgarahreyfingunni á sínum tíma ætlað einmitt það hlutverk. Ég man að Jón Gnarr sagði eitthvað á þá leið í viðtali að honum hafi fundist stjórnmálin hafa verið farin að trufla sig svo mikið að hann vilda sjá hvort hann gæti truflað þau til baka. Og það gat hann. Hann ER truflun og verður það vonandi áfram.

Ég man líka eftir að hafa hugsað að þau væru heppin í Besta flokknum, þau sem lögðu til atlögu við kerfið fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, að vera góður hópur sem fór í þetta saman. Þekkjast vel og svona. Það var nefnilega ekki þannig í Borgarahreyfingunni.Við þekktumst ekki neitt áður en við lögðum af stað og höfðum ólík markmið og stefnumið. Ég þekkti til dæmis engann, skráði mig bara á netinu og mætti á fund. Og það er erfitt að vinna í þannig hópi sem er ósamstiga og ósammála um hvert skal halda og hvernig skal komast þangað. Og reyndist okkur reyndar ómögulegt þegar á reyndi.

En svo komust þau inn og hafa sinnt þar ýmsum störfum og þá versnar í því. Stjórnmálaflokkar þurfa nefnilega  að starfa lýðræðislega. Það þarf að vera hægt að mæta á fundi, hafa áhrif á stefnumótun og ræða við kjörna fulltrúa. Þeir eru nefnilega fulltrúar kjósenda og þurfa að vera í góðu sambandi við þá, ekki síst sjálfra sín vegna. Ég hef aldrei orðið var við að Besti flokkurinn hafi staðið fyrir neinu flokksstarfi. Ég þekki fólk sem hefur skráð sig í flokkinn en aldrei fengið að taka þátt. Og ef maður fer inn á www.bestiflokkurinns.is þá fær maður þetta:

Service Temporarily Unavailable

The server is temporarily unable to service your request due to maintenance downtime or capacity problems. Please try again later.

 


Web Server at bestiflokkurinn.is
 
 

Þetta er einfaldlega ekki boðlegt. Það gengur heldur ekki að bjóða upp á það sem ég hef kallað pítsu-lýðræði, eins og þegar „Samtök um bjarta framtíð“ efndu til opinnar nafnasamkeppni um nafn á nýja flokknum sem fékk svo nafnið Björt framtíð. Það er alveg eins og þegar þreyttir foreldrar leyfa börnunum sínum að ráða hvað sé í matinn á föstudagskvöldum þegar þá sjálfa langar í pítsu, í ljósi þess að krakkarnir velja alltaf pítsu.

Það er hægt að handvelja gott fólk, vini og kunningja, inn á lista til að gera áhlaup á kerfið. Ef til vill er það meira að segja vænlegra til árangurs en að reyna að koma saman fólki af öllu landinu sem þekkist ekki neitt. En það er ekki hægt að halda svoleiðis áfram og það er alls ekki hægt að gera það tvö kjörtímabil í röð. Besti flokkurinn hefur sýnt að hann hefur ýmsar lýðræðislegar hugmyndir. Vefurinn Betri Reykjavík og starfið í kringum hann er til dæmis til fyrirmyndar. Það er frábært að virkja fólk og biðja um hugmyndir og láta íbúana sjálfa ráða sem mestu í sínu nærumhverfi. En kjörnir fulltrúar mega aldrei verða fulltrúar bara fyrir sig sjálfa. Þeir eiga að vera fulltrúar kjósenda og til þess þurfa þeir eitthvað apparat sem kalla má stjórnmálahreyfingu og hún getur tekið á sig margs konar myndir svo lengi sem hún er opin og fólk geti komið og rætt málin og tekið þátt. Ef það verður ekki svo er Sjálfstæðisflokkurinn eiginlega skárri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is