Föstudagur 18.10.2013 - 12:51 - FB ummæli ()

Slembivalinn ráðherra

Ég hef áhuga á betra og virkara lýðræði. Þess vegna finnst mér gott að hafa verið hluti af ungum og ómótuðum stjórnmálaöflum þar sem mönnum leyfist að gera ýmsar tilraunir. Mikilvægast er þó að vita hvar má gera tilraunir.

Þegar stjórnmálaaflið Dögun varð til leituðum við í smiðju Lýðræðisfélagsins Öldu eftir hugmyndum um samþykktir sem við sniðum af okkar þörfum. Ein hugmynd sem við ákváðum að taka upp er að slembivelja fulltrúa. Við höfum því valið ákveðið hlutfall manna í svokallað framkvæmdarráð af handahófi úr félagatalinu. Rétt er að taka  fram að menn geta sagt sig frá djobbinu er þeir hafa ekki áhuga, nennu eða getu til að inna það af hendi.

Og það hefur ýmsa kosti að notast við þessa aðferð. Slembivaldir fulltrúar koma inn í starfið á öðrum forsendum og eru oft með aðra sýn á hlutina, sýn hins almenna félagsmanns frekar en flokkshestsins. Þeir eru ólíklegri til að vera huti af einhverri klíku eða reyna að skara eld að sinni eigin köku.

Eftir síðustu kosningar, þegar ljóst var að Framsóknarflokkurinn hafði unnið nokkuð óvæntan stórsigur hafði ég orð á því að það væri næstum eins og hluti þingflokksins hefði verið slembibvalinn því þegar raðað var á lista var útlitið fyrir Framsóknarflokkinn ekki svo bjart. Formaðurinn þorði ekki einu sinni fram í Reykjavík. Því er fullt af framsóknarmönnum sem féllust á að taka sæti á lista til uppfyllingar þingmenn í dag.

Það er í sjálfu sér ágætt og ég gæti trúað að „hinir slembivöldu“ væru nær almenningi í hugsun en gamalreyndir þingmenn. Mér finnst bara verst að þeir séu allir framsóknarmenn. Málin flækjast þó þegar valið er í valdastöður innan flokksins. Þar eru ráðherraembættin efst í goggunarröðinni. Þar þarf að vera valinn maður í hverju rúmi og taka þarf mið af menntun, reynslu, áhugasviði og hæfileikum þeirra sem koma til greina sem ráðherrar. Á Íslandi hefur það þó ekki alltaf verið svo og við höfum haft ýmsa menn í ráðherrastólum sem ekki hafa valdið því vel. Stundum virðist skipta meira máli hve lengi menn hafa beðið á bekknum eða hverjum þeir eru tengdir frekar en þeir hafi eitthvað að gera í embættið.

Í þeirri ríkisstjórn sem við höfum nú er margt vel menntað, greint hæfileikafólk sem ég hef almennt töluverða trú á þótt ég sé því ekki endilega sammála því um alla hluti. Á því eru þó undantekningar. Ein þeirra er utanríkisráðherrann okkar. Hann er góður piltur sem ég þekki ágætlega, þægilegur í umgengni og góður við bæði börn og dýr. Fínn gaur. En hann er algjörlega glataður utanríkisráðherra.

Góður utanríkisráðherra þarf að hafa yfirgripsmikla þekkingu á utanríkismálum. Til þess að það sé hægt þarf maður að þekkja heiminn og til dæmis vita hvað löndin heita. (Og nei, orðið Kasakstan er ekki rússneska fremur en orðið Afganistan). Það er líka kostur að kunna mörg tungumál og vera vanur alþjóðasamskiptum. Þá þarf hann að vera góður ræðumaður og eldklár. Svo þarf hann helst að hafa vit á því að velja sér aðstoðarmenn sem eru enn klárari og reynslumeiri á þessum sviðum en hann sjálfur.

Það skiptir máli fyrir alla þjóðina að utanríkisráðherra sem kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar á alþjóðavettvangi sé starfi sínu vaxinn. Hann er andlit okkar út á við og gætir hagsmuna okkar á erlendri grundu. Það er kannski hægt að lifa við óhæfan landbúnaðarráðherra eða kirkjumálaráðherra en það er einfaldlega ekki hægt, eins og heimurinn er orðinn á 21. öldinni, að hafa óhæfan utanríkisráðherra. Maður slembivelur ekki í það embætti. Það er ekki einkamál Kaupfélags Skagfirðinga hver sinnir því embætti. Þjóðin öll á heimtingu á að þar sé hæfur einstaklingur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is