Mánudagur 14.10.2013 - 11:13 - FB ummæli ()

Svínaflensa og verðtrygging

Í tilefni þess að nú eru fimm ár frá hruni var ég gestur í þættinum Á Sprengisandi hjá Sigurjóni M. Egilssyni ásamt Sigurði G. Guðjónssyni. Við ræddum meðal annars skuldavanda heimilanna og hvernig þær sértæku lausnir sem boðið var upp á hafa gagnast (eða lítið gagnast) heimilunum í landinu. Að mínu mati gengur ekki að leysa almennan vanda með sértækum lausnum, ekki frekar en að það gefist vel að grafa skurð með teskeið. Tveir þriðju heimila eru með húsnæðislán og um helmingur þeirra lenti í verulegum vanda og sá hópur var einfaldlega allt of stór til að hægt væri að leggjast yfir hvert tilfelli fyrir sig, greina vandann og beita sértækum lausnum enda lengdist röðin hjá umboðsmanni skuldara stöðugt. Við Sigurður vorum sammála um að breytingin á gjaldþrotalögunum væri í raun eina skuldaúrræðið sem væri verulega vel heppnað en fólk getur byrjað með hreint borð eftir tvö ár ef það verður gjaldþrota. Áður var gjaldþrota fólk hundelt út fyrir gröf og dauða og í raun dæmt til að lifa utan samfélags það sem eftir var í mörgum tilfellum.

Tækifærin til að breyta stöðunni voru fjölmörg en það auðveldasta var sennilega þegar neyðarlögin voru sett og innstæðum fjármagnseigenda bjargað. Auðvitað átti að kippa verðtryggingunni úr sambandi um leið. Þar með hefði fjöldi heimila ekki þurft að þola stökkbreytingu lána sinna og kjaraskerðingu sem því nam. Eiginfjárstaða færri hefði orðið neikvæð og jafnræðis hefði gætt. Jafnræðis sem skort hefur svo mjög.

Í upphafi síðasta kjörtímabils kom upp önnur staða sem hefði getað valdið neyðarástandi. Svínaflensan breiddist um heiminn og að mati heilbrigðisyfirvalda var bara tímaspursmál hvenær hún stingi sér niður hér á landi. Viðbrögð stjórnvalda voru fumlaus og fljótlega var ákveðið að kaupa bóluefni í stórum stíl og bjóða upp á ókeypis bólusetningar fyrir alla sem kusu. Henni var ekki þröngvað upp á nokkurn mann en þeim sem væru veikir fyrir var sérstaklega ráðlagt að láta sprauta sig. Ég fékk mína bólusetningu á næstu heilsugæslustöð, labbaði bara inn, skráði mig og beið í korter eftir sprautunni. Svo var því lokið og ég hélt áfram að vera heilbrigð.

Hefðu stjórnvöld hins vegar brugðist við yfirvofandi svínaflensufaraldri með sama hætti og skuldavanda heimilanna hefði þetta sennilega gengið öðruvísi fyrir sig. Lögð hefði verið áhersla á að vera ekki að hjálpa fólki sem þyrfti ekki á hjálp að halda og gæti bjargað sér sjálft. Auðvitað væri óljóst hverjir nákvæmlega það væru og því þyrfti að fara fram mat á aðstæðum hvers og eins. Stofnað yrði embætti umboðsmanns svínaflensuvarna ríkisins og þar gæti fólk lagt inn umsögn um bólusetningu. Farið væri vandlega yfir allar umsóknir í þeirri röð sem þær bærust en þar sem staðan væri oft óljós gerðist það oft að afla þyrfti frekari gagna. Fólk þyrfti þá að fara á marga mismunandi staði og fá vottorð hjá heimilislækninum sínum og skrá niður heilsufarssögu sína sem rökstuðning fyrir bólusetningunni. Á biðstofu heimilislæknanna kæmu auðvitað líka þeir sem þegar hefðu veikst og töluverðar líkur eru á að þeir hefðu náð að smita hina sem enn biðu bólusetningar. Þegar embætti umboðsmanns svínaflensuvarna ríkisins væri loks búið að stimpla umsóknina væri umsækjandinn hins vegar löngu orðinn veikur og jafnvel dáinn.

Sem betur fer var farið í almenna aðgerð en ekki sértæka við þessari yfirvofandi almennu hættu. Aðgerðin var hins vegar dýr og ef ég man rétt voru enn til haugar af bóluefninu þegar það rann út. Allir sem vildu fengu hins vegar sprautu og minnkuðu þar með líkurnar á alvarlegum veikindum. Aðrir kusu að gera það ekki, sumir af þeim veiktust og hluti þeirra lenti á spítala. Samkvæmt frétt mbl.is frá því í desembar 2009 þegar flensan var í rénum höfðu tæplega tíu þúsund greinst með svínaflensulík einkenni, 700 tilfelli voru staðfest , 180 höfðu verið lagðir inn á sjúkrahús vegna flensunnar og þar af 20 á gjörgæslu. Tveir létust af völdum svínaflensu á Íslandi. Í Farsóttarfréttum frá svipuðum tíma stendur að talið hafi verið að hið mikla bólusetningarátak hafi átt þátt í að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur hér á landi en þá höfðu yfir 76 þúsund verið bólusettir.

Við almennum vanda duga almennar aðgerðir nefnilega best. Þó er sennilega aldrei hægt að koma algjörlega í veg fyrir skaða. Forsendubrestur heimilanna var til að mynda víðtækari. Einhverjir hefðu samt lent í vanda, t.d. vegna tekjumissis eða vegna þess að þeir fóru einfaldlega óvarlega og skuldsettu sig upp í rjáfur. En vandinn hefði aldrei orðið eins umfangsmikill og stór og hann varð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is