Föstudagur 04.10.2013 - 12:19 - FB ummæli ()

Vigdís og „eineltið“

Mér virðist sem flestir blaða- og fréttamenn þessa lands séu komnir í einhvers konar keppni um hver getur látið Vigdísi Hauksdóttur bulla mest. Helgi Seljan átti góðan sprett í gærkvöldi þegar hann náði að láta drottninguna tilkynna okkur að orðið „strax“ væri teygjanlegt hugtak. Ég fletti þessu nú strax upp og samkvæmt henni er merking orðsins nokkuð fastmótuð og í ágætu samræmi við mína máltilfinningu.

Þó er best að hafa vaðið fyrir neðan sig og benda á að það var einmitt Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar sem ritstýrði þeirri útgáfu Íslenskrar orðabókar sem ég nota. Ég man samt ekki til þess að útgáfan hafi verið styrkt af Evrópusambandinu en sjálfsagt er að fletta því upp við tækifæri. Þetta hlýtur þó samkvæmt öllum Heimssýnarbókum að teljast enn eitt dæmið um kratavæðinguna sem tröllríður samfélaginu, jafnvel tungumálið er ekki undanskilið. Eins hefur verið bent á að orðið „strax“ hafi aðra merkingu í bæði sænsku og hollensku. Ég er ekki sérlega vel að mér í þeim tungumálum en hugsanlega er hér komin skýringin á þessum misskilningi þótt bæði Svíþjóð og Holland séu í ESB.

Kapphlaup fjölmiðlamanna á eftir Vigdísi ber öll merki eineltis, það vill segja, þeir koma henni ítrekað í aðstæður sem hún ræður illa við og verður sér hreinlega til skammar í. Og þeir vita fyrirfram að meiri líkur en minni eru á því að eitthvað algjörlega óborganlegt muni sleppa út fyrir varir hennar og viðtalið fá framhaldslíf í skemmtilegri youtube klippu eða lifi á fésbókinni í ýmsum tilbrigðum dögum og jafnvel vikum saman. Á næstunni mun til dæmis enginn framsóknarmaður geta notað orðið „strax“ án þess að verða kjánalegur í besta falli. Ég leyfi mér góðfúslega að benda þeim á að nota „samstundis“, „undireins“ eða „núna“ í staðin til að forðast vandræðagang.

En þótt eftirspurn fjölmiðla eftir speki Vigdísar hafa á sér eineltisblæ er málið ekki svo einfalt. Ekki einu sinni þótt sumir fjölmiðlamenn fái kikk út úr því að tappa af henni gullkornunum. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðinu. Þeim ber ekki einungis að upplýsa okkur um gang mála, þeim ber einnig að veita stjórnvöldum á hverjum tíma aðhald. Og Vigdís er í fáránlega valdamiklu embætti sem formaður fjárlaganefndar Alþingis. Þar situr hún í umboði þingflokks Framsóknarflokksins sem stór hluti kjósenda kaus til valda í síðustu kosningum. Sú staða veitir mér enga sérstaka öryggistilfinningu.

Það er beinlínis hlutverk fjölmiðla að þjarma að Vigdísi og ekki þeim að kenna að það sé einum of auðvelt að fá hana til að afhjúpa að hún er engan veginn hæf til þeirra viðkvæmu trúnaðarstarfa sem henni hafa verið falin.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is