Miðvikudagur 25.09.2013 - 15:02 - FB ummæli ()

Af köttum, ostum og séríslenskum aðstæðum

Sundum er Ísland svo klikkað að maður veit ekki hvar maður á að byrja.

Þegar þetta er ritað stendur yfir umfangsmikil leit í Öskjuhlíðinni af svörtum en afar krúttlegum ketti sem flýgur um heiminn í einkaþotu. „Finnið hana!“ fyrirskipaði eigandinn í kvöldfréttum í gær og hét fundarlaunum upp á hundrað þúsund krónur. Ég hef samúð með konunni enda dýravinur. Ég væri örugglega alveg jafn miður mín ef hundurinn minn væri týndur. Ef ég hefði efni á að ferðast um heiminn með dýrið í einkaþotu þá myndi ég jafnvel hafa fundarféð veglegra þannig að það dyggði fyrir farmiða í almennu farrými fyrir finnandann og félaga, fram og til baka.

Við erum svo heppin að hafa hér björgunarsveitir. Þær bregðast við þegar vá steðjar að eða aðstæður krefjast þess. Ég hef aldrei áður vitað til þess að þær leiti að týndum gæludýrum, þótt útlensk séu og velti fyrir mér hvers vegna þær taki þátt í því. Eigendur týndra dýra leita hins vegar oft til vina eða jafnvel almennings og biðja um hjálp og ég hef sjálf tekið þátt í slíkri leit. Fyrst björgunarsveitir eru farnar að taka þátt í leit á gæludýrum verða þær þá ekki að bregðast við næst þegar gári flýgur út um opinn glugga eða innikisa rambar út? Eða á bara að hjálpa ríkum útlendingum?

Og hvað á svo að gera við köttinn? Í síðustu viku fannst snákur, væntanlega gæludýr, í húsi uppi í Mosó. Gripið var til „viðeigandi ráðstafana“ sem ég held að þýði að snáknum var fargað. Dýrum sem er smyglað til landsins, eða koma hingað óvart, t.d. í gámum virðist nefnilega undantekningarlaust lógað hið snarasta. Ég bíð því spennt eftir því að heyra hvort svarti kötturinn lifi það af ef hann finnst eða hvort reglurnar, sama hversu ómanneskjulegar þær kunna að vera, séu bara fyrir okkur sem ekki fljúgum um í einkaþotum.

Okkur er talin trú um að veruleg hætta stafi af framandi dýrum og jafnvel ostum. Jú við þekkjum þetta, Ísland er eyja, dýrin hér hafa verið í einangrun og því hafi ekki borist til þeirra ýmsir sjúkdómar sem eru algengir í öðrum löndum. Stutt er síðan ógerilsneiddum osti var fargað því hann var of ungur. Ég hefði alveg verið til í að „koma í lóg“ einhverju magni af þessum eðalosti heima hjá mér, einum bita í einu. Ég hefði jafnvel verið til í að veita honum húsaskjól á meðan hann næði tilhlýðilegum aldri. Ég hef nefnilega oft borðað ógerilsneidda osta án þess að verða fyrir tjóni. Og þeir eru mun betri en kertavaxið sem okkur er stundum boðið upp á hér heima.

En vissulega eru til ýmsir hættulegir dýrasjúkdómar. Hundaæði er til dæmis skelfilegur sjúkdómur. Þó eru hundar í útlöndum almennt ekki með hundaæði enda eru þeir bólusettir alls staðar þar sem hætta er á smiti. Og dýrasjúkdómar berast hingað reglulega, þrátt fyrir boð, bönn og sóttkví. Síðasta vor kom t.d. upp smitandi barkabólga í kúm á Egilsstaðabúinu. Ég hef gist á Gistihúsinu Egilsstöðum sem er nánast við hliðinu á fjósinu og í þau skipti sem ég hef verið þar hefur verið auðvelt að nálgast kýrnar ef maður vildi, eins og sjá má á myndum á heimasíðu gistihússins. Geta ferðamenn ekki líka borið með sér sjúkdóma? Ég gæti vel trúað að ég hafi óafvitandi lagt hundinn minn í sýkingarhættu þegar ég hef komið frá útlöndum og farið úr skónum, ósótthreinsuðum, frammi í forstofu. Hver veit hvað mér hefur tekist að stíga í?

Alla vega: Hættum þessu rugli og látum eitt yfir alla ganga. Ef björgunarsveitir telja það í sínum verkahring að leita að týndum gæludýrum verða þær væntanlega líka að bregðast við næst þegar köttur, hundur eða kanína álpast út. Og í raun væri það lágmark að þær tækju þátt í leit að dýrum sem fælast frá eigendum sínum vegna flugelda um áramótin. Og ef kisa fær að lifa (sem ég vona auðvitað að hún fái að gera) þá hljótum við að gera sömu kröfu um önnur dýr sem koma hingað en hafa ekki farið í sóttkví af einhverjum ástæðum. Svo er það spurning hvort ekki sé löngu tímabært að taka upp gæludýrapassa eins og í öðrum evrópulöndum svo fólk geti farið með dýrin sín á milli landa sem talin eru örugg. Á hverju ári flytur fjöldi hunda og katta með eigendum sínum úr landi og lifir það af. Dýrin þurfa hins vegar að þola hræðilega einangrunarvist eigi þau að fá að koma aftur til landsins og bíða þess oft seint bætur. Er það virkilega nauðsynlegt? Og þetta með ostana. Komm on!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is