Sunnudagur 22.09.2013 - 13:05 - FB ummæli ()

Kreppubíllinn og heilbrigðiskerfið

Í nóvember 2008 keypti ég vinnubíl fjölskyldumeðlims sem var einn þeirra fjölmörgu sem misstu vinnuna á þessum tíma. Það hentaði mér ágætlega, árin þar á undan höfðum við verið með bíl á rekstrarleigu sem blessunarlega var runnin út. Ég ákvað að þennan bíl skyldi ég nota þar til kreppunni létti og hann hefur dugað vel og ég hef notað hann mun meira en ég hélt að ég myndi gera því í stað þess að vera hjólandi og frílansandi myndritstjóri, textasmiður og þýðandi varð ég þingmaður stærsta landsbyggðarkjördæmisins. Ég hef enga tölu á þeim ferðum austur á Höfn í Hornafirði sem ég hef farið á Kreppubílnum mínum síðan í kosningabaráttunni 2009. Á sama tíma hefur eiginmaðurinn notast við gamla jeppann hans pabba sem hafði fallið svo í verði þegar hann ætlaði að skipta honum út að það tók því ekki að selja hann. Og þetta hefur gengið ágætlega. Þar til nú að jeppinn hefur fengið dánarvottorðið – það borgar sig ekki að gera við hann. Og litli, rauði kreppubíllinn þurfti að fara á verkstæði og þótt hægt hafi verið að gera við hann fyrir stórfé og honum komið í gegnum skoðun þá veit ég að það er bara tímaspursmál þangað til ég þarf að skipta yfir á hjólið, strætó eða endurnýja bílakostinn.

Það er nefnilega hægt að fresta útgjöldum, viðhaldi og endurnýjun í ákveðinn tíma án þess að nokkuð stórkostlegt gerist. Svo kemur að því einn daginn að það dugir ekki til og ef ekki hefur verið haldið í horfinu verður það dýrt spaug.

Er ekki staðan þannig í heilbrigðiskerfinu okkar? Við höfum frestað öllum úrbótum, fjárfestingum, endurnýjun tækja, endurmenntun starfsfólks og svo framvegis. Besta fólkið okkar sér ekki tilganginn í því að vinna við þessar aðstæður. Nú bítur það okkur og það mun kosta mikið að laga kerfið ef það er þá hreinlega hægt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is