Sunnudagur 04.08.2013 - 15:04 - FB ummæli ()

KSÍ, Kína og heilbrigðiskerfið

Það vakti athygli í liðinni viku er ungur og efnilegur (og kannski meira en það) fótboltamaður með tvöfaldan ríkisborgararétt ákvað að spila ekki fyrir íslenska landsliðið heldur freista þess heldur að spila fyrir það bandaríska sem er númer 22 á heimslista FIFA á meðan Ísland er númer 73. KSÍ sendi frá sér yfirlýsingu sem mér finnst fáránleg. Þar segir að Aron Jóhannsson EIGI að leika fyrir Ísland því þótt hann sé fæddur í Bandaríkjunum hafi hann hlotið „knattspyrnulegt uppeldi“ innan vébanda KSÍ. Ef það knattspyrnulega uppeldi hefur verið eitthvað í líkingu við það sem sonur minn er að fá þá greiða foreldrar hans félagsgjöld til íþróttafélagsins, manna sjoppur á mótum og ganga í önnur störf fyrir félagið í fjáröflunarskyni. Ekki misskilja mig, starf flestra íþróttafélaga er frábært en þegar börnin okkar eru orðin fullorðin mega þau gera það sem þau vilja og eru ekki skuldbundin íþróttafélögum frekar en gamla grunnskólanum sínum eða sjoppunni í hverfinu. Þegar fólk verður fullorðið fær það nefnilega sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin lífi og má ráðstafa því eins og því sýnist, innan marka laganna. Og KSÍ-lögin hafa sem betur fer ekki verið samþykkt enn.

En ég skil vanda KSÍ þótt mér finnist forsvarsmennirnir hegða sér kjánalega. Landsliðið mætti nefnilega vera betra og í litlu samfélagið munar um hvern og einn, við erum svo fá að við megum ekki við því að missa besta fólkið okkar. En það á auðvitað ekki bara við í fótboltanum – ég hef t.d. miklu meiri áhyggjur af heilbrigðiskerfinu okkar þar sem okkar besta fólki bjóðast mun betri starfskjör og lífsskilyrði annars staðar. Þetta er fólk sem hefur fengið sitt uppeldi á landinu bláa og við sem samfélag höfum varið stórfé í að mennta í flestum tilfellum en sér ekki fram á bjarta framtíð hér á landi, því miður. Og það er ferlegt fyrir okkur hin sem höfum borgað skattana okkar og viljum geta treyst á öflugt heilbrigðiskerfi þegar á þarf að halda en þetta er fullorðið fólk og ræður sér sjálft. Það ber líka í mörgum tilfellum ábyrgð á velferð fjölskyldu og barna og vill eðlilega búa og starfa þar sem vinnutíminn er mannúðlegri, lán eru óverðtryggð og spítalar ómyglaðir.

Í Kína er skortur á flugmönnum. Eins og allir vita er flugnám dýrt og flugfélög þurfa einnig að þjálfa sitt fólk til að stýra ákveðnum vélum og viðhalda menntuninni. Og réttindi launþega eru ekki alltaf eins og best verður á kosið. Ráðningarsamningar flugmanna eru stundum meira í ætt við vistarbönd en eðlilega samninga á milli vinnuveitanda og launþega. Dæmi eru um að brjóti kínverskir flugmenn starfssamninga sína til ráða sig annars staðar séu þeir sektaðir um svaðalegar upphæðir, yfir milljón júan sem er um 20 milljónir í íslenskum matadorpeningum. Við erum sennilega flest sammála um að það sé ansi vel í lagt og eitthvað sem kæmi ekki til greina hér. Nútímaleg útfærsla á vistarböndum, hvort sem er á heilbrigðisstarfsmenn, fótboltamenn eða flugmenn eru ekki geðsleg „lausn“ á þeim vanda sem spekilekinn sannarlega er.

Það sem við eigum og verðum að gera er að setja markið hátt og búa fólkinu okkar það góð lífs- og starfsskilyrði að það VILJI búa hér, vinna og ala upp börnin sín. Við erum í hörkusamkeppni við aðrar þjóðir og laskað heilbrigðiskerfi, mikið vinnuálag, verðtryggð okurlán og hátt matarverð hjálpa ekki. Við erum einfaldlega ekki samkeppnishæf á þeim sviðum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is