Laugardagur 20.07.2013 - 22:12 - FB ummæli ()

Rétturinn til að tjá heimskulegar skoðanir

Einhvern tímann sá ég skopmynd af manni sem sat fyrir framan tölvuna sína og gat ekki farið að sofa því sífellt komu fram fleiri og fleiri heimskulegar skoðanir á netinu sem hann hafði ýmislegt við að athuga. Enn hafði einhver rangt fyrir sér á netinu.

Já, ég kannaðist við það.

Það er fullt af fólki þarna úti sem ég er ekki bara ósammála í grundvallaratriðum, mér finnst það bara hreinlega vitlaust. Málið er bara að það er í fullum rétti til þess að tjá það sem mér þykja „heimskulegar“ skoðanir. Og ég má tjá mínar.

Á síðustu dögum hefur tvennt verið á döfunni sem hefur minnt mig á hve tjáningarfrelsið er dýrmætt og því miður ekki sjálfgefið. Annars vegar eru það ummæli múslimaklerksins Ahmad Seddeq hjá menningarsetri múslima um að samkynhneigð ýti undir rán á börnum. Í mínum augum er þetta hreint bull og ég er í raun nokkuð sammála nöfnu minni Steinarsdóttur, framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstou Íslands, um að ummælin gætu hreinlega falið í sér lögbrot því tjáningarfrelsinu eru settar þær skorður að ekki megi ráðast opinberlega með háði eða rógi eða smánun á einstaklinga eða tiltekinn hóp einstaklinga á grunvelli til dæmis kynhneigðar þeirra. En fyrst og fremst eru ummælin þó  órökstudd og áður en við förum að draga fólk fyrir dóm ættum við kannski fyrst að krefja það um rökstuðning. Ég efast um að þessi klerkur geti stutt mál sitt með tölfræði sem stenst skoðun.

Ég held að múslimaklerkurinn sem ég er svona rækilega ósammála sé ekki á þessari skoðun vegna þess að hann sé múslimi heldur vegna þess að hann sé bókstafstrúarmaður. Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir löngu einmitt vegna fornaldarlegs viðhorfs og afstöðu til samkynhneigðar þannig að slíkt einskorðast ekki við Islam. Flest trúarbrögð urðu til á tímum sem við teljum nú óupplýsta í samanburði við þá sem við lifum – og eftir 50 ár munu menn eflaust telja árið 2013 hrikalega gamaldags og okkur óupplýst. Sem betur fer hefur margt trúað fólk burði til að taka kjarnann úr sinni trú og laga að nútímanum. Trú fólks þarf því engan veginn að lita viðhorf til kynhneigðar eða kyns annarra með neikvæðum hætti.

Skoðanir klerksins myndu ekki lagast neitt þótt við myndum banna honum að tjá sig eða, eins og mér finnst sumir vilja, gera múslima útlæga úr samfélagi okkar. Þvert á móti getur upplýst umræða jafnvel frekar vakið skoðanabræður hans og -systur til umhugsunar – sérstaklega ef settar væru fram beinar sannanir um að fullyrðingin ætti ekki rétt á sér.

Hitt málið eru viðbrögð tveggja framámanna Framsóknarflokksins við ágætum pistli Hallgríms Helgasonar í Víðsjá Ríkisútvarpsins sem nefndist Nýr framsóknaráratugur.  Utanríkisráðherra landsins varð sér hreinlega til skammar í grein á heimasíðu sinni (reyndar er búið að lagfæra meinlegar villur sem gerðu hana enn verri núna) og í þættinum Vikulokunum í morgun sagðist Frosti Sigurjónsson „vera fylgjandi málfrelsi og öllu því EN …“ og það er þetta „en“ sem fær hrollinn til að hríslast niður eftir bakinu á mér. Og það að Frosti virðist ekki gera greinarmun á pistli listamanns úti í bæ og frétt af fréttastofunni. Og hann skilur ekki að list má og jafnvel á að vera pólitísk og gagnrýnin. Hún á að ýta við okkur og fá okkur til að hugsa. Hún á að vekja okkur. Hin stórhættulega Lára Hanna setti bút úr þættinum á netið svo auðvelt er að hlusta á umræðuna hér án þess að hlusta á allan þáttinn.

Og auðvitað mega Framsóknarmennirnir Gunnar Bragi og Frosti hafa og tjá heimskulegar skoðanir sínar. Þeir eru hins vegar í valdastöðum og það sem þeir mega ekki gera er að misnota aðstöðu sína til að þagga niður í okkur hinum sem eru þeim ekki sammála. En eru þeir sammála því?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is