Miðvikudagur 10.07.2013 - 12:56 - FB ummæli ()

Málskotsrétturinn, veiðigjöldin og forsetinn

Ég hafði vit á að drífa mig með yngri soninn í búð rétt fyrir klukkan fjögur í gær til að kaupa á hann nýja takkaskó. Ég heyrði því ekki „fréttirnar“ fyrr en blaðamannafundi forsetans var um það bil að ljúka og fyrirsjáanleg niðurstaðan hafði verið staðfest. BMyndbrot frá fundinum sá ég hins vegar í fréttum.

Ég verð að viðurkenna að ég átti erfitt með að skrifa undir áskorunina um „óbreytt veiðigjald“ þótt ég hafi gert það að lokum. Ég vil það nefnilega ekki óbreytt. Ég vil að þeir sem nýti auðlindina greiði fyrir það fullt gjald og til þess þarf veiðigjaldið að hækka umtalsvert. Helst af öllu vildi ég nýtt kerfi þar sem fiskveiðiheimildir væru allar boðnar upp og allur fiskur færi á markað. Hreyfingin lagði fram frumvarp um það á síðasta kjörtímabili.

Ég er líka drullufúl með það fyrirkomulag sem við búum við er kemur að því að koma málum á dagskrá. Við eigum nefnilega annað og betra skilið en þennan stjórnskipulega óskapnað og ef ný stjórnarskrá sem byggði á tillögum stjórnlagaráðs væri komin í gagnið hefði atburðarrásin verið allt önnur. Þá hefðum við, borgararnir, ekki þurft að skrifa undir bænaskjal til dintótts forseta til að fá málið hugsanlega á dagskrá. Við hefðum sjálf getað lagt fram frumvarp sem Alþingi hefði ekki getað hunsað. Og það frumvarp hefði aldrei verið um óbreytt veiðigjald. Það hefði verið um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. Og Alþingi hefði getað komið með aðra tillögu ef það vildi. Ákvörðunin yrði svo þjóðarinnar. Reyndar hefði þjóðin vart þurft að ómaka sig við undirskriftasöfnun hefði ný stjórnarskrá tekið gildi nú í vor því í auðlindaákvæðinu er kveðið á um að „fullt gjald“ eigi að koma fyrir nýtingu á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. uppstokkun á kerfinu hefði því verið óumflýjanleg (sem skýrir kannski betur en flest annað andstöðu hagsmunaaflanna við breytingar á stjórnarskrá.)

Þótt ég hafi ekki horft á blaðamannafund forseta í heild sinni finnst mér rétt að gera athugasemdir við nokkur atriði. Í yfirlýsingu frá forsetanum sem hann las væntanlega upp og  finna má á vefnum segir:

Lögin fela því ekki í sér grundvallarbreytingu á nýtingu audlindarinnar en kveða á um tímabundnar breytingar á greiðslum til ríkisins, sköttum vegna nýtingar.

Þetta er bara bull því skattar eru ekki vegna nýtingar. Gjöld eru innheimt vegna nýtingar. Skattar eru óháðir nýtingu. Skattarnir mínir fara meðal annars í rekstur heilbrigðiskerfisins og vegakerfisins alveg óháð heilsufari mínu eða hvort ég flandrist um þjóðvegina. Ég greiði hins vegar komugjöld og bensíngjöld í samræmi við notkun á þessum kerfum. Þetta veit fyrrverandi „skattmann“ mætavel.

Það vakti einnig töluverða athygli að mörgum fannst  forsetinn beinlínis hvetja til málþófs á fundinum þegar hann sagði:

… að þegar Alþingi fjallaði um þetta mál, að þá fór þriðja umræðan bara fram á, á dagsparti, ég man nú ekki nákvæmlega hvað það var, hvort það voru einn eða tveir eða þrír klukkutímar …

Forsetinn er greinilega ekki mjög vel að sér í þingsköpunum enda hafa þau breyst töluvert síðan hann sat á þingi sjálfur, sérstaklega þegar kemur að reglum um ræðutíma. Þriðja umræðan er nefnilega alltaf takmörkuð og algjörlega ónothæf til málþófs. Hver þingmaður má aðeins tala tvisvar sinnum, í fyrra skiptið í fimmtán mínútur en í fimm í síðara skiptið. Við aðra umræðu er hins vegar tiltölulega einfalt fyrir fáa þingmenn, t.d. þingflokk pírata sem telur þrjá, að taka mál í gíslinu enda má hver þingmaður tala eins oft og hann vill. Málið er því alltaf „tapað“ frá sjónarhorni stjórnarandstöðunnar eftir aðra umræðu og bara tímaspursmál hvenær það er samþykkt. Ég, ólíkt forsetanum, mæli þó ekkert sérstaklega með því að þingmenn minni hlutans tali sig bláa og rauða í pontu bara til að safna mínútum. Þeir sem hafa hlustað á ræður í málþófi vita nefnilega að þar er rætt um flest annað en máli skiptir. Á síðasta kjörtímabili var pontan sem umræðuvettvangur eyðilögð og stjórnarandstaðan tók sér neitunarvald í öllum málum. Það er ekki lýðræðislegt og á 21. öldinni er hægt að gera svo miklu betur.

Í morgun horfði ég á myndband sem Lára Hanna hefur klippt saman. Þá rifjaðist það upp fyrir mér að forsetinn tók áskorun 30 þúsund manna um að bjóða sig fram í fimmta sinn. Nú duga undirskriftir 35 þúsund hins vegar ekki til þótt skoðanakannanir sýni að stuðningurinnn sé mun víðtækari.

Þetta er náttúrulega galið. Við þurfum nýja stjórnarskrá!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is