Fimmtudagur 27.06.2013 - 20:42 - FB ummæli ()

Með tölurnar á takteinunum

Fyrir tæpum tveimur vikum var ég gestur Sigurjóns Egilssonar í þættinum Sprengisandi ásamt þeim Vigdísi Hauksdóttur og Svandísi Svavarsdóttur. Við ræddum meðal annars ríkisfjármálin en Vigdís er sem kunnugt er hvorki meira né minna en formaður fjárlaganefndar og vonandi talnaglögg eftir því. Við Vigdís körpuðum um kostnað við gerð nýrrar stjórnarskrár og fullyrti Vigdís að hann væri um 2000 milljónir, það er tveir milljarðar og fullt af peningum. Ég sagðist ekki þora að fullyrða um kostnaðinn en hann væri undir milljarði, mig minnti að hann væri 680 milljónir, auk kostnaðar við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Vigdís sagðist þó muna þetta og orðrétt sagði hún: „ja, ég er bara með þær (tölurnar) á takteinunum en þú ekki.“ Karp okkar um þetta má heyra í byrjun þessarar upptöku.

Strax eftir þáttinn hafði maður sem var betur inn í þessu en við báðar samband og sendi okkur slumpaðar tölur eftir sínu minni. Í kjölfarið hvatti ég Vigdísi til að leiðrétta bullið í sér því tölurnar sem hún hafði „á takteinunum“ voru fjarri lagi. Hvergi hef ég séð neina leiðréttingu frá henni og nú í dag bárust mér réttar tölur og tel því rétt að birta þær, hlustendum Sprengisands og öðrum til glöggvunar.

Kostnaður við gerð nýrrar stjórnarskrár var eftirfarandi:

a. Kostnaður við þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð nam 335.8 milljónum króna

b. Kostnaður við stjórnlagaþingskosningarnar 2010 nam um 240 milljónum króna.

c. Kostnaður við aðkeypta sérfræðiþjónustu vegna umfjöllunar Alþingis um tillögur stjórnlagaráðs nam um 19.2 milljónum króna.

d. Kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs í okt. 2012 (þar með talið kynningarefni) nam um 281.2 milljónum króna.

Samtals 876.2 milljónir króna.

Tölurnar eiga uppruna sinn á skrifstofu Alþingis.

Ég mundi þetta ekki alveg rétt og biðst velvirðingar á því, kostnaður fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna var tæpar 600 milljónir en ekki 680. En hún Vigdís var alveg út á túni. Það dugar ekki einu sinni að deila í hennar tölu með tveimur, nær væri að deila með π en það fer reyndar eftir því hvort hún átti við kostnað með eða án þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október.

 

 

 

Að gefnu tilefni skal tekið fram að sú sem þetta ritar fékk enga greiðslu fyrir skrifin.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is