Þriðjudagur 28.05.2013 - 16:45 - FB ummæli ()

Einelti og stjórnmál

Það vakti töluverða athygli sumarið 2009 þegar Birgitta Jónsdóttir lagði það til úr ræðstól Alþingis að þingið tæki upp svokallaða Olweusar áætlun gegn einelti. Og já, einelti viðgengst í þinginu, innan þingflokka þar sem þess er oft krafist að allir gangi í takt og fylgi foringjanum sem og á milli þingmanna almennt. Og þingmenn sem og aðrir stjórnmálamenn geta líka orðið fyrir aðkasti á opinberum vettvangi; á bloggsíðum og í athugasemdakerfum og það sem kannski minna hefur verið rætt, stjórnmálamenn hafa líka orðið fyrir aðkasti í raunheimum og sætt ógnunum langt umfram það sem getur talist til „eðlilegs aðhalds“ kjósenda síðustu ár og kannski hefur það alltaf verið svoleiðis. Og slíkt á auðvitað aldrei að viðgangast.

Nú bregður svo við að Vigdís Hauksóttir þingmaður telur huldumann í dulargerfi vera á launum hjá einhverjum enn dularfyllri við að leggja sig í einelti á netinu. Ekki kemur fram hver ætti að greiða fyrir herlegheitin en sjálfri finnst mér trúlegra að um sé að ræða svokallaða bleyðu sem ekki þorir að gangast við eigin skrifum en finnst hann stór og valdamikill með því að láta misgáfuleg orð falla um annað fólk í skjóli nafnleysis.

Áður en maður fer að kvarta vegna framkomu annarra er ágætt að líta í eigin barm og skoða sína eigin hegðun og þau orð sem maður lætur frá sér fara. Það mætti Vigdís gjarna gera. Í dag rakst ég á gamla frétt á mbl.is þar sem greint var frá bloggi Vigdísar þar sem hún líkti ráðherrum við dauða fugla á grilli bíls. Er það einelti að blogga svona? Eða er það einelti hjá mér að vera að rifja þessi miður smekklegu ummæli upp? Hvað má stjórnmálamaður ganga langt í að sverta andstæðinga sína og hvað má almenningur ganga langt í að setja fram neikvæð ummæli um stjórnmálamenn? Það er spurningin.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is