Föstudagur 17.05.2013 - 18:38 - FB ummæli ()

Gengistryggð ólán, óvissa eftir pöntun

Félagi minn tók gengistryggt lán í Landsbankanum fyrir hrun. Síðustu ár hafa þeir bankinn verið allt annað en sammála um stöðuna á því láni. Hann gladdist því þegar svokallaður „Elviru-dómur“ féll þann 15. febrúar 2012 og ólögunum hans Árna Páls, nr. 151/2010 var hnekkt. Síðan þá hefur hann rekið á eftir endurútreikni reglulega.

Það virðist regla fremur en undantekning að fjármálafyrirtæki eigi erfitt með að túlka minnsta vafa sér í óhag. Því hafa lántakendur fengið að kynnast á síðustu árum. Í kjölfar dómsins hófst enn og aftur sami kórinn um að erfitt væri fyrir fjármálafyrirtækin að skilja hann. Reyndar létu Samtök fjármálafyrirtækja lögmannsstofuna Lex gera álit til að skýra hann en menn þóttust ekki vissir þótt þetta væri nú nokkuð borðleggjandi. Það vafðist ekki sérlega fyrir Lex en bankarnir þóttust lítið skilja.

Að fengnu samþykki Samkeppniseftirlitsins var farið í heilmikla greiningarvinnu til að finna þær spurningar sem ætti eftir að svara í öllum þessum málum og valin dómsmál sem væru fordæmisgefandi. Umboðsmaður skuldara valdi lögmenn og sömuleiðis fjármálafyrirtækin til að fara í þá vinnu. Alþingi fylgdist með og reyndi efnahags- og viðskiptanefnd sitt til að reka á eftir og lagði meðal annars til flýtimeðferð. Hún var þó ekki samþykkt enda ákváðu málsaðilar sjálfir að óska eftir slíkri meðferð og afskipti löggjafans því afþökkuð. Það næsta sem gerist er að flest prófmálin eru felld niður vegna þess að þeir dómar sem féllu eftir að málin þóttu (allt í einu) svo afskaplega skýrir.

Vinur minn hefur nú reynt að ýta á eftir endurútreikning á sínu láni í rúmt ár. Í dag barst loks svar frá Landsbankanum sem ég birti hér með hans leyfi:

Ágæti viðskiptavinur,

Óskað hefur verið eftir upplýsingum um leiðréttingu á endurútreikningi á láni nr. xxxx. Á síðasta ári féllu dómar í Hæstarétti í málum nr. 600/2011 og 464/2012 á þá vegu að fyrir þau gengistryggðu lán, sem þar var um fjallað, ætti endurútreikningur lánanna að taka mið af greiddum vöxtum samkvæmt fullnaðarkvittunum fyrir þann tíma sem lánin voru í skilum.

Ljóst er að núverandi dómafordæmi byggja m.a. á því að þau lán sem deilt var um voru alltaf í skilum fram að endurútreikningi. Lán þitt nr. xxxx uppfyllir ekki það skilyrði að hafa alltaf verið í skilum og því ekki ljóst af fordæmum Hæstaréttar hvort og hvernig beri að leiðrétta endurútreikninginn.

Ljóst er að fleiri dómar muni falla í Hæstarétti á allra næstu mánuðum sem munu skýra enn frekar þá óvissu sem hefur verið. Falli dómar sem bankinn telur að breyti þessari skilgreiningu mun bankinn endurskoða afstöðu sína.

Lánið sem um ræðir var í vanskilum í tvo mánuði í kjölfar hrunsins 2008 og á grundvelli þess hyggst, Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríksins – sem sagt okkar allra – ekki endurreikna þetta ólöglega lán. Hér munar milljónum.

Mér er kunnugt um að bæði Frjálsi fjárfestingarbankinn eða Drómi og Arion banki hafi eða ætli að endurreikna sambærileg lán sem voru í einhvern tíma í vanskilum. Sum lánin sem ég hef heyrt af voru í vanskilum í mun lengri tíma en tvo mánuði. Og spurningin sem glymur alltaf í kollinum á mér: Hvernig í ósköpunum geta ólögleg lán sem verið er að innheimta margfallt hærri upphæð af en lántakandinn átti að greiða talist í vanskilum? Ef innheimtan hefði verið eðlileg hefði lánið í flestum tilfellum verið í skilum og í mörgum tilfellum var fólk búið að borga margfallt til baka það sem það átti að greiða.

Það er líka athyglisvert að sjá hvað lögmannsstofan Lex sagði um slík tilfelli í áðurnefndu áliti til SFF:

Sé sú staða uppi að lántaki hafi staðið í skilum með afborganir fyrir ákveðin tímabil en ekki greitt vegna annarra tímabila verður að sama skapi talið að ekki sé unnt að krefjast SÍ vaxta fyrir þau tímabil þar sem staðið hefur verið í skilum, en að slík krafa geti átt rétt á sér vegna þeirra tímabila þar sem fullnaðargreiðslur í samræmi við greiðslufyrirmæli hafa ekki farið fram. Hafi lán verið í vanskilum en því síðan komið í skil af hálfu lántaka (þ.e. með greiðslum hans) gegn útgáfu fullnaðarkvittunar fyrir tímabil sem hafa verið ívanskilum, er að okkar mati ekki unnt að krefjast SÍ vaxta fyrir það tímabil.Eins og síðar verður rakið kann öndverð staða að eiga við ef skuldari kemur láni í skil með skilmálabreytingu án þess að greiðsla fari fram af hans hálfu á fyrirliggjandi vanskilum. Þetta gæti t.d. átt við ef skuldari hefur ekki gert upp eldri vanskil heldur eingöngu komið láni í skil með skilmálabreytingu. Viðkomandi skuldari getur þá ekki notið reglunnar sem leidd verður af dóminum varðandi það tímabil sem hann var í vanskilum. Hafi hann hins vegar þaðan í frá greitt í samræmi við hina nýju skilmála nýtur hann góðs af reglunni um fullnaðarkvittun hvað þær afborganir varðar.

Landsbankinn er í eigu okkar allra en Arion banki í eigu kröfuhafa sem sumir, alla vega, eru svokallaðir „hrægammasjóðir“. Er virkilega betra að vera undir þá settur en ríkisbankann?

Hér hefur ekki verið getið um stöðu þeirra sem skulda áður gengistryggð lán hjá Íslandsbanka en þau hafa verið dæmd lögleg af mér óskiljanlegum ástæðum enda flest bæði greidd út í íslenskum krónum og innheimt í íslenskum krónum þótt tilgreindar séu erlendar fjárhæðir á pappírunum en ekki bara prósentur. Það fólk virðist ekki eiga rétt á neinni leiðréttingu þrátt fyrir gríðarlega hækkanir.

Ég bið þá sem verða við stjórnvölin næstu fjögur ár að hafa þetta í huga.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is