Föstudagur 26.04.2013 - 15:44 - FB ummæli ()

Verðtrygginguna verður að afnema

Eftirfarandi bréf barst mér frá fésbókarvini:

Mikið er rætt um verðtrygginguna núna fyrir kosningarnar, og þó kannski ekki nóg.
Fjölskyldufaðir sagði mér frá því að hann hefði flutt erlendis rétt fyrir aldamót til Danmerkur og fest þar kaup á húseign. Það reyndist góð ákvörðun, því ekki nóg með að hann eignaðist eitthvað í húsinu í hvert skipti sem hann borgaði af því (þannig virkar það í útlöndum), þá hækkaði það líka talsvert í verði. Hann seldi húsið 2005 og flutti heim og hafði þá um 12 milljónir íslenskra króna í húsinu á þáverandi gengi sem var 9,2.
Ef hann tæki þessa peningana aftur út núna þyrfti hann að borga 20,50 krónur fyrir hverja danska krónu. Það er rýrnun upp á 55% á 7 árum. Hins vegar ákvað hann að vera skynsamur þegar hann flutti heim til Íslands og fjárfesti þessum peningum í íbúðarhúsnæði sem útborgun. Á móti tók hann verðtryggð íslensk lán. Það þýðir að vegna verðtryggingarinnar hefur þessi eign hans í húsinu nú verið étin upp og hann mætti teljast heppin ef honum tækist að selja húsið og koma út á núlli.

Ef hann hefði haldið þessum peningum í fasteign í Danmörku, sem álítur sig vera í kreppu núna og fasteignaverð er það sama og var fyrir sjö árum síðar, þá hefðu þessir peningar nú verið um 28 milljón króna virði í íslenskum (fyrir utan það sem hann hefði eignast til viðbótar í húsnæðinu), í stað þess að vera nú 0 kr. Þessar 28 milljónir eru því raunverulegur kostnaður hans af því að færa fjárfestinguna úr danskri fasteign yfir í íslenska, þökk sé krónunni og verðtryggingunni. Verðtryggingin gengur ekki upp.
Það er eitthvað verulega rangt við það að taka lán þar sem eftirstöðvarnar hækka með hverri greiðslu. Erlendis kallast slíkt okurlánastarfsemi og er almennt í höndum mafíunnar og skipulagðra glæpagengja.
Það er eitthvað verulega rangt við það að áhættunni af lélegu fjármálakerfi sé velt af lífeyrissjóðum, bönkum og lánastofnunum með verðtryggingunni og yfir á heimilin sem eigi að bæta allan hugsanlegan skaða af rýrnun krónunnar.
Það er eitthvað verulega rangt við það að maður leggi út útborgun í húsnæði, borgi af því og eigi samt á hættu að skulda meira en virði húsnæðisins er.

Ég skil rökin fyrir verðtryggingunni. Að enginn vilji lána án verðtryggingar vegna þess hve krónan sé óstöðug. Að lífeyrissjóðirnir þurfi að tryggja sjóðfélögum sínum að innborganir þeirra haldi verðgildi sínu þangað til þeir fá greitt úr sjóðnum tilbaka. Ég skil áhættuna en er ekki sammála um hver eigi að bera hana. Með núverandi verðtryggingu eru það sem sagt heimilin sem eiga að halda uppi efnahagskerfinu og taka áhættuna, í stað þeirra sem raunverulega bera ábyrgð á efnahagskerfinu.
Hluti vandans liggur hjá fjárfestingarstefnu lífeyrisjóðanna. Til þess að lágmarka útstreymi gjaldeyris með tilheyrandi veikingu krónunnar hafa þeir mjög takmarkað svigrúm til erlendra fjárfestinga. Að meðaltali hafa eignir lífeyrissjóðanna verið um 20% erlendis og fóru hæst í 40% þegar innlendar eignir þeirra hrundu árið 2008. Þess í stað er lífeyrissjóðunum gert að fjárfesta innanlands með tilheyrandi hættu á bólumyndun og innistæðulausri þenslu, eins og til dæmis þegar þeir fóru að auka hlut sinn í innlendum hlutabréfamarkaði og markaðurinn óx um 328% frá 2004 til 2007, meira en nokkur markaður hefur vaxið hjá nokkru OECD ríki. Vitaskuld liggur ástæðan ekki öll hjá lífeyrissjóðunum, en þeir spiluðu vissulega stórt hlutverk þar.
Það er nauðsynlegt að sparnaður landsmanna sé tryggður. Það á bæði við sparnað sem fólk leggur í húsin sín og í lífeyrinn. Almenna reglan er sú að þeim mun meiri sem sparnaðurinn er í samfélaginu, þeim mun lægri eru vextirnir. Hins vegar er það þannig að til þess að vernda lífeyrissparnaðinn er allur annar sparnaður étinn upp. Það borgar sig ekki að eiga peninga í banka og það borgar sig ekki að leggja sparnaðinn í húsnæði. Raunin er líka sú að Íslendingar eru einstaklega latir við sparnað enda ekki skrýtið þegar við höfum ítrekað horft á peninga okkar verða að engu. Kerfi sem er þannig uppbyggt er þjóðhagsleg óhagkvæmt og skilar takmörkuðum hagvexti. Íslenska hagkerfið er byggt upp með innbyggðri sjálfseyðingarhvöt. Verðtryggingin er jafnframt þess eðlis að bankarnir græða á verðbólgu og hún er því hvati fyrir bankana til að lána geist og skapa þenslu, sem aftur ýtir undir bóluhagkerfi. Við vitum öll hvernig það endar.

En hvernig tryggjum við sparnaðinn?
Þótt það kunni að líta út fyrir að vera slæmt fyrir krónuna til skamms tíma, þá sýnist mér nauðsynlegt að erlendar fjárfestingar lífeyrisjóðanna séu auknar til muna. Þannig er hægt að verja sparnað landsmanna gegn veikingu krónunnar og sveiflum og tryggja velfarnað sparnaðarins til langframa, í stað skammtíma gróðasjónarmiða. Í Noregi, þar sem olíusjóðurinn hefur vaxið og dafnað svo að hann á nú um 1% af öllum hlutabréfum heims er þeim ekki heimilt að fjárfesta nema 4% ár hvert innanlands. Það er til þess að koma í veg fyrir þenslu heima fyrir og dreifa áhættunni með kaupum á erlendum gjaldeyri, erlendum skuldabréfum, erlendum hlutabréfum og nú síðast einnig erlendum fasteignum. Íslenska lífeyriskerfið er vissulega ekki af sömu stærðargráðu og norski olíusjóðurinn, en þetta sýnir mismunandi áhættumat og hagstjórn. Og Norðmönnum hefur vegnað ágætlega.

Það er sama hvernig ég lít á málið. Ég skil ástæðurnar fyrir verðtryggingunni en get ekki með nokkru móti séð að hún sé réttlætanlegt. Það er ekki eðlilegt að heimilin fái það hlutverk að bæta bönkum og fjármálastofnunum upp slæma efnahagsstjórn landsins. Síðast þegar ég gáði voru um 40% heimila tæknilega gjaldþrota á meðan bankarnir eru að skila 200 milljörðum í hagnað. Ástæðan fyrir gjaldþroti stórra hluta af þessum heimilum er verðtryggingin, og hún er jafnframt ástæðan fyrir stórum hluta af hagnaðinum þar sem lánin eru uppreiknuð í verðbólgu. Þetta er kerfi sem er ekki að virka fyrir samfélagið. Þetta er kerfi sem er ekki réttlætanlegt. Þetta er kerfi sem einfaldlega gengur ekki upp. Að sjálfsögðu er hægt að afnema verðtrygginguna og að sjálfsögðu eru fjármálastjofnanir á móti því. Það færir áhættuna aftur til föðurhúsanna og krefst þess að þeir séu ábyrgari í sínum fjárfestingum og útlánum. En er það ekki einmitt það sem okkur vantar? Ábyrgari fjármálastefnu? Ábyrgari útlán?

Verðtrygginguna verður að afnema.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is