Fimmtudagur 25.04.2013 - 00:05 - FB ummæli ()

Fyrir fólk eins og þig

Fyrir fjórum árum ofbauð mér ástandið í þjóðfélaginu og ákvað að gera allt sem í mínu valdi stóð til að taka þátt í endurreisn landsins míns. Ég er ekki alls kostar sátt við margt sem hefur verið gert hér síðustu fjögur árin og oft hefur mér fundist forgangsröðunin röng. Ekki er þó allt neikvætt.

Síðustu vikur hef ég verið í framboði fyrir Dögun og ég hef virkilega fundið mun á viðhorfi fólks til breytinga frá því fyrir fjórum árum. Þá fannst mér margir vantrúaðir á að hægt væri að gera breytingar. Borgarahreyfingin mældist með lítið fylgi þangað til rétt fyrir kosningar og svo virtist sem margir hafi talið að með því að kjósa nýjan flokk væru menn að kasta atkvæði sínu á glæ og hætta væri á að það félli dautt niður. Raunin varð önnur.

Nú er viðhorfið allt annað. Samkvæmt skoðanakönnunum virðist fjórðungur kjósenda ætla að kjósa ný framboð og nóg er úr að velja. Fólk sem við frambjóðendur Dögunar hittum á förnum vegi virðist almennt jákvætt í garð nýrra framboða og þakklátt fyrir að einhver bjóði sig fram til að knýja fram breytingar. Fáir virðast líta á það sem móðgun að einhverjum detti í hug að stofna stjórnmálaflokk.

Dögun var stofnuð fyrir rúmu ári síðan en aðdragandinn er mun lengri. Í Dögun koma saman þrjár stjórnmálahreyfingar, auk fólks úr öllum áttum sem hefur starfað að stjórnmálum og  þjóðfélagsumbótum eftir hrun, svo sem vegna skuldavanda heimilanna, að lýðræðisumbótum og vegna Icesave, svo eitthvað sé nefnt. Dögun er hvorki eins máls flokkur né eins manns flokkur og hefur breiða stefnu sem unnin er á lýðræðislegan hátt þar sem öllum hefur verið heimil þátttaka. Við setjum þrjú mál á oddinn fyrir þessar kosningar. Það fyrsta er lausn á skuldavanda heimilanna, afnám verðtryggingar og nýtt, sanngjarnt húsnæðiskerfi, hvort heldur sem menn vilja eiga eða leigja heimili sitt svo landsmenn þurfi ekki að vera eins og hamstrar á hjóli til að ná endum saman. Því næst eru það auðlindamálin en við viljum tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum og að arðurinn renni í sem mestu mæli til hennar. Það þriðja eru lýðræðisumbætur, ný stjórnarskrá og það sem hún inniber, svo sem jafnt vægi atkvæða, persónukjör og betri stjórnsýslu. Þá leggjum við áherslu á að forgangsraðað verði í þágu þjónustu við fólk um allt land í stað yfirbygginar eða steypu.

Við í Dögun erum venjulegt fólk úr öllum sviðum þjóðlífs sem viljum bjóða fram krafta okkar fyrir fólkið í landinu. Ekki fyrir fjármagnseigendur eða stórfyrirtækin, heldur venjulegt fólk eins og þig.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. apríl 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is