Miðvikudagur 24.04.2013 - 00:20 - FB ummæli ()

Að rétta hjálparhönd

Ísland var, fyrir ekki svo löngu, langfátækasta ríki Evrópu og fram til 1970 var landið skilgreint sem þróunarríki.

Á örskömmum tíma hefur staðan snúist við og nú er landið háþróað, hreint vatn rennur úr krönum í hverju húsi, öll börn ganga í skóla og hér eru malbikaðir vegir, rafmagn, hitaveita, ljósleiðarar og netsamband, 3G og jafnvel 4G, húsin okkar halda vatni og vindum og félagsleg aðstoð er í boði fyrir þá sem hana þurfa. Þetta er ekki sjálfsagt og gerðist ekki af sjálfum sér.

Við fengum nefnilega aðstoð við að þróast frá öðrum þjóðum sem lengra voru komnar, t.d. Marshall-aðstoð eftir seinni heimsstyrjöldina þótt aðrir hafi átt meiri rétt á henni. Ísland hefur einnig margssinnis fengið aðstoð frá alþjóðasamfélaginu í kjölfar náttúruhamfara.

Þótt lífsstandard Íslendinga sé með þeim hæsta í heiminum, þrátt fyrir hrun efnahagskerfisins, getum við að sjálfsögðu gert miklu, miklu betur. Ég vil forgangsraða í þágu fólksins og fjárfesta frekar í þjónustu en steinsteypu. Ég vil fást við vandamálin áður en þau verða of stór til að hægt sé að leysa þau. Ég vil miklu frekar verja fé og kröftum í forvarnir og til að styðja við og styrkja ungmenni í áhættuhópum en þurfa að bjarga þeim síðar eða vita af þeim í fangelsum sem ekki geta talist mannbætandi stofnanir. Ég vil líka lögfesta lágmarksframfærslu svo allir hafi örugglega nóg að bíta og brenna. Og sum kerfin okkar eru í tómu tjóni. Lífeyrisþegum er refsað stórlega fyrir að reyna að sjá fyrir sér sjálfir og margt fleira þarf að laga. Margir ná vart eða hreinlega ekki endum saman og samkvæmt frétt fóru í dag fram 47 nauðungarsölur á Selfossi. Þetta og svo margt annað þurfum við að laga.

En á Íslandi deyr fólk ekki úr læknanlegum sjúkdómum. Á Íslandi deyja börnin ekki úr vannæringu. Og á Íslandi deyr heldur enginn vegna stríðsátaka. Við erum nefnilega heppin, þrátt fyrir allt.

Svo fólk hætti að deyja úr læknanlegum sjúkdómum og vannæringu þurfa löndin þeirra á aðstoð að halda, svokallaðri þróunaraðstoð. Það dugar ekki að senda mat og lyf í pósti, veita þarf aðstoð í formi þekkingar og til að styrkja innviði samfélaganna. Það er markmið Sameinuðu þjóðanna að þróuð iðnríki, eins og Ísland, veiti 0.7%  af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu. Við erum óraveg frá því en nú er framlag okkar aðeins 0,26% en samkvæmt nýlegri ályktun Alþingis á það framlag að hækka í 0,42% á næstu fjórum árum. Við getum það og okkur ber siðferðisleg skylda til að taka þátt í að aðstoða aðrar þjóðir.

Það á enginn að þurfa að standa í biðröð til að þiggja matargjafir, hvorki á Íslandi né í öðrum löndum. Verkefni okkar er að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is