Mánudagur 22.04.2013 - 17:46 - FB ummæli ()

Af eignatilfærslum

Stundum berast mér bréf sem mér þykja áhugaverð og finnst að eigi erindi við fleiri. Um helgina rataði eitt slíkt til mín. Ég birti hér hluta úr því með leyfi bréfritara. Persónugreinanlegum upplýsingum hefur verið sleppt.

Í öndverðu þegar byrjað var að lána verðtryggð lán var það talið sanngjarnt að krefja lántakendur um 2% fasta vexti ofan á fulla verðtryggingu, enda var verðtryggingin jú hluti vaxtakjaranna.

Í dag eru lántakendur krafðir um allt að 7-9% vexti ofan á fulla verðtryggingu, sem er hreint út sagt siðlaust vaxtaokur. …

Gleymum því ekki að öll þjónustugjöldin í bönkunum eru jú bara dulbúin vaxtahækkun, því einu sinni var það viðurkennt að bankar hefðu vaxtamuninn til reksturs bankanna – það var víst áður en þeir fundu upp þjónustugjöldin og upp á síðkastið virðast engin takmörk fyrir því að finna upp ný og ný þjónustugjöld.

Svona siðlaust vaxtaokur þekkist hvergi annars staðar á hnettinum og þessi okurvaxtakjör gerðu þeim mönnum sem fengu bankana í hendurnar á sínum tíma kleift að búa til gríðarmikinn hagnað þegar þeir hófu að lána villt og galið út á húsnæði Íslendinga, önnur eins ávöxtun þekkist hvergi á slíkum lánum annars staðar á hnettinum og því auðvelt að slá lán erlendis út á svona bréf eða selja.

Fjárglæframennirnir sem komust yfir bankana (með samþykki formanna stjórnarflokkanna) fengu óátalið að veðsetja húsnæði Íslendinga til andskotans. Það má ekki gleymast.

Stýrivaxtabrjálæði seðlabankastjórans síðustu árin fyrir hrun magnaði svo vitleysuna upp sem aldrei fyrr þegar hann var kominn með stýrivextina um og yfir 20% áður en allt hrundi.

„Snjallir“ Íslendingar sáu sér leik á borði að snúa á Seðlabankann og tóku erlend lán sem óðir væru, t.d. japönsk yen á u.þ.b. 0,5% vöxtum að viðbættu smáálagi og auk þess streymdu spákaupmenn til Íslands með peninga til þess að græða ótæpilega á þessum fáheyrða vaxtamun, annað eins þekktist ekki á í hinum siðmenntaða heimi.

Hér heima varð gríðarleg eignatilfærsla í gegnum þetta brjálæði Seðlabankans.

Dæmi:

Maður nokkur seldi fyrirtæki sitt á árinu 2007. Hann fékk tilboð sem hann gat ekki hafnað. Kaupandinn var nýstofnað félag sem tók erlent lán fyrir öllu kaupverðinu, 110 milljónum, og seljandinn lagði andvirðið inn á bankareikning. Kaupandinn, hið nýstofnaða félag varð svo gjaldþrota eftir rúmt ár og erlenda lánið var aldrei greitt upp.

Á árinu 2008 fékk seljandinn vaxtatekjur af söluandvirðinu sem lá inni á bankareikningi á Seðlabankavöxtum, alls 26,5 milljónir króna og greiddi í fjármagnstekjuskatt 10% af þeirri upphæð.

Á fyrri hluta árs 2008 keyptu fimm ung pör hvert um sig íbúð á 25 milljónir og lagði hvert par fram fimm milljónir til kaupanna sem þau höfðu sparað  og átt inni á bankareikningi. Á þeim tíma var kynnt sérstakt átak til að hvetja ungt fólk til íbúðakaupa og í því sambandi voru m.a. lánamöguleikar hjá Íbúðalánasjóði rýmkaðir.

Allt þetta unga fólk hefur nú tapað öllu því fé sem þau lögðu fram til íbúðakaupanna og húsnæðinu með enda ómögulegt að standa í undir vaxtaokrinu með lægri launum og stórauknum framfærslukosnaði og sambönd þessara ungmenna leystust upp.

Af þessu dæmi sést glöggt hve sú eignatilfærsla sem átti sér stað í boði stjórnvalda og Seðlabankans var gífurleg. Þeir hinir sömu sáu svo til þess með setningu neyðarlaganna var seljandinn okkar tryggður að fullu með sína bankainnstæðu. Á árinu 2009 fékk hann svo 18 milljónir til viðbótar í vaxtatekjur inn á sinn bankareikning en hans innstæða átti jú rætur sínar í erlendu láni kaupandans sem var aldrei borgað.

Á síðasta ári var svo komið að seljandanum fannst bankainnstæðan ekki gefa nógu mikið af sér enda orðinn góðu vanur og keypti tvær íbúðir fyrir hluta af vöxtunum. Íbúðirnar keypti hann af bankanum en þær höfðu verið teknar af fólki sem stóð ekki undir vaxtaokrinu og nú eru þær leigðar út til fólks sem er búið að missa allt sitt. Leiguskilmálarnir: Ekki gefa leiguna upp!

Bréfritari veltir fyrir sér hvort seljandinn muni launa þeim flokkum sem sköpuðu þetta ástand með atkvæði sínu í komandi kosningum og hvernig staðan væri í dag ef allar innstæður hefðu ekki verið tryggðar að fullu með neyðarlögunum. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er ýmislegt um þetta að finna. Í 5. bindi, á bls. 241 er tafla sem sýnir athuganir  embættismanna í Viðskiptaráðuneytinu fyrir hrun á því hvernig dæmið liti út með mismunandi útfærslum á neyðarlögunum:

tafla4

 

Það er ógnvekjandi að hugsa til þess að samkvæmt skýrslunni lágu þessar upplýsingar fyrir í maí 2008.

Í vetur lagði ég fram fyrirspurn um innstæður í bankakerfinu samkvæmt síðustu skattframtölum. Svarið kom mér satt að segja á óvart en samkvæmt því áttu um 80.000 þeirra sem telja fram til skatts ekki eina einustu krónu í banka um áramótin 2011-12. Trúlega voru sumir þeirra hins vegar með yfirdrátt í bankanum og því hreinlega í mínus. Samkvæmt svarinu átti örfáir einstaklingar hins vegar gífurlegar fjárhæðir. Loforð stjórnvalda um fulla innstæðutryggingu þótt sjóðurinn sem tryggja á innstæður sé farinn á hausinn stendur enn þannig að ef illa fer verður skattgreiðendum sendur reikningurinn.

Og unga fólkið sem fullt bjartsýni hafði stofnað heimili árið 2007, hvað um þeirra tap og allra hinna sem hafa horft á eigur sínar brenna upp á verðbólgubáli eftir hrun?

Bréfritari bendir á að Framsóknarflokknum hefur legið á hálsi fyrir að vilja taka eigi peninga af „vondum útlendingum“ en að við eigum nóg af því sem hann kallar „vondum Íslendinum“ sem komist hafa yfir mikla fjármuni með vafasömum hætti – stundum hreinlega í boði stjórnvalda. Bréfritari leggur til að digrir sjóðir heimamanna verði skattlagðir fyrst, áður en farið verði í útlendingana.

Og bréfritari heldur áfram:

Í landinu eru reknir á milli 30 og 40 lífeyrissjóðir sem er náttúrulega ekki annað en fáheyrt rugl og þekkist örugglega hvergi annars staðar á byggðu bóli. … Rekstrarkostnaður allra þessara sjóða skiptir milljörðum og því stórar upphæðir sem hægt væri að spara með því að sameina þá alla í einn og þá gefur auga leið að bara við slíka sameiningu væri hægt að slá á vaxtaokrið sem lífeyrissjóðirnir ástunda ásamt öðrum lánastofnunum. Það er að sjálfsögðu þjóðþrifamál að losna við alla þessa smákónga sem lifa góðu lífi á að leika sér með peninga fólksins í landinu og ég hef veitt því athygli að í gegnum tíðina hef ég aldrei séð auglýst starf hjá Lífeyrissjóði.

Brýnast tel ég vera að sækja illa fengið fé til allra lánastofnana sem komist hafa upp með að blóðmjólka Íslendinga með okurvöxtum og þjónustugjöldum í ofanálag í áratugi – á því þarf að taka með lagasetningu – svo er rétt að huga að „vondum útlendingum“. Byrjum á okkur sjálfum.

Vilja lífeyrisþegar virkilega lifa góðu lífi á sínum eftirlaunum frá lífeyrissjóðum sem ástunda það að blóðmjólka börnin sín og barnabörnin? Þá er það mjög brýnt að lífeyrisþegar sitji við sama borð með jöfn réttindi og alls konar forréttindi sem komið hefur verið á verði afnumin í eitt skipti fyrir öll.

Eigum við ekki að reyna að hjálpast að við að laga þetta með réttlæti og sanngirni að leiðarljósi?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is